Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Leó Emm hjálpar í bílakaupum

Ef þú ert að spá í að kaupa notaðan bíl getur Leó M. Jónsson gefið góð ráð á sinni heimasíðu. Leitaðu neðan við miðju á þessari síðu, að fyrirsögninni "Ætlarðu að kaupa notaðan bíl? " Þar segir Leó frá í nokkrum orðum af hverju hann mælir með ákveðnum tegundum, og flokkar þá niður í smáa, miðlungs og stærri fólksbíla. Að auki er heimasíðan hans smekkfull af skemmtilegum skrifum um bíla. Það eru ekki allir sammála honum, en fínt að líta til hans leiðbeinandi skrifa í bílapælingum. Ég veit t.d. um einn (nefnum engin nöfn pabbi:) sem ekki skilur í því að Leó skuli mæla með Opel Vectra í milliflokkinum. En mér finnast skoðanir Leó Emm hjálplegar og síst lakari en fjölbreytilegar fullyrðingar bíleigenda í vinahópnum.

Að lokinni landbúnaðarsýningu

Við héldum vel heppnaða landbúnaðarsýningu og bændahátíð hér á Krók um helgina, aðsókn tvöfaldaðist frá fyrra ári, yfir 4.000 gestir komu í blíðskaparveðri og flottri stemningu. Fyrirtækin sem voru hjá okkur voru hæstánægð með sinn hlut og gestir sýningarinnar hrósuðu þessum viðburði okkar mikið. Allir virtust finna eitthvað við sitt hæfi og margir komu komu alla þrjá sýningardagana. Gestirnir voru margir komnir langt að, mjög margir að austan og vestan, en einnig frá Suðurlandi, einhverjir alla leið frá Kirkjubæjarklaustri. Nú liggur maður í spennufalli en reynir samt að njóta þess hvað allt gekk vel. Landbúnaðarsýning á Sauðárkróki hefur alla burði til að verða haldin með enn glæsilegri hætti eftir eitt ár; það yrði þá fjórða árið í röð!

Gullkorn fyrrum Glitnisstjóra

Allajafna finnast mér frasakendar og leiðinlegar ráðleggingar um hvernig maður eigi að lifa lífinu. Undantekningar geta þó verið á þessu þegar menn tjá sig persónulega um hvað reynst hefur þeim best. Bjarni Ármannsson á nokkra ágæta spretti á þessum nótum í Blaðinu í dag, þó inn á milli séu því miður klisjur. Ef maður horfir fram hjá þeim, þá finnur maður nokkur gullkorn. Eitt af því skemmtilegra hljómaði svona: "Ef maður ætlar sér að fá hluti sem maður hefur aldrei fengið áður, þá verður maður að gera hluti sem maður hefur aldrei gert áður." Og svo er það þetta með hamingjuna, sem Bjarni bendir réttilega á að sé viðhorf, ekki ástand. Mín reynsla er sú að hamingjuna finnur maður oft í smábútum, litlum mómentum, hér og hvar í dagsins önn. Maður skynjar hana hinsvegar hvorki, né upplifir, ef viðhorfið er ekki rétt.

Dauðinn í dálksentimetrunum

Miðað við rými á síðum dagblaða og tíma í öðrum fjölmiðlum er eitt vestrænt líf miklu merkilegra en þúsund líf í Asíu eða Afríku. Þessvegna fær brú sem hrynur í Bandaríkjum Norður-Ameríku og drepur nokkrar manneskjur, miklu fleiri dálksentimetra en frétt um hundraðfalda dánartölu fjær okkur og austar.

Ekkert hundalíf?

Maður og hundurinn hansÞar sem ég bý með útsýni yfir eyjar Skagafjarðar og Litla-skóg verð ég oft var við fólk á ferð með hundana sína hér norðan við húsið. Þetta er yfirleitt sama fólkið og ég kannast orðið ágætlega við mörg þeirra. Flestir fara daglega í gönguferð með sína hunda, sumir oftar. Einn nágranninn hleypur alltaf upp í Skógarhlíð í hádeginu með sinn hund. Og það er farið hvernig sem viðrar. Góð hreyfing og útivist er holl fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu okkar; hún hreinlega getur bætt og lengt líf okkar. Ég held satt best að segja að orðið hundalíf hafi fengið aðra og jákvæðari merkingu í mínum huga.

Óskaplega lítið að gerast...

... á þessari síðu hérna, hvar halda menn sig eiginlega? Svei mér þá ef það er ekki bara hér!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband