Ævintýri Snússa litla í Kína – 2. hluti

Snússi á degi tvö í KínaveldiDagur tvö hjá okkur Snússa hófst með morgunmat á Grand View hótelinu, þar sem boðið var upp á margt það skrýtnasta sem sést hefur á slíkum hlaðborðum. Til að komast fyrr inn í kúltúrinn og bakteríuflóruna létum við okkur hafa það að smakka á flestu, þótt það lyti ókræsilega út. Það skal þó tekið fram að áður en farið var af herberginu var innbyrtur gúlsopi af íslensku þorskalýsi sem við höfðum með okkur. Eftir morgunverð gengum við svo um 15 kílómetra leið, frá hótelinu og alla leið niður að Szeaworld í Sekou, í yfir tuttugu stiga hita. Gangan tók tæpa fjóra tíma um breiðgötur og öngstræti og fengum við beint í æð alla hina fjölbreyttu flóru kínverskrar götumenningar; verkamenn í hádegislúr á gangstéttinni, betlarar og Benzar, háværir strætóar og hljóðlát reiðhjól með sligandi hlass. Við Snússi erum nú komnir heilu og höldnu heim á hótel, og berjumst við að halda okkur vakandi fram á síðkvöldið til rétta af rammskakkan sólarhringinn.

Snússi kemur til Kína

Snússi nýlentur í KínaEftir þrettán klukkutíma langt flug frá London lentum við Snússi í Hong Kong í dag. Þjónustan hjá BA var góð, nóg að borða og drekka og allt frítt, auk þess sem afþreyingarefnið um borð í 747-vélinni virkaði vel. Svo var farið með katamaran-ferju yfir til Shenzhen (13 millj. manna borg), en lítið sást á leiðinni af eyjum eða annarri náttúrufegurð sökum mengunarmisturs. Sá hluti borgarinnar sem við erum í er talsvert ferðamannasvæði, með vestrænum og alþjóðlegum áhrifum og mikið líf á götunum. Enda fór það svo að flugþreyttir félagar fengu sinn fyrsta fæðuskammt á thailenskum veitingastað þegar kvölda tók. Nú er klukkan að ganga tólf hér í suður-Kína, sem er líklegast um átta klukkustundum á undan íslensku klukkunni; tími til kominn að fara í lúr og gera tilraun til að snúa sólarhringnum í átt til nýrra tíma. (Fyrir þá sem ekki vita er Snússi bangsinn hans Guðmundar Jónssonar (6 ára), og fékk að koma með til Kína sem sérlegur sendibangsi íslenskra kollega sinna – sjá mynd)

Bjartir tímar framundan

Það stefnir allt í að fyrri hluti desember verði frábær fyrir mig til að öðlast tækifæri sem ég hafði áður ekki komið auga á. Vinna sem felur í sér þjónustu við aðra getur byrjað núna og fært mér mikla gleði og lífsfyllingu. Hjálpin virðist ætíð vera á næsta leyti þegar ég þarfnast hennar. Vinnan og framinn blómstra og vinir mínir reynast sérlega hjálpsamir. Þegar kemur að viðskiptunum ganga þau bara vel. Um miðjan desember kíkir Júpíter svo aðeins á sólina mína og það hefur sérlega jákvæð áhrif á sjálfsöryggi mitt; ég svíf um með vor í hjarta. Þessi áhrif munu reyndar haldast út næsta ár og hjálpa mér til að gera árið 2008 mjög arðvænlegt. Tja, það væri nú ekki amalegt ef þessi stjörnuspá steingeitar fyrir desembermánuð í Moggablaði dagsins myndi rætast:)

Það sem vantar í umræðuna

Eitt sem ekki hefur farið hátt í þessari umræðu er að ef vínsala færist í matvöruverslanir, þá verður ríkið af tekjum af áfengissölu. Það er hinsvegar ríkið sem stendur straum af öllum kostnaði sem áfengisneysla hefur í för með sér; í heilbrigðiskerfinu, hjá löggæslunni, í forvörnum o.s.frv. Út frá þessum sjónarmiðum er eðlilegast að sem allra mest af tekjum af áfengissölu renni áfram í ríkissjóð.
mbl.is Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kartöflurefsingin ógurlega

Ég skrifaði um þetta um daginn hér á síðunni, þar sem ég varaði við því að kartöflunni væri gert svona lágt undir höfði og hún notuð sem refsing. Frekar væri að gefa óþekkum börnum olíumettaða franska kartöflu eða viðbrenndan gamlan hamborgara, svona ef við horfum á þetta af uppeldisábyrgð í næringarsamhengi.
mbl.is Paris og Britney eiga að fá kartöflu í skóinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Gunnar í Krossinum lagði á mig hendur

Eitt sinn vann ég hjá fyrirtæki þar sem eigendurnir voru góðir vinir Gunnars í Krossinum. Eftir að nuðað hafði verið mikið í mér, lét ég eftir þeim að reyna sig við mína glötuðu sál (að þeirra mati). Þeir krupu tveir með spenntar greipar framan við skrifborðið mitt, með Gunnar standandi á milli sín. Hann lagði hendur á höfuð mitt, herbergið fylltist af hávaðasömu guðstali þeirra þriggja og allt nötraði og skalf. Eftir dágóða stund var ég spurður að því hvort ég fyndi ekki eitthvað. Ég skynjaði ekkert yfirnáttúrulegt, bara titrandi sveittar hendur Gunnars á höfði mér, og flokkast því enn í margra hugum sem trúlaus glötuð sál.

Kínverskar biðraðir

Hugsanlega er biðraðamenning Kínverja eitt af því mest stuðandi fyrir aðkomumenn sem ekki til þekkja, en þar þykir eðlilegt að hrinda, ýta og troða sér fram fyrir næsta mann í röðinni. Útlendingum sem lenda í biðröð í Kína er ráðlagt að draga djúpt andann, standa fastir fyrir og láta óhræddir í ljós óánægju ef einhver riðst framfyrir, t.d. með því að endurheimta með afli sína stöðu í röðinni. Sérstaklega er varað við því að láta mikla snertingu og nálægð trufla sig. Í kínverskum biðröðum þarf að berjast í orðsins fyllstu merkingu fyrir sínum rétti og sinni stöðu, en mjög mikilvægt er að forðast í þessum atgangi öllum að taka stympingar heimamanna persónulega.


Tvær gátur

Gáta 1: Spækjurnar sjá um glennuna, meðan karlinn heldur þétt um skaftið.

Gáta 2: Loðið lint, stundum stinnt, stendur á milli fóta, karlmenn eiga en konur af því njóta.

Lausnir í athugasemdum 


Akstur sviptur ökurétti?

Hverslags dómsdags steypa er þetta eiginlega? Hvað þýðir það að vera dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti? Ég fer ekki ofan af því að hroðvirknisleg vinnubrögð eru vaxandi vandi í blaðamannastétt.
mbl.is Mánaðar fangelsi fyrir að stela vodkapela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrefnisríkur öldugangur og Spánskaveikin

Hef verið að fara niður á Borgarsand við Sauðárkrók til að hlaupa þar og ganga mér til heilsubótar. Fjaran út á Söndum, eins og Króksarar kalla hana, er um 4 km löng, með opinn Skagafjörðinn á aðra hönd og uppgrædda sandhóla á hina. Maður er algjörlega í eigin heimi í þessari útivistarparadís, þar sem öldurnar framleiða ofurskammta af súrefni fyrir þanin lungun. Fyrir um 90 árum síðan var afa mínum heitnum, Jóni Eðvald Guðmundssyni, ráðlagt það af lækninum sínum að fara daglega niður í fjöru og draga þar andann djúpt um stund, til að ná sér eftir Spönskuveikina. Súrefnisríkt ölduloftið virkaði vel, afi var óvenju fljótur að ná sér og lenti því ekki í hópi þeirra tæplega fimm hundruð Íslendinga sem veikin drap. Á heimsvísu létust ekki minna en 25 milljónir manna úr þessari þeirra tíma fuglaflensu, sem rakti uppruna sinn til Bandaríkjanna en ekki Spánar.

Munur á lífskjörum og lífsgæðum

Í fræðilegri umfjöllun er oftast gerður greinarmunur á lífskjörum og lífsgæðum. Algengast er að lífskjör séu skilgreind sem efnislegir þættir, s.s. tekjur á vinnumarkaði og atvinnustig, en erfiðara er að leggja peningalegan mælikvarða á lífsgæði, þar sem þau mæla staðbundna þætti sem veita fólki hamingju. Margir halda því t.d. fram að lífsgæði séu meiri á landsbyggðinni, en þar eru lífskjör sannanlega lakari en á höfuðborgarsvæðinu. Um þetta má m.a. lesa hér

mbl.is Lífskjör best á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best er að sjást

Ef ég man þetta rétt sagði einhver gömul kona: Sendibréf eru góð, betra er að heyrast, en best er að sjást!  Nútildags hafa tölvupóstar og samskipti á msn eða sms leyst sendibréfin af hólmi. Símtöl eru auðvitað notuð sem aldrei fyrr í samskiptum manna á milli, en samt jafnast ekkert á við að að sjá og njóta nærveru þess sem talað er við.

Sannar sögur úr sveitinni

Kona ein kom slompuð heim um nótt og fór beint inn í myrkvað hjónaherbergið. Hún reif sig úr fötunum, skreiddist undir sæng og teygði sig yfir til eiginmannsins. Í svefnrofunum teygði hann sig á móti, en þrátt fyrir að vera nokkuð sljó skynjaði hún að hann var bæði stífari og ilmaði öðruvísi en vanalega. Það sem hún ekki vissi var að eiginmaðurinn hafði, eftir að hún fór út um kvöldið, ákveðið að skella sér líka út á lífið. Og þrátt fyrir að vera dauðsyfjaður sjálfur hafði afinn boðist til skjótast yfir og passa fyrir son sinn. Eins og gefur að skilja varð heilmikill vandræðagangur í hjónarúminu þegar hið rétta kom í ljós, og tengdadóttirin og tengdafaðirinn slitu sig óttaslegin úr faðmölögum hvort frá öðru.

Hrepparígur hamlar framþróun í Kína

Undirbúningur fyrir Kínaferðina stendur nú sem hæst, bólusetningar fyrir allskyns kvillum og framandi bakteríuflóru, umsókn um vegabréfsáritun og frágangur á lausum endum. Borgin sem ég er að fara til heitir Shenzhen og liggur svo gott sem áföst Hong Kong. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu þessar borgir að vera að vinna saman, t.d. að Svæðisskipulagi og sameiginlegri framtíðarsýn, en bæði er að viðskiptaveldið í HK hefur verið tregt í taumi til þess, auk þess sem lítið hefur verið gert í stjórnkerfinu fyrir ofan sveitastjórnarstigið til að auðvelda borgunum þetta. Það er því víðar en á litla Íslandi sem ytri aðstæður og hrepparígur hamlar eðlilegri framþróun svæða.

Frost í samskiptum á ritstjórn

Það færist í aukana að tvær fréttir um sama efni séu í sama fjölmiðli á sama tíma. Þetta á bæði við um dagblöð og fréttanet, eins og t.d. núna á mbl.is. Þessi hefur fyrirsögnina Talsvert frost víða um land, en hin, sem er nánast um sama efni heitir Víða talsvert frost í dag. Gera verður meiri kröfur en þetta til alvöru fjölmiðla, að hægri hendin viti hvað sú vinstri er að aðhafast.

mbl.is Talsvert frost víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í þá daga mátti ekki gefa kynlíf í skyn

Skafti Ólafsson söngvari hefur í dag verið gestur Freys Eyjólfssonar í þættinum Geymt en ekki gleymt á Rás 2. Hann sagði m.a. frá því að lagið Allt á floti hafi eitt sinn verið bannað í Útvarpinu. Tímarnir hafa sannarlega breyst, því ástæðan var aðallega lokaerindi textans, þar sem segir:

Ég kem til þín í kvöld, við kossa blíða og ástareld

Bæði gleymum við stund og stað,

ég seg’ ei meir’ um það!

Þá verður allt á floti allsstaðar...


Hræðileg hálka...

... sem ræðst á bílstjórann og lætur hann keyra ógætilega við vondar aðstæður með alltof lítið veggrip...  Þetta er svona eins og að segja: Maður hljóp fram af hömrum, og má rekja slysið til hamranna!


mbl.is Þrír létust og 24 slösuðust í rútuslysi í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkjaveisla í Ameríkunni

Einn góður vinur minn býr vestanhafs og hefur gert um einhverra ára skeið. Í msn-spjalli áðan sagði hann mér frá því að nú væri Þakkargjörðardagur, og að hann væri á leiðinni í Tyrkjaveislu. Ég fór eitthvað að spyrja út í það og fékk þá að vita að Tyrkinn yrði étinn; hann væri í ofninum og alveg að verða steiktur. Hvítir Bandaríkjamenn hafa nú oft komið illa fram við fólk með annan hörundslit, en þetta fannst mér fullmikið af því góða. Ég komst svo að hinu sanna í málinu þegar hann spurði: Hvað heitir það annars á íslensku, Turkey?

Samfarir við álfa?

Þetta er auðvitað ekkert sniðugt, en mér dettur samt í hug sagan af prestinum sem var að ræða álfa og huldufólk við söfnuð sinn. Hefur einhver séð álf? spurði prestur. Allnokkrir réttu upp hendi. En hefur einhver talað við álfa? spurði sérann næst. Örfáir réttu upp hönd. En, spurði prestur "hefur einhver haft samfarir við álf?" Aðeins einn gamall heyrnadaufur afdalabóndi á aftasta bekk rétti upp hendi og söfnuðurinn sneri við hausum. Hvað segirðu Egill minn, hefur þú haft samfarir við álf? spurði þá prestur forviða. "Ha... sagðirðu álf?" svaraði Egill vandræðalegur á svip, "mér heyrðist þú segja kálf!"

mbl.is Grunaður um að hafa nauðgað hundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skólinn loks að slíta sig frá kirkjunni?

Samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins er börnum nú óheimilt að fara í ferðir á skólatíma sem tengjast fermingafræðslu. Bréf um þetta efni var sent grunnskólum landsins í síðustu viku. Þessu fagna ég, sem hef lengi gagnrýnt hvað kirkjan hefur víða óheftan aðgang að skólabörnum. Að mínu mati eiga trúboð og fræðsla, kirkja og skóli, menntun og trúmál, enga samleið. Af gefnu tilefni má líka taka fram að börn sem eru annarrar trúar, fermast borgaralegri fermingu, eða kjósa að fermast ekki, hafa verið algjörlega utanveltu í því fyrirkomulagi sem verið hefur við lýði.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband