Erum búnir að vera hér í fimm heila daga við að setja upp bása fyrir Útflutningsráð og íslensk fyrirtæki á stóru sjávarútvegssýningunni í Brussel. Klikkuð vinna í 12-14 tíma á dag fyrir Sýningakerfi ehf, en gaman í góðum hópi. Höfum enn ekki séð mikið af borginni, þar sem við bæði vinnum og búum í úthverfi. Það stendur þó til bóta á morgun, þegar sýningin byrjar og við fáum frí... loksins... allt þar til niðurrif hefst á fimmtudag. Á sýningunni flæðir allt af mat og drykkjum og stemningin fín, á þessu risastóra svæði, sem tók í fyrrakvöld tæpan klukkutíma að labba kringum. Básaeyjurnar sem við sjáum um eru í höllum 4 og 6, með stærstu höllina, nr. 5, á milli. Um 400 metrar skilja svæðin að, sem þýðir að maður labbar tæplega 10 km á hverjum degi. Grófur óábyrgur eiginútreikninginur segir að sýningin spanni uþb 50 þús fermetra. En ánægjan sem felst í því að vinna við svona er a) skammtímaverkefni (10 dagar); b) góður hópur (sex manns); c) nýtt umhverfi (fyrsta sinn í Brussel)... og allt það góða sem fæst við tilbreytingu í lífinu. Ókosturinn er að vera fjarri þeim sem manni þykir vænst um. Lífið er uppfullt af kostum og göllum, þetta er bara spurning um að njóta þess besta sem aðstæður hverju sinni bjóða upp á.




Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!




Trúmál og siðferði | Breytt 12.5.2008 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Leikstjórinn Oliver Stone er nú að vinna að mynd um George W. Bush, en hann hefur áður gert myndir um Kennedy og Nixon. Stone segist ekki vera að gera áróðursmynd gegn Bush, hann sé bara að reyna að skilja hvernig þessi maður, sem var
orðljótur drykkfelldur ónýtjungur, gat orðið forseti Bna og þarmeð valdamesti maður heims (ruv.is 9.4.2008). Myndtengingin við þetta blogg segir hug minn allan: Burt með Búskinn! ;)




Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú eru tveir dagar liðnir af alls átta á snjóbrettum hér á stóra skíðasvæðinu suður af Salzburg, og hafa þeir verið vonum framar frábærir. Það reynir að vísu verulega á vöðva að renna sér svona kílómeter eftir kílómeter, endalausir valkostir, rauðar brekkur, svartar brekkur, niður, niður... í stað 1 km langrar brekkunnar í Tindastóli, sem við erum vönust. Hæst höfum við komist í tæpra tveggja kílómetra hæð, en þar eru brekkurnar og færið oftast betra en neðar. Góð þjónusta og matur einkennir þau veitingahús og fjallakrár sem við höfum prófað fram til þessa, en þau eru víða hér í fjöllunum í kring. Það jafnast þó fátt á við það að lenda með heimamönnum á krá milli fjögur og sex á daginn, eftir að skíðadegi líkur, þar sem þeir standa sveittir í hnapp og fíla í tætlur þessi ótrúlega hallærislegu austurrísku teknó-diskó-baráttu-júróvisjón lög sín. Í dag missti heil krá sig í dansi og söng og það var ótrúleg upplifun að fá að vera með í því öllu.




Bloggar | Breytt 18.3.2008 kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af erlendum fréttum að dæma eru þetta alveg tvö óskyld mál. Það eru bara sárir hundaeigendur sem hafa náð athygli fjölmiðla með því að stilla þessu upp hvort gegn öðru; að reyna að skapa múgæsingu siðapostula gegn frjálsu eða sýnilegu kynlífi. Raunveruleikinn er sá að margir nota þennan garð á nótunni til kynlífsathafna og þetta ætla yfirvöld í Amsterdam að samþykkja, gegn því að það verði ekki stundað nálægt barnaleikvellinum, og að elskendur taki með sér ruslið sitt (les: smokkana). Það er líka raunveruleiki að í þessum garði, sem fær tíu milljón gesti á ári, þá er ekki kvartað meira yfir neinu en lausum hundum, sem skilja eftir sig saur og hland um allan garð, auk þess að valda truflun og ótta hjá verulegum fjölda gesta. Bit, glefs og gelt eru þarna mjög algeng þegar um lausa hunda er að ræða, og því eina lausnin, eins og á flestum öðrum almenningsstöðum, að hafa hundana í ól. Eftir að hafa kynnt mér málið í erlendum miðlum er ég innilega sammála aðgerðum borgaryfirvalda.




Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Spennan eykst hjá okkur unglingunum sem erum að fara þrjú saman næsta laugardag til Austurríkis í skíðaferð, en þar verðum við í heila átta daga á snjóbrettum upp um fjöll og fyrnindi.
Svæðið er stærra en það sem við höfum prófað áður, og svo er
hótelið líka flottara en þau sem við höfum oftast verið á. Búið er að finna tvo brettagarða í næstu dölum og þangað verður farið með Grafenberg-kláfnum, sem fer frá hóteldyrum og upp í tæplega 1.800 metra hæð; u.þ.b. þrjú þúsund metra vegalengd! Maður er ekki alveg að átta sig á þessu ennþá




Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.




Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
«
Fyrri síða
|
Næsta síða
»