Færsluflokkur: Dægurmál

Samanburður Kastljóssins ekki fullnægjandi!

Kastljósið skoðaði í kvöld vexti verðtryggðra íbúðalána, annarsvegar Íbúðalánasjóðs og hinsvegar bankanna. Niðurstaðan var sú að þarna væri ekki mikill munur á. Ekki kom fram að Íbúðalánasjóður lánar til fasteignakaupa um allt land, meðan bankarnir lána til valdra aðila á þessum bestu kjörum sínum. Að sjálfsögðu geta bankarnir boðið góð lánakjör þar sem þeirra lán eru betur tryggð með veði í auðseljanlegum fasteignum. Þeir bjóða ekki öllum landsmönnum sín bestu kjör, eins og Íbúðalánasjóður, heldur fleyta rjómann af fasteignalánamarkaðnum. Þetta finnst mér að borgarstjóradóttirin hefði átt að nefna í sínum samanburði í Kastljósinu. Gaman væri að heyra frá landsbyggðafólki sem hefur reynslu af því að reyna að fá fasteignalán hjá bönkunum síðustu misserin.

"Guð er ekki kristinn!"

"Guð getur ekki verið kristinn, því gyðingar eru líka hans fólk og múslimar sömuleiðis, sem og búddistar og hindúar; allt eru þetta börn guðs!" Þetta segir Hjörtur Magni í viðtalið við Blaðið í gær, og bætir við: "Guð er ekki að finna í einni trúarhefð. Guð er yfir trúarbrögð hafinn!" Er það þessi skoðun Hjartar, biskups Desmond Tutu og fleiri, um að guð sé ekki kristinn, sem vekur reiði biskups og presta á Íslandi í dag?

Jarðarfararfötin og glottið á Geir

Annar sætur strákur í jarðarfararfötumMér fannst nú svolítið hrokafullt glottið sem ég sá á Geir um daginn, hann svona talaði niður til mín fannst mér. Svo fannst mér vera svona jarðarfarastemning yfir jakkafötunum hans, algjörlega óviðeigandi í skemmtiþætti um snilldina í hagstjórninni. Fötin voru kannski valin af því tilefni að Geir var, að sögn Eyþórs Arnalds, nýbúinn að jarða innflytjendaumræðuna með því að segjast sjálfur vera af útlendum ættum? Þeir eru djúpir þessir strákar!  En svona í alvöru, þá finnst mér þessar rannsóknarniðurstöður sem sagt er frá í fréttum ruv.is í dag skýra margt af því sem við sjáum í íslenskri pólitík þessi misserin. Til viðbótar má benda á að árangur Þórólfs Árnasonar er ekkert ósvipaður þeim sem Ingibjörg Sólrún náði hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma. En því miður gerði hún ekki sama gagn og sætasta stelpan fyrir Geir og því fer sem fer!

Byggðastefna stjórnvalda: Óljós, Ómarkviss, Tilviljanakennd, Ógegnsæ!

Á spjallvef Skagfirðinga, skagafjordur.com, er verið að tala um kosningarnar framundan. Þar sýnist sitt hverjum um árangur stjórnarflokkanna í landsbyggðamálum. Einn spjallari, nafni minn Jón S., vitnar í bók Byggðarannsóknarstofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Fólk og fyrirtæki – um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni:

"Bls 221: "Íslensk byggðastefna er í veigamiklum atriðum ólík stefnu sem fylgt er í nágrannalöndunum... meginstefnumið hérlendis mun óljósari... skortir á að fjárveitingar til þessara mála séu jafnháar... tilhneiging til að dreifa litlu fjármagni á marga aðila og lítið samræmi milli einstakra úthlutana." Bls. 222: "Einn stærsti galli íslenskrar byggðastefnu er hve ógegnsæ hún er.... Fyrir vikið er hætt við að opinber byggðastefna verði ómarkviss og byggist fremur á tilviljanakenndum inngripum en skýrri stefnu." Þar hafiði það Framsóknar- og Sjálfstæðismenn!!! Var einhver að furða sig á hnignandi landsbyggð?"


Atvinnustefna misskilinnar þjóðar?

Var að velta því fyrir mér hvort forráðamenn misskilji þjóðina og haldi að hún vilji
álið "in"
, þegar fólk er kannski að meina að því finnist þessi gamaldags atvinnustefna vera áliðin? Er dagur að kveldi kominn og tímabært að horfa til næsta dags?


Eru stjórnvöld að svíkja áform um háhraðavæðingu?

telepathy_180Í Fjarskiptaáætlun 2005-2010 segir orðrétt: "Allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu."  Í markmiðskafla (bls.24) stendur: "Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007." Ég heyrði í gær í svekktum sveitarstjóra tæplega 500 manna sveitarfélags sem sagði að ekkert benti til þess að við þetta yrði staðið. Hvað segja Sturla og félagar í stjórnarflokkunum, ætla þeir bara að bjóða kjósendum dreifðra byggða í vor upp á telepatískt netsamband við umheiminn?

Er þetta vönduð fréttamennska?

Framtíð Evrópusambandsins er ekki björt, aðallega vegna vaxandi óhagstæðrar aldurssamsetningar. Sífellt fjölgar eftirlaunaþegum sem fara af vinnumarkaði, því stórir árgangar eftirstríðsáranna eru að ljúka starfsævi sinni á næstu árum. Þetta sagði Elín Hirst í sjónvarpsfréttum í kvöld og vitnaði í "sérfræðinga" máli sínu til stuðnings. Hún sagði líklegt að grípa yrði til sérstakra ráðstafana á evrópska vinnumarkaðnum vegna þessa vanda. Þessi sannindi eru nánast orðrétt þau sömu og Robert Kreitner segir frá í nokkurra mánaða gamalli bók sinni, nema hvað hann er ekki að tala um Evrópu, heldur Bandaríkin! Líklegast er þá framtíð þeirra ekki björt heldur, eða hvað? Vandamálið er semsagt ekki einangrað við Evrópulönd, en þessi framsetning í sjöfréttum Sjónvarpsins er ekki til að auka tiltrú manna á vandaða fréttamennsku þar á bæ, sérstaklega ekki þegar þetta fólk tekur að sér að fjalla um Evrópusambandið.


Aukin kynlífslöngun og stinnari brjóst

Enn og aftur koma upplýsingar sem sýna fram á ágæti súkkulaðis, nú í danskri rannsókn sem sýnir að við lifum lengur, langar meira að gera "það" og að konur fái stinnari brjóst. Að vísu á þetta bara við um dökkt súkkulaði og ekkert kemur fram um lágmarksmagn sem þarf að innbyrða til að njóta góðs af framantöldum atriðum. Öllum svona rannsóknum á að taka með miklum fyrirvara og nauðsynlegt að beita heilbrigðri skynsemi, því eins og flestir vita er súkkulaði líka fitandi og með fullt af sykri í. Hver vill vera æstur og uppfullur af kynlífslöngun en geta sig vart hrært vegna fitu og yfirþyngdar?

Trúverðugleiki?

Einhverra hluta vegna finnst mér trúverðugleiki Ingibjargar varðandi þennan þátt málsins meiri en Jóns Steinars.
mbl.is Hefur eftir Jóni Steinari að þrýst hafi verið á hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgar- og gleðifréttir hjá Ríkisútvarpinu

Aflvana formúlubíll?Á ruv.is og textavarpinu er tvennt sem vekur athygli mína núna. Annarsvegar liggur skip í vanda fyrir akkerum undan Reykjanesi, vegna þess að það er aflvana. Engin hætta er á ferðum, en takið eftir lykilorðinu: Aflvana... ekki vélarvana! Að mínu hyggjuviti verða bílar og skip ekki vélarvana nema vélin sé með öllu úr þeim. Ef vél bilar og þrýtur afl, þá er farartækið aflvana. Þetta fannst mér gleðilegt. Hitt var sorglegt. Að á næsta ári fara vinir mínir til margra ára í Formúlu 1 yfir á sjónvarpsstöðina Sýn. Það þýðir að óbreyttu að ég hætti að horfa á hana, en ég hef ekki lagt það í vana minn að borga fyrir íþróttaefni í sjónvarpi og reikna ekki með að breyting verði þar á. Því horfi ég sorgaraugum til næsta keppnistímabils, þegar minn formúlumótor verður alvarlega aflvana!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband