Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er verið að kaupa sér trúverðugleika?

Í textavarpi Ruv segir frá því að viðskiptaráðherra hafi skipað nefnd sem á að fjalla um greiðsluerfiðleika, þrátt fyrir að fyrir liggi heildstætt fumvarp sem nær öllum þeim markmiðum sem nefndinni hafa verið sett í skipunarbréfi. Einhvernveginn hefur maður á tilfinningunni að hér sé verið að kaupa sér trúverðugleika, að þetta sé gert til þess að geta svarað því til í kosningabaráttunni að greiðsluerfiðleikamálin séu í nefnd. En er þetta ekki sóun á tíma og peningum ef frumvarpið nær öllum þeim markmiðum sem nefndinni er gert að vinna að?

Jarðarfararfötin og glottið á Geir

Annar sætur strákur í jarðarfararfötumMér fannst nú svolítið hrokafullt glottið sem ég sá á Geir um daginn, hann svona talaði niður til mín fannst mér. Svo fannst mér vera svona jarðarfarastemning yfir jakkafötunum hans, algjörlega óviðeigandi í skemmtiþætti um snilldina í hagstjórninni. Fötin voru kannski valin af því tilefni að Geir var, að sögn Eyþórs Arnalds, nýbúinn að jarða innflytjendaumræðuna með því að segjast sjálfur vera af útlendum ættum? Þeir eru djúpir þessir strákar!  En svona í alvöru, þá finnst mér þessar rannsóknarniðurstöður sem sagt er frá í fréttum ruv.is í dag skýra margt af því sem við sjáum í íslenskri pólitík þessi misserin. Til viðbótar má benda á að árangur Þórólfs Árnasonar er ekkert ósvipaður þeim sem Ingibjörg Sólrún náði hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma. En því miður gerði hún ekki sama gagn og sætasta stelpan fyrir Geir og því fer sem fer!

Byggðastefna stjórnvalda: Óljós, Ómarkviss, Tilviljanakennd, Ógegnsæ!

Á spjallvef Skagfirðinga, skagafjordur.com, er verið að tala um kosningarnar framundan. Þar sýnist sitt hverjum um árangur stjórnarflokkanna í landsbyggðamálum. Einn spjallari, nafni minn Jón S., vitnar í bók Byggðarannsóknarstofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Fólk og fyrirtæki – um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni:

"Bls 221: "Íslensk byggðastefna er í veigamiklum atriðum ólík stefnu sem fylgt er í nágrannalöndunum... meginstefnumið hérlendis mun óljósari... skortir á að fjárveitingar til þessara mála séu jafnháar... tilhneiging til að dreifa litlu fjármagni á marga aðila og lítið samræmi milli einstakra úthlutana." Bls. 222: "Einn stærsti galli íslenskrar byggðastefnu er hve ógegnsæ hún er.... Fyrir vikið er hætt við að opinber byggðastefna verði ómarkviss og byggist fremur á tilviljanakenndum inngripum en skýrri stefnu." Þar hafiði það Framsóknar- og Sjálfstæðismenn!!! Var einhver að furða sig á hnignandi landsbyggð?"


Sjálfstæðisflokkur - stórhættulegt afturhaldsafl?

Það er ekki fögur lýsing dregin upp af Sjálfstæðisflokknum þegar afstaða (les: andstaða) hans í helstu framfaramálum þjóðarinnar er rifjuð upp í Morgunblaðinu í dag, en þar er flokkurinn kallaður regnhlífarsamtök sérhagsmunahópa. Ríkisforræði og forsjárhyggja koma oftar fyrir í tengslum við þennan flokk en flesta aðra. Evrópuaðild er ekki á dagskrá, þeir tala um að við megum ekki afsala okkur fullveldinu. Staðreyndin er að 80% af löggjöf ESB er innleidd hér án þess að við fáum nokkuð um mótun hennar að segja. Værum við ekki meira fullvalda ef við hefðum þarna einhver áhrif? Þetta kemur fram í skrifum Jóns Baldvins (Mbl. 10. apríl, bls 18-19) þar sem hann fléttar eigin þekkingu og reynslu inn í umfjöllun um hina mögnuðu bók Eiríks Bergmanns, Opið land.

Auðvitað eru til aðrar hliðar á stjórnmálasögu Íslands, en þessi saga hefur of lengi verið hluti af okkar sameiginlegu gleymsku. Um 10% af ísjakanum sjást, en viljum við ekkert vita af hinum 90 prósentunum? Sjálfstæðismenn eru í skrifum JBH kallaðir innilokunarsinnar með íhaldssama hugmyndafræði og eftir lesturinn spyr maður sig: Hvernig í ósköpunum getur þetta afturhaldsafl enn í dag verið stærsti stjórnmála- flokkurinn á Íslandi? Þessu hef ég svarað í fyrri skrifum: Af því að hollusta við flokkinn er tilfinningmál, hún er af sama meiði og trúin á æðri máttarvöld, þar sem skynsemin er sjaldnast hátt skrifuð!


Atvinnustefna misskilinnar þjóðar?

Var að velta því fyrir mér hvort forráðamenn misskilji þjóðina og haldi að hún vilji
álið "in"
, þegar fólk er kannski að meina að því finnist þessi gamaldags atvinnustefna vera áliðin? Er dagur að kveldi kominn og tímabært að horfa til næsta dags?


Eru stjórnvöld að svíkja áform um háhraðavæðingu?

telepathy_180Í Fjarskiptaáætlun 2005-2010 segir orðrétt: "Allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu."  Í markmiðskafla (bls.24) stendur: "Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007." Ég heyrði í gær í svekktum sveitarstjóra tæplega 500 manna sveitarfélags sem sagði að ekkert benti til þess að við þetta yrði staðið. Hvað segja Sturla og félagar í stjórnarflokkunum, ætla þeir bara að bjóða kjósendum dreifðra byggða í vor upp á telepatískt netsamband við umheiminn?

Prinsinn í sveitarfélaginu Túborg

Ég hef alltaf verið frekar veikur fyrir kvikindislegum húmor og þetta vídeó passar minni brengluðu kíminigáfu alveg ágætlega ;c)

Er þetta vönduð fréttamennska?

Framtíð Evrópusambandsins er ekki björt, aðallega vegna vaxandi óhagstæðrar aldurssamsetningar. Sífellt fjölgar eftirlaunaþegum sem fara af vinnumarkaði, því stórir árgangar eftirstríðsáranna eru að ljúka starfsævi sinni á næstu árum. Þetta sagði Elín Hirst í sjónvarpsfréttum í kvöld og vitnaði í "sérfræðinga" máli sínu til stuðnings. Hún sagði líklegt að grípa yrði til sérstakra ráðstafana á evrópska vinnumarkaðnum vegna þessa vanda. Þessi sannindi eru nánast orðrétt þau sömu og Robert Kreitner segir frá í nokkurra mánaða gamalli bók sinni, nema hvað hann er ekki að tala um Evrópu, heldur Bandaríkin! Líklegast er þá framtíð þeirra ekki björt heldur, eða hvað? Vandamálið er semsagt ekki einangrað við Evrópulönd, en þessi framsetning í sjöfréttum Sjónvarpsins er ekki til að auka tiltrú manna á vandaða fréttamennsku þar á bæ, sérstaklega ekki þegar þetta fólk tekur að sér að fjalla um Evrópusambandið.


Upplýsingamiðstöð Ómars og Margrétar

Ómar RagnarssonEf Margrét og Ómar hefðu fengið listabókstafinn Í til afnota í næstu alþingiskosningum, eins og þau sóttu um, hefðu þau átt vísan fjölda atkvæða frá eldri Ísfirðingum sem sakna sárlega gamla bílnúmersins síns, en Ísafjarðarsýsla hafði sem kunnugt er Í á bílnúmerum meðan það kerfi var og hét. Við skötuhjú áttum einu sinni Fiat Uno með númerinu Í-820, en það er nú önnur saga. Í staðinn fá þau Ómar og Margrét bókstafinn I, sem er ekki broddstafur, en það var ekki bílnúmer neinsstaðar. Það gæti hinsvegar í sinni smærri mynd, sem lítið "i", höfðað til villtra ferðamanna í leit að upplýsingamiðstöð. Ómar myndi að sjálfsögðu fara með þá hálendisrúnt og láta þá kjósa í leiðinni. Þetta er auðvitað hið allra vitlausasta grín og kvöldskrifagalsi hjá mér, því að sjálfsögðu mun stefnuskrá og framboð hæfileikafólks ráða mestu um fylgi við hið nýja Íslandsframboð. Gangi þeim allt í haginn.

Trúverðugleiki?

Einhverra hluta vegna finnst mér trúverðugleiki Ingibjargar varðandi þennan þátt málsins meiri en Jóns Steinars.
mbl.is Hefur eftir Jóni Steinari að þrýst hafi verið á hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband