Brusselsýningin að byrja

Erum búnir að vera hér í fimm heila daga við að setja upp bása fyrir Útflutningsráð og íslensk fyrirtæki á stóru sjávarútvegssýningunni í Brussel. Klikkuð vinna í 12-14 tíma á dag fyrir Sýningakerfi ehf, en gaman í góðum hópi. Höfum enn ekki séð mikið af borginni, þar sem við bæði vinnum og búum í úthverfi. Það stendur þó til bóta á morgun, þegar sýningin byrjar og við fáum frí... loksins... allt þar til niðurrif hefst á fimmtudag. Á sýningunni flæðir allt af mat og drykkjum og stemningin fín, á þessu risastóra svæði, sem tók í fyrrakvöld tæpan klukkutíma að labba kringum. Básaeyjurnar sem við sjáum um eru í höllum 4 og 6, með stærstu höllina, nr. 5, á milli. Um 400 metrar skilja svæðin að, sem þýðir að maður labbar tæplega 10 km á hverjum degi. Grófur óábyrgur eiginútreikninginur segir að sýningin spanni uþb 50 þús fermetra. En ánægjan sem felst í því að vinna við svona er a) skammtímaverkefni (10 dagar); b) góður hópur (sex manns); c) nýtt umhverfi (fyrsta sinn í Brussel)... og allt það góða sem fæst við tilbreytingu í lífinu. Ókosturinn er að vera fjarri þeim sem manni þykir vænst um. Lífið er uppfullt af kostum og göllum, þetta er bara spurning um að njóta þess besta sem aðstæður hverju sinni bjóða upp á.

Guðdómleg golfsaga

Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði  af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!

Dásamleg Dorrit

Dorrit í skagfirskri lopapeysu - mynd: Gunnar hirðljósmyndari embættisinsHaldin var mikil menningar- og tónlistarveisla í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í gærkvöldi, þar sem hæfileikafólk á öllum aldri sýndi listir sínar fyrir forseta Íslands og frú. Í lok dagskrár fengu forsetahjónin gjafir, þ.á.m. lopapeysur. Dorrit opnaði strax sína gjöf, reif sig úr rauða jakkanum og fór í peysuna. Þvínæst tók hún upp peysu eiginmanns síns og reyndi allt hvað hún gat til að fá hann úr jakkanum og í peysuna. Óli vildi ekki leika með og þá batt Dorrit bara peysuna hans um mitt sér, eins og maður gerir gjarna í útilegum. Þessi "tískusýning" hennar, eins og eiginmaðurinn kallaði það, féll í góðan jarðveg gesta, sem sýndu henni með lófataki að þeir kunnu vel að meta hennar alþýðlegu athafnir og frísklegu framgöngu.

Brettaferð og kennsla

Einn nemenda minna í brettakennslunniÍ gær var hér í Skagafirði blíða og heiðskýr himinn. Ég greip tækifærið og skellti mér á bretti á skíðasvæðið í Tindastóli. Til að byrja með var það svolítið skrýtið að koma úr víðáttum Austurríkis í sína gömlu brekku, en þarna er enn nægur snjór og verður það trúlega langt fram í maí. Færið var frábært og ég fór nokkur nokkur góð rennsli. Á staðnum voru grunnskólabörn í heimsókn, með rassinn út í loftið, óörugg og dettandi. Engin virtist sinna því að leiðbeina þeim. Flest voru á skíðum, en fjögur á bretti. Ég stóðst ekki mátið að breiða út brettaboðskapinn og bauðst til að kenna þeim undirstöðuatriði í snjóbrettakeyrslu. Þau þáðu það með þökkum og breiðu brosi, enda komin með auman bossa og uppgjafarsvip á andlit. Við tókum einn og hálfan klukkutíma í að æfa helstu trixin; standa með rétta þungadreifingu, beita köntunum rétt og taka beygjur. Ég var sæll með að geta miðlað minni þekkingu; þau enn sælli með að finna eftir smá stund að þetta virkaði: Þau höfðu stjórn á brettunum og byltunum hafði fækkað. Síðar um daginn þegar við kvöddumst voru þau alsæl og brostu breitt, en fyrir mig varð dagurinn líka meira gefandi en ég hafði reiknað með. Það er alltaf gott að geta gefið af sér.

Orðljótur, drykkfelldur ónytjungur

Read my lips No more BushLeikstjórinn Oliver Stone er nú að vinna að mynd um George W. Bush, en hann hefur áður gert myndir um Kennedy og Nixon. Stone segist ekki vera að gera áróðursmynd gegn Bush, hann sé bara að reyna að skilja hvernig þessi maður, sem var orðljótur drykkfelldur ónýtjungur, gat orðið forseti Bna og þarmeð valdamesti maður heims (ruv.is 9.4.2008). Myndtengingin við þetta blogg segir hug minn allan: Burt með Búskinn! ;)

Myndir frá Austurríki

Austurrískar skíðabrekkurBrettaferð aldarinnar er lokið, liðið komið heim frá Austurríki og myndir byrjaðar að detta inn í myndaalbúmið hér á síðunni. Þó Moggabloggið hafi í dag, vegna afmælisins, gefið sig út fyrir að vera búið að breyta og lagfæra myndahlutann þannig að við notendur ættum auðveldara að vinna með hann, verður að segjast eins og er að hann er enn afar hæggengur og dapur, miðað við aðra vefi þar sem maður setur inn myndir. Enn er því mjög tímafrekt að setja inn myndir og þessvegna koma Austurríkismyndir inn hægt og rólega næstu daga.

Ég vil að mér sé hlýtt...

Fyrir margt löngu var á Krók kennari sem sagði þessa setningu nötrandi yfir óþekkan bekkinn sinn: Ég vil að mér sé hlítt! Einn nemandinn kenndi í brjósti um skjálfandi kennarann sinn og svaraði samúðarfullri röddu: Viltu fá lánaða peysuna mína?

Í hvað er hægt að nota kvistagöt?

Það er sígilt að gamlir starfsmenn reyni að gera at í nýjasta starfsmanninum á vinnustaðnum; þeim sem enn er blautastur bakvið eyrun. Oft verður úr þessu hið skemmtilegasta grín sem lengi er hlegið að, en það er líka stundum sem mönnum tekst ekki að gabba eins og til stóð. Um daginn hringdu félagar í Byko úr farsíma í einn sem var nýbyrjaður í timburdeildinni og spurðu hvort hann ætti 200 kvistagöt á lager. Sá nýi hváði til að byrja með, en var svo snöggur að átta sig á gríninu og svaraði því til að þau hefðu öll selst upp fyrr um daginn. Nú, sagði grínarinn hissa, hvernig gat það gerst? Jú, sagði nýi starfsmaðurinn, það kom hérna kúnni í morgun sem er að framleiða rugguhesta, og hann vantaði þau í rassgöt. Þetta var að sjálfsögðu bæði fyrsta og eina grínið sem reynt var á þennan snarþenkjandi pilt!

Stemning í Austurríki

Austurríki 18. mars 2008Nú eru tveir dagar liðnir af alls átta á snjóbrettum hér á stóra skíðasvæðinu suður af Salzburg, og hafa þeir verið vonum framar frábærir. Það reynir að vísu verulega á vöðva að renna sér svona kílómeter eftir kílómeter, endalausir valkostir, rauðar brekkur, svartar brekkur, niður, niður... í stað 1 km langrar brekkunnar í Tindastóli, sem við erum vönust. Hæst höfum við komist í tæpra tveggja kílómetra hæð, en þar eru brekkurnar og færið oftast betra en neðar. Góð þjónusta og matur einkennir þau veitingahús og fjallakrár sem við höfum prófað fram til þessa, en þau eru víða hér í fjöllunum í kring. Það jafnast þó fátt á við það að lenda með heimamönnum á krá milli fjögur og sex á daginn, eftir að skíðadegi líkur, þar sem þeir standa sveittir í hnapp og fíla í tætlur þessi ótrúlega hallærislegu austurrísku teknó-diskó-baráttu-júróvisjón lög sín. Í dag missti heil krá sig í dansi og söng og það var ótrúleg upplifun að fá að vera með í því öllu.


Eitt hundrað þúsund flettingar

Fyrir rúmu ári síðan byrjaði ég að krota hér niður þanka mína um allt og ekkert. Suma daga og vikur er maður virkur, aðra ekki. Í gær var ég óvenju duglegur, og þá heimsóttu síðuna um 270 manns. Í fyrravor kom aurflóð á Sauðárkróki, sem ég náði að ljósmynda vel og koma á örskömmum tíma hingað inn á síðuna. Þann dag var mikil traffík, rúmlega eitt þúsund gestir og yfir tuttugu og fimm þúsund flettingar. Þá vikuna komst ég líklegast í fyrsta og eina skiptið inn á topplistann. Í heildina eru nú flettingar að nálgast eitt hundrað þúsund, og þó þetta blogg sé langt frá því að vera meðal þeirra mest lesnu, þá væri ég að ljúga ef ég viðurkenndi ekki að þessi áfangi fæli í sér örlítið stolt.

Shit happens í byggingarbransanum

e269983_7AÞessi mynd, sem er úr húsi sem er til sölu á Selfossi, er dæmi um þegar menn ætla sér um of í flottheitum í byggingar- framkvæmdum, og hafa svo ekki efni á að klára. Fjármagnið kláraðist og því er glerveggurinn á klóinu í svefnherberginu enn ekki sandblásinn eins og til stóð!

Blindur blúsgítarleikari deyr

Einn magnaðasti blúsgítarleikari seinni tíma og einn af mínum uppáhalds, Kanadamaðurinn Jeff Healey, lést úr sjaldgæfum sjúkdómi (Retinoblastoma) fyrir örfáum dögum síðan. Sjúkdómurinn herjaði á augun á honum frá eins árs aldri; krabbamein sem dró hann til dauða aðeins 41. árs gamlan. Hann þróaði og gerði frægan mjög sérstakan spilastíl, þar sem hann sat á stól með gítarinn liggjandi flatan á lærunum. Hann skilur eftir sig jafnt kröftug blúsrokklög sem og fallegar blúsballöður, sumar svo  yfirþyrmandi tilfinningaríkar að þær hafa framkallað tár hjá fleirum en mér. Healey er farinn, en tónlistin lifir og á eftir að auðga líf mitt og fjölmargra annarra um ókomin ár.

10 sinnum betra?

Er U20 ekki 10 sinnum betra en U2?
mbl.is Þrennar systur í U20 ára liðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt viðbrögð yfirvalda

Af erlendum fréttum að dæma eru þetta alveg tvö óskyld mál. Það eru bara sárir hundaeigendur sem hafa náð athygli fjölmiðla með því að stilla þessu upp hvort gegn öðru; að reyna að skapa múgæsingu siðapostula gegn frjálsu eða sýnilegu kynlífi. Raunveruleikinn er sá að margir nota þennan garð á nótunni til kynlífsathafna og þetta ætla yfirvöld í Amsterdam að samþykkja, gegn því að það verði ekki stundað nálægt barnaleikvellinum, og að elskendur taki með sér ruslið sitt (les: smokkana). Það er líka raunveruleiki að í þessum garði, sem fær tíu milljón gesti á ári, þá er ekki kvartað meira yfir neinu en lausum hundum, sem skilja eftir sig saur og hland um allan garð, auk þess að valda truflun og ótta hjá verulegum fjölda gesta. Bit, glefs og gelt eru þarna mjög algeng þegar um lausa hunda er að ræða, og því eina lausnin, eins og á flestum öðrum almenningsstöðum, að hafa hundana í ól. Eftir að hafa kynnt mér málið í erlendum miðlum er ég innilega sammála aðgerðum borgaryfirvalda.

mbl.is Kynlíf leyft, ekki hundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okurverð á eiturlyfjaprófum

Allveg er ég gáttaður á að forvarnarstarf á Íslandi skuli virkilega vera í þeim sporum að foreldrar sem eru að reyna að halda unglingunum sínum frá eiturlyfjum, og nota m.a. til þess prufur til að dífa í piss, skuli þurfa að punga út stórum upphæðum til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Og í ofanálag er það þannig að svona dóptest sem keypt eru dýrum dómum í apótekum landsins, eru ólík eftir því hvaða eiturlyf á að kanna. Þannig að til að prófa unglinginn sinn fyrir helstu lyfjum á markaðnum þarf jafnvel að kaupa tvö til þrjú ólík eiturlyfjapróf, sem hvert kostar kannski í kringum tvö þúsund krónur. Og unglinga sem eru í mestri hættu þarf kannski að prófa oft í mánuði. Svona prufur sem hafa fælingarmátt og fyrirbyggjandi áhrif, á ríkið að niðurgreiða og sýna að þar sé mönnum alvara með forvarnarstarfi gegn eiturlyfjanotkun unglinga, en því miður hefur skort mikið upp á að það sé reyndin í verki.

Vannýtt blóðbað og voðaatburðir

Það rifjast enn og aftur upp fyrir mér í því verkefni sem ég vinn nú að, hve gríðarleg verðmæti og tækifæri Skagfirðingar eiga í Sturlungasögunni, en að sama skapi vannýtt. Hér er lítið um raunverulega “vöru” að bjóða ferðamönnum, þrátt fyrir að hér hafi farið fram bæði fjölmennustu og blóðugustu bardagar Íslandssögunnar, annarsvegar 3000 manna bardagi við Örlygsstaði, og svo lágu um hundrað manns í valnum í Haugsnesbardaga. Hér átti sér líka stað einn níðingslegasti atburður þessarar óaldar, þegar á þriðja tug manna voru brennd inni í Flugumýrarbrennu. Gissur jarl slapp eins og menn vita með því að sökkva sér í sýruker. Að lokum má svo nefna að eina sjóorustan sem háð hefur verið við Ísland (fyrir utan Þorskastríðshnoðið) hófst með siglingu skipa Kolbeins unga og hans hermanna frá Selvík á Skaga, en hann barðist við Þórð Kakala og menn hans úti fyrir Húnaflóa. Víða erlendis nýta menn mun ómerkilegri atburði til þess að búa til vinsæla áfangastaði fyrir ferðamennn, en þetta hefur okkur enn ekki tekist hér í Skagafirði.

Austurríki um næstu helgi

Spennan eykst hjá okkur unglingunum sem erum að fara þrjú saman næsta laugardag til Austurríkis í skíðaferð, en þar verðum við í heila átta daga á snjóbrettum upp um fjöll og fyrnindi. Svæðið er stærra en það sem við höfum prófað áður, og svo er hótelið líka flottara en þau sem við höfum oftast verið á. Búið er að finna tvo brettagarða í næstu dölum og þangað verður farið með Grafenberg-kláfnum, sem fer frá hóteldyrum og upp í tæplega 1.800 metra hæð; u.þ.b. þrjú þúsund metra vegalengd! Maður er ekki alveg að átta sig á þessu ennþá Grin

Tyggjóið í búðirnar, tóbakið í apótekin?

Lyfsalar vara við því að nikótínlyf verði seld í almennum verslunum; eru með hræðsluáróður um að neysla þeirra muni aukast og að skorti muni uppá faglega ráðgjöf. Flestir neytendur “nikótínlyfja” eru að nota tyggjó til að losna við sígaretturnar, og það þarf ekki mikla ráðgjöf í að velja stærð á pakkningu, með hvaða bragði tyggjóið er, eða hvort það er 2mg eða 4mg. Nikótínlyf eru á okurverði í apótekum og ég er að vona að þau lækki talsvert við að fara í matvörubúðir og bensínstöðvar. Má ekki bara bæta lyfsölum tekjumissinn með því að leyfa þeim að veita ráðgjöf við sölu á sígarettum, sem eru jú hundraðfalt hættulegra efni en umrædd hjálparlyf?

Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

Orðasambönd með margræðar merkingar

Það er oft mjög örvandi að leika sér með tungumálið okkar fallega. Menn geta farið mis stutt eða langt með merkingu orða og orðasambanda, allt eftir notkun og samhengi. Eins og í nýlegum auglýsingum Umferðastofu o.fl. um að deyja ekki úr þreytu. Ég hef stundum fengið börn til að spá í ýmis orð sem nota má í fleiri en einum tilgangi; orð sem fá nýja meiningu ef notuð í öðru samhengi. Það rifjast upp fyrir mér mörg undrandi og jafnvel skelfd barnaandlit í gegnum tíðina, þegar ég hef bent krökkum sem narta í afrakstur nefbors á að það geti verið lífshættulegt; fjöldi manns í fátækum löndum deyi daglega úr hor.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband