Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Athugasemd til Þorvaldar Bjarna

Strategía er orð sem stundum er notað yfir hernaðaráætlun; kemur úr ensku (strategy). Fyrir okkur sem ekki þekkjum til hernaðaráætlana getur strategía þýtt: Kerfisbundin áætlun um aðgerðir (sem leiða til árangurs). Svo heyrir maður líka landann nota orðið tragedía (tragedy), oft yfir einhverskonar harmleik. Í þættinum Laugardagslögin spyr Þorvaldur Bjarni lagahöfunda um hvernig þeir semji lögin sín; hvort þeir hafi einhverja Stragedíu! Hvort hann hugsar sér einhverja dýpri meiningu með þessu nýyrði sínu, að honum finnist lagasmíðarnar vera með slíkum harmkvælum, skal ósagt látið. En hann veit örugglega af þessari hugtakablöndun sinni og bíður spenntur eftir að einhver geri athugasemd. Ég geri það hér með :)

Útskrift ferðamálafræðinga á Hólum

Myndarlegir ferðamálafræðingar m. fylgifiskumHér er mynd af nýútskrifuðum ferðamálafræðingum á Hólum í dag, auk rektors og deildarstjóra. Frá vinstri: Skúli í nýju rektorshempunni, Jón Þór, Alda, Guðrún, Fía (sem hélt fína útskriftarræðu), Maggý (sem dúxaði), Lóa og Guðrún Þóra deildarstjóri Ferðamáladeildar.

Leikvöllurinn Ísland

Gríðarleg aukning hefur orðið í innflutningi og notkun á torfæru- og fjórhjólum. Mestmegnis eru tækin hugsuð til að leika sér á, og leikvöllurinn eru óbyggð svæði Íslands. Eitt hjólfar í brekku snemma sumars verður að vatnsrás, sem árið eftir verður að læk. Í mínu nágrenni sé ég stórskemmdir á landi eftir hjólför frá í fyrra (allt upp í eins meters breiða skurði, 50-70cm á dýpt), en ég er viss um að hryllingurinn er bara rétt að byrja. Yfirvöld, bær og ríki, hafa brugðist nær algerlega í að úthluta þessum hópum leiksvæði sem sátt er um að megi skemma. Við höfum enn bara séð toppinn á þessum mannhverfa borgarísjaka!

Ertu enn óákveðin/n?

Hér er gagnvirk könnun sem kannski getur hjálpað þér.

Bullkönnun Capacent Gallup?

Getur könnun sem byggir á svörum aðeins 61 manns í heilu kjördæmi talist marktæk? Flokkur sem mælist með um 14% fylgi í þessari könnun, sem hefur 13,7% vikmörk, hefur því fylgi einhversstaðar á milli 0,7% og 28%!!!  Auðvitað er þetta algjörlega ómarktækt og óforsvaranlegt að birta sem vísindalega niðurstöðu!

ISDN+ - Súper háhraðatenging a la Stulli

Ég talaði um daginn við ferðaþjónustubónda sem býr spölkorn norðan við þéttbýlisstað á Norðurlandi. Þar er gott að vera, mikil náttúrfegurð og ekkert gsm-samband til að trufla kyrrðina. Bærinn er nettengdur með svokölluðu ISDN+ sem mun vera algengt í sveitum og kemur sér vel þegar háskóli er stundaður í fjarnámi. Nemendur fá reglulega kennsluefni, þar á meðal talglærur. Þetta er pakki með ppt-glærum sem kennarinn talar inn á, svona svipað og að sitja í kennslustund. Sumir glærupakkarnir eru stuttir, tekur ekki nema 15 mínútur að hlusta á og keyra í gegn. Það tekur hinsvegar um 6-7 klukkutíma að hlaða þessum korters pakka niður með háhraðatengingunni hans Sturlu, þar sem mínútugjaldið tifar í takt við hnignandi byggðirnar....

ISDN+, hvað verður það betra?


Galdrastafir fyrir örvæntingarfulla stjórnmálamenn!

Pólitíkusar sem þurfa að slá ryki í augu kjósenda geta notað missýningastafinn Óðinn og þeir sem eru hræddir um að hafa vondan málstað geta nýtt sér galdrastafinn Máldeyfu. Vilji menn nota óhefðbundnar leiðir til að vinna kjósendur á sitt band í kosninga- baráttunni er fleiri nothæfa galdrastafi að finna á kosningavef Galdrasýningar á Ströndum. Þetta eru snillingar!

Hver er tekjuaukningin án eignatekna?

Í nýútkomnum Hagtíðindum segir frá auknum heildartekjum heimilanna frá 1994 til 2005. Þær hafa hækkað um 183% á tímabilinu, eða um 10% á ári. Ef ég hef skilið fréttir í gær rétt, þá eru þessar tölur án verðlagsbreytinga, þannig að séu þær teknar með sýna útreikningarnir aukningu ráðstöfunartekna um rúm 4% á ári. Á Textavarpi RUV er sagt að stærstur hluti þessarar tekjuaukningar séu launatekjur, fyrir skatta, OG vaxtagreiðslur af innistæðum og verðbréfum og arður af hlutafé! Væri ekki fróðlegt fyrir okkur venjulegt fólk sem ekki hefur svona eignatekjur að fá að heyra líka hver sé auking ráðstöfunartekna af launatekjum eingöngu?

"Guð er ekki kristinn!"

"Guð getur ekki verið kristinn, því gyðingar eru líka hans fólk og múslimar sömuleiðis, sem og búddistar og hindúar; allt eru þetta börn guðs!" Þetta segir Hjörtur Magni í viðtalið við Blaðið í gær, og bætir við: "Guð er ekki að finna í einni trúarhefð. Guð er yfir trúarbrögð hafinn!" Er það þessi skoðun Hjartar, biskups Desmond Tutu og fleiri, um að guð sé ekki kristinn, sem vekur reiði biskups og presta á Íslandi í dag?

Jarðarfararfötin og glottið á Geir

Annar sætur strákur í jarðarfararfötumMér fannst nú svolítið hrokafullt glottið sem ég sá á Geir um daginn, hann svona talaði niður til mín fannst mér. Svo fannst mér vera svona jarðarfarastemning yfir jakkafötunum hans, algjörlega óviðeigandi í skemmtiþætti um snilldina í hagstjórninni. Fötin voru kannski valin af því tilefni að Geir var, að sögn Eyþórs Arnalds, nýbúinn að jarða innflytjendaumræðuna með því að segjast sjálfur vera af útlendum ættum? Þeir eru djúpir þessir strákar!  En svona í alvöru, þá finnst mér þessar rannsóknarniðurstöður sem sagt er frá í fréttum ruv.is í dag skýra margt af því sem við sjáum í íslenskri pólitík þessi misserin. Til viðbótar má benda á að árangur Þórólfs Árnasonar er ekkert ósvipaður þeim sem Ingibjörg Sólrún náði hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma. En því miður gerði hún ekki sama gagn og sætasta stelpan fyrir Geir og því fer sem fer!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband