Færsluflokkur: Ferðalög

Kúl tröllkerlingar í Keldudal

Fyrir miðjum Skagafirði liggur Hegranesið og klífur Héraðsvötn í tvennt. Þar eru klettaborgir miklar og þaðan sprottnar margar sagnir um álfa og huldufólk. Sunnarlega á nesinu er ferðaþjónustubýlið Keldudalur, þar sem m.a. hefur fundist merkilegur grafreitur úr heiðni. En þar eru líka álfar og huldufólk, og það sem meira er, líka tröllkerlingar. Sjáandi einn var fenginn til að ganga um jörðina og rissa upp og lýsa því sem fyrir augu bar. Ferðamenn sem gista í Keldudal geta fengið þessar teikningar plastaðar með í gönguferð um svæðið, en á einni þeirra má sjá heljarmikla tröllkerlingu, bera að ofan með flennistór brjóst. Þarna eru því álfar, huldufólk og tröllkerlingar... fyrir alla fjölskylduna!

Að láta draumana rætast

Ég dáist að fólki eins og Huldu Björnsdóttur, sem sagt er frá í sunnnudagsblaði Moggans nú um helgina, sem seldi allt sitt á Íslandi og flutti til Fuzhou í Kína. Þar ætlar hún að starfa við að kenna ensku og dans, en á Íslandi hafði hún unnið á skrifstofu sama fyrirtækis í 24 ár. Hulda er hugrökk kona sem sýnir fram á að það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast, jafnvel ekki þegar komið er fram á sjötugsaldurinn!

Snússi á heimleið

Snússi kominn í jólaskapið

 

Nú er ferðalag okkar Snússa til Kína senn á enda... í bili allavega. Hér í Kína eru ekki haldin jól eins og við  þekkjum þau á Vesturlöndum, þótt svo allt sé hér skreytt með jólasveinum, -trjám og glitrandi dinglumdangli, fyrst og fremst held ég til að koma fólki í stemningu og innkaupastuð. Þar sem Snússi er mikill jólabangsi getur hann ekki hugsað sér annað en að koma heim til Íslands og halda jól með sínum nánustu þar. Síðustu dagar hjá okkur hafa farið í soga enn frekar í okkur kínverska menningu, kveðja fólk og taka myndir af því sem á hér í okkur sterkastar taugar. Við Snússi kveðjum Suður-Kína með söknuði á morgun, þegar við förum um Hong Kong og London til Íslandsins kalda í norðrinu.


Snússi á ferð í Zhongshan og spilavítisborginni Macau

Snússi með HongKongDollar í hagnaðHelgin fór í ferðalög hjá okkur Snússa, sem lögðum ferju undir fót yfir flóann hér vestur af Shenzhen. Fyrst heimsóttum við skófabrikku Óskars Jónssonar, Green Diamond, en hann tók einkar vel á móti okkur samlöndum sínum. Við borðuðum saman níu manns og áttum gott spjall, en svo gisti hópurinn í vellandi niðurníddum lúxus á hótel Ambassador í Zhongshan, sem sannarlega má muna sinn fífil fegurri. Sunnudagurinn fór svo fyrir lítið fé (ca 2000 kr) í spilavítunum í fyrrum portúgölsku nýlendunni Macau, en sá staður hefur svipaðan status og Hong Kong að því leitinu að þegar þangað kemur fer maður yfir landamæri og út úr Kína. Macau er nokkurskonar Las Vegas Asíu og þarna var allt yndislega yfirdrifið; í stærðum, dirfskufullri hönnun og yfirþyrmandi neonljósadýrð. Við komum svo með ferjunni yfir flóann í kvöldkyrrðinni og var Snússi hinn hressasti með ferðina, eins og sjá má hér á myndinni, þar sem hann veifar sínum fyrsta spilavítishagnaði.

Kvef í kínverska kýrhausnum

Dagurinn hefur verið viðburðasnauður, enda lasleiki með nefrennsli og hálsbólgu farinn að gera vart við sig; kínverskur krankleiki búinn að brjótast í gegnum mínar íslensku varnir. Það var þó aðeinsSnússi á kínversku veitingahúsi rölt í bæinn í dag, verslað smáræði og skipt íslenska simkortinu í símanum út fyrir kínverskt kort; það munar margföldum stórupphæðum þegar við félagarnir erum að hringjast á hérna niðurfrá. Á meðan er ég sambandslaus við hinn íslenska veruleika... nema um msn, skype og tölvupósta. Í kaffispjalli komust við félagar að því að verðlagning hér er ekki í neinu samræmi við kostnað, heldur hvað menn telja sig komast upp með að rukka. Þannig getur kókglas kostað 200 kall á einum stað, meðan full máltíð fyrir tvo kostar aðeins 500 kall á öðrum stað. Og það er allt eins til í dæminu að einhver skemmtistaðurinn reyni að rukka mann um 500 kall fyrir rauðvínsglasið, sem er hærri upphæð en maður greiðir fyrir topp nuddþjónustu í tæpan einn og hálfan klukkutíma. Eitt er það þó sem böggar mig einna mest hérna niðurfrá, en það er að hér er öll vefumferð ritskoðuð. Þetta lýsir sér þannig að ef ég reyni að opna síðu sem yfirvöldum er ekki þóknanleg, t.d. Wikipediu, þá bara birtist ekki neitt... þeir klippa bara á mann! Já, það er margt skrýtið í kínverska kýrhausnum!

Ævintýri Snússa litla í Kína - 5. hluti

Snússi hvílir lúna leggiÍ dag fluttum við Snússi okkur á milli hótela í Shenzhen; fórum nær aðalsvæðinu í Sekou-hverfinu, þar sem frændi og félagar búa; þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru fleiri og menningin líflegri. Við vorum lúnir eftir burð og göngur og hvíldum okkur sveittir í skugga undir tré á gangstéttinni; óbærilegur desemberhitinn hér í suður-Kína ætlar allt að kæfa ef maður hreyfir meira en einn lið og hálfan legg. Fæturnir voru bólgnir af göngu og því ekkert annað að gera en að fara í nudd. Snússi vildi ekki fótanudd og beið því slakur á meðan undir trénu góða. Á meðan lappirnar hvíldu lúnar í tréfötu með heitu vatni og söltum á nuddstaðnum, nuddaði kínverski strákurinn bak, herðar og háls svo gamlir hnútar losnuðu umvörpum, með tilheyrandi stunum. Svo hófst hann handa við fæturna; ilja- og svæðanudd, kálfa- og læranudd, með allrahanda olíum og náttúrefnum. Út kom minn maður endurnærður á bæði líkama og sál, og auðvitað var Snússi glaður að sjá afa sinn, enda hafði hann beðið í tæpan einn og hálfan tíma. Herlegheitin kostuðu alls RMD 48, eða um 430 krónur íslenskar, fyrir um áttatíu mínútna topp trít! Dagurinn endaði svo í ljúfum fíling á sveiflandi latin-tónleikum niðri í bæ, allt þar til nóttin dró okkur dimm inn í sig.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 4. hluti

Í dag tókum við Snússi rólegan laugardag í Sekou; röltum um og fylgumst með mannlífinu í sólskininu. Í bænum var komið við í banka til að skipta dollurum, og það tók nú drjúga stund. Fyrst fyllti ég út eitt eyðublað, svo fyllti bankastarfsmaðurinn út tvö eða þrjú í viðbót, svo tók hann afrit af passanum mínum, en þá tók við reikistefna þriggja starfsmanna í allnokkra stund. Áður en yfir lauk hafði ég undirritað fjórum sinnum og tíminn sem það tók að skipta þessum fáeinu dollurum yfir í Yuan Renmimbi var um það bil tuttugu mínútur! Ekki sérstaklega skilvirkt það. Svo fórum við Snússi með fullt af Kínverjum út á jarðberjaakur, þar sem við týndum okkar eigin ber í körfu. Þarna var skemmtileg fjölskyldustemning í rúmlega tuttugu stiga hita; allir vönduðu sig við að stika stígana og týna fallegustu berin. Gömul kona með stráhatt vigtaði svo og rukkaði við hliðið á leiðinni út. Hún var með skiptimyntina í hátísku Gucci veski hangandi utan á sér, en þau fást hér fyrir lítið fé, í landinu þar sem kaffibollinn á hótelinu kostar meira en leigubíll í fimmtán mínútur (eða uþb 200 krónur). Kvöldið er svo frátekið fyrir stórdinner hópsins sem tengist Medialite hér í Kína.

Ævintýri Snússa litla í Kína - 3. hluti

Indy, Angela, Snússi og égÍ dag fengum við félagarnir Snússi og ég, ásamt þeim þeim Binna og Indy, frábæra leiðsögn um borgina þvera og endilanga af heimakonunni yndislegu, Angelu Wang. Eftir hádegi var farið af stað í verslunarferð í þá hrikalegustu markaði sem maður hefur heimsótt; bæði var stærðin slík, auk þess sem vörur voru misjafnlega mikið falsaðar og ágengni sölumanna með ólíkindum. Að lokinni þessari mögnuðu upplifun fór Angela með okkur á ekta kínverskan háklassa veitingastað, þar sem hún pantaði sýnishorn af öllu því besta sem Kínverjar sjálfir borða alla jafna. Svo var meira verslað, en undir kvöldmat var farið á virðulegt nuddhús, á fjórum hæðum, með allri hugsanlegri þjónustu og þægindum, þar sem við fórum öll í fóta- og handsnyrtingu, eyrnahreinsun, andlitsmeðferð og enduðum á kínversku nuddi, auk þess sem við bæði snæddum ljúffenga ávexti og nutum aðstoðar fjölda þjónustufólks. Í lok dags var svo farið að dansa á Terrassen í Shekou, þar sem band frá Filippseyjum hélt uppi rokna rokkstuði inn í nóttina. Snússi var hæstánægður með daginn, þrátt fyrir að hafa misst af dansinum í lokin. Sjálfur er ég alsæll.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 2. hluti

Snússi á degi tvö í KínaveldiDagur tvö hjá okkur Snússa hófst með morgunmat á Grand View hótelinu, þar sem boðið var upp á margt það skrýtnasta sem sést hefur á slíkum hlaðborðum. Til að komast fyrr inn í kúltúrinn og bakteríuflóruna létum við okkur hafa það að smakka á flestu, þótt það lyti ókræsilega út. Það skal þó tekið fram að áður en farið var af herberginu var innbyrtur gúlsopi af íslensku þorskalýsi sem við höfðum með okkur. Eftir morgunverð gengum við svo um 15 kílómetra leið, frá hótelinu og alla leið niður að Szeaworld í Sekou, í yfir tuttugu stiga hita. Gangan tók tæpa fjóra tíma um breiðgötur og öngstræti og fengum við beint í æð alla hina fjölbreyttu flóru kínverskrar götumenningar; verkamenn í hádegislúr á gangstéttinni, betlarar og Benzar, háværir strætóar og hljóðlát reiðhjól með sligandi hlass. Við Snússi erum nú komnir heilu og höldnu heim á hótel, og berjumst við að halda okkur vakandi fram á síðkvöldið til rétta af rammskakkan sólarhringinn.

Snússi kemur til Kína

Snússi nýlentur í KínaEftir þrettán klukkutíma langt flug frá London lentum við Snússi í Hong Kong í dag. Þjónustan hjá BA var góð, nóg að borða og drekka og allt frítt, auk þess sem afþreyingarefnið um borð í 747-vélinni virkaði vel. Svo var farið með katamaran-ferju yfir til Shenzhen (13 millj. manna borg), en lítið sást á leiðinni af eyjum eða annarri náttúrufegurð sökum mengunarmisturs. Sá hluti borgarinnar sem við erum í er talsvert ferðamannasvæði, með vestrænum og alþjóðlegum áhrifum og mikið líf á götunum. Enda fór það svo að flugþreyttir félagar fengu sinn fyrsta fæðuskammt á thailenskum veitingastað þegar kvölda tók. Nú er klukkan að ganga tólf hér í suður-Kína, sem er líklegast um átta klukkustundum á undan íslensku klukkunni; tími til kominn að fara í lúr og gera tilraun til að snúa sólarhringnum í átt til nýrra tíma. (Fyrir þá sem ekki vita er Snússi bangsinn hans Guðmundar Jónssonar (6 ára), og fékk að koma með til Kína sem sérlegur sendibangsi íslenskra kollega sinna – sjá mynd)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband