Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Múlbundinn Björn Ingi

Það er ekki fyrr búið að setja löngu tímabær lög um fjáraflanir stjórnmálaflokka en menn eins og Björn Ingi fara að kvarta yfir því að nú vanti strangari reglur um fjármögnun frjálsra félagasamtaka. Stjórnmálaflokkar hafa áratugum saman fengið fé frá ýmsum fjársterkum hagsmunaaðilum, sem í mörgum tilfellum hafa haft verulegan hag af því að ákveðin "vinveitt" öfl hafi völd umfram önnur. Góð byrjun fyrir Björn og félaga, sem nú velta vöngum og reyna að gera tortryggilega fjármögnun Framtíðarlandsins, væri að máta þessa hugmyndafræði við ungmenna- og kvenfélögin heima í gömlu sveitinni. Hver fjármagnar þau og í hvaða "afbrigðilega" tilgangi? Björn Ingi toppar svo sjálfan sig í lok skrifa sinna, þar sem hann lýsir óréttlætinu með þessum orðum: "meðan… stjórnmálaflokkar eru múlbundnir í kerfi og geta sig hvergi hrært."  Finnum við ekki mikið til með Birni, svona hræðilega múlbundnum?

Vanræktir Vestfirðir

Mig langar að benda á áhugaverða umfjöllun Gríms Atlasonar, þar sem hann segir frá þróun mála vestra. Það er gott að þekkja allar hliðar umræðunnar og Grímur kemur þarna með nokkra athygliverða punkta sem hafa ekki farið hátt.


Alþjóðasamskipti og menningarmunur

Í heimi alþjóðavæðingar er margt að varast í samskiptum við þjóðir sem hafa ólíka siði og menningu. Japanska er t.a.m. annarskonar tungumál en við eigum að venjast, þar sem úir og grúir af sérstökum áherslum og tónbrigðum sem eru síbreytilegar eftir aðstæðum og því hver talar við hvern. Af tillitssemi við Gyðinga er víða ekki boðið upp á ostborgara á stöðum Burger King, því trú þeirra bannar blöndun kjöt- og mjólkurvara. Í Bretlandi er farið að kenna viðskiptaensku sem sumir myndu kalla hálfgert barnamál, en tilgangurinn er að væntanlegir viðskiptavinir finnist þeir frekar á jafningjagrundvelli á fundum. Evrópubúum og Ameríkönum þykir best að tala við fólk í u.þ.b. handleggs- fjarlægð, meðan Arabar vilja standa sem allra næst þeim sem þeir eiga samræður við. Þetta veldur oft skrautlegri sýningu í móttökuboðum, þar sem Arabarnir elta Vestrulandabúana sem ganga viðstöðulítið aftur á bak um allt herbergið.

Sjónhverfingar Hannesar Hólmsteins

Í nýjasta hefti Þjóðmála sem datt inn um bréfalúguna nú í morgun gagnrýnir Hannes það sem hann kallar "Sjónhverfingar prófessoranna" Stefáns Ólafssonar og Þorvalds Gylfasonar. Það þarf ekkert að tíunda um sýn Hannesar á ofurágæti hagstjórnar Sjálfstæðisflokksins, hana þekkja allir, og eru skrifin því marki brennd. Áhugasömum vil ég benda sérstaklega á línurit um verðbólgu á bls. 34, en það sýnir þróunina frá 1980 til 2004. Þeir sem muna verðbólgutoppinn á níuanda áratugnum átta sig á að síðan þá hefur verðbólgan mestmegnis verið á niðurleið, eins og línan í ritinu sýnir. Hannes velur að sýna aðeins þróunina til ársins 2004 og talar ekki um vaxandi verðbólgu dagsins í dag, vegna þess að það gagnast ekki hans málflutningi. Þannig stundar Hannes sjálfur sjónhverfingar í stórum stíl, en það ætti auðvitað engum að koma á óvart sem fylgst hefur með hans einhæfu söguskoðun í gegnum tíðina. Annars eru hægriáróður Þjóðmála að þessu sinni með þeim hætti að mér er skapi næst að segja upp áskriftinni!

Drengir, sjáiði ekki veisluna?

Árni Mathiesen fjármálaráðherraVar hún ekki einhvernvegin svona spurningin sem fjármálaráðherra bar fram í þinginu á síðasta degi? Árni skilur ekkert í þeim sem gagnrýna, það er yfirfullt veisluborð af kræsingum sem hann og stjórnarliðar hafa borið á borð fyrir þjóð sína. Það sem Árni skilur ekki er að það er allt of mikið af óhollustu á boðstólum, gums og jukk sem sumir verða alltof feitir af, fá hreinlega bara ístru, meðan öðrum verður bara óglatt við það eitt að horfa á gúmmelaðið. Einhæft úrvalið á veisluborðinu höfðar ekki til bragðkirtla allra. En ég held að gagnrýnin byggist ekki hvað síst á því að það var ekki öllum boðið! Það er ljótt að skilja útundan og slíkt á að gagnrýna!

Vélhjóla- og akstursíþróttamenn athugið!

Rakst á sorgarsögu af Alþingi, þar sem segir frá því að stjórnarliðar hafi hafnað breytingu á umferðarlögum, sem miðaði að því að skilgreina akstursíþróttabraut. Formaður Samgöngunefndar var þvingaður til hlýðni við flokk sinn og hætti við að styðja málið, samkvæmt frásögn á bloggi Sigurjóns Þórðarsonar þingmanns. Sorglegt að enn hafi ekki tekist að koma þessum málum í höfn!

Skapaðu þinn eigin frama!

IconMikePixarNú er ég að lesa undir próf í Stjórnun og hugurinn uppfullur af gáfulegum kenningum og ráðleggingum úr þeim fræðum. Sumar höfða meira til manns en aðrar og svo er hægt að blanda þeim saman við önnur fræði á ýmsan hátt, til dæmis svona:

Ef þig langar til að verða eitthvað, vertu það þá bara! Skrifaðu niður markmið þín og hafðu þau raunhæf, mælanleg og skemmtileg, og stefndu óhræddur að því ná þeim, jafnvel þótt þér hafi dottið í hug að gera eitthvað "fáránlegt" sem ekki er til í dag. Hugasðu um það hve mörg þeirra starfa sem eru unnin í dag voru ekki til fyrir 10 árum síðan. Það er illmögulegt að spá fyrir um framtíðina, en öruggasta leiðin er samt sú að skapa hana bara sjálfur!


Anna Kristín sýnir loksins sitt rétta andlit

Anna Kristín GunnarsdóttirAnna Kristín Gunnarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur verið óþreytandi síðustu mánuði að benda á ýmis þarfamál í Norðvesturkjördæmi sem hafa verið vanrækt eða illa sinnt af núverandi stjórnvöldum. Eins og kunnugir vita tapaði Anna Kristín sæti sínu í síðasta prófkjöri Samfylkingar í kjördæminu, hún missti það til sérans Kalla Matt, sem fallið hafði út af þingi fyrir kosningar 2003. Það er mín skoðun að ef Anna hefði verið í sama ham síðustu fjögur ár og hún hefur verið síðustu mánuði, þá hefði það aldrei gerst. Með sama áframhaldi eykur hún hinsvegar líkur á því að Samfylking bæti við sig manni í kjördæminu, sem þarf svo sannarlega á þingmanni eins og henni að halda til að rétta skarðan hlut sinn.

Skoðanakannanir, völd og trúarbrögð!

GallupkönnunÞað er ekki auðvelt að skilja skoðanakannanir, sérstaklega ekki þessa sem kom í dag, þar sem vinsælasta stjórnarsamstarfið er samstarf Samfylkingar og Vinstri-Grænna, en aðeins 2,2% vilja að stjórnarandstaðan starfi saman! Samkvæmt þessu eru það Frjálslyndir sem hafa þennan fælingarmátt, eða hvað? Þótt margt eigi ekki eftir að ganga eftir samkvæmt þessari könnun, þá vona ég að það standi að núverandi stjórn falli. Ekki það að mér finnist hún alslæm, heldur er ég á þeirri skoðun að þetta mikil völd í svona langan tíma séu hættuleg, reyndar alveg stórvarasöm, sérstaklega fyrir okkur sem borgum brúsann. Við of langa valdasetu blindast menn af eigin ágæti og missa tengslin við þjóð sína, en það held ég reyndar að hafi gerst fyrir allnokkru síðan í mörgum málum. Framsóknarmenn finna fyrir þessu í minnkandi fylgi, en um Sjálfstæðismenn gildir allt annað, einfaldlega af því að fylgisspekt og sauðtryggð við þann flokk er svo náskyld trúarbrögðum!

Aðstoðum Hallbjörn við að opna Útvarp Kántrýbæ aftur!

Hallbjörn HjartarsonKúreki Norðursins er í vanda, hann vantar nokkrar krónur til að geta opnað aftur útvarpsstöðina sína. Við sem tengjumst Norðvestur- landinu, ferðumst í gegnum Húnvatsnssýslur þar sem útsendingar heyrast, eða erum áhugafólk um kántrýtónlist, hugsjónastarfsemi, landsbyggðarsérstöðu, Skagaströnd, eða bara hina þjóðþekktu guðhræddu hlýju manneskju Hallbjörn Hjartarson, eigum við ekki að láta nokkrar krónur af hendi rakna svo að Útvarp Kántrýbær gæti byrjað útsendingar aftur? Væri það ekki góð tilfinning að geta látið t.d. 1000 krónur af hendi rakna og myndað þar með þann hóp af fallega hugsandi fólki sem endurreisti Útvarp Kántrýbæ vorið 2007?

Reikn.nr: 0160-26-3906

Kt: 050635-3849


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband