Ruv.is sagði frá þessu líka, en endaði fréttina á öðrum nótum:
Fréttaritari BBC segir þetta mikla bjartsýni og byggða á hagstæðri framvindu mála á aðeins örfáum mánuðum...
...Ýmiss ný vandamál séu þó í augsýn. Þannig segir Independent frá einu þeirra í dag. Æ fleiri bændur hafi horfið frá hefðbundnum landbúnaði og snúið sér að ræktun valmúa til heróínframleiðslu. Þessir bændur njóti verndar vígasveita, bæði sjíta og súnníta, sem leggi stund á glæpi.




Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrir margt löngu sá ég í útlöndum í fyrsta sinn fólk, oftast komið alllangt að austan, sem stóð í sérkennilegum stellingum í almenningsgörðum. Þessar manneskjur hreyfðu sig hægt og tignarlega og virtust sem þær væru af öðrum heimi en iðandi borgarsamfélagið allt í kring. Þó mér þætti þetta á einhvern hátt heillandi var ég viss um að þetta fólk væri skrítnara en við flest. En með tímanum breytist maður og fyrir nokkrum dögum rakst ég á
ókeypis mini-námskeið í Tai Chi á netinu sem ég skráði mig á. Nú fæ ég reglulega sendar kennslustundir í tölvupósti frá kennaranum, Al Simon í Bandaríkjunum, og allt stefnir í að ég verði áður en langt um líður einn af þessum skrítnu sem hreyfa sig á dularfullan hátt í slómó út um allar koppagrundir.




Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sendi mínar bestu óskir um gleðilega hátíð og þakka fyrir árið sem nú er að ljúka. Vona að nýja árið beri með sér gæfu og verði þér í alla staði gefandi og gott.
Jólakveðjur af Krók
Jón Þór




Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Nú er ferðalag okkar Snússa til Kína senn á enda... í bili allavega. Hér í Kína eru ekki haldin jól eins og við þekkjum þau á Vesturlöndum, þótt svo allt sé hér skreytt með jólasveinum, -trjám og glitrandi dinglumdangli, fyrst og fremst held ég til að koma fólki í stemningu og innkaupastuð. Þar sem Snússi er mikill jólabangsi getur hann ekki hugsað sér annað en að koma heim til Íslands og halda jól með sínum nánustu þar. Síðustu dagar hjá okkur hafa farið í soga enn frekar í okkur kínverska menningu, kveðja fólk og taka myndir af því sem á hér í okkur sterkastar taugar. Við Snússi kveðjum Suður-Kína með söknuði á morgun, þegar við förum um Hong Kong og London til Íslandsins kalda í norðrinu.




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Helgin fór í ferðalög hjá okkur Snússa, sem lögðum ferju undir fót yfir flóann hér vestur af Shenzhen. Fyrst heimsóttum við skófabrikku Óskars Jónssonar,
Green Diamond, en hann tók einkar vel á móti okkur samlöndum sínum. Við borðuðum saman níu manns og áttum gott spjall, en svo gisti hópurinn í vellandi niðurníddum lúxus á hótel Ambassador í Zhongshan, sem sannarlega má muna sinn fífil fegurri. Sunnudagurinn fór svo fyrir lítið fé (ca 2000 kr) í spilavítunum í fyrrum portúgölsku nýlendunni
Macau, en sá staður hefur svipaðan status og Hong Kong að því leitinu að þegar þangað kemur fer maður yfir landamæri og út úr Kína. Macau er nokkurskonar Las Vegas Asíu og þarna var allt yndislega yfirdrifið; í stærðum, dirfskufullri hönnun og yfirþyrmandi neonljósadýrð. Við komum svo með ferjunni yfir flóann í kvöldkyrrðinni og var Snússi hinn hressasti með ferðina, eins og sjá má hér á myndinni, þar sem hann veifar sínum fyrsta spilavítishagnaði.




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrátt fyrir lasindin hefur maður látið sig hafa það að dröslast með Angelu og strákunum út og suður í verslanaráp, veitingahúsaferðir og verksmiðjuheimsóknir. Yfirferðin hefur þó ekki alltaf verið hröð á manni, en það er að skila sér í því að heilsan er að koma til baka. Um daginn skoðuðum við verksmiðjur í afgirtu hverfi, þar sem fólk bæði vinnur og býr. Aðbúnaðurinn í verksmiðjunni var

ágætur en í subbulegum blokkunum í kring gista átta manns í kojum í einu litlu herbergi. Yfirmenn og hærra settir hafa það betra og eru með rýmra um sig, þeir gista saman fjórir í herbergi. Launin eru í kringum 10 þús kr á mánuði, en vel útilátin hádegismáltið kostar hinsvegar aðeins fimmtíu krónur. Þetta eru allt afstæðar stærðir, en áðan snæddum við tíu karlar saman kvöldmáltíð á kínversku veitingahúsi fyrir minna en þrjú þúsund krónur með drykkjum og alles. Eftir matinn fengum við okkur kaffi á Starbucks, þar sem kaffibollinn kostar 200 kall. Hér heitir það ekkert annað en rán um hábjartan dag, því það tæki verkamanninn í verksmiðjunni um sex klukkutíma að vinna fyrir kaffinu á amrísku alþjóðakeðjunni. Ég sötraði kaffið á um tuttugu mínútum, meðan nettvaxinn heimamaður gljápússaði leðurskóna mína fyrir hundraðkall. Snússi er líka allur að hressast og biður að heilsa heim á Krók.




Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Dagurinn hefur verið viðburðasnauður, enda lasleiki með nefrennsli og hálsbólgu farinn að gera vart við sig; kínverskur krankleiki búinn að brjótast í gegnum mínar íslensku varnir. Það var þó aðeins

rölt í bæinn í dag, verslað smáræði og skipt íslenska simkortinu í símanum út fyrir kínverskt kort; það munar margföldum stórupphæðum þegar við félagarnir erum að hringjast á hérna niðurfrá. Á meðan er ég sambandslaus við hinn íslenska veruleika... nema um msn, skype og tölvupósta. Í kaffispjalli komust við félagar að því að verðlagning hér er ekki í neinu samræmi við kostnað, heldur hvað menn telja sig komast upp með að rukka. Þannig getur kókglas kostað 200 kall á einum stað, meðan full máltíð fyrir tvo kostar aðeins 500 kall á öðrum stað. Og það er allt eins til í dæminu að einhver skemmtistaðurinn reyni að rukka mann um 500 kall fyrir rauðvínsglasið, sem er hærri upphæð en maður greiðir fyrir topp nuddþjónustu í tæpan einn og hálfan klukkutíma. Eitt er það þó sem böggar mig einna mest hérna niðurfrá, en það er að hér er öll vefumferð ritskoðuð. Þetta lýsir sér þannig að ef ég reyni að opna síðu sem yfirvöldum er ekki þóknanleg, t.d. Wikipediu, þá bara birtist ekki neitt... þeir klippa bara á mann! Já, það er margt skrýtið í kínverska kýrhausnum!




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Í dag fluttum við Snússi okkur á milli hótela í Shenzhen; fórum nær aðalsvæðinu í Sekou-hverfinu, þar sem frændi og félagar búa; þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru fleiri og menningin líflegri. Við vorum lúnir eftir burð og göngur og hvíldum okkur sveittir í skugga undir tré á gangstéttinni; óbærilegur desemberhitinn hér í suður-Kína ætlar allt að kæfa ef maður hreyfir meira en einn lið og hálfan legg. Fæturnir voru bólgnir af göngu og því ekkert annað að gera en að fara í nudd. Snússi vildi ekki fótanudd og beið því slakur á meðan undir trénu góða. Á meðan lappirnar hvíldu lúnar í tréfötu með heitu vatni og söltum á nuddstaðnum, nuddaði kínverski strákurinn bak, herðar og háls svo gamlir hnútar losnuðu umvörpum, með tilheyrandi stunum. Svo hófst hann handa við fæturna; ilja- og svæðanudd, kálfa- og læranudd, með allrahanda olíum og náttúrefnum. Út kom minn maður endurnærður á bæði líkama og sál, og auðvitað var Snússi glaður að sjá afa sinn, enda hafði hann beðið í tæpan einn og hálfan tíma. Herlegheitin kostuðu alls RMD 48, eða um 430 krónur íslenskar, fyrir um áttatíu mínútna topp trít! Dagurinn endaði svo í ljúfum fíling á sveiflandi latin-tónleikum niðri í bæ, allt þar til nóttin dró okkur dimm inn í sig.




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Í dag fengum við félagarnir Snússi og ég, ásamt þeim þeim Binna og Indy, frábæra leiðsögn um borgina þvera og endilanga af heimakonunni yndislegu, Angelu Wang. Eftir hádegi var farið af stað í verslunarferð í þá hrikalegustu markaði sem maður hefur heimsótt; bæði var stærðin slík, auk þess sem vörur voru misjafnlega mikið falsaðar og ágengni sölumanna með ólíkindum. Að lokinni þessari mögnuðu upplifun fór Angela með okkur á ekta kínverskan háklassa veitingastað, þar sem hún pantaði sýnishorn af öllu því besta sem Kínverjar sjálfir borða alla jafna. Svo var meira verslað, en undir kvöldmat var farið á virðulegt nuddhús, á fjórum hæðum, með allri hugsanlegri þjónustu og þægindum, þar sem við fórum öll í fóta- og handsnyrtingu, eyrnahreinsun, andlitsmeðferð og enduðum á kínversku nuddi, auk þess sem við bæði snæddum ljúffenga ávexti og nutum aðstoðar fjölda þjónustufólks. Í lok dags var svo farið að dansa á Terrassen í Shekou, þar sem band frá Filippseyjum hélt uppi rokna rokkstuði inn í nóttina. Snússi var hæstánægður með daginn, þrátt fyrir að hafa misst af dansinum í lokin. Sjálfur er ég alsæll.




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
«
Fyrri síða
|
Næsta síða
»