Röng skilaboð í refsingu?

Kartöflur eru minna borðaðar en áður fyrr og margir af yngri kynslóðinni kjósa pasta, hrísgrjón og aðra valkosti umfram gamla góða jarðeplið. Nú þegar jólin nálgast og yngstu börnin fara að fá í skóinn er hægt að leiða hugann að því hversu heppileg skilaboð það eru að refsa þeim fyrir óþekkt með því að setja kartöflu í skóinn.

Betrumbætt skógarsaga

Heimspekilegar vangaveltur á borð við þá að ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? hafa orðið tilefni skemmtilegra umræðna í gegnum tíðina. Ný útgáfa af þessari heimspekilegu pælingu hljómar svona: Ef karlmaður talar einn í skógi og engin kona heyrir til hans, hefur hann samt rangt fyrir sér? LoL

Ómerkileg rannsókn

Rannsóknin sýnir aðeins að konur með hærri tekjur noti minni tíma til heimilisverka. Hún segir ekkert um það hvort heimilisfeður og börn sinni þessum verkum meira fyrir vikið, eða hvort það er einfaldlega bara sjaldnar eldað, þrifið og þvegið á heimilinu en fyrr. Auk þess er nú oft beint samhengi milli tekna og vinnutíma; þú þarft að vinna meira til að hafa meiri tekjur, og þá áttu minni tíma aflögu til að sinna öðrum hugðarefnum. Af fréttinni að dæma er þetta afar takmörkuð rannsókn og túlkun á niðurstöðum aðeins ágiskanir.
mbl.is Hærri laun - færri húsverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drepa skólarnir sköpunargáfuna?

Á flandri mínu hér á blogginu í dag ráfaði ég inn á síðuna hans Jóhanns Björnssonar, eins og ég hef stundum gert áður. Að þessu sinni voru það þó skrif Kristjáns Guðmundssonar í athugasemdadálknum sem vöktu athygli mína; eða öllu heldur slóð sem hann benti á þar. Rétt í þessu var ég að ljúka við að hlusta á sir Ken Robinson flytja einhvern fróðlegasta og skemmtilegasta fyrirlestur sem ég hef lengi hlýtt á. Ef þið hafið áhuga á því að heyra um hvert við erum að stefna með menntun barnanna okkar, þá endilega smellið hér.

Svangir ferðamenn

Á vef Ferðamálastofu, VisitIceland.com, er að finna í gagnagrunni ýmsar upplýsingar um ferðaþjónustu í landinu. Ferðaþjónusta er eins og menn vita margslungin grein; samsett úr mörgum öðrum. Það sem ferðamenn þurfa helst á ferðum sínum eru samgöngur, gisting, afþreying og veitingar. Þrír fyrstnefndu þættirnir eru til staðar í gagnagrunninum, en því miður er þar ekki stafkrók að finna um veitingastaði. Fyrirspurn til Ferðamálastofu um ástæður þessa hafa ekki leitt til árangurs, en þeir benda á vefsíðuna Veitingastadir.is. Tenging við þann vef er þó engin á VisitIceland.com. Á vefnum VisitReykjavik.is eru helstu lykilflokkar upplýsinga: Gisting, Matur & drykkur, Listir & menning, Ferðir & afþreying og Samgöngur. Þar á bæ eru menn greinilega að sinna upplýsingaþörf ferðamanna betur en yfirapparatið.

Hvenær segir maður heill og sæll og bless?

Það vefst fyrir mörgum hvenær þeir eiga að heilsa og kveðja. Ég var kominn yfir þrítugt þegar ég var upplýstur um það að sá sem kemur að, og sem sá sem fer (frá þeim sem fyrir er á staðnum), á að vera fyrri til að heilsa og kveðja. Yngra fólk telur gjarnan að þegar fullorðinn á í hlut, eigi sá eldri að heilsa og kveðja, eða vera fyrri til að bjóða góðan dag. Fólk á miðjum aldri kann þetta oft ekki heldur; gengur inn í herbergi og bíður eftir að því sé heilsað... eða finnst kannski bara óþarfi að viðhafa svona gamaldags kurteisi... og lætur það alveg ógert að heilsa. Það einfaldar hinsvegar margt í mannlegum samskiptum ef fólk kann þetta og notar rétt.

Vandræðaleg búðarferð

Í búðinni í gær tók ég eftir konu sem horfði einkennilega á mig. Hún gekk svo til mín röskum skrefum og sagði: Ég held að þú sért faðir eins barnsins míns! Mér brá all hressilega og reyndi að rifja upp hvenær og hvernig það gæti átt sér stað. Allt í einu mundi ég og sagði vandræðalega: Já, ert þú stelpan sem ég fór með heim eftir árshátíðina í hitteðfyrra og vildir gera það út um allt eldhús? Hún varð þá enn vandræðalegri en ég, eldroðnaði í framan og sagði: Nei, ég er kennari stráksins þíns!

Lýsi dregur úr líkum á elliglöpum og geðsjúkdómum

Hollusta lýsis hefur löngum verið þekkt á Íslandi og hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu ár staðfest þetta. Ný rannsókn sýnir minni líkur á elliglöpum neyti menn Omega-3 fitusýra sem eru í lýsi; aðrar rannsóknarniðurstöður benda til að lýsi geti ekki bara haft góð áhrif á hjarta- og gigtarsjúkdóma, heldur einnig geðsjúkdóma. Þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi og annarri dimmudepurð ættu því daglega að innbyrða matskeið af þorskalýsi.

Villur á Wikipedia staldra stutt við

Notkun alfræðisíðunnar Wikipedia er ört vaxandi. Í samanburði við alfræðiritið Britanica, sem hefur 80 þúsund umfjöllunarefni, þá inniheldur Wikipedia nú um 1 milljón atriða. Almennir notendur setja sjálfir inn efni á Wikipedia, en sérfræðingar skrásetja allt sem fer í Britanica. Þetta þýðir að oft slæðast villur inn á Wikipedia, en miðað við könnun IBM þurfum við ekki að óttast þær svo mjög. Vegna þess hve margir virkir notendur með vökul augu eru á Wikipedia, fá rangfærslur að meðaltali ekki að hanga þar inni nema í um fjórar mínútur.

Grínlæti

Næturvaktin fékk Edduverðlaun í kvöld. Þættirnir eru skemmtilegir með bæði látum og gríni. Leikstjórinn steig á stokk og sagði frá sjónvarpsstjórum á Stöð tvö sem hefðu í upphafi grínlætað verkefnið. Það hljómar miklu betur en að tala á íslensku og segja að þættinum hafi verið gefið grænt ljós; þetta eru hvort sem er svo mikil grínlæti.

Jeppi á fjalli, ég er hann!

Guðmundur Jónsson hjá jeppa á fjalliFórum feðgar á fjall á fjóhjóladrifna jepplingnum í morgun. Horfðum í björtu veðri yfir Skagafjörðinn víðan og nutum froststillunnar. Sáum hvorki né heyrðum í rjúpu í fjallakyrðinni, önduðum að okkur fersku loftinu og ræddum um útsýnið: Eyjarnar þrjár, vötnin, fjöllin í kring og álfabyggðir í Hegranesi. Sáum kollinn á Molduxa þar sem við stóðum hreyknir síðastliðið sumar, ásamt mömmum okkar, og skrifuðum nöfn okkar í gestabók. Allt lítur öðruvísi út þegar maður er hátt uppi.

Annarra manna líf

Á öld hraða og firringar á margur maðurinn í erfiðleikum með að lifa sínu eigin lífi. Þetta á sérstaklega við þegar vinnudegi og skyldustörfum lýkur. Sumum reynist auðveldara að lifa annarra manna lífi, í þægilegri fjarlægð, t.d. með passívu sjónvarpsglápi. Fyrr en varir er svo lífið búið, og maður deyr sem einhver allt annar en maður gat orðið.


Hundslappadrífa

Hitti Drífu vinkonu í snjókomunni í morgun og var hún girnileg að vanda. Hún hafði verið lasin og sagðist enn slöpp; eiginlega bara hundslöpp. Ég ákvað því að taka hana ekki á þessa hundslöpp að sinni, en fara þess í stað í orðaleiki við sjálfan mig.

Minjalosti

Í dag er boðið til málþings á Hólum, til heiðurs Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga, sem á 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Margir merkir fyrirlestrar verða fluttir um safnastarf, búsetu- og menningarminjar m.m., en heiti fyrirlesturs Hjörleifs Stefánssonar vekur sérstaka athygli; svona aðeins á skjön við almennar hugmyndir um minjamál. Fyrirlesturinn heitir: Heltekinn af minjalosta!

Lántakendur í lífstíðarfangelsi?

Á norðurleið í gærkvöldi heyrði ég á tal fréttamanns við einhvern sérfróðan um lánamál okkar Íslendinga. Eins og menn vita eru engir með jafn háa vexti og við, og hvergi annarsstaðar á byggðu bóli þekkist verðtrygging. Þetta samanlagt leiðir til þess að sá sem tekur eina milljón að láni fyrir íbúð, í þessu reikningsdæmi til fjörutíu ára eins og algengt er, þá hefur hann á endanum greitt fyrir hana yfir ellefu milljónir – 11 MILLJÓNIR – ... og margfaldi nú hver fyrir sig!

Fjarvera

Má ekki segja að fólk sem er með fjarlæga nærveru, sé með fjarveru?

Týndar tilboðsvörur

Hef margoft lent í því að koma í Bónus án þess að finna vörur sem þeir voru að enda við að auglýsa á tilboðsverði. Grunaði þá um að eiga of lítið magn til af umræddum vörum, en auðvitað skýrir það margt ef það hefur verið sérstaklega falið á bakvið aðrar vörur, í neðstu hillu!
mbl.is Segir blekkingum beitt þegar verðkannanir eru gerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítt að vera drepinn vegna klósettferðar

Lögreglan á það til að gera mistök, þó þau séu sem betur fer sjaldan jafn afdrifarík og í tilfelli brasilíska rafvirkjans sem Lundúnalögreglan skaut til bana á lestarpalli í hitteðfyrra. Löggan grunaði mann um að undirbúa hryðjuverk og var hópur sendur til að fylgjast með honum. Því miður var aðeins einn í lögguhópnum sem gat borið kennsl á hinn grunaða. Þegar honum varð mál og þurfti að bregða sér á klóið á krítísku augnabliki, hófst eftirför á röngum manni, saklausum rafvirkja sem hinum lögreglumönnunum fannst líkjast þeim grunaða. Stuttu síðar galt svo Brasilíumaðurinn fyrir klósettferð löggunnar með lífi sínu. Helvíti skítt verður maður að segja.

Hasshundur

Tíkin TýraÍ rigningu og hálfrökkri gekk ég út Fossvoginn áleiðis í Nauthólsvík. Á leiðinni er Svartiskógur, sem er hluti af Skógræktinni. Með mér í ferð var tíkin Týra og við löbbuðum inní rjóðurvin í skóginum. Þegar við komum aftur upp á göngustíg var hún komin með tóma plastflösku í kjaftinn, eins og svo oft áður í gönguferðum. Tíkin japlaði á flöskunni næsta hálftímann, en reyndi endrum og eins að leggja hana frá sér á stíginn og fá mig til að sparka í hana. Ég vildi síður rjúfa göngutempóið og var tregur til leiks. Á bakaleið úr Nauthólsvík tók ég betur eftir flöskunni, sem var með sérstökum stút, álpappír og brún að innan. Nú erum við komin heim og Týra liggur hér í móki. Úr sljóum augunum má lesa: Vaaaáá mar, heavy!

Hveragerði að ég rakst á þig

Íslendingar eru ekki mikið fyrir að leiðrétta útlendinga þegar þeir segja eitthvað rangt í tilraunum sínum til að tjá sig á okkar ástkæra ylhýra. Algengt er að menn hlusti á mismælið eða vitleysuna, og hlæi svo að henni í góðra landa hópi eftirá. Einn ágætur kórstjórnandi frá Englandi sagði óáreittur sömu vitleysuna í heil tvö ár, alltaf þegar hann þurfti að afsaka sig (t.d. þegar hann rakst utan í einhvern í búðinni): "Hveragerði, þetta var alveg óvart..."  Hann ruglaði því saman við fyrirgefðu!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband