Brettaferð og kennsla

Einn nemenda minna í brettakennslunniÍ gær var hér í Skagafirði blíða og heiðskýr himinn. Ég greip tækifærið og skellti mér á bretti á skíðasvæðið í Tindastóli. Til að byrja með var það svolítið skrýtið að koma úr víðáttum Austurríkis í sína gömlu brekku, en þarna er enn nægur snjór og verður það trúlega langt fram í maí. Færið var frábært og ég fór nokkur nokkur góð rennsli. Á staðnum voru grunnskólabörn í heimsókn, með rassinn út í loftið, óörugg og dettandi. Engin virtist sinna því að leiðbeina þeim. Flest voru á skíðum, en fjögur á bretti. Ég stóðst ekki mátið að breiða út brettaboðskapinn og bauðst til að kenna þeim undirstöðuatriði í snjóbrettakeyrslu. Þau þáðu það með þökkum og breiðu brosi, enda komin með auman bossa og uppgjafarsvip á andlit. Við tókum einn og hálfan klukkutíma í að æfa helstu trixin; standa með rétta þungadreifingu, beita köntunum rétt og taka beygjur. Ég var sæll með að geta miðlað minni þekkingu; þau enn sælli með að finna eftir smá stund að þetta virkaði: Þau höfðu stjórn á brettunum og byltunum hafði fækkað. Síðar um daginn þegar við kvöddumst voru þau alsæl og brostu breitt, en fyrir mig varð dagurinn líka meira gefandi en ég hafði reiknað með. Það er alltaf gott að geta gefið af sér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband