Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Bolti og bretti

Elsa í brettastökkiLoksins, loksins... komst maður á snjóbretti og á körfuboltaleik á Krók, hvorutveggja langþráð. Við fórum í skíðalyftuna í Tindastóli, ég og Elsa á bretti, en Gummi á skíðum, og áttum þar nokkur fin rennsli. Fengum okkur svo kakó, soðbrauð með hangiketi og kanilsnúða eftirá, svona rétt til að hita upp fyrir gríðargott lasanjað sem Svanhildur kokkaði fyrir skíðafólkið í kvöldmatinn. Eftir matinn fór svo þríeykið á heimaleik í körfunni, þar sem spennan var í algleymi þegar Tindastóll marði sigur á Stjörnunni, en þar tók sig upp gömul stemning svo að maður er enn aumur í lófum og rámur í röddu. Boltaleikur og brettaferð með börnunum er gefandi og bætir talsvert við mína annars ágætu lífsgleði.

Er að verða einn af þessum skrítnu

Fyrir margt löngu sá ég í útlöndum í fyrsta sinn fólk, oftast komið alllangt að austan, sem stóð í sérkennilegum stellingum í almenningsgörðum. Þessar manneskjur hreyfðu sig hægt og tignarlega og virtust sem þær væru af öðrum heimi en iðandi borgarsamfélagið allt í kring. Þó mér þætti þetta á einhvern hátt heillandi var ég viss um að þetta fólk væri skrítnara en við flest. En með tímanum breytist maður og fyrir nokkrum dögum rakst ég á ókeypis mini-námskeið í Tai Chi á netinu sem ég skráði mig á. Nú fæ ég reglulega sendar kennslustundir í tölvupósti frá kennaranum, Al Simon í Bandaríkjunum, og allt stefnir í að ég verði áður en langt um líður einn af þessum skrítnu sem hreyfa sig á dularfullan hátt í slómó út um allar koppagrundir.

Jóla- og nýárskveðjur

Jólasveinn í ShenzhenSendi mínar bestu óskir um gleðilega hátíð og þakka fyrir árið sem nú er að ljúka. Vona að nýja árið beri með sér gæfu og verði þér í alla staði gefandi og gott.

Jólakveðjur af Krók

Jón Þór


Frá Suður-Kína til Sauðárkróks

Guðmundur og Snússi saman á nýFerðalagið úr kvöldhitanum í Hong Kong yfir í kaldan frostmorgun í London tók um tólf klukkustundir. Þar stóð maður og skalf eins og hrísla, þar til sein rútan frá Heathrow til Stansted birtist upphituð og notaleg. Tíu stiga hiti og marauð jörð tók á móti okkur Snússa í Keflavík, og svoleiðis var landið á að líta alla leið norður á Krók. Miklir fagnaðarfundir urðu þegar ferðalúinn bangsinn komst loks, eftir rúmlega sólarhrings ferðalag og tveggja vikna fjarveru í Kína, í hlýjan faðm Guðmundar og fjölskyldunnar hér.

Ósamræmi

Fyrirsögn á að endurspegla aðalatriði í innihaldi fréttar. Í fréttinni segir að væntingavísitalan hafi lækkað á einu ári frá um 140 niður í 117 stig, að meiri svartsýni ríki til væntinga í framtíðinni, að neytendur séu ólíklegri til að ráðast í stórkaup en fyrr og að bjartsýniskastið sé á lokastigi. Það að væntingavísitalan hafi hækkað lítillega frá fyrra mánuði réttlætir engan veginn þessa fyrirsögn.
mbl.is Væntingar neytenda aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snússi á heimleið

Snússi kominn í jólaskapið

 

Nú er ferðalag okkar Snússa til Kína senn á enda... í bili allavega. Hér í Kína eru ekki haldin jól eins og við  þekkjum þau á Vesturlöndum, þótt svo allt sé hér skreytt með jólasveinum, -trjám og glitrandi dinglumdangli, fyrst og fremst held ég til að koma fólki í stemningu og innkaupastuð. Þar sem Snússi er mikill jólabangsi getur hann ekki hugsað sér annað en að koma heim til Íslands og halda jól með sínum nánustu þar. Síðustu dagar hjá okkur hafa farið í soga enn frekar í okkur kínverska menningu, kveðja fólk og taka myndir af því sem á hér í okkur sterkastar taugar. Við Snússi kveðjum Suður-Kína með söknuði á morgun, þegar við förum um Hong Kong og London til Íslandsins kalda í norðrinu.


Snússi á ferð í Zhongshan og spilavítisborginni Macau

Snússi með HongKongDollar í hagnaðHelgin fór í ferðalög hjá okkur Snússa, sem lögðum ferju undir fót yfir flóann hér vestur af Shenzhen. Fyrst heimsóttum við skófabrikku Óskars Jónssonar, Green Diamond, en hann tók einkar vel á móti okkur samlöndum sínum. Við borðuðum saman níu manns og áttum gott spjall, en svo gisti hópurinn í vellandi niðurníddum lúxus á hótel Ambassador í Zhongshan, sem sannarlega má muna sinn fífil fegurri. Sunnudagurinn fór svo fyrir lítið fé (ca 2000 kr) í spilavítunum í fyrrum portúgölsku nýlendunni Macau, en sá staður hefur svipaðan status og Hong Kong að því leitinu að þegar þangað kemur fer maður yfir landamæri og út úr Kína. Macau er nokkurskonar Las Vegas Asíu og þarna var allt yndislega yfirdrifið; í stærðum, dirfskufullri hönnun og yfirþyrmandi neonljósadýrð. Við komum svo með ferjunni yfir flóann í kvöldkyrrðinni og var Snússi hinn hressasti með ferðina, eins og sjá má hér á myndinni, þar sem hann veifar sínum fyrsta spilavítishagnaði.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 7. hluti

Þrátt fyrir lasindin hefur maður látið sig hafa það að dröslast með Angelu og strákunum út og suður í verslanaráp, veitingahúsaferðir og verksmiðjuheimsóknir. Yfirferðin hefur þó ekki alltaf verið hröð á manni, en það er að skila sér í því að heilsan er að koma til baka. Um daginn skoðuðum við verksmiðjur í afgirtu hverfi, þar sem fólk bæði vinnur og býr. Aðbúnaðurinn í verksmiðjunni varSnússi í strætó ágætur en í subbulegum blokkunum í kring gista átta manns í kojum í einu litlu herbergi. Yfirmenn og hærra settir hafa það betra og eru með rýmra um sig, þeir gista saman fjórir í herbergi. Launin eru í kringum 10 þús kr á mánuði, en vel útilátin hádegismáltið kostar hinsvegar aðeins fimmtíu krónur. Þetta eru allt afstæðar stærðir, en áðan snæddum við tíu karlar saman kvöldmáltíð á kínversku veitingahúsi fyrir minna en þrjú þúsund krónur með drykkjum og alles. Eftir matinn fengum við okkur kaffi á Starbucks, þar sem kaffibollinn kostar 200 kall. Hér heitir það ekkert annað en rán um hábjartan dag, því það tæki verkamanninn í verksmiðjunni um sex klukkutíma að vinna fyrir kaffinu á amrísku alþjóðakeðjunni. Ég sötraði kaffið á um tuttugu mínútum, meðan nettvaxinn heimamaður gljápússaði leðurskóna mína fyrir hundraðkall. Snússi er líka allur að hressast og biður að heilsa heim á Krók.

Kvef í kínverska kýrhausnum

Dagurinn hefur verið viðburðasnauður, enda lasleiki með nefrennsli og hálsbólgu farinn að gera vart við sig; kínverskur krankleiki búinn að brjótast í gegnum mínar íslensku varnir. Það var þó aðeinsSnússi á kínversku veitingahúsi rölt í bæinn í dag, verslað smáræði og skipt íslenska simkortinu í símanum út fyrir kínverskt kort; það munar margföldum stórupphæðum þegar við félagarnir erum að hringjast á hérna niðurfrá. Á meðan er ég sambandslaus við hinn íslenska veruleika... nema um msn, skype og tölvupósta. Í kaffispjalli komust við félagar að því að verðlagning hér er ekki í neinu samræmi við kostnað, heldur hvað menn telja sig komast upp með að rukka. Þannig getur kókglas kostað 200 kall á einum stað, meðan full máltíð fyrir tvo kostar aðeins 500 kall á öðrum stað. Og það er allt eins til í dæminu að einhver skemmtistaðurinn reyni að rukka mann um 500 kall fyrir rauðvínsglasið, sem er hærri upphæð en maður greiðir fyrir topp nuddþjónustu í tæpan einn og hálfan klukkutíma. Eitt er það þó sem böggar mig einna mest hérna niðurfrá, en það er að hér er öll vefumferð ritskoðuð. Þetta lýsir sér þannig að ef ég reyni að opna síðu sem yfirvöldum er ekki þóknanleg, t.d. Wikipediu, þá bara birtist ekki neitt... þeir klippa bara á mann! Já, það er margt skrýtið í kínverska kýrhausnum!

Ævintýri Snússa litla í Kína - 5. hluti

Snússi hvílir lúna leggiÍ dag fluttum við Snússi okkur á milli hótela í Shenzhen; fórum nær aðalsvæðinu í Sekou-hverfinu, þar sem frændi og félagar búa; þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru fleiri og menningin líflegri. Við vorum lúnir eftir burð og göngur og hvíldum okkur sveittir í skugga undir tré á gangstéttinni; óbærilegur desemberhitinn hér í suður-Kína ætlar allt að kæfa ef maður hreyfir meira en einn lið og hálfan legg. Fæturnir voru bólgnir af göngu og því ekkert annað að gera en að fara í nudd. Snússi vildi ekki fótanudd og beið því slakur á meðan undir trénu góða. Á meðan lappirnar hvíldu lúnar í tréfötu með heitu vatni og söltum á nuddstaðnum, nuddaði kínverski strákurinn bak, herðar og háls svo gamlir hnútar losnuðu umvörpum, með tilheyrandi stunum. Svo hófst hann handa við fæturna; ilja- og svæðanudd, kálfa- og læranudd, með allrahanda olíum og náttúrefnum. Út kom minn maður endurnærður á bæði líkama og sál, og auðvitað var Snússi glaður að sjá afa sinn, enda hafði hann beðið í tæpan einn og hálfan tíma. Herlegheitin kostuðu alls RMD 48, eða um 430 krónur íslenskar, fyrir um áttatíu mínútna topp trít! Dagurinn endaði svo í ljúfum fíling á sveiflandi latin-tónleikum niðri í bæ, allt þar til nóttin dró okkur dimm inn í sig.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband