Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hasshundur

Tíkin TýraÍ rigningu og hálfrökkri gekk ég út Fossvoginn áleiðis í Nauthólsvík. Á leiðinni er Svartiskógur, sem er hluti af Skógræktinni. Með mér í ferð var tíkin Týra og við löbbuðum inní rjóðurvin í skóginum. Þegar við komum aftur upp á göngustíg var hún komin með tóma plastflösku í kjaftinn, eins og svo oft áður í gönguferðum. Tíkin japlaði á flöskunni næsta hálftímann, en reyndi endrum og eins að leggja hana frá sér á stíginn og fá mig til að sparka í hana. Ég vildi síður rjúfa göngutempóið og var tregur til leiks. Á bakaleið úr Nauthólsvík tók ég betur eftir flöskunni, sem var með sérstökum stút, álpappír og brún að innan. Nú erum við komin heim og Týra liggur hér í móki. Úr sljóum augunum má lesa: Vaaaáá mar, heavy!

Hveragerði að ég rakst á þig

Íslendingar eru ekki mikið fyrir að leiðrétta útlendinga þegar þeir segja eitthvað rangt í tilraunum sínum til að tjá sig á okkar ástkæra ylhýra. Algengt er að menn hlusti á mismælið eða vitleysuna, og hlæi svo að henni í góðra landa hópi eftirá. Einn ágætur kórstjórnandi frá Englandi sagði óáreittur sömu vitleysuna í heil tvö ár, alltaf þegar hann þurfti að afsaka sig (t.d. þegar hann rakst utan í einhvern í búðinni): "Hveragerði, þetta var alveg óvart..."  Hann ruglaði því saman við fyrirgefðu!

Losa það sem þarf að losa...

Í dag var mikill hraði á dekkjaverkstæðum höfuðborgarinnar við að koma vetrardekkjum undir bíla... sumsstaðar svo mikill hraði að ekki náðist að festa allt sem nauðsynlegt er að festa eftir dekkjaskipti. Jepplingur sem kom á móti mér í borgarumferðinni í dag missti á fullri ferð undan sér afturdekk, sem rúllaði til allrar lukku út fyrir veg, meðan bílstjórinn náði að stýra tjónuðum bílnum útí kant.
mbl.is „Morgunninn byrjaði næstum því með slagsmálum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VVV-reglan um tunglið

Margir eiga erfitt með að sjá á tunglinu hvort það er vaxandi eða minnkandi. Ágæt kona kenndi mér einu sinni einfalda þumalputtareglu sem virkað hefur vel fyrir mig. Hún er þannig að ef það Vantar Vinstra megin á tunglið, þá er það Vaxandi. Enga reglu kann ég hinsvegar fyrir þá sem eiga í vanda með það hvar vinstri eða hægri er ;c)

Nafnorðið geispa

Í gönguhópnum í gær hafði einhver heyrt þáttinn Orð skulu standa, þar sem var talað um geispur. Þetta hlýtur að vera nýyrði... allavega ekki mjög gamalt, því enginn hafði heyrt það fyrr. Og hvað er svo geispa? Jú, það eru þessar litlu ruslafötur sem virka þannig að þegar stigið er á fótstigið á þeim, þá gapa þær... eða geispa!

Vetrarkyrrð í frábærri fjallgöngu

Útivistarhópurinn á GrímansfelliSíðasta sunnudagsferð Útivistar á árinu var farin í dag við magnaðar aðstæður, snævi þökktu landi, froststillu og sólskini. Farið var upp hjá Gljúfrasteini, meðfram Köldukvísl á svokallaðri skáldaleið og sem leið lá upp á Grímansfell, í um 480 metra hæð. Þar teiknaði sólin skugga í fjöll og dali svo langt sem augað eygði. Vetrarkyrrðin var þykk yfir snjóhvítu landinu og upplifunin alveg hreint mögnuð. Tólf manna hópur gekk undir fararstjórn Ragnars Jóhannessonar um 15 kílómetra leið, sem lauk rétt fyrir sólsetur í eldrauðum Þormóðsdalnum. Myndir eru hér. Dagurinn hjá okkur Svövu endaði svo í heita pottinum heima í Ásgarði, þar sem þreytan leið úr lúnum fótum og alsæla sveif á okkur undir stjörnubjörtum borgarhimni.

Að læra að lepja dauðann úr skel

Mótvægisaðgerðir vegna aflasamdráttar í þorski taka á sig sérkennilegar myndir. Fjölbraut á Krók ætlar til dæmis að bregðast sérstaklega við minni kvóta með því að bjóða í vetur upp á nám til 30 tonna réttinda fyrir verðandi skipstjóra. Er þetta ekki eins og að bregðast við hungursneyð með matreiðslunámskeiði?

Eins fyrirtækis samfélag

Slæm reynsla víða um veröld af því að byggja atvinnustarfsemi heils samfélags á einu fyrirtæki er nú að koma í ljós fyrir austan. Ofurvald Alcoa á Reyðarfirði yfir samfélaginu þar lýsir sér í harkalegri framkomu við starfsfólk sem það hafði boðið gull og græna skóga og fagra framtíð. Fjöldi manns sem féll fyrir gylliboðinu og flutti austur, er að byrja að upplifa þvílíkt heljartak þetta fyrirtæki hefur á samfélaginu öllu; langflestir íbúarnir og sömuleiðis fyrirtækin þurfa að bukka sig og beygja eins og Alcoa þóknast. Ómanneskjulegar uppsagnir tveggja kvenna þar nú í vikunni eru bara upphafið að valdníðslunni sem í vændum er.

Efni eða erindi?

Íþróttafréttamaður Sjónvarpsins var í gær mjög ánægður með að Garcia myndi spila með handboltalandsliðinu. Hann sagði þetta mikið fagnaðarerindi fyrir liðið og stuðningsmenn þess.

Gönguferðir og gönguhraði

Á mánudögum og fimmtudögum býður ferðafélagið Útivist upp á einnar klukkustundar göngutúra í Reykjavík, undir nafninu Útivistarræktin, og er gangan þátttakendum að kostnaðarlausu. Þarna gengur greiðum sporum sprækur hópur fólks og það rífur ágætlega í að ganga á slíkum hraða í heilan klukkutíma; tekur á, en er virkilega hressandi. Og talandi um gönguhraða, þá minnir mig að Lárus á Reykjalundi hafi sagt að göngurhraða skyldi ávallt miða við að ekki væri gengið hraðar en svo að maður gæti spjallað við göngufélagana, en heldur ekki svo hægt að maður gæti sungið!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband