Gengið í gegnum Lambafellsgjá

Við LambafellsgjáStutt frá Keili á Reykjanesi er skemmtilegt náttúrufyrirbæri sem heitir Lambafellsgjá, eða Lambafellsklof eins og Ómar á Ferli.is kallar það. Stuttur gangur er frá Eldborg að Lambafelli og troðningur leiðir mann alla leið að neðri enda gjárinnar, sem er bæði djúp, þröng og brött. Það er eins og að koma í annan heim að ganga þarna í gegnum dimma sprunguna og velta fyrir sér þeim kröftum sem þessa jarðmynd skópu. Svo er hægt að tengja gönguna við aðrar leiðir í nágrenninu, og það gerðum við skötuhjú á sunnudag þegar við vorum þarna á ferð með tíkina Týru. Ferðina skipulögðum við með aðstoð Útivistarbókarinnar hans Páls Ásgeirs (bls. 116) og myndakorti Loftmynda, Af stað á Reykjanesi, en því miður höfðum við ekki undir höndum frásögn Jónasar Guðm. um Lambafellsgjá í tímaritinu Útiveru. Það sem haustferðir hafa umfram sumarferðir er ótrúleg litadýrð náttúrunnar, sem magnar alla upplifun göngufólks.

Heilagur hvíldardagur rofinn af hávaðasömu helgihaldi

Rétt hjá mínu nýja heimili glymja á hverjum sunnudagsmorgni kirkjuklukkur hinnar ríkisreknu trúarsamkundu svo undir tekur í hverfinu. Hvers vegna þarf kirkjan að auglýsa samkomur sínar á sunnudögum með þessum dómsdags hávaða? Fyrir utan að vera í hróplegu ósamræmi við þá hugarkyrrð sem kirkjan boðar veltir maður því fyrir sér hvort þetta virkar jákvætt í markaðssetningunni hjá þeim; hafa þeir gert könnun á því hvort fleiri mæta þegar bjöllunum er hringt? Er þetta ekki bara úrelt gamaldags aðferð við að láta illa upplýstan almúgann vita af messunni, arfur frá þeim tíma þegar fólk vissi ekki hvað tímanum leið og skortur á upplýsingum kallaði á þennan hávaða til að láta söfnuðinn vita af messuhaldinu? Í ört vaxandi borgarsamfélagi er allt til þess vinnandi að minnka hávaðamengunina og kirkjan ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og taka upp hljóðlátari aðferðir til að draga sína syndasauði á sunnudagssamkomurnar.

Viðskiptavinir eiga að vera gestir okkar

Í fyrirlestri á Nordica föstudaginn 7. sept. sl. sagði Marit Thorkeson frá muninum á þjónustu og gestrisni og hver væri ávinningurinn af því að sinna viðskiptavinum sem gestum. Þjónustu er að hennar mati hægt að skilgreina og mæla, en þegar um gestrisni er að ræða verður hjartað að vera með í för: Ætli menn sér að ná samkeppnisforskoti verður að veita persónulega þjónustu, gefa af sér og láta gestinum finnast hann velkominn! Í mörgum geirum atvinnulífsins er talað um viðskiptavini, skjólstæðinga, sjúklinga, o.s.frv., en ef við ætlum að skara framúr í þjónustugæðum verðum við fyrst og fremst að líta á viðskiptavini okkar sem gesti, sem manneskjur sem við sinnum af alúð. Í þjónustustörfum eigum við að vera stolt af því sem við bjóðum, við eigum að sinna starfi okkar af ástríðu og á okkar persónulega hátt. Að mati Marit er ekki hægt að kenna þetta eða þjálfa nema að litlu leyti og því þarf hver og einn að hafa frelsi til að veita þjónustu á sinn hátt, vera hann sjálfur og fá að njóta sín, til þess að gæði og virði þess sem verið er að selja verði sem mest í augum viðskiptavina okkar. Fyrir þá sem lesa sænsku má finna marga markverða punkta um fyrirbærið "hostmanship" á síðu Marit og félaga, www.vardskapet.se.

Furðuleg fartölvusala í BT

Var að leita mér að fartölvu um daginn og fór víða, meðal annars í BT. Þar var sölumaður nýbyrjaður í starfi og gat fáu svarað um það sem ég spurði. Hann og félagi hans áttu svo í talsverðum vandræðum að finna og prenta út gögn um tvær tölvur sem ég hafði sýnt áhuga á og vildi fá með mér upplýsingar um. Allt þetta tók tíma og mikið var um vandræðagang, hik og bið. Rétt áður en ég fór rak ég augun í að íslenskir stafir voru fáir á lyklaborðinu, og á kolvitlausum stöðum. Mér var sagt að límmiðar ættu eftir að koma þarna á, en að þeir væru því miður bara til í svörtu. Lyklaborðin á vélunum sem ég hafði áhuga á voru hinsvegar í gráum lit. Mér var farið að líða eins og ég væri staddur inni í tölvubúð fyrir um 15 árum síðan, þegar þjónustustig var víða annað og lakara og vandamál með íslensk lyklaborð algeng. Niðri í Tölvulista fann ég svo vél með Windows XP í stað Vista, sem ég er bæðevei skíthræddur við, og þar var þjónustan öll fyrsta flokks, eins og ég hafði reyndar áður kynnst. BT-menn verða að taka sér tak í sambandi við tölvusöluna, annars á þessi viðvaningsháttur þeirra eftir að enda sem kverkatak á eigin tölvudeild.

Tíkurnar finna á mér veika blettinn...

Þær geta verið misjafnlega ágengar borgartíkurnar, en þessi gjörsamlega eltir mig á röndum. Hún leggst við fætur mér og grátbiður um meiri... boltaleik! Þó tíkin Týra hafi mest gaman af því að hlaupa um í náttúrunni, þá eru boltaleikir hennar líf og yndi innandyra. Og hún fær aldrei nóg. Þó ég hafi gaman að því að leika við hana, þá fæ ég stundum nóg. Hún reynir að vekja áhuga minn með því að leggja boltann við fætur mér allsstaðar þar sem ég nem staðar í húsinu. Þegar ég er ekki í leikstuði læt ég sem ég sjái ekki tíkarboltaviltuleikaaugnaráðið biðjandi. Nýjasta nýtt hjá henni til að vekja athygli á sér er að ganga um með boltann, kasta honum úr kjafti sér niður í gólfið, svo fast að hann skoppar, og þá grípur hún hann fumlaust aftur. Þetta endurtekur hún nokkrum sinnum í röð og hefur með þessu uppátæki sínu náð aðdáun minni og athygli sem fyrsti hundurinn sem ég hef fyrirhitt sem kann að dripla bolta fullkomlega. Já þær finna alltaf á endanum veika blettinn á mér tíkurnar.

Góður sunnudagur á Reykjanesinu

Á HvalsnesleiðFórum ásamt fríðu föruneyti frá Keflavík, undir dyggri leiðsögn Sigrúnar Jóns og Ómars Smára, gömlu þjóðleiðina að Hvalsnesi. Ferðin tók um fjóra tíma í blíðskaparveðri, komið var við í seljum, prílað yfir varnargirðingar og sagðar sögur á leiðinni. Merkilegt hvað allt lifnar við og upplifun verður önnur og meiri þegar saga og menning fylgir við hvert fótspor. Í lok dags náðum við aðeins í skottið á Ljósanæturviðburðum, skoðuðum Bátasafn, Rokksafn og nærðum okkur á þjóðlegum veitingum frá Thailandi. Reykjanesið er svo sannarlega á dagskránni næstu vikurnar því önnur ganga verður um aðra helgi, þá verður farið í seljaferð sem endar í fjárréttum við Grindavík og er tillökkun þegar kviknuð fyrir þeirri ferð.

Leó Emm hjálpar í bílakaupum

Ef þú ert að spá í að kaupa notaðan bíl getur Leó M. Jónsson gefið góð ráð á sinni heimasíðu. Leitaðu neðan við miðju á þessari síðu, að fyrirsögninni "Ætlarðu að kaupa notaðan bíl? " Þar segir Leó frá í nokkrum orðum af hverju hann mælir með ákveðnum tegundum, og flokkar þá niður í smáa, miðlungs og stærri fólksbíla. Að auki er heimasíðan hans smekkfull af skemmtilegum skrifum um bíla. Það eru ekki allir sammála honum, en fínt að líta til hans leiðbeinandi skrifa í bílapælingum. Ég veit t.d. um einn (nefnum engin nöfn pabbi:) sem ekki skilur í því að Leó skuli mæla með Opel Vectra í milliflokkinum. En mér finnast skoðanir Leó Emm hjálplegar og síst lakari en fjölbreytilegar fullyrðingar bíleigenda í vinahópnum.

Að lokinni landbúnaðarsýningu

Við héldum vel heppnaða landbúnaðarsýningu og bændahátíð hér á Krók um helgina, aðsókn tvöfaldaðist frá fyrra ári, yfir 4.000 gestir komu í blíðskaparveðri og flottri stemningu. Fyrirtækin sem voru hjá okkur voru hæstánægð með sinn hlut og gestir sýningarinnar hrósuðu þessum viðburði okkar mikið. Allir virtust finna eitthvað við sitt hæfi og margir komu komu alla þrjá sýningardagana. Gestirnir voru margir komnir langt að, mjög margir að austan og vestan, en einnig frá Suðurlandi, einhverjir alla leið frá Kirkjubæjarklaustri. Nú liggur maður í spennufalli en reynir samt að njóta þess hvað allt gekk vel. Landbúnaðarsýning á Sauðárkróki hefur alla burði til að verða haldin með enn glæsilegri hætti eftir eitt ár; það yrði þá fjórða árið í röð!

Gullkorn fyrrum Glitnisstjóra

Allajafna finnast mér frasakendar og leiðinlegar ráðleggingar um hvernig maður eigi að lifa lífinu. Undantekningar geta þó verið á þessu þegar menn tjá sig persónulega um hvað reynst hefur þeim best. Bjarni Ármannsson á nokkra ágæta spretti á þessum nótum í Blaðinu í dag, þó inn á milli séu því miður klisjur. Ef maður horfir fram hjá þeim, þá finnur maður nokkur gullkorn. Eitt af því skemmtilegra hljómaði svona: "Ef maður ætlar sér að fá hluti sem maður hefur aldrei fengið áður, þá verður maður að gera hluti sem maður hefur aldrei gert áður." Og svo er það þetta með hamingjuna, sem Bjarni bendir réttilega á að sé viðhorf, ekki ástand. Mín reynsla er sú að hamingjuna finnur maður oft í smábútum, litlum mómentum, hér og hvar í dagsins önn. Maður skynjar hana hinsvegar hvorki, né upplifir, ef viðhorfið er ekki rétt.

Dauðinn í dálksentimetrunum

Miðað við rými á síðum dagblaða og tíma í öðrum fjölmiðlum er eitt vestrænt líf miklu merkilegra en þúsund líf í Asíu eða Afríku. Þessvegna fær brú sem hrynur í Bandaríkjum Norður-Ameríku og drepur nokkrar manneskjur, miklu fleiri dálksentimetra en frétt um hundraðfalda dánartölu fjær okkur og austar.

Ekkert hundalíf?

Maður og hundurinn hansÞar sem ég bý með útsýni yfir eyjar Skagafjarðar og Litla-skóg verð ég oft var við fólk á ferð með hundana sína hér norðan við húsið. Þetta er yfirleitt sama fólkið og ég kannast orðið ágætlega við mörg þeirra. Flestir fara daglega í gönguferð með sína hunda, sumir oftar. Einn nágranninn hleypur alltaf upp í Skógarhlíð í hádeginu með sinn hund. Og það er farið hvernig sem viðrar. Góð hreyfing og útivist er holl fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu okkar; hún hreinlega getur bætt og lengt líf okkar. Ég held satt best að segja að orðið hundalíf hafi fengið aðra og jákvæðari merkingu í mínum huga.

Óskaplega lítið að gerast...

... á þessari síðu hérna, hvar halda menn sig eiginlega? Svei mér þá ef það er ekki bara hér!

Svo blogga ég líka stundum...

... þegar ég er nýbyrjaður aftur að reykja, eftir tæplega sólarhringshlé eða svo. Ég er ekki viss um að Bubbi hafi verið að tala um akkúrat þetta, þegar hann sagði að sumarið væri tíminn... hann allavega hafði það ekki í huga að landbúnaðarsýning væri framundan og að stjórn slíkra viðburða fylgdi heilmikið stress:) Verst að enginn myndaði mig í dag þegar ég kveikti aftur í, og birti um það fall-frétt... þá hefði maður kannski grætt á þessu 700 þús spírur ;c)

Ég blogga af því að ég er...

... hættur að reykja enn einn ganginn!

Lundinn ekki alveg horfinn...

Lundaveiðiferð 2007 - Guðbrandur Ægir, Jón Þór og Bjarni MárÍ vikunni þaráundan fóru vaskir kappar á zodiacplastara í Drangeyjarferð. Gist var í skálanum góða og dvalist þar tvær nætur. Eitthvað var reynt að háfa af lunda, en það gekk brösuglega til að byrja með. Okkur leiddist þó ekki, það er ekki hægt í svona eyju, sem er löðrandi í sagnaarfi, jarðfræðiundrum og stórkostlegu fuglalífi, að maður tali nú ekki um frískandi félagsskapinn af hverjum öðrum. Á síðasta degi kom þoka og með henni, já merkilegt nokk, vindur! Þá tók fuglinn upp á því að fljúga í háfana, já við bara komust ekki hjá því að aflífa nokkra. Og tókum svo mynd af öllu saman, í þokunni. En ekki samt segja Vestmannaeyingum frá því að enn sé nóg af lunda í Drangey... usssss

Kallar Bóbó á bleyjur?

Það er víst ekki óalgengt að karlmenn nefni tillann á sér ýmsum nöfnum. Einn miðaldra náungi fyrir austan kallar sinn lilla Bóbó. Honum finnst Bóbó soldið flottur og er sannfærður um að hann deili sinni hrifningu með fleirum. Þegar hann fær sér í glas verður hann stundum voða montinn af Bóbó. Eitt sinn vatt hann sér að manni við barborð og sagði rígmontinn: "Þær míga alveg í sig kellingarnar þegar þær sjá Bóbó!" Þetta átti auðvitað að virka voða töff, en hvað getur það nú verið spennandi að þurfa að fást við hlandblautar kellingar? LoL

Enginn hundur í mér á þessum sólskinsdegi

Það er allt í lagi að vera æstur, að láta sig málin skipta og geta tjáð skoðanir sínar af tilfinningaþunga, en að mínu mati er sjaldnast í lagi að taka þátt í múgæsingu. Reynslan hefur sýnt okkur að við þannig aðstæður brenglast dómgreindin og við veitum okkur sjálfum grimmdarlegt "veiðileyfi" á samborgara okkar. Við þessar blindandi aðstæður gleymist alveg að tvær hliðar eru á flestum málum og allt of sjálfsagt verður að dæma náungann hart, stundum á alltof veikum grunni. Þó ég sé hissa á okkur mannfólkinu, þá er enginn hundur í mér í dag, þegar sólin skín bæði ytra sem innra.

Garanterað létt lunda geð

Lundaveiðiferð 2006Nú brestur á með árlegri veiðiferð í Drangey, þar sem dvalist verður í tvo daga við að háfa lunda. Það getur þó oft verið snúið ef lygnt er, því þá flýgur fuglinn minna og hægar og lítið veiðist, en spáin er því miður í þá veruna. Bresti í aflabrögðum er þó allajafna tekið með stóískri ró, enda ekki síður gefandi að njóta náttúrunnar og útivistar í góðum félagsskap. Hvort sem lundinn verður snúinn eða ekki, er nokkuð víst að lundin verður létt þegar komið er úr eyjaferðinni.

Upprekstur er upplifun!

Í gærkvöldi, og reyndar fram á bjarta sumarnóttina, tók ég þátt í upprekstri á fé. Eitthvað á annað hundrað skjátur með afkvæmum voru reknar upp Staðaröxlina og upp á Kerlingarhálsinn. Safnið silaðist upp ganginn og voru bæði menn og fé móð og másandi á köflum. Þarna tvístruðust fjölskyldur í hamaganginum og því var stoppað í tvígang uppi til að leyfa ánum að lemba sig. Engri rollu var svo hleypt inn á afréttinn nema hún væri með sín eigin lömb; einlembdar voru með rautt teip á horni, þrílembdar með blátt teip, en þessar tvílembdu teiplausar. Svo voru gemlingar með bláan spraylit á bakinu. Þetta þurfti allt að gaumgæfa áður en fararleyfi var gefið út í rúmlega tveggja mánaða frelsi á fjöllum. Ég var lúinn en alsæll þegar komið var niður aftur eftir fimm klukkutíma törn, og í kaupbæti hafði skilningur minn á sauðfjárbúskap margfaldast í þessari fróðlegu ferð (hann var reyndar ekki mikill fyrir). En það verður öðruvísi upplifun að grilla í kvöld.

Ég er nauðgari!

Ég þarf að játa! Ég hef klætt konur úr buxunum, án þess að spyrja þær um leyfi. Ég hef haft samfarir við konur sem ekki hafa sagt "já", enda var engin spurning borin upp: Núningur og líkamstjáning þótti fullnægjandi samþykki. Og ég hef ýtt konu inn á klósett og læst á eftir okkur. Reyndar minnir mig að sú kona hafi togað jafnmikið og ég ýtti, en þetta er ekki alveg ferskt í minningunni, þar sem ég var blindfullur; reyndar við bæði. Það var lítið um formlegheit: Hvorugt sagði "já", né heldur hafði fyrir því að kynna sig! Konur hafa líka klætt mig úr buxunum án þess að spyrja um leyfi. Í tvígang hafa konur komið mér í vandræðalega stöðu með því að fara niður á hnén og renna frá klaufinni á buxunum mínum. Ég var ekkert spurður! Reyndar var það svo að oftar en ekki hérna í den, á útihátíðum, sveitaböllum og í partíum, var meira framkvæmt en talað um aðalmálið á dagskrá! Í augum dómstóls götunnar í dag er ég trúlega margfaldur nauðgari, en ég vara við því að alvöru dómstólar fari að elta þá hryllilegu múgsefjun sem nú tröllríður daglegu spjalli. Þessi útópíska hugmyndafræði sem siðapostular spjallvefjanna kalla eftir er bara tómt kjaftæði á meðan menn og konur dópa og drekka brennivín í því magni sem tíðkast! Eftirsjá konu má aldrei verða til þess að grandalaus maður lendi í fangelsi! Og bæðevei: Vorið þið búin að lesa um þýska strákinn á bls. 19 í laugardags-Mogganum (7.júlí 2007)?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband