Stórfurðulegt fjörutíu ára stálminni

Í gær heyrði ég í ókunnugum manni vegna sýningarinnar sem ég er að stjórna og verður hér á Krók síðar í sumar. Undir lok símtalsins, þegar erindum var lokið, fór hann að spyrja mig út í búsetu uppúr miðri síðustu öld (smá ýkt:).  Hvort ég hefði búið í Reykjavík sem krakki. Þegar ég svaraði því játandi sagði minn maður: Tja, þá erum við bekkjarfélagar! Ha? sagði ég…hvaðan? Nú úr Álftamýrarskólanum… þegar við vorum átta ára! Hann bætti því svo við að síðasta hálfa veturinn, áður en ég flutti á Krókinn, þá hefðum við setið hlið við hlið í tímum hjá Sigríði Rögnu, sjónvarpsstjörnu. Ég hef síðasta sólarhringinn reynt grufla og að rifja upp, en man barasta ekkert eftir þessu. Sorry, allt farið...   En mikið er maður samt heppinn að einhverjir hafa svona stálminni og geta rifjað upp með manni skemmtilegheit úr fjarlægri fortíð.

Lítil bloggstemning...

Nú er sumar, náttúran blómstrar og einhvernveginn allt annað við að vera heldur en að blogga. Næsti þungviðrisdagur gæti þó lífgað skrifgleði eitthvað, hver veit?

Sigfús svartsýnn á Serbíuleikinn?

Blaðið spurði vegfarendur á förnum vegi að því í dag hvernig handboltaleikur Íslands og Serbíu færi. Handboltastrákurinn stórvaxni, Sigfús Sigurðsson; betur þekktur sem Fúsi línumaður, átti svar dagsins: 2-0, og seinna markið verður úr horni!

Landbúnaðarsýning þróast í skagfirskri sveitasælu

Síðastliðin tvö ár hefur landbúnaðarsýning verið haldin í Reiðhöllinni við Sauðárkrók, en í fyrraFánaborg við innganginn - 2006 kynntu tæplega þrjátíu fyrirtæki vörur sínar og tæplega tvö þúsund manns heimsóttu svæðið. Í takti við þá framtíðarsýn að sýningin vaxi og dafni og teygi anga sína víðar um Skagafjörð í formi ýmissa tengdra viðburða, þá hefur hún nú hlotið nafnið:

SveitaSæla 2007

LANDBÚNAÐARSÝNING & BÆNDAHÁTÍÐ

í Skagafirði 17. – 19. ágúst

Auk tengingar við búsæld og sveitastemningu sækir nafngiftin innblástur í aðra og þekktari skagfirska "sælu", nefnilega Sæluvikuna, sem byrjað var að halda hátíðlega á Krók fyrir meira en hundrað árum síðan. Til viðbótar þessum skemmtilega fjölskylduviðburði verður Norðurlandsmót æskunnar í frjálsum íþróttum á Króknum þessa helgi, og Kántrýdagar á Skagaströnd, í aðeins hálftíma fjarlægð. Hér er því komin tilvalinn valkostur fyrir áhugafólk um íslenska landsbyggðarmenningu :)  ...sjá einnig dagatal með fleiri skemmtilegum viðburðum á Norðurlandi í sumar með því að smella HÉR


Vel tuggin dýr betri fyrir meltinguna

Gjóaði augunum á auglýsingaskilti í gær á leið minni útúr Reykjavík. Það var frá tryggingarfélagi og mér sýndist boðskapurinn væri sá sami og ég hef ítrekað við börnin mín við matarborðið, að gleypa ekki matinn sinn ótugginn. Var að vísu á nokkurri ferð framhjá, en sá ekki betur en auglýsingin segði: "Tyggjum dýrin!"

Er Krókur betri en Kelda?

Flestum finnst það já, en ekki þeim Króksurum sem verða heima um mánaðarmótin júní/júlí, þegar vinirnir verða komnir á Hróarskeldu...

Útskrift ferðamálafræðinga á Hólum

Myndarlegir ferðamálafræðingar m. fylgifiskumHér er mynd af nýútskrifuðum ferðamálafræðingum á Hólum í dag, auk rektors og deildarstjóra. Frá vinstri: Skúli í nýju rektorshempunni, Jón Þór, Alda, Guðrún, Fía (sem hélt fína útskriftarræðu), Maggý (sem dúxaði), Lóa og Guðrún Þóra deildarstjóri Ferðamáladeildar.

Untrue Stories besta lag Hip Razical?

Davíð Jónsson söngvari Hip Razical - Mynd: Gunnlaugur JúlíussonLagið Untrue Stories fékk flest atkvæði í lítilli skoðanakönnun hér á síðunni um hvert þriggja laga Hip Razical væri best. Strákarnir og hljóðmeistarinn Jón Skuggi hafa nú lagt lokahönd á lögin í hljóðveri Skuggans, Mix ehf., og eru þau komin hingað á síðuna endanlega hljóðblönduð. Sjálfum finnst mér It Stays the Same best og öðrum sem ég þekki líkar best við O.D., en svona er tónlistin; mjög persónubundið hvað höfðar til fólks. Fyrir áhugasama skal bent á að bílskúrsbandið í Barmahlíðinni er með síðu á MySpace

Fyrstu ferðamálafræðingar Hólaskóla

Útskriftarhópur 2007Laugardaginn 26. maí útskrifar Hólaskóli ferðamálafræðinga í fyrsta sinn. Níu manna hópurinn flutti fyrirlestra um ritgerðir sínar í vikunni, og við það tilefni tók Sólrún rektorsfrú myndina hér til hliðar. 

Hópurinn er hér ásamt umsjónarmanni lokaritgerða Guðrúnu Helgadóttur (l.t.v.) og prófdómara Edward H Huijbens (l.t.h.). Nemendurnir eru taldir frá vinstri:

  • Anna Margrét Ólafsdóttir Briem skrifaði um Mikilvægi þess að varðveita verkþekkingu fyrir ferðaþjónustu,
  • Ólöf Vigdís Guðnadóttir: Markaðssetning áfangastaðar - Akraneskaupstaður,
  • Hólmfríður Erlingsdóttir: Skemmtiferðaskip og ferðalangar. Þjónusta, áhrif og áfangastaðir í landi,
  • Gunnar Páll Pálsson: Lækningaferðaþjónusta. Möguleikar á Íslandi,
  • Margrét Björk Björnsdóttir: Römm er sú taug...,
  • Alda Davíðsdóttir: Myrk ferðamennska. Eins dauði er annars brauð,
  • Jón Þór Bjarnason: Út við ysta sæ: Ferðaþjónusta á Skagaströnd og nágrenni
  • Guðrún Brynleifsdóttir: Þar sem leiklist og ferðaþjónusta mætast.
Einn útskriftarneminn vildi hvorki vera á mynd né vera nefndur í texta og var orðið við þeirri beiðni. Heimild: http://www.holar.is/fr416.htm

Kosningar og Krítarferð

Nú rennur allt saman í eitt, kosningarnar og niðurstöður þeirra munu berast okkur skötuhjúum til eyrna um suðandi langbylgju þegar við ökum í nóttinni suður í Leifsstöð, á leið í vikufrí á Krít. Þetta er útskriftarferðin mín, þetta eru tvær útskriftarferðir fyrir hana, og svo fögnum við því að hafa þekkst í 25 ár. Krókurinn er over and out fram í þarnæstu viku ;c)

Sjálfstæðisflokkurinn og siðleysið

Jóhannes í Bónus leggur heilsíðu í Mogga dagsins undir siðleysi embættisveitinga Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra. Jóhannes skorar á Sjálfstæðismenn að strika yfir nafn ráðherrans á kjördag. Mér finnast ásakanir Bónuskaupmannsins eiga fullan rétt á sér, en finnst hann bjartsýnn ef hann heldur að þetta virki. Dettur mér þá í hug Sjálfstæðismaðurinn sem sagði menn og málefni engu skipta: Hann myndi ekki hætta við að kjósa flokkinn þótt hundur sæti í fyrsta sætinu!

Leikvöllurinn Ísland

Gríðarleg aukning hefur orðið í innflutningi og notkun á torfæru- og fjórhjólum. Mestmegnis eru tækin hugsuð til að leika sér á, og leikvöllurinn eru óbyggð svæði Íslands. Eitt hjólfar í brekku snemma sumars verður að vatnsrás, sem árið eftir verður að læk. Í mínu nágrenni sé ég stórskemmdir á landi eftir hjólför frá í fyrra (allt upp í eins meters breiða skurði, 50-70cm á dýpt), en ég er viss um að hryllingurinn er bara rétt að byrja. Yfirvöld, bær og ríki, hafa brugðist nær algerlega í að úthluta þessum hópum leiksvæði sem sátt er um að megi skemma. Við höfum enn bara séð toppinn á þessum mannhverfa borgarísjaka!

Ertu enn óákveðin/n?

Hér er gagnvirk könnun sem kannski getur hjálpað þér.

Ókunn eldsupptök og íkveikja

Ég skora á fjölmiðlamenn að hætta ofnotkun á texta um grunsemdir á íkveikju. Tilefnið er þetta: Eldsupptök eru ókunn… en ekki er hægt að útiloka að kveikt hafi verið í !  Auðvitað ekki, upptökin eru ókunn, það er ekki hægt að útiloka neitt! Ekki heldur rafmagnsbruna eða íkveikju af slysni. Á bakvið bruna er fólk, t.d. sem á eða vinnur í fyrirtækjum sem brenna, eða íbúar heimila sem brenna. Fjölmiðlamenn: Takið upp ábyrgari og vandaðri vinnubrögð og hættið að hnýta þessum dylgjum aftan við texta um ókunn eldsupptök!

Johnsen í fjárlaganefnd?

Guðni Ágústsson talar um það í Mogga dagsins hvað gott verði að eiga Árna sem hauk í horni í fjárlaganefnd, ef flokkur hans felur honum þann starfa, eins og jafnan áður. Myndefni af Árna hefur verið með dauflegra móti,  í baráttunni síðustu vikur, eiginlega bara ósýnilegt, en spurning hvernig við verðum vör við kauða á næsta kjörtímabili?
mbl.is „Ímynd og innihald spila saman til lengri tíma litið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auka súrefni í Krítarflugi?

Er að fara til Krítar á sunnudag og rakst því viljandi inn á síðu Plúsferða til að sjá hvað þeir segðu um eyjuna. Sá þá mér til furðu að þeir bjóða auka súrefni í sínum flugferðum. Svona hljómaði þetta: 

Auka súrefni í flugvélinni kostar 6.000 kr. hvora leið. Bóka þarf súrefnið hjá sölumanni á skrifstofu fyrir brottför.

Getur einhver útskýrt þetta?


Hættuleg hugmyndafræði um velferð og efnahag

reiður strákurHugmyndafræði þeirrar langþreyttu stjórnar sem senn lætur af völdum hefur byggst á því að efnahagslífið sé undirstaða mennta- og velferðarkerfisins. Margir eru hinsvegar þeirrar skoðunar að þarna sé málunum snúið á haus; vænlegra væri að byggja upp öflugt og traust velferðarkerfi, sem veitir okkur og börnum okkar jafnari tækifæri í lífinu, t.d. hvað varðar menntun og heilbrigðisþjónustu, og að slík fjárfesting í fólkinu í landinu sé í raun traustasti grunnur þess að atvinnu- og efnahagslíf geti blómstrað. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag að í dag eru að alast upp börn sem búa við mikinn ójöfnuð og skert lífsgæði. Þetta hafa Sjálfstæðismenn aldrei skilið, þótt þeir gefi annað í skyn rétt fyrir kosningar!

Den Islandske hest - Fagranes i Skagafjordur 1993

Kolbeinn Jónsson Eiríkssonar DrangeyjarjarlsDanska sjónvarpið endursýndi áðan heimildarmynd frá 1993 um hesta og menn á Fagranesi á Reykjaströnd. Stemningin í myndinni er fín, svona eins og hún gerist best í sveitasælunni, og svo er ekki síður gaman að sjá sveitunga sína á yngri árum, t.d. Kolbein unga, sem hefur leiðsagt ferðamönnum um Gretti sterka í Drangey mörg síðustu ár. Smellið HÉR og veljið: Se Programmet.

Bullkönnun Capacent Gallup?

Getur könnun sem byggir á svörum aðeins 61 manns í heilu kjördæmi talist marktæk? Flokkur sem mælist með um 14% fylgi í þessari könnun, sem hefur 13,7% vikmörk, hefur því fylgi einhversstaðar á milli 0,7% og 28%!!!  Auðvitað er þetta algjörlega ómarktækt og óforsvaranlegt að birta sem vísindalega niðurstöðu!

Sjáið nýju brautina á Króknum!

Tengill hér á myndir af nýju brautinni við Sauðárkrók, þar er allt að verða tilbúið, klúbbhús sem keppnisaðstaða. Frábært framtak drífandi fólks!
mbl.is Vélhjólamenn í Fjarðabyggð vilja braut fyrir torfæruhjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband