Illa farið með gott tækifæri

Í síðustu viku vann ég fyrir Sýningakerfi ehf við að forma umgjörð sýningar í Listasafni Reykjavíkur, Stefnumót við vísindamenn, sem var hluti af Vísindavöku Rannís. Uppsetning sýningarkerfis, ljósa, merkinga o.fl. hófst á miðvikudegi og stóð fram til föstudags. Þrátt fyrir reglulegar uppákomur er í miðrými Listasafnsins engin lýsing, ekki ein týra, þannig að þetta voru hálfgerð myrkraverk á köflum hjá okkur. Fjöldi fyrirtækja og stofnana tók þátt í sýningunni, tugir starfsmanna að störfum og umtalsverðum fjármunum til kostað. Sýningin sjálf hinsvegar var næstum búin áður en hún hófst, því hún stóð aðeins í fjórar klukkustundir, frá kl. 17-21 á föstudeginum. Þetta var hugsað sem fjölskylduviðburður og með það í huga var tímasetningin skrýtin. Stappað var á sýningunni þessa stuttu stund sem hún var opin; menn stóðu bak í bak og sáu margir lítið. Heimatilbúin heildarúttekt á sýningunni segir mér að þarna hafi verið sóað bæði fjármunum og góðu tækifæri til að kynna fyrir almenningi það sem er að gerast í vísindastarfi hérlendis. Vonandi koma Rannís og aðrir skipuleggjendur einnig auga á þetta og halda sýninguna á næsta ári í stærri sal og yfir lengri tíma, sem hentar markhópnum betur til að upplifa það merkilega starf sem fram fer í vísindasamfélaginu íslenska.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband