Færsluflokkur: Ferðalög

Myndir frá sjávarútvegssýningunni í Brussel

Atomium - minnisvarði um heimssýninguna 1958Hátt í tvö þúsund fyrirtæki frá um áttatíu löndum kynntu að þessu sinni vörur sínar og þjónustu á sýningunni, sem um 23 þúsund gestir heimsóttu. Flestir þeirra eru á vegum inn- og útflutningsaðila sjávarafurða, eða dreifingar- og vinnslufyrirtækja. Þessi árlega sýning, sem nú var haldin í sextánda sinn, á vafalítið bara eftir að stækka á komandi árum, ekki hvað síst vegna vaxandi almennrar þekkingar á því hve heilsusamleg neysla fiskafurða er. Smellið hér til að sjá myndir frá sýningunni og Brusselferðinni.

Allt í blóma í Brussel

Aðalinngangur og sýningarhöll nr 5Hér er vorið komið, gróðurinn vaknaður til lífsins í sólskininu síðustu daga. Við höfum meðan á sjávarútvegssýninunni stendur eytt dögunum í miðborginni, borist með straumnum um búðarstræti og bragðað á belgískum vöfflum. Þetta eru kaloríubombur hinar mestu, bornar fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum, rjómaís og bræddu súkkulaði. Samviskubit yfir áti á einni slíkri er þó lítið, þar sem mikil orka fer í göngur og erfiðisvinnu hér. Alþjóðlegar veitinga- og verslunarkeðjur gera þessa borg mörgum öðrum líka, en úrval margrómaða belgíska súkkulaðisins og konfektsins setur þó sitt sérstaka yfirbragð á miðborgina. Gamlar hallir, hús og kirkjur tengja mann við söguna, en að öðru leyti eru straumarnir mjög alþjóðlegir. Eins og mín er von og vísa hef ég skotið nokkur hundruð ljósmyndum hér, bæði innan og utan sýningarsvæðis, sem koma sér vel þegar minnið fer að svíkja og myndrænna tenginga verður þörf til að rifja upp þessa tíu góðu apríldaga hér. Gleðilegt sumar!

Myndir frá Austurríki

Austurrískar skíðabrekkurBrettaferð aldarinnar er lokið, liðið komið heim frá Austurríki og myndir byrjaðar að detta inn í myndaalbúmið hér á síðunni. Þó Moggabloggið hafi í dag, vegna afmælisins, gefið sig út fyrir að vera búið að breyta og lagfæra myndahlutann þannig að við notendur ættum auðveldara að vinna með hann, verður að segjast eins og er að hann er enn afar hæggengur og dapur, miðað við aðra vefi þar sem maður setur inn myndir. Enn er því mjög tímafrekt að setja inn myndir og þessvegna koma Austurríkismyndir inn hægt og rólega næstu daga.

Vannýtt blóðbað og voðaatburðir

Það rifjast enn og aftur upp fyrir mér í því verkefni sem ég vinn nú að, hve gríðarleg verðmæti og tækifæri Skagfirðingar eiga í Sturlungasögunni, en að sama skapi vannýtt. Hér er lítið um raunverulega “vöru” að bjóða ferðamönnum, þrátt fyrir að hér hafi farið fram bæði fjölmennustu og blóðugustu bardagar Íslandssögunnar, annarsvegar 3000 manna bardagi við Örlygsstaði, og svo lágu um hundrað manns í valnum í Haugsnesbardaga. Hér átti sér líka stað einn níðingslegasti atburður þessarar óaldar, þegar á þriðja tug manna voru brennd inni í Flugumýrarbrennu. Gissur jarl slapp eins og menn vita með því að sökkva sér í sýruker. Að lokum má svo nefna að eina sjóorustan sem háð hefur verið við Ísland (fyrir utan Þorskastríðshnoðið) hófst með siglingu skipa Kolbeins unga og hans hermanna frá Selvík á Skaga, en hann barðist við Þórð Kakala og menn hans úti fyrir Húnaflóa. Víða erlendis nýta menn mun ómerkilegri atburði til þess að búa til vinsæla áfangastaði fyrir ferðamennn, en þetta hefur okkur enn ekki tekist hér í Skagafirði.

Austurríki um næstu helgi

Spennan eykst hjá okkur unglingunum sem erum að fara þrjú saman næsta laugardag til Austurríkis í skíðaferð, en þar verðum við í heila átta daga á snjóbrettum upp um fjöll og fyrnindi. Svæðið er stærra en það sem við höfum prófað áður, og svo er hótelið líka flottara en þau sem við höfum oftast verið á. Búið er að finna tvo brettagarða í næstu dölum og þangað verður farið með Grafenberg-kláfnum, sem fer frá hóteldyrum og upp í tæplega 1.800 metra hæð; u.þ.b. þrjú þúsund metra vegalengd! Maður er ekki alveg að átta sig á þessu ennþá Grin

Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

Hrísgrjón í Kína

Hrísgrjón er sú fæða sem við tengjum einna sterkast við Kína. Þar eru víða markaðir með tugum ólíkra grjónategunda, bæði innlendra og frá nálægum Asíuríkjum. Eina tegund grjóna fundum við þó ekki á markaðnum. Eftir leit fannst hún að lokum í búð neðar í götunni sem verslar með vörur úr öðrum menningarheimi, sem menn tengja allajafna við skyndibita og ýmsa óhollustu. Þessi hrísgrjón voru frá Uncle Ben’s og kostuðu tífallt á við grjónakílóið á markaðnum. Án þess að geta alhæft um þetta virðist sem Kínverjar séu ekki mikið fyrir hýðishrísgrjón!

Nýjar myndasyrpur

Loksins er að færast líf aftur í innsetningu mynda hér á síðunni, í dag hafa dottið inn myndir af ættarmóti, brúðkaupi og svo nokkurra ára samsafn mynda úr Drangey, bæði frá ferðum þar sem lundi var háfaður og einnig úr leiðöngrum til að ná í egg. Hægt er að sjá myndirnar með því að smella hér til vinstri, á myndaalbúm.

Áningarstaðir og upplýsingaskilti fyrir ferðalanga

Hluti af verkefni sem ég stýri þessa dagana hefur kallað á upplýsingar til að setja inná kort fyrir ferðamenn í Skagafirði. Um er að ræða áningarstaði þar sem hægt er leggja bílnum, fræðast af upplýsingaskiltum eða tylla sér á bekk til að borða nestið sitt. Fornleifavernd, Þjóðminjasafnið og Vegagerðin eru helstu stofnanir sem framkvæmt hafa í þessa veru og eru víða fallegir áningarstaðir með áhugaverðum upplýsingum. Hinsvegar er alveg skelfilegur skortur á að upplýsingar um þessa staði séu aðgengilegar, t.d. á internetinu. Það skal tekið fram að starfsmenn umræddra stofnana hafa verið boðnir og búnir að svara spurningum og leiðbeina, en þetta á bara ekki að vera svona flókið. Að mínu mati er aðkallandi að bæta og auðvelda aðgang almennings að þessum upplýsingum á internetinu, því upplýsingar á þessum áningastöðum fræða og hvetja ferðamenn til að kanna betur landið sitt, kynnast nánar okkar fornu menningu og merkilegum sögustöðum.

Leitað langt yfir skammt

Þegar ég var í Kína um daginn kviknaði þörf til að skrá niður margt af því athygliverða sem maður upplifði á degi hverjum. Ég fór því að kíkja eftir lítilli minnisbók, en fann því miður ekki hentuga stærð sem fór vel í vasa; endaði þessvegna með fullt af blaðsneplum með pári á. Um daginn rakst ég svo á akkúrat rétta stærð í ritfangabúð á Íslandi. Á hillumiðanum stóð: Kínakladdi!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband