Losa það sem þarf að losa...

Í dag var mikill hraði á dekkjaverkstæðum höfuðborgarinnar við að koma vetrardekkjum undir bíla... sumsstaðar svo mikill hraði að ekki náðist að festa allt sem nauðsynlegt er að festa eftir dekkjaskipti. Jepplingur sem kom á móti mér í borgarumferðinni í dag missti á fullri ferð undan sér afturdekk, sem rúllaði til allrar lukku út fyrir veg, meðan bílstjórinn náði að stýra tjónuðum bílnum útí kant.
mbl.is „Morgunninn byrjaði næstum því með slagsmálum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VVV-reglan um tunglið

Margir eiga erfitt með að sjá á tunglinu hvort það er vaxandi eða minnkandi. Ágæt kona kenndi mér einu sinni einfalda þumalputtareglu sem virkað hefur vel fyrir mig. Hún er þannig að ef það Vantar Vinstra megin á tunglið, þá er það Vaxandi. Enga reglu kann ég hinsvegar fyrir þá sem eiga í vanda með það hvar vinstri eða hægri er ;c)

Nafnorðið geispa

Í gönguhópnum í gær hafði einhver heyrt þáttinn Orð skulu standa, þar sem var talað um geispur. Þetta hlýtur að vera nýyrði... allavega ekki mjög gamalt, því enginn hafði heyrt það fyrr. Og hvað er svo geispa? Jú, það eru þessar litlu ruslafötur sem virka þannig að þegar stigið er á fótstigið á þeim, þá gapa þær... eða geispa!

Vetrarkyrrð í frábærri fjallgöngu

Útivistarhópurinn á GrímansfelliSíðasta sunnudagsferð Útivistar á árinu var farin í dag við magnaðar aðstæður, snævi þökktu landi, froststillu og sólskini. Farið var upp hjá Gljúfrasteini, meðfram Köldukvísl á svokallaðri skáldaleið og sem leið lá upp á Grímansfell, í um 480 metra hæð. Þar teiknaði sólin skugga í fjöll og dali svo langt sem augað eygði. Vetrarkyrrðin var þykk yfir snjóhvítu landinu og upplifunin alveg hreint mögnuð. Tólf manna hópur gekk undir fararstjórn Ragnars Jóhannessonar um 15 kílómetra leið, sem lauk rétt fyrir sólsetur í eldrauðum Þormóðsdalnum. Myndir eru hér. Dagurinn hjá okkur Svövu endaði svo í heita pottinum heima í Ásgarði, þar sem þreytan leið úr lúnum fótum og alsæla sveif á okkur undir stjörnubjörtum borgarhimni.

Að læra að lepja dauðann úr skel

Mótvægisaðgerðir vegna aflasamdráttar í þorski taka á sig sérkennilegar myndir. Fjölbraut á Krók ætlar til dæmis að bregðast sérstaklega við minni kvóta með því að bjóða í vetur upp á nám til 30 tonna réttinda fyrir verðandi skipstjóra. Er þetta ekki eins og að bregðast við hungursneyð með matreiðslunámskeiði?

Eins fyrirtækis samfélag

Slæm reynsla víða um veröld af því að byggja atvinnustarfsemi heils samfélags á einu fyrirtæki er nú að koma í ljós fyrir austan. Ofurvald Alcoa á Reyðarfirði yfir samfélaginu þar lýsir sér í harkalegri framkomu við starfsfólk sem það hafði boðið gull og græna skóga og fagra framtíð. Fjöldi manns sem féll fyrir gylliboðinu og flutti austur, er að byrja að upplifa þvílíkt heljartak þetta fyrirtæki hefur á samfélaginu öllu; langflestir íbúarnir og sömuleiðis fyrirtækin þurfa að bukka sig og beygja eins og Alcoa þóknast. Ómanneskjulegar uppsagnir tveggja kvenna þar nú í vikunni eru bara upphafið að valdníðslunni sem í vændum er.

Efni eða erindi?

Íþróttafréttamaður Sjónvarpsins var í gær mjög ánægður með að Garcia myndi spila með handboltalandsliðinu. Hann sagði þetta mikið fagnaðarerindi fyrir liðið og stuðningsmenn þess.

Gönguferðir og gönguhraði

Á mánudögum og fimmtudögum býður ferðafélagið Útivist upp á einnar klukkustundar göngutúra í Reykjavík, undir nafninu Útivistarræktin, og er gangan þátttakendum að kostnaðarlausu. Þarna gengur greiðum sporum sprækur hópur fólks og það rífur ágætlega í að ganga á slíkum hraða í heilan klukkutíma; tekur á, en er virkilega hressandi. Og talandi um gönguhraða, þá minnir mig að Lárus á Reykjalundi hafi sagt að göngurhraða skyldi ávallt miða við að ekki væri gengið hraðar en svo að maður gæti spjallað við göngufélagana, en heldur ekki svo hægt að maður gæti sungið!

Athugasemd til Þorvaldar Bjarna

Strategía er orð sem stundum er notað yfir hernaðaráætlun; kemur úr ensku (strategy). Fyrir okkur sem ekki þekkjum til hernaðaráætlana getur strategía þýtt: Kerfisbundin áætlun um aðgerðir (sem leiða til árangurs). Svo heyrir maður líka landann nota orðið tragedía (tragedy), oft yfir einhverskonar harmleik. Í þættinum Laugardagslögin spyr Þorvaldur Bjarni lagahöfunda um hvernig þeir semji lögin sín; hvort þeir hafi einhverja Stragedíu! Hvort hann hugsar sér einhverja dýpri meiningu með þessu nýyrði sínu, að honum finnist lagasmíðarnar vera með slíkum harmkvælum, skal ósagt látið. En hann veit örugglega af þessari hugtakablöndun sinni og bíður spenntur eftir að einhver geri athugasemd. Ég geri það hér með :)

Ábyrgðarlaus pólitík í áfengismálum

Væntanlegt er frumvarp um að fara með vínið í matvörubúðirnar. Allir eru sammála um að auðveldara sé að nálgast vín í matvörubúðum en í Vínbúðunum. Það heitir að aðgengi aukist, sem leiðir til aukinnar neyslu. Sigurður Kári þingstrákur sagði í sjónvarpinu í kvöld að ef það yrði raunin, þá yrði að auka forvarnir. Þær kosta peninga, en í nýja frumvarpinu er talað um að lækka áfengisgjaldið sem rennur til ríkisins. Við þessar breytingar hefði ríkið minni tekjur af vínsölu en nú. Ef auka á fjármagn til forvarna á sama tíma og tekjur minnka af vínsölu, þarf þá ekki að skera niður eða að auka skatta?

Eina ástæðan fyrir því að lækka þurfi áfengisgjaldið ef vínið fer í búðirnar, er sú að engin verslun getur sætt sig við þá lágu álagningu sem Vínbúðin leggur á vörurnar í dag, en hún er aðeins á bilinu 6 - 11 % (fer eftir styrkleika).  Frumvarpsflytjendur vilja lækka áfengisgjaldið svo vinir þeirra í verslunarstétt verði ríkari.  Það sem þeir leggja til er að ríkið (les: við) verði fyrir bæði tekjuskerðingu og kostnaðarauka! En því miður er umræðan grunn og klisjukennd og lítill vilji til að horfa til reynslu annarra þjóða. Frumvarpið lyktar af óábyrgri frjálshyggjupólitík sem vinnur gegn almannahagsmunum.


Megasartónleikarnir í Höllinni

Frábærir tónleikar eru að baki hjá meistara Megasi og Senuþjófunum, og sá þáttur þeirra sem ég vann við, þ.e. sviðs- og ljósamálin, fengu fína dóma í blöðum dagsins. Guðbrandur Ægir á veg og vanda að því öllu, hannaði bæði sviðsmynd og ljós og sá um ljósastjórn á tónleikunum. Mogginn segir sviðsmynd hafa verið einfalda og flotta; Fréttablaðið segir sviðsmynd hafa verið einfalda (eitt tré og ljósasería) og lýsingu látlausa en áhrifamikla. Tréð kom vel út, en þetta var lauflaust birkitré sem við vorum búnir að festa á með vír um 100 laufgaða stöngla. Reykjavíkurborg á þakkir skyldar fyrir að útvega tréð úr Elliðaárdalnum, JB Byggingarfélag sömuleiðis fyrir þökurnar sem notaðar voru í að tyrfa hólinn undir trénu. Þó þetta hafi verið talsverð vinna og tíminn naumur undir lokin þá var mjög gefandi að taka þátt í þessu verkefni. Takk fyrir mig.

11 reglur sem þú lærir ekki í skólanum

Í morgun hoppaði vikuritið Fræ inn um lúguna. Þar er að finna ellefu reglur sem Bill Gates sagði bandarískum unglingum frá í fyrirlestri.

  1. Lífið er ekki réttlátt, reyndu að venjast því.
  2. Veröldinni er sama um þitt sjálfsálit. Allir ætlast til að þú áorkir einhverju áður en þú ferð að vera ánægður með sjálfan þig.
  3. Þú munt ekki þéna 4 milljónir á ári um strax þegar þú útskrifast úr skóla, og þú verður ekki framkvæmdastjóri fyrr en þú hefur unnið fyrir því.
  4. Ef þér finnst kennarinn þinn strangur og erfiður, bíddu þangað til þú færð yfirmann.
  5. Að snúa hamborgurum er ekki fyrir neðan þína virðingu. Amma þín og afi áttu til annað orð yfir það: Þau kölluðu það tækifæri.
  6. Ef þú klúðrar, þá er það ekki foreldrum þínum að kenna, svo hættu að væla og lærðu af mistökunum.
  7. Áður en þú fæddist voru foreldrar þínir ekki svona leiðinleg eins og þau eru núna. Þau urðu svona eftir að hafa borgað fyrir uppeldi þitt, þvegið fötin þin, hreinsað upp draslið eftir þig og hlustað á það hvað þú ert töff, og þau eru hallærisleg. Svo áður en þú og vinir þinir bjargið regnskógunum og leysið heimsmálin, reyndu þá að taka til og koma reglu á herbergið þitt.
  8. Það getur vel verið að skólinn útskrifi bæði sigurvegara og tapara, en lífið gerir það ekki. Í sumum skólum er hægt að taka sama prófið aftur og aftur. Þannig er þetta ekki úti í atvinnulífinu.
  9. Lífið skiptist ekki í annir og þú munt ekki hafa frí öll sumur. Mjög fáir samstarfmenn munu hafa áhuga á að hjálpa þér að finna sjálfan þig. Gerðu það í þínum eigin tíma.
  10. Sjónvarpið er ekki raunveruleikinn. Í raunveruleikanum þarf fólk í alvörunni að yfirgefa kaffihúsið og fara í vinnuna.
  11. Vertu góður við nördana í skólanum, það endar mjög líklega með því að þú þarft að vinna hjá einhverjum þeirra.

Nýjungatregir karlar

Stundum tek ég þátt í prófa skemmtilegar nýjungar sem reka á fjörur mínar, sérstaklega ef þær krefjast einhverrar hreyfingar. Ég get nefnt Rope-yoga, Stafgöngu o.fl. upplífgandi, en það sem hefur vakið athygli mína er að oftar en ekki er ég eini karlinn á meðal fjölda kvenna í þessum hópum. Karlkyns vinir mínir eru meira í ræktinni eins og það heitir; glíma við tæki og tól og miklar þyngdir, eða kljást fýsískt hver við annan í ýmsum boltaleikjum; þessu gamla góða sem er viðurkennt sem karlasport. Þó mér finnist það gaman líka sæki ég í að prófa eitthvað nýtt, sem gefur tilverunni annan lit og meiri fjölbreytileika. Ég geri mér grein fyrir því að ef strákarnir taka áskorun minni um að mæta í svona hópa missi ég sérstöðu mína sem eini karlinn á svæðinu, en þetta er bara svo skemmtilega gefandi að ég verð að láta vita af því.

Drengir, sjáiði ekki veisluna?

Þetta er að vísu tilvísun úr allt annarri átt, en það er hinsvegar veisla í gangi sem vert er að sjá, nefnilega Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Maður var svolítið seinn af stað, en nú eru tvær í höfn: Listin að gráta í kór og Grimmdarþokki. Báðar fjölluðu um mannlegan harmleik á einstakan hátt, en sú fyrrnefnda skorar hærra hjá mér, með betri persónusköpun og einstakan danskan húmor. Leikstjórarnir voru viðstaddir á báðum sýningunum og gaf það upplifuninni meiri dýpt. Stefnan er nú tekin á minnst eina mynd á dag þar til hátíðinni líkur á sunnudag.

Fiskur í raspi

Í Bónus er seldur fiskur í raspi. Fiskur í raspi er góður. Í innihaldslýsingu á pakkningu stendur: Fiskur. Það er nú gott að fiskur í raspi skuli innihalda fisk! Þetta er svona svipað eins og bíll sem er til sölu og tegundin er.... Bíll! Fólk veit að fiskur er hollur og sjálfsagt kaupir einhver þennan FISK í raspi. Ekki þó gamli sjóhundurinn ég.

Starfsmaður mánaðarins

Sumsstaðar eru mannabreytingar svo örar að fyrirtæki sem velja starfsmenn mánaðarins eru alsæl ef þau finna starfsmann sem starfaði allan mánuðinn.

Illa farið með gott tækifæri

Í síðustu viku vann ég fyrir Sýningakerfi ehf við að forma umgjörð sýningar í Listasafni Reykjavíkur, Stefnumót við vísindamenn, sem var hluti af Vísindavöku Rannís. Uppsetning sýningarkerfis, ljósa, merkinga o.fl. hófst á miðvikudegi og stóð fram til föstudags. Þrátt fyrir reglulegar uppákomur er í miðrými Listasafnsins engin lýsing, ekki ein týra, þannig að þetta voru hálfgerð myrkraverk á köflum hjá okkur. Fjöldi fyrirtækja og stofnana tók þátt í sýningunni, tugir starfsmanna að störfum og umtalsverðum fjármunum til kostað. Sýningin sjálf hinsvegar var næstum búin áður en hún hófst, því hún stóð aðeins í fjórar klukkustundir, frá kl. 17-21 á föstudeginum. Þetta var hugsað sem fjölskylduviðburður og með það í huga var tímasetningin skrýtin. Stappað var á sýningunni þessa stuttu stund sem hún var opin; menn stóðu bak í bak og sáu margir lítið. Heimatilbúin heildarúttekt á sýningunni segir mér að þarna hafi verið sóað bæði fjármunum og góðu tækifæri til að kynna fyrir almenningi það sem er að gerast í vísindastarfi hérlendis. Vonandi koma Rannís og aðrir skipuleggjendur einnig auga á þetta og halda sýninguna á næsta ári í stærri sal og yfir lengri tíma, sem hentar markhópnum betur til að upplifa það merkilega starf sem fram fer í vísindasamfélaginu íslenska.

Að hafa húmor fyrir sjálfum sér

Í gær ók á undan mér niður Laugarveginn Volkswagen Touareg með einkanúmeraplötu. Oft hefur maður horft á slík númer og fundist þær vera sóun á peningum. Þessi bíll var með V8 vél og númerið sagði allt sem segja þurfti: BRUÐL

Heillandi handverkshefð

Í Gerðubergi stendur yfir sýning Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Handverkshefð í hönnun. Þar er sýnt á ótrúlega fjölbreyttan hátt hvernig handverkshefðin er nýtt sem innblástur í nýjum verkum. Í gær var boðið upp á leiðsögn sem dýpkar sýninguna og gæðir hana lífi sem annars er manni að mestu hulið. Þar mátti heyra söguna á bakvið Féþúfuna og Brjóstagjöfina, sem eru tvö af skemmtilegum verkum sýningarinnar, auk þess sem sagt var frá aðferðum við vinnslu og hvaða sögu höfundar vildu segja. Líklega verður aftur boðið upp á leiðsögn nk. sunnudag, 7. október kl.14., og ætti enginn áhugamaður um íslenska handverkshefð að láta hana fram hjá sér fara. Næst á dagskránni er svo að kíkja í Prjónakaffihúsið í Norræna húsinu, þar sem hluti fyrrnefndrar sýningar er (samsýning allra skólastiga á nemenndaverkefnum), svona áður en maður hefst handa við að setja upp sýningarkerfið fyrir Handverk og hönnun í Ráðhúsinu, sem hefst síðar í vikunni.

Einróma upplifun

Eftir alltof langt hlé tók sig upp gamalt bros nú í vikunni (gamla góða kórsmælið), þegar við turtildúfurnar fórum á okkar fyrstu æfingu hjá Sönghópnum Norðurljós. Það er gaman að syngja; meira gefandi að syngja saman, en skemmtilegast að syngja í stórum kór, þar sem raddir fjölda karla og kvenna harmónera svo úr verður ein samstíga hljómhviða. Við það gerist eitthvað magnað, maður verður hluti af heild, rödd sem stækkar og gefur tónverki líf. Í samsöng hverfa á braut ólíkar skoðanir eða ágreiningur manna, og um stund tala allir sama tungumál. Slíkar stundir eru eitt af því mest gefandi sem ég upplifi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband