Færsluflokkur: Dægurmál

Skoðanakannanir, völd og trúarbrögð!

GallupkönnunÞað er ekki auðvelt að skilja skoðanakannanir, sérstaklega ekki þessa sem kom í dag, þar sem vinsælasta stjórnarsamstarfið er samstarf Samfylkingar og Vinstri-Grænna, en aðeins 2,2% vilja að stjórnarandstaðan starfi saman! Samkvæmt þessu eru það Frjálslyndir sem hafa þennan fælingarmátt, eða hvað? Þótt margt eigi ekki eftir að ganga eftir samkvæmt þessari könnun, þá vona ég að það standi að núverandi stjórn falli. Ekki það að mér finnist hún alslæm, heldur er ég á þeirri skoðun að þetta mikil völd í svona langan tíma séu hættuleg, reyndar alveg stórvarasöm, sérstaklega fyrir okkur sem borgum brúsann. Við of langa valdasetu blindast menn af eigin ágæti og missa tengslin við þjóð sína, en það held ég reyndar að hafi gerst fyrir allnokkru síðan í mörgum málum. Framsóknarmenn finna fyrir þessu í minnkandi fylgi, en um Sjálfstæðismenn gildir allt annað, einfaldlega af því að fylgisspekt og sauðtryggð við þann flokk er svo náskyld trúarbrögðum!

Aðstoðum Hallbjörn við að opna Útvarp Kántrýbæ aftur!

Hallbjörn HjartarsonKúreki Norðursins er í vanda, hann vantar nokkrar krónur til að geta opnað aftur útvarpsstöðina sína. Við sem tengjumst Norðvestur- landinu, ferðumst í gegnum Húnvatsnssýslur þar sem útsendingar heyrast, eða erum áhugafólk um kántrýtónlist, hugsjónastarfsemi, landsbyggðarsérstöðu, Skagaströnd, eða bara hina þjóðþekktu guðhræddu hlýju manneskju Hallbjörn Hjartarson, eigum við ekki að láta nokkrar krónur af hendi rakna svo að Útvarp Kántrýbær gæti byrjað útsendingar aftur? Væri það ekki góð tilfinning að geta látið t.d. 1000 krónur af hendi rakna og myndað þar með þann hóp af fallega hugsandi fólki sem endurreisti Útvarp Kántrýbæ vorið 2007?

Reikn.nr: 0160-26-3906

Kt: 050635-3849


Hópnauðgun Dolce & Gabbana?

DolceogGabbanaSá mynd og umfjöllun hjá Hirti á Scobe-síðunni hans og verð að segja að myndmál þessarar auglýsingar er mun grófara en það sem lesa má útúr hinni tiltölulega saklausu forsíðu Smáralindarbæklingsins umrædda. Þarna les ég bæði kvenfyrirlitningu og ofbeldi; með dýpri rýni á það sem gefið er í skyn má líka auðveldlega sjá þarna vöðvasmurða Hollywood-útgáfu að undanfara hópnauðgunar! En þótt konan sé þarna undir verðum við líka að velta fyrir okkur því ömurlega hlutverki sem karlmennirnir á myndinni eru settir í og hvaða áhrif þau skilaboð hafa á kynjaumræðuna.

Vildu ekki framleiðendur eigin sjónvarpsefnis

Þau á Radisson SAS Hótel Sögu þoldu ekki álag umræðunnar og gerðu umdeilda viðskiptavini brottræka, en áttuðu sig svo á því að í sjónvarpskerfinu innanhúss er myndefni sem framleitt er af þessum úthýstu gestum. Tvískinnungurinn varð vandræðalegur, nánast pínlegur. Nú hafa þeir beðið móðurfyrirtækið erlendis um að bjarga sér úr þessari óþægilegu klemmu með því að fá að fjarlægja bláa myndefnið úr sjónvarpskerfi hótelsins. Eins og ég sagði í pistli í gær: Það er af nógu að taka í baráttu gegn klámvæðingu hér heima, en það stendur okkur kannski of nærri?

SAF, Samtök ferðaþjónustunnar hafa í dag bent á hversu ógerlegt sé að yfirheyra eða kanna árlega bakgrunn meira en 400 þúsund erlendra ferðamanna, til að flokka megi þá úr sem eru "okkur" þóknanlegir. Mér myndi reynast erfitt að sinna því siðapostulastarfi svo öllum líkaði; ég myndi kannski byrja á því að taka Bush og Berlusconi út af sakramentinu! Tjón og bótaskylda eru líka hugtök sem heyrast oftar nefnd í þessu samhengi; hver borgar tapið sem flugfélög, veitinga- og afþreyingarfyrirtæki á Íslandi verða nú fyrir, þegar Hótel Saga er búin að taka að sér að úthýsa viðskiptavinum þeirra?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband