Færsluflokkur: Sjónvarp

Má grínast með sifjaspell?

Maður ætti auðvitað að láta athuga sig, að þykja þetta fyndið þegar Ólafía Hrönn nauðgar Pétri Jóhanni. Hverjum þætti það sniðugt ef dæminu væri snúið við og drukkinn boldangs Pétur nauðgaði pasturslítilli Ólafíu? Á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í fyrra sá ég dönsku myndina Listin að gráta í kór, en það er grínmynd um sifjaspell. Myndgerðarmönnum tekst hið ómögulega, nefnilega að fá mann til að hlæja með, en á sama tíma hafa innilega samúð með öllum hlutaðeigandi. Er þetta kannski bara málið í dag, að fá mann með þessu móti til að velta fyrir sér ólíkum sjónarhornum... og hlæja sig svo fram til heilbrigðrar niðurstöðu?
mbl.is Má grínast með nauðganir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli og strákarnir okkar á stífu ferðalagi

"Það voru bara tvær leiðir, önnur upp og hin niður. Við fórum upp en það hefst strax undirbúningur að næsta verkefni. Við „tjöldum“ kannski aðeins og njótum augnabliksins en svo pökkum við saman öllu draslinu og höldum áfram." sagði Ólafur Stefánsson handsnilli eftir sigurinn á Pólverjum í morgun.

Grínlæti

Næturvaktin fékk Edduverðlaun í kvöld. Þættirnir eru skemmtilegir með bæði látum og gríni. Leikstjórinn steig á stokk og sagði frá sjónvarpsstjórum á Stöð tvö sem hefðu í upphafi grínlætað verkefnið. Það hljómar miklu betur en að tala á íslensku og segja að þættinum hafi verið gefið grænt ljós; þetta eru hvort sem er svo mikil grínlæti.

Efni eða erindi?

Íþróttafréttamaður Sjónvarpsins var í gær mjög ánægður með að Garcia myndi spila með handboltalandsliðinu. Hann sagði þetta mikið fagnaðarerindi fyrir liðið og stuðningsmenn þess.

Athugasemd til Þorvaldar Bjarna

Strategía er orð sem stundum er notað yfir hernaðaráætlun; kemur úr ensku (strategy). Fyrir okkur sem ekki þekkjum til hernaðaráætlana getur strategía þýtt: Kerfisbundin áætlun um aðgerðir (sem leiða til árangurs). Svo heyrir maður líka landann nota orðið tragedía (tragedy), oft yfir einhverskonar harmleik. Í þættinum Laugardagslögin spyr Þorvaldur Bjarni lagahöfunda um hvernig þeir semji lögin sín; hvort þeir hafi einhverja Stragedíu! Hvort hann hugsar sér einhverja dýpri meiningu með þessu nýyrði sínu, að honum finnist lagasmíðarnar vera með slíkum harmkvælum, skal ósagt látið. En hann veit örugglega af þessari hugtakablöndun sinni og bíður spenntur eftir að einhver geri athugasemd. Ég geri það hér með :)

Ókunn eldsupptök og íkveikja

Ég skora á fjölmiðlamenn að hætta ofnotkun á texta um grunsemdir á íkveikju. Tilefnið er þetta: Eldsupptök eru ókunn… en ekki er hægt að útiloka að kveikt hafi verið í !  Auðvitað ekki, upptökin eru ókunn, það er ekki hægt að útiloka neitt! Ekki heldur rafmagnsbruna eða íkveikju af slysni. Á bakvið bruna er fólk, t.d. sem á eða vinnur í fyrirtækjum sem brenna, eða íbúar heimila sem brenna. Fjölmiðlamenn: Takið upp ábyrgari og vandaðri vinnubrögð og hættið að hnýta þessum dylgjum aftan við texta um ókunn eldsupptök!

Den Islandske hest - Fagranes i Skagafjordur 1993

Kolbeinn Jónsson Eiríkssonar DrangeyjarjarlsDanska sjónvarpið endursýndi áðan heimildarmynd frá 1993 um hesta og menn á Fagranesi á Reykjaströnd. Stemningin í myndinni er fín, svona eins og hún gerist best í sveitasælunni, og svo er ekki síður gaman að sjá sveitunga sína á yngri árum, t.d. Kolbein unga, sem hefur leiðsagt ferðamönnum um Gretti sterka í Drangey mörg síðustu ár. Smellið HÉR og veljið: Se Programmet.

Valdníðsla Skjásins!!!

Hverslags viðskiptahættir eru það eiginlega í nútíma markaðsumhverfi að breyta einhliða vöru sem maður kaupir, taka út hluta af því sem keypt er, án þess að láta vita eða biðjast velvirðingar á breytingunum? Í nokkur ár hef ég verið kaupandi að Topp-pakka Skjásins. Í upphafi voru ákveðnar rásir í pakkanum sem heilluðu og höfðu áhrif á kaupin. Síðan þá hafa reglulega verið að detta inn og út rásir; MTV hvarf á sínum tíma, og nú um daginn datt Sirkus út. Þeir bera það fyrir sig að 365 hafi ákveðið að læsa síðastnefndu rásinni, en mér kemur það lítið við, ég er ekki í viðskiptum við það fyrirtæki. Upphaflega var þetta 10 rása pakki hjá þeim, nú eru þær bara 8, ef frá er talið frístöðin Skjár 1 og klukkutíma seinkun á Sjónvarpinu. Í mínum huga er þetta bara þjófnaður um hábjartan dag og ég held að ekkert fyrirtæki hafa jafn óheppilegt slagorð: Skjárinn – á þínu valdi!


Samanburður Kastljóssins ekki fullnægjandi!

Kastljósið skoðaði í kvöld vexti verðtryggðra íbúðalána, annarsvegar Íbúðalánasjóðs og hinsvegar bankanna. Niðurstaðan var sú að þarna væri ekki mikill munur á. Ekki kom fram að Íbúðalánasjóður lánar til fasteignakaupa um allt land, meðan bankarnir lána til valdra aðila á þessum bestu kjörum sínum. Að sjálfsögðu geta bankarnir boðið góð lánakjör þar sem þeirra lán eru betur tryggð með veði í auðseljanlegum fasteignum. Þeir bjóða ekki öllum landsmönnum sín bestu kjör, eins og Íbúðalánasjóður, heldur fleyta rjómann af fasteignalánamarkaðnum. Þetta finnst mér að borgarstjóradóttirin hefði átt að nefna í sínum samanburði í Kastljósinu. Gaman væri að heyra frá landsbyggðafólki sem hefur reynslu af því að reyna að fá fasteignalán hjá bönkunum síðustu misserin.

Sirkusatriði veldur valkvíða!

Á sjónvarpsstöðinni Sirkus er nú verið að reyna nýstárlega samsetningu myndar og hljóðs. Sem stendur er þátturinn My name is Earl á skjánum, en án rétta hljóðsins. Undir þættinum hljómar nefnilega þétt popp- og rokktónlist, auk þess sem þátturinn er með íslenskum texta, sem gerir þessa skrýtnu samsetningu enn ruglingslegri. Það er eiginlega útilokað að njóta þessarar stórundarlegu útsendingar, en ég get bara ekki gert upp við mig hvort ég á að loka augunum og hlusta á poppið, eða lækka í hljóðinu og horfa á þöglan Earl. Ég skynja valkvíða hellast yfir...!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband