Færsluflokkur: Ferðaþjónusta

Flugvöllur er ekki sama og flugvöllur

Fyrir rúmum tveimur áratugum kom þýskt par á puttanum upp að Hveravöllum. Þá var umferð minni um Kjöl en nú er. Þau voru léttklædd og án nokkurra vista, því þau ætluðu ekki að stoppa lengi. En urðu samt sem áður strandaglópar þarna í einhverja daga. Þau höfðu séð á landakorti að þarna væri flugvöllur og höfðu hugsað sér að taka næsta áætlunarflug tilbaka! Grin


Visitskagafjordur.is

Frá opnun Visitskagafjordur.is í dagÍ dag opnaði loks ferðavefsíðan sem ég hef verið að vinna að í vetur, www.visitskagafjordur.is. Þar er að finna allt það helsta sem hægt er að gera í Skagafirði fyrir ferðamenn og gesti héraðsins: Fjölbreytta gistingu, ótal marga valkosti í afþreyingu, fallega staði til að heimsækja o.fl. Ríkulegum menningararfinum er gert skil, m.a. undir liðnum Söfn og sýningar. Hestaáhugamenn fá sitt rými þarna, sem og allir viðburðirnir sem eru í Skagafirði. Ljósmyndir eru fjölmargar úr öllum áttum. En auðvitað er sjón sögu ríkari og best að kíkja bara á vefinn.

Getur maður hugsað sér betri auglýsingu fyrir ferðamannastað?

Menn beita ýmsum ráðum til að ná athygli. Í fyrra var auglýst eftir starfsmanni til að starfa á Hamilton eyju í Ástralíu við að taka myndir og koma á netið, til að kynna eyjuna sem ferðamannastað. Launin voru 2 milljónir á mánuði, lúxusíbúð og fleiri flottheit fylgdu með. Hvorki meira né minna en þrjátíu og fjögur þúsund manns sóttu um starfið, en það hafði verið kynnt sem “besta starf í heimi”. Nokkrir voru valdir úr þessum stóra hópi til frekari viðræðna við ferðamálayfirvöld í Queensland. Athyglin sem eyjan hefur fengið vegna þessa “draumastarfs” er án efa virði mörg hundruð milljóna. Google kemur upp með eina og hálfa milljón vefsíðna þegar leitað er eftir: Hamilton Island Job. Síðasta frétt var um stúlku sem kom til greina í starfið, en var vísað frá eftir að kynlífsmyndband með henni komst í fjölmiðla. Enn heldur því umfjöllunin áfram um þetta eina starf, og Hamilton eyja verður sífellt þekktari sem ferðamannastaður. Þetta er dæmi um eina alflottustu auglýsingabrellu síðari ári.

Eyðilegging áfangastaðar í ferðaþjónustu

Í gær voru fimm ár liðin frá því að Saddam Hussein náðist í holu sunnan við Tíkrit í Írak. Litla byrgið sem harðstjórinn fannst í var í kjölfarið eyðilagt. Í stað þess að leyfa heimamönnum að búa til úr því aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þeir sem þetta gerðu sögðu það gert til að holan yrði ekki í hugum fylgjenda Saddams að táknmynd leiðtoga síns. Tækifæri fyrir heimamenn til hafa ágætis tekjur af því að selja ferðamönnnum aðgang var þar með eyðilagt. Myrk ferðamennska (e: Dark tourism) er vel þekkt og mikið nýtt um allan heim. Maður veltir þessvegna vöngum yfir því af hverju þessi hola í Írak var eyðilögð, þegar útrýmingarbúðir nasista fá að starfa í friði með mikla aðsókn árlega.

Yfir hundrað þúsund gistinætur

Íslensk farfuglaheimili voru valin meðal þeirra bestu í heimi nýverið. Þetta eru farfuglaheimilin í Berunesi við Djúpavog og á Ósum á Vatnsnesi. Farfuglaheimili eru góður og ódýr gistikostur á ferðalögum, en allajafna eru útlendingar stærstur hluti gesta íslenskra farfuglaheimila. Árlegar gistinætur á farfuglaheimilum hér á landi eru komnar yfir eitt hundrað þúsund.

Draugagangur upphefst í Seðlabankanum

Guðni Þórðarson er stórt nafn í ferðaþjónustu á Íslandi, hann var frumkvöðull í að bjóða ferðir til sólarlanda. Fyrirtæki hans, Ferðaskrifstofan Sunna og Air Viking, voru öflug á sínu sviði á áttunda áratugnum, en voru á endanum þvinguð í þrot af yfirvöldum og samkeppnisaðilum. Í merkilegu viðtali við Guðna nefnir hann Flugleiði, Samvinnuhreyfinguna og Seðlabankann, sem lykilöfl í þeirri nýðingslegu herferð (sjá fyrirsögnina: Draugagangur upphefst í Seðlabankanum). Guðni veltir því fyrir sér hvort slíkt geti endurtekið sig, nú þegar samkeppni og frelsi í viðskiptum eiga að vera allsráðandi . "Því miður er ég þeirrar skoðunar að enn séu til öfl sem eru svo sterk að þau geti sett hvern sem ekki er þóknanlegur út af sakramenntinu…" segir Guðni í lok viðtalsins. Stórmerkileg viðtöl við 27 frumkvöðla í íslenskri ferðaþjónustu má sjá HÉR!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband