Færsluflokkur: Vefurinn

Eðlilegt

Raddir fólksins heyrast orðið í æ meira mæli á netinu, hvort sem það er á bloggsíðum, fésbókum eða annarsstaðar. Meðan þetta form er að slíta barnsskónum reka menn sig á kosti og galla, og átta sig á hvernig á að nota þetta ábyrgt. Stjórnvöld og fyrirtæki ljúga að okkur hægri vinstri, eins og við höfum fengið að kynnast hér á landi síðustu misseri. Rödd fólksins, okkar raddir, verða að fá að heyrast til mótvægis við raddir aðila annarlegra hagsmuna. Eðli málsins samkvæmt tekur það tíma að átta sig á hvernig við förum best með þetta nýfengna vald.
mbl.is Falla í pytti á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar þig gjaldeyri?

Þeir klikka ekki og eru alveg ómissandi á þessum viðsjálverðu tímum Baggalútsmenn. Á síðunni þeirra, baggalutur.is má nú meðal annars lesa þessar smá-auglýsingar:

Ertu í sorgarferli?

Ekki byrgja reiðina inni. Erum að ráða núna.

Handrukkun Bússa og Valda.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Vantar þig gjaldeyri?

Eigum slatta af erlendri mynt sem fáanleg er gegn vægu gjaldi. Skilyrði er að gjaldeyriskaupendur kafi sjálfir eftir myntinni.

-Þingvallanefnd-

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Viltu slaka á eftir erfiðan dag í bankanum?

Líttu við og slakaðu á í góðra vina hópi. Alltaf heitt á könnunni. Athugið að almenningur er ekki velkominn.

Stjórnarráðið – sælureitur í alfaraleið


Farmers Market medley

Eins og sjá mátti og heyra í sjónvarpinu í fyrrakvöld, er norska Klezmer-bandið Farmers Market eitt allra skemmtilegasta læf-band Noregs í dag, og þótt víðar væri leitað. Í þættinum í fyrrakvöld spiluðu þeir ásamt KORK (Kringkastningorkestret) og vöktu mikla lukku, en HÉR eru þeir einir á sviði með líflegan medley.

“Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?”

Jónas Kristjánsson leiðbeinir fólki í fjölmiðlun á heimasíðu sinni, www.jonas.is. Hann notar einfaldan stíl og talar skýrt, þannig að maður skilur aðalatriðin. Honum er annt um íslenskt mál og hvernig ber að nota það svo fólk skilji, í stað þess að drukkna í fræðilegri froðu eða málskrúði. Hvort sem þú ert áhugamaður um tungumálið okkar, vinnubrögð á fjölmiðlum eða einstök dæmi (t.d. Árnamálið), þá er hægt að mæla með heimsókn á heimasíðu Jónasar.

Sækadelískar skammstafanir í símatilboðum

Eitt símafyrirtækjanna hringir nú út og bíður pakkatilboð með heimasíma, gsm og nettengingu. Kona fyrir vestan sagði vinkonu sinni frá því að þeir hefðu haft samband við sig og boðið sér að hringja frítt í alla heimasíma í eitt ár, gsm á góðum díl og ágætis pakka með LSD að auki!

Myndband sem fær þig til að brosa

Farðu inn á þessa slóð, sláðu inn mínu nafni í efsta reit, þínu nafni í næstefsta reit, og smelltu svo á neðst til vinstri, þar sem stendur Visualizar. Vídeóið tekur innan við mínútu að rúlla. Góða skemmtun.

Er að verða einn af þessum skrítnu

Fyrir margt löngu sá ég í útlöndum í fyrsta sinn fólk, oftast komið alllangt að austan, sem stóð í sérkennilegum stellingum í almenningsgörðum. Þessar manneskjur hreyfðu sig hægt og tignarlega og virtust sem þær væru af öðrum heimi en iðandi borgarsamfélagið allt í kring. Þó mér þætti þetta á einhvern hátt heillandi var ég viss um að þetta fólk væri skrítnara en við flest. En með tímanum breytist maður og fyrir nokkrum dögum rakst ég á ókeypis mini-námskeið í Tai Chi á netinu sem ég skráði mig á. Nú fæ ég reglulega sendar kennslustundir í tölvupósti frá kennaranum, Al Simon í Bandaríkjunum, og allt stefnir í að ég verði áður en langt um líður einn af þessum skrítnu sem hreyfa sig á dularfullan hátt í slómó út um allar koppagrundir.

Svangir ferðamenn

Á vef Ferðamálastofu, VisitIceland.com, er að finna í gagnagrunni ýmsar upplýsingar um ferðaþjónustu í landinu. Ferðaþjónusta er eins og menn vita margslungin grein; samsett úr mörgum öðrum. Það sem ferðamenn þurfa helst á ferðum sínum eru samgöngur, gisting, afþreying og veitingar. Þrír fyrstnefndu þættirnir eru til staðar í gagnagrunninum, en því miður er þar ekki stafkrók að finna um veitingastaði. Fyrirspurn til Ferðamálastofu um ástæður þessa hafa ekki leitt til árangurs, en þeir benda á vefsíðuna Veitingastadir.is. Tenging við þann vef er þó engin á VisitIceland.com. Á vefnum VisitReykjavik.is eru helstu lykilflokkar upplýsinga: Gisting, Matur & drykkur, Listir & menning, Ferðir & afþreying og Samgöngur. Þar á bæ eru menn greinilega að sinna upplýsingaþörf ferðamanna betur en yfirapparatið.

Villur á Wikipedia staldra stutt við

Notkun alfræðisíðunnar Wikipedia er ört vaxandi. Í samanburði við alfræðiritið Britanica, sem hefur 80 þúsund umfjöllunarefni, þá inniheldur Wikipedia nú um 1 milljón atriða. Almennir notendur setja sjálfir inn efni á Wikipedia, en sérfræðingar skrásetja allt sem fer í Britanica. Þetta þýðir að oft slæðast villur inn á Wikipedia, en miðað við könnun IBM þurfum við ekki að óttast þær svo mjög. Vegna þess hve margir virkir notendur með vökul augu eru á Wikipedia, fá rangfærslur að meðaltali ekki að hanga þar inni nema í um fjórar mínútur.

ISDN+ - Súper háhraðatenging a la Stulli

Ég talaði um daginn við ferðaþjónustubónda sem býr spölkorn norðan við þéttbýlisstað á Norðurlandi. Þar er gott að vera, mikil náttúrfegurð og ekkert gsm-samband til að trufla kyrrðina. Bærinn er nettengdur með svokölluðu ISDN+ sem mun vera algengt í sveitum og kemur sér vel þegar háskóli er stundaður í fjarnámi. Nemendur fá reglulega kennsluefni, þar á meðal talglærur. Þetta er pakki með ppt-glærum sem kennarinn talar inn á, svona svipað og að sitja í kennslustund. Sumir glærupakkarnir eru stuttir, tekur ekki nema 15 mínútur að hlusta á og keyra í gegn. Það tekur hinsvegar um 6-7 klukkutíma að hlaða þessum korters pakka niður með háhraðatengingunni hans Sturlu, þar sem mínútugjaldið tifar í takt við hnignandi byggðirnar....

ISDN+, hvað verður það betra?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband