Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Byggðastefna stjórnvalda: Óljós, Ómarkviss, Tilviljanakennd, Ógegnsæ!

Á spjallvef Skagfirðinga, skagafjordur.com, er verið að tala um kosningarnar framundan. Þar sýnist sitt hverjum um árangur stjórnarflokkanna í landsbyggðamálum. Einn spjallari, nafni minn Jón S., vitnar í bók Byggðarannsóknarstofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Fólk og fyrirtæki – um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni:

"Bls 221: "Íslensk byggðastefna er í veigamiklum atriðum ólík stefnu sem fylgt er í nágrannalöndunum... meginstefnumið hérlendis mun óljósari... skortir á að fjárveitingar til þessara mála séu jafnháar... tilhneiging til að dreifa litlu fjármagni á marga aðila og lítið samræmi milli einstakra úthlutana." Bls. 222: "Einn stærsti galli íslenskrar byggðastefnu er hve ógegnsæ hún er.... Fyrir vikið er hætt við að opinber byggðastefna verði ómarkviss og byggist fremur á tilviljanakenndum inngripum en skýrri stefnu." Þar hafiði það Framsóknar- og Sjálfstæðismenn!!! Var einhver að furða sig á hnignandi landsbyggð?"


Sjálfstæðisflokkur - stórhættulegt afturhaldsafl?

Það er ekki fögur lýsing dregin upp af Sjálfstæðisflokknum þegar afstaða (les: andstaða) hans í helstu framfaramálum þjóðarinnar er rifjuð upp í Morgunblaðinu í dag, en þar er flokkurinn kallaður regnhlífarsamtök sérhagsmunahópa. Ríkisforræði og forsjárhyggja koma oftar fyrir í tengslum við þennan flokk en flesta aðra. Evrópuaðild er ekki á dagskrá, þeir tala um að við megum ekki afsala okkur fullveldinu. Staðreyndin er að 80% af löggjöf ESB er innleidd hér án þess að við fáum nokkuð um mótun hennar að segja. Værum við ekki meira fullvalda ef við hefðum þarna einhver áhrif? Þetta kemur fram í skrifum Jóns Baldvins (Mbl. 10. apríl, bls 18-19) þar sem hann fléttar eigin þekkingu og reynslu inn í umfjöllun um hina mögnuðu bók Eiríks Bergmanns, Opið land.

Auðvitað eru til aðrar hliðar á stjórnmálasögu Íslands, en þessi saga hefur of lengi verið hluti af okkar sameiginlegu gleymsku. Um 10% af ísjakanum sjást, en viljum við ekkert vita af hinum 90 prósentunum? Sjálfstæðismenn eru í skrifum JBH kallaðir innilokunarsinnar með íhaldssama hugmyndafræði og eftir lesturinn spyr maður sig: Hvernig í ósköpunum getur þetta afturhaldsafl enn í dag verið stærsti stjórnmála- flokkurinn á Íslandi? Þessu hef ég svarað í fyrri skrifum: Af því að hollusta við flokkinn er tilfinningmál, hún er af sama meiði og trúin á æðri máttarvöld, þar sem skynsemin er sjaldnast hátt skrifuð!


Er þetta vönduð fréttamennska?

Framtíð Evrópusambandsins er ekki björt, aðallega vegna vaxandi óhagstæðrar aldurssamsetningar. Sífellt fjölgar eftirlaunaþegum sem fara af vinnumarkaði, því stórir árgangar eftirstríðsáranna eru að ljúka starfsævi sinni á næstu árum. Þetta sagði Elín Hirst í sjónvarpsfréttum í kvöld og vitnaði í "sérfræðinga" máli sínu til stuðnings. Hún sagði líklegt að grípa yrði til sérstakra ráðstafana á evrópska vinnumarkaðnum vegna þessa vanda. Þessi sannindi eru nánast orðrétt þau sömu og Robert Kreitner segir frá í nokkurra mánaða gamalli bók sinni, nema hvað hann er ekki að tala um Evrópu, heldur Bandaríkin! Líklegast er þá framtíð þeirra ekki björt heldur, eða hvað? Vandamálið er semsagt ekki einangrað við Evrópulönd, en þessi framsetning í sjöfréttum Sjónvarpsins er ekki til að auka tiltrú manna á vandaða fréttamennsku þar á bæ, sérstaklega ekki þegar þetta fólk tekur að sér að fjalla um Evrópusambandið.


Aukin kynlífslöngun og stinnari brjóst

Enn og aftur koma upplýsingar sem sýna fram á ágæti súkkulaðis, nú í danskri rannsókn sem sýnir að við lifum lengur, langar meira að gera "það" og að konur fái stinnari brjóst. Að vísu á þetta bara við um dökkt súkkulaði og ekkert kemur fram um lágmarksmagn sem þarf að innbyrða til að njóta góðs af framantöldum atriðum. Öllum svona rannsóknum á að taka með miklum fyrirvara og nauðsynlegt að beita heilbrigðri skynsemi, því eins og flestir vita er súkkulaði líka fitandi og með fullt af sykri í. Hver vill vera æstur og uppfullur af kynlífslöngun en geta sig vart hrært vegna fitu og yfirþyngdar?

Sorgar- og gleðifréttir hjá Ríkisútvarpinu

Aflvana formúlubíll?Á ruv.is og textavarpinu er tvennt sem vekur athygli mína núna. Annarsvegar liggur skip í vanda fyrir akkerum undan Reykjanesi, vegna þess að það er aflvana. Engin hætta er á ferðum, en takið eftir lykilorðinu: Aflvana... ekki vélarvana! Að mínu hyggjuviti verða bílar og skip ekki vélarvana nema vélin sé með öllu úr þeim. Ef vél bilar og þrýtur afl, þá er farartækið aflvana. Þetta fannst mér gleðilegt. Hitt var sorglegt. Að á næsta ári fara vinir mínir til margra ára í Formúlu 1 yfir á sjónvarpsstöðina Sýn. Það þýðir að óbreyttu að ég hætti að horfa á hana, en ég hef ekki lagt það í vana minn að borga fyrir íþróttaefni í sjónvarpi og reikna ekki með að breyting verði þar á. Því horfi ég sorgaraugum til næsta keppnistímabils, þegar minn formúlumótor verður alvarlega aflvana!

Sjónhverfingar Hannesar Hólmsteins

Í nýjasta hefti Þjóðmála sem datt inn um bréfalúguna nú í morgun gagnrýnir Hannes það sem hann kallar "Sjónhverfingar prófessoranna" Stefáns Ólafssonar og Þorvalds Gylfasonar. Það þarf ekkert að tíunda um sýn Hannesar á ofurágæti hagstjórnar Sjálfstæðisflokksins, hana þekkja allir, og eru skrifin því marki brennd. Áhugasömum vil ég benda sérstaklega á línurit um verðbólgu á bls. 34, en það sýnir þróunina frá 1980 til 2004. Þeir sem muna verðbólgutoppinn á níuanda áratugnum átta sig á að síðan þá hefur verðbólgan mestmegnis verið á niðurleið, eins og línan í ritinu sýnir. Hannes velur að sýna aðeins þróunina til ársins 2004 og talar ekki um vaxandi verðbólgu dagsins í dag, vegna þess að það gagnast ekki hans málflutningi. Þannig stundar Hannes sjálfur sjónhverfingar í stórum stíl, en það ætti auðvitað engum að koma á óvart sem fylgst hefur með hans einhæfu söguskoðun í gegnum tíðina. Annars eru hægriáróður Þjóðmála að þessu sinni með þeim hætti að mér er skapi næst að segja upp áskriftinni!

Skapaðu þinn eigin frama!

IconMikePixarNú er ég að lesa undir próf í Stjórnun og hugurinn uppfullur af gáfulegum kenningum og ráðleggingum úr þeim fræðum. Sumar höfða meira til manns en aðrar og svo er hægt að blanda þeim saman við önnur fræði á ýmsan hátt, til dæmis svona:

Ef þig langar til að verða eitthvað, vertu það þá bara! Skrifaðu niður markmið þín og hafðu þau raunhæf, mælanleg og skemmtileg, og stefndu óhræddur að því ná þeim, jafnvel þótt þér hafi dottið í hug að gera eitthvað "fáránlegt" sem ekki er til í dag. Hugasðu um það hve mörg þeirra starfa sem eru unnin í dag voru ekki til fyrir 10 árum síðan. Það er illmögulegt að spá fyrir um framtíðina, en öruggasta leiðin er samt sú að skapa hana bara sjálfur!


Ertu viss? Brigðul dómgreind í dagsins önn!

Hér er um að ræða bók sem fjallar um hæpnar skoðanir fólks, meinlokur eða ranghugmyndir og hvernigForsíða bókarinnar Ertu viss? Brigðul dómgreind í dagsins önn þær mótast af misskilningi, rangtúlkun, hlutdrægni, óskhyggju, hagsmunum manna og samfélaginu í heild. Hefurðu lesið þessa bók? Höfundurinn heitir Thomas Gilovich og hann er prófessor í sálfræði sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á ályktunarhæfni fólks. Bókin kom út á íslensku árið 1995, á vegum Heimskringlu. Þetta er ein af mínum uppáhaldsbókum, umræðan í henni er rækileg, skipuleg, fræðilega grunduð og síðast en ekki síst er hún stórskemmtileg aflestrar. Enginn áhugamaður um mannlegt samfélag ætti að láta hana fram hjá sér fara. En ég vara við því að hún gæti farið með þig útfyrir þægindasvæðið og breytt heimsmynd þinni!

Er öflun, notkun og skráning heimilda það mikilvægasta í BA-skrifum?

Útskriftarauglýsihg KB-bankaHvað er það sem skiptir mestu máli þegar skrifa á BS- eða BA-ritgerð? Spyr sá sem ekki veit, ég get sjálfsagt svarað því frekar síðar í vor, þegar skrif mín við Hólaskóla hafa verið dæmd. Ég þekki fólk sem hefur verið miður sín yfir lágum einkunnum fyrir svona ritgerðarskrif, þrátt fyrir að hafa verið að fjalla um spennandi og verðug viðfangsefni af fagmennsku, í bæði hagnýtri og vandaðri umfjöllun. Einn sjóaður fræðimaður á suðausturhorninu hefur sagt það sína skoðun að það sé aðallega þrennt sem talið er nemanda til tekna í BA-ritgerð: Að hann finni heimildir sem henta viðfangsefninu, geti nýtt þær heimildir í skrifum sínum, og geti svo vísað til þessara heimilda á FULLKOMINN hátt í heimildaskrá. Fróðlegt væri að fá að heyra af reynslu þeirra sem gengið hafa í gegnum þetta ferli allt.

Hólmsteinsk hálf-sagnfræði

Efasemdir vöknuðu í mínum huga um áreiðanleika þeirrar sagnfræði sem er að finna í frjálsaMynd af Hannesi: Finnur Arnar Arnarson alfræðiritinu Wikipedia á netinu. Þetta gerðist í kjölfar yfirferðar á efni um Hannes Hólmstein Gissurason, sem ég lenti inn á alveg óvart og eftir óskiljanlegum krókaleiðum. Vona svo sannarlega að framsetning efnis og það sem EKKI er sagt um HHG í texta á þessari síðu sé ekki dæmigert fyrir gæði sagnfræðinnar á þessari "alfræðisíðu".

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband