The icelandic horse has five gaits...

... já, ég er ekki að djóka, hann er með 5 "gaits" ... sjáið bara sjálf, hér :)

Kínamyndir

Myndir frá ferðinni í desember sl eru komnar inn í myndaalbúm... hér!

Drangeyjarmyndir

Um 30 myndir frá eggjatökuferðinni eru nú komnar inn í myndaalbúm hér til vinstri, eða bara hér!

Bjargsig í Drangey

Ásta á leið fram af bjargbrún, Viggó við stokkinn og Jón Þór að kvikmynda í baksýnDrangey var um aldir forðabúr Skagfirðinga, en þangað hefur ávallt verið hægt að sækja í fulla matarkistu af fugli og eggjum. Í gær fór vaskur hópur karla og kvenna út í eyju, bæði til að ná sér í svartfuglsegg í matinn, en einnig til að halda við aldagömlum venjum. Ásta Jóns Drangeyjarjarlsdóttir seig niður eins og síðustu ár og restin af mannskapnum raðaði sér á vaðinn. Sjálfur tók ég að mér þann starfa fyrir Viggó bróðir sigkonunnar að kvikmynda í bak og fyrir það sem fram fór. Svona ferðir eru alltaf ógleymanlegar, þar sem maður á einu og sama augnablikinu sameinast náttúrunni og stígur í fótspor forfeðranna.

Falleg fasteign með einstöku útsýni yfir fagran fjörð

Hluti af útsýni úr stofuMá til með að benda á þetta einbýlishús á Sauðárkróki sem var að koma á sölu. Útsýnið þarna er alveg frábært; við blasa Drangey, Málmey og Þórðarhöfði, auk Molduxa, Tindastóls og austurfjalla. Skjólgóð verönd er til suðurs, og svo er útivistarparadísin í Litla-Skógi aðeins í 50m fjarlægð. Sjá nánar hjá Fasteignasölu Sauðárkróks.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bíó á Króknum eftir Skagfirðinga í Kvikmyndaskólanum

Sauðárkróksbíó sýnir um helgina tvær stuttmyndir; útskriftarverkefni tveggja Skagfirðinga sem voru að ljúka námi í Kvikmyndaskóla Íslands. Myndin Yfirborð eftir Stefán Friðrik Friðriksson hlaut um síðustu helgi aðalverðlaunin á útskriftarhátíð í Laugarásbíói, en einnig verður sýnd í Sauðárkróksbíói myndin Þjófur, þjófur, eftir Ragnar P. Pétursson. (Í framhjáhlaupi má geta þess að við Ragnar lékum saman á fjölum Þjóðleikhússins árið 1996, í Sumrinu fyrir stríð, eftir Jón Ormar Ormsson).

Vonandi verður svo samskonar stuttmyndaveisla á Króknum að ári, þegar Skagfirðingarnir Davíð Jónsson og Styrkár Snorrason mæta heim með sín útskriftarverkefni, en þeir voru fyrir skemmstu að ljúka sínu fyrra ári í Kvikmyndaskólanum.


Sextugur svikahrappur á ferð

Ferðaþjónustubændur hafa orðið fyrir barðinu á manni sem þykist vera blaðamaður og fer fram á fría gistingu og mat, gegn því að skrifa grein um fyrirtækið. Hann stingur svo af án þess að borga, þótt  tilboði hans hafi ekki verið tekið. Hann er á bílaleigubíl frá Hasso, en þar á bæ liggur ónothæft kreditkortanúmer mannsins. Þessi u.þ.b. sextugi svikahrappur heitir Theodore Kosoy, ekur bíl með númerinu RE 814 og sást síðast á svæðinu í kringum Hornafjörð. Ferðaþjónustufólk, verið á varðbergi!

Ég þurfti að athuga

tvisvar; fannst ég hlyti að vera lesa fréttaskot á Baggalutur.is...  Ég sver það, ég veltist úr hlátri í hvert sinn sem ég sé þetta myndrænt fyrir mér. Þvílíkt æði sem gripið hefur konuræfilinn við þessa athugasemd um hávaðasamt símtal. Tæplega tuttugu manns sárir, þarmeð hún sjálf, en gaurinn sem úða átti á slapp. Já, helvíti getur maður verið seinheppin piparjúnka!
mbl.is Beitti piparúða í reiðikasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex hjá sjöundadagsaðventistum kl 8?

Einu sinni fór ég tvisvar á þriðjudegi á fjórhjóli yfir Fimmvörðuháls... jamms, það held ég nú! Grin

Hvort eigum við þrjá eða fjóra þjóðgarða?

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar stendur:

Þjóðgarðar á Íslandi eru 3 talsins

Á Íslandi eru þrjú svæði friðlýst skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd sem þjóðgarðar en þau eru Skaftafell, Jökulsárgljúfur og Snæfellsjökull. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er friðlýstur með sér lögum.

Ekki ætla ég að reyna að útskýra fyrir fólki muninn á reglugerð um þjóðgarða annarsvegar, og sérlögum um þjóðgarða hinsvegar... né heldur hvernig þrír verður að fjórum á síðunni hjá UST. 


Mesta bananalýðveldi í Evrópu?

Er að vinna texta í bækling fyrir erlenda ferðamenn. Rakst við gagnaöflun á þessar skondnu upplýsingar um okkur á hinni amerísku kynningarsíðu Ferðamálastofu:

"Iceland is probably the biggest banana growing country in Europe. The inexpensive geothermal energy provides the resources to grow all sorts of exotic crops in greenhouses"


Eyjakjör á National Geographic Traveller

Í hittifyrra tóku 522 sérfræðingar þátt í að gefa 111 eyjum um víða veröld einkunn. Færeyjar voru valin besti áfangastaðurinn, fengu 87 stig, en Ísland kom þar stutt á eftir, með 80 stig. Meðal umsagna um Ísland voru þessar:

"The canvas is impeccable and awe inspiring."

"Land of extreme natural conditions—fire and cold, wind and ice, light and dark—occupied by a distinct people and their millenary culture. Strong environmental awareness and pristine habitats. However, recent decisions to set up massive aluminum smelters have polarized the country."

"High degree of environmental and social sustainability, although the ongoing development of new smelters and hydroelectric projects may affect environmental values as well as image and attractiveness as a destination."

"Intact ecologically and culturally, with many different forms of touring available, from climate-controlled bus tours to multiday wilderness treks. Icelanders protect their environment and society, ensuring that they gain from tourism without causing harm."

Hægt er að skoða niðurstöðurnar í heild sinni hér


Talnaleikfimi...

Ef frétt Hagstofunnar um þróun á fjölda gistinátta á hótelum er skoðuð, má sjá að það er eiginlega bara árið í fyrra sem sker sig úr. Þá varð mikil aukning í fjölda gistinátta, aðallega vegna erlendra gesta. Sé þróunin skoðuð frá 2002 má sjá jafna og góða aukningu í gistináttafjölda á íslenskum hótelum. En þetta getur auðvitað hver skoðað fyrir sig á stórskemmtilegum tölfræðivef Hagstofunnar. Heildaraukning gistinátta á hótelum og gistiheimilum fór úr liðlega 1,1 milljón árið 1998, í rúmar 1,7 milljónir árið 2006, sem mér reiknast vera um 6% aukning að jafnaði pr. ár.
mbl.is Gistinóttum fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir fuglaskoðunarstaðir í Skagafirði

Kolbeinn ungi með lunda - mynd: JÞBNú fer sá tími í hönd sem fuglalíf er hvað fjölskrúðugast og litríkast. Á fjórum stöðum í Skagafirði hefur Náttúrustofa Norðurlands vestra komið upp fuglaskoðunarstöðum. Tveir staðanna eru rétt við Sauðárkrók; hinir eru í Hegranesi. Á skoðunarstöðunum eru upplýsingaskilti um þær fuglategundir sem sjá má á hverjum stað. Bæklingur hefur verið gefinn út á ensku og íslensku og hann má t.d. nálgast í Upplýsingamiðstöð í Varmahlíð (opin allt árið), eða hér á netinu á pdf-sniði.

Sækadelískar skammstafanir í símatilboðum

Eitt símafyrirtækjanna hringir nú út og bíður pakkatilboð með heimasíma, gsm og nettengingu. Kona fyrir vestan sagði vinkonu sinni frá því að þeir hefðu haft samband við sig og boðið sér að hringja frítt í alla heimasíma í eitt ár, gsm á góðum díl og ágætis pakka með LSD að auki!

Ungur gítarsnillingur frá Suður-Kóreu

Sungha JungÓtrúlegur þessi ungi dreng-

ur, Sungha Jung, virkilega yndislegt að heyra hann spila.


Óvænt svör barnanna

Oft nota foreldrar ákveðna frasa á börn sín til að fá þau til að hegða sér "rétt". Stundum eru viðbrögð barnanna ófyrirséð og tilsvör þeirra úr óvæntri átt. Ein mamma sagði við dóttur sína: Borðaðu nú matinn þinn, svo þú verðir stór og sterk. Já, svaraði sú stutta: Eins og Vigga lesbía í vaxtaræktinni!

Myndir frá sjávarútvegssýningunni í Brussel

Atomium - minnisvarði um heimssýninguna 1958Hátt í tvö þúsund fyrirtæki frá um áttatíu löndum kynntu að þessu sinni vörur sínar og þjónustu á sýningunni, sem um 23 þúsund gestir heimsóttu. Flestir þeirra eru á vegum inn- og útflutningsaðila sjávarafurða, eða dreifingar- og vinnslufyrirtækja. Þessi árlega sýning, sem nú var haldin í sextánda sinn, á vafalítið bara eftir að stækka á komandi árum, ekki hvað síst vegna vaxandi almennrar þekkingar á því hve heilsusamleg neysla fiskafurða er. Smellið hér til að sjá myndir frá sýningunni og Brusselferðinni.

Ósigrandi þvermóðskuþjóð

Var á fyrirlestri Einars Más á Gljúfrasteini á sunnudag, þar sem hann fjallaði um Bjart í Sumarhúsum. Ein sagan sem hann sagði var úr þorskastríði Íslendinga og Englendinga. Breskur ráðherra vildi kynnast óvininum og bað ráðgjafa sinn að útvega bók sem væri lýsandi fyrir þessa litlu eyþjóð í norðrinu. Ráðgjafinn ráðfærði sig við bókfróða menn sem mæltu með því að ráðherrran læsi Sjálfstætt fólk. Að lestri loknum leit ráðherrann raunamæddur á ráðgjafa sinn og sagði: Þetta stríð vinnum við aldrei!

Allt í blóma í Brussel

Aðalinngangur og sýningarhöll nr 5Hér er vorið komið, gróðurinn vaknaður til lífsins í sólskininu síðustu daga. Við höfum meðan á sjávarútvegssýninunni stendur eytt dögunum í miðborginni, borist með straumnum um búðarstræti og bragðað á belgískum vöfflum. Þetta eru kaloríubombur hinar mestu, bornar fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum, rjómaís og bræddu súkkulaði. Samviskubit yfir áti á einni slíkri er þó lítið, þar sem mikil orka fer í göngur og erfiðisvinnu hér. Alþjóðlegar veitinga- og verslunarkeðjur gera þessa borg mörgum öðrum líka, en úrval margrómaða belgíska súkkulaðisins og konfektsins setur þó sitt sérstaka yfirbragð á miðborgina. Gamlar hallir, hús og kirkjur tengja mann við söguna, en að öðru leyti eru straumarnir mjög alþjóðlegir. Eins og mín er von og vísa hef ég skotið nokkur hundruð ljósmyndum hér, bæði innan og utan sýningarsvæðis, sem koma sér vel þegar minnið fer að svíkja og myndrænna tenginga verður þörf til að rifja upp þessa tíu góðu apríldaga hér. Gleðilegt sumar!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband