Upprekstur er upplifun!

Í gærkvöldi, og reyndar fram á bjarta sumarnóttina, tók ég þátt í upprekstri á fé. Eitthvað á annað hundrað skjátur með afkvæmum voru reknar upp Staðaröxlina og upp á Kerlingarhálsinn. Safnið silaðist upp ganginn og voru bæði menn og fé móð og másandi á köflum. Þarna tvístruðust fjölskyldur í hamaganginum og því var stoppað í tvígang uppi til að leyfa ánum að lemba sig. Engri rollu var svo hleypt inn á afréttinn nema hún væri með sín eigin lömb; einlembdar voru með rautt teip á horni, þrílembdar með blátt teip, en þessar tvílembdu teiplausar. Svo voru gemlingar með bláan spraylit á bakinu. Þetta þurfti allt að gaumgæfa áður en fararleyfi var gefið út í rúmlega tveggja mánaða frelsi á fjöllum. Ég var lúinn en alsæll þegar komið var niður aftur eftir fimm klukkutíma törn, og í kaupbæti hafði skilningur minn á sauðfjárbúskap margfaldast í þessari fróðlegu ferð (hann var reyndar ekki mikill fyrir). En það verður öðruvísi upplifun að grilla í kvöld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband