Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ályktunarhæfni mannsins...

... er afar skeikult fyrirbæri þegar kemur að svona löguðu. Við neitum að horfast í augu við tölfræðilegar staðreyndir, heldur tínum til einstök atvik, sem er ætlað að færa sönnur á hið gagnstæða. Það eru auðvitað afar hæpin vísindi. Hjátrú er og verður áfram hluti af mannlegri tilveru, þótt hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Ein af mínum uppáhaldsbókum fjallar um þessi fyrirbæri og mörg önnur mjög svo áhugaverð á svipuðum nótum, en hún er eftir Thomas Gilovich og heitir Ertu viss? - Brigðul dómgreind í dagsins önn (How we know what isn't so - The fallibility of human reason in everday life, útg. 1991).
mbl.is Minna um óhöpp á föstudaginn 13. en aðra föstudaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort eigum við þrjá eða fjóra þjóðgarða?

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar stendur:

Þjóðgarðar á Íslandi eru 3 talsins

Á Íslandi eru þrjú svæði friðlýst skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd sem þjóðgarðar en þau eru Skaftafell, Jökulsárgljúfur og Snæfellsjökull. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er friðlýstur með sér lögum.

Ekki ætla ég að reyna að útskýra fyrir fólki muninn á reglugerð um þjóðgarða annarsvegar, og sérlögum um þjóðgarða hinsvegar... né heldur hvernig þrír verður að fjórum á síðunni hjá UST. 


Okurverð á eiturlyfjaprófum

Allveg er ég gáttaður á að forvarnarstarf á Íslandi skuli virkilega vera í þeim sporum að foreldrar sem eru að reyna að halda unglingunum sínum frá eiturlyfjum, og nota m.a. til þess prufur til að dífa í piss, skuli þurfa að punga út stórum upphæðum til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Og í ofanálag er það þannig að svona dóptest sem keypt eru dýrum dómum í apótekum landsins, eru ólík eftir því hvaða eiturlyf á að kanna. Þannig að til að prófa unglinginn sinn fyrir helstu lyfjum á markaðnum þarf jafnvel að kaupa tvö til þrjú ólík eiturlyfjapróf, sem hvert kostar kannski í kringum tvö þúsund krónur. Og unglinga sem eru í mestri hættu þarf kannski að prófa oft í mánuði. Svona prufur sem hafa fælingarmátt og fyrirbyggjandi áhrif, á ríkið að niðurgreiða og sýna að þar sé mönnum alvara með forvarnarstarfi gegn eiturlyfjanotkun unglinga, en því miður hefur skort mikið upp á að það sé reyndin í verki.

Súrefnisríkur öldugangur og Spánskaveikin

Hef verið að fara niður á Borgarsand við Sauðárkrók til að hlaupa þar og ganga mér til heilsubótar. Fjaran út á Söndum, eins og Króksarar kalla hana, er um 4 km löng, með opinn Skagafjörðinn á aðra hönd og uppgrædda sandhóla á hina. Maður er algjörlega í eigin heimi í þessari útivistarparadís, þar sem öldurnar framleiða ofurskammta af súrefni fyrir þanin lungun. Fyrir um 90 árum síðan var afa mínum heitnum, Jóni Eðvald Guðmundssyni, ráðlagt það af lækninum sínum að fara daglega niður í fjöru og draga þar andann djúpt um stund, til að ná sér eftir Spönskuveikina. Súrefnisríkt ölduloftið virkaði vel, afi var óvenju fljótur að ná sér og lenti því ekki í hópi þeirra tæplega fimm hundruð Íslendinga sem veikin drap. Á heimsvísu létust ekki minna en 25 milljónir manna úr þessari þeirra tíma fuglaflensu, sem rakti uppruna sinn til Bandaríkjanna en ekki Spánar.

Betrumbætt skógarsaga

Heimspekilegar vangaveltur á borð við þá að ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? hafa orðið tilefni skemmtilegra umræðna í gegnum tíðina. Ný útgáfa af þessari heimspekilegu pælingu hljómar svona: Ef karlmaður talar einn í skógi og engin kona heyrir til hans, hefur hann samt rangt fyrir sér? LoL

Drepa skólarnir sköpunargáfuna?

Á flandri mínu hér á blogginu í dag ráfaði ég inn á síðuna hans Jóhanns Björnssonar, eins og ég hef stundum gert áður. Að þessu sinni voru það þó skrif Kristjáns Guðmundssonar í athugasemdadálknum sem vöktu athygli mína; eða öllu heldur slóð sem hann benti á þar. Rétt í þessu var ég að ljúka við að hlusta á sir Ken Robinson flytja einhvern fróðlegasta og skemmtilegasta fyrirlestur sem ég hef lengi hlýtt á. Ef þið hafið áhuga á því að heyra um hvert við erum að stefna með menntun barnanna okkar, þá endilega smellið hér.

Hvenær segir maður heill og sæll og bless?

Það vefst fyrir mörgum hvenær þeir eiga að heilsa og kveðja. Ég var kominn yfir þrítugt þegar ég var upplýstur um það að sá sem kemur að, og sem sá sem fer (frá þeim sem fyrir er á staðnum), á að vera fyrri til að heilsa og kveðja. Yngra fólk telur gjarnan að þegar fullorðinn á í hlut, eigi sá eldri að heilsa og kveðja, eða vera fyrri til að bjóða góðan dag. Fólk á miðjum aldri kann þetta oft ekki heldur; gengur inn í herbergi og bíður eftir að því sé heilsað... eða finnst kannski bara óþarfi að viðhafa svona gamaldags kurteisi... og lætur það alveg ógert að heilsa. Það einfaldar hinsvegar margt í mannlegum samskiptum ef fólk kann þetta og notar rétt.

Lýsi dregur úr líkum á elliglöpum og geðsjúkdómum

Hollusta lýsis hefur löngum verið þekkt á Íslandi og hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu ár staðfest þetta. Ný rannsókn sýnir minni líkur á elliglöpum neyti menn Omega-3 fitusýra sem eru í lýsi; aðrar rannsóknarniðurstöður benda til að lýsi geti ekki bara haft góð áhrif á hjarta- og gigtarsjúkdóma, heldur einnig geðsjúkdóma. Þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi og annarri dimmudepurð ættu því daglega að innbyrða matskeið af þorskalýsi.

Villur á Wikipedia staldra stutt við

Notkun alfræðisíðunnar Wikipedia er ört vaxandi. Í samanburði við alfræðiritið Britanica, sem hefur 80 þúsund umfjöllunarefni, þá inniheldur Wikipedia nú um 1 milljón atriða. Almennir notendur setja sjálfir inn efni á Wikipedia, en sérfræðingar skrásetja allt sem fer í Britanica. Þetta þýðir að oft slæðast villur inn á Wikipedia, en miðað við könnun IBM þurfum við ekki að óttast þær svo mjög. Vegna þess hve margir virkir notendur með vökul augu eru á Wikipedia, fá rangfærslur að meðaltali ekki að hanga þar inni nema í um fjórar mínútur.

Eins fyrirtækis samfélag

Slæm reynsla víða um veröld af því að byggja atvinnustarfsemi heils samfélags á einu fyrirtæki er nú að koma í ljós fyrir austan. Ofurvald Alcoa á Reyðarfirði yfir samfélaginu þar lýsir sér í harkalegri framkomu við starfsfólk sem það hafði boðið gull og græna skóga og fagra framtíð. Fjöldi manns sem féll fyrir gylliboðinu og flutti austur, er að byrja að upplifa þvílíkt heljartak þetta fyrirtæki hefur á samfélaginu öllu; langflestir íbúarnir og sömuleiðis fyrirtækin þurfa að bukka sig og beygja eins og Alcoa þóknast. Ómanneskjulegar uppsagnir tveggja kvenna þar nú í vikunni eru bara upphafið að valdníðslunni sem í vændum er.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband