Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ævintýri Snússa litla í Kína – 4. hluti

Í dag tókum við Snússi rólegan laugardag í Sekou; röltum um og fylgumst með mannlífinu í sólskininu. Í bænum var komið við í banka til að skipta dollurum, og það tók nú drjúga stund. Fyrst fyllti ég út eitt eyðublað, svo fyllti bankastarfsmaðurinn út tvö eða þrjú í viðbót, svo tók hann afrit af passanum mínum, en þá tók við reikistefna þriggja starfsmanna í allnokkra stund. Áður en yfir lauk hafði ég undirritað fjórum sinnum og tíminn sem það tók að skipta þessum fáeinu dollurum yfir í Yuan Renmimbi var um það bil tuttugu mínútur! Ekki sérstaklega skilvirkt það. Svo fórum við Snússi með fullt af Kínverjum út á jarðberjaakur, þar sem við týndum okkar eigin ber í körfu. Þarna var skemmtileg fjölskyldustemning í rúmlega tuttugu stiga hita; allir vönduðu sig við að stika stígana og týna fallegustu berin. Gömul kona með stráhatt vigtaði svo og rukkaði við hliðið á leiðinni út. Hún var með skiptimyntina í hátísku Gucci veski hangandi utan á sér, en þau fást hér fyrir lítið fé, í landinu þar sem kaffibollinn á hótelinu kostar meira en leigubíll í fimmtán mínútur (eða uþb 200 krónur). Kvöldið er svo frátekið fyrir stórdinner hópsins sem tengist Medialite hér í Kína.

Ævintýri Snússa litla í Kína - 3. hluti

Indy, Angela, Snússi og égÍ dag fengum við félagarnir Snússi og ég, ásamt þeim þeim Binna og Indy, frábæra leiðsögn um borgina þvera og endilanga af heimakonunni yndislegu, Angelu Wang. Eftir hádegi var farið af stað í verslunarferð í þá hrikalegustu markaði sem maður hefur heimsótt; bæði var stærðin slík, auk þess sem vörur voru misjafnlega mikið falsaðar og ágengni sölumanna með ólíkindum. Að lokinni þessari mögnuðu upplifun fór Angela með okkur á ekta kínverskan háklassa veitingastað, þar sem hún pantaði sýnishorn af öllu því besta sem Kínverjar sjálfir borða alla jafna. Svo var meira verslað, en undir kvöldmat var farið á virðulegt nuddhús, á fjórum hæðum, með allri hugsanlegri þjónustu og þægindum, þar sem við fórum öll í fóta- og handsnyrtingu, eyrnahreinsun, andlitsmeðferð og enduðum á kínversku nuddi, auk þess sem við bæði snæddum ljúffenga ávexti og nutum aðstoðar fjölda þjónustufólks. Í lok dags var svo farið að dansa á Terrassen í Shekou, þar sem band frá Filippseyjum hélt uppi rokna rokkstuði inn í nóttina. Snússi var hæstánægður með daginn, þrátt fyrir að hafa misst af dansinum í lokin. Sjálfur er ég alsæll.

Eggjandi könnun

Lítil skoðanakönnun sem gerð var hér á síðunni um daginn sýndi fram á að egg má innbyrða á fleiri en einn veg, til að næra ólíkar þarfir mannskepnunnar. Talsvert var um að þátttakendur, sem geta að sjálfsögðu hafa verið bæði karlar sem konur, notuðu eggin til að koma í veg fyrir að verða húngraðir. Auðvitað eru egg ekki sama og egg, en þau eru samkvæmt könnuninnni vel nothæf til að örva bæði bragðkirtla og aðra innkyrtla.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 2. hluti

Snússi á degi tvö í KínaveldiDagur tvö hjá okkur Snússa hófst með morgunmat á Grand View hótelinu, þar sem boðið var upp á margt það skrýtnasta sem sést hefur á slíkum hlaðborðum. Til að komast fyrr inn í kúltúrinn og bakteríuflóruna létum við okkur hafa það að smakka á flestu, þótt það lyti ókræsilega út. Það skal þó tekið fram að áður en farið var af herberginu var innbyrtur gúlsopi af íslensku þorskalýsi sem við höfðum með okkur. Eftir morgunverð gengum við svo um 15 kílómetra leið, frá hótelinu og alla leið niður að Szeaworld í Sekou, í yfir tuttugu stiga hita. Gangan tók tæpa fjóra tíma um breiðgötur og öngstræti og fengum við beint í æð alla hina fjölbreyttu flóru kínverskrar götumenningar; verkamenn í hádegislúr á gangstéttinni, betlarar og Benzar, háværir strætóar og hljóðlát reiðhjól með sligandi hlass. Við Snússi erum nú komnir heilu og höldnu heim á hótel, og berjumst við að halda okkur vakandi fram á síðkvöldið til rétta af rammskakkan sólarhringinn.

Snússi kemur til Kína

Snússi nýlentur í KínaEftir þrettán klukkutíma langt flug frá London lentum við Snússi í Hong Kong í dag. Þjónustan hjá BA var góð, nóg að borða og drekka og allt frítt, auk þess sem afþreyingarefnið um borð í 747-vélinni virkaði vel. Svo var farið með katamaran-ferju yfir til Shenzhen (13 millj. manna borg), en lítið sást á leiðinni af eyjum eða annarri náttúrufegurð sökum mengunarmisturs. Sá hluti borgarinnar sem við erum í er talsvert ferðamannasvæði, með vestrænum og alþjóðlegum áhrifum og mikið líf á götunum. Enda fór það svo að flugþreyttir félagar fengu sinn fyrsta fæðuskammt á thailenskum veitingastað þegar kvölda tók. Nú er klukkan að ganga tólf hér í suður-Kína, sem er líklegast um átta klukkustundum á undan íslensku klukkunni; tími til kominn að fara í lúr og gera tilraun til að snúa sólarhringnum í átt til nýrra tíma. (Fyrir þá sem ekki vita er Snússi bangsinn hans Guðmundar Jónssonar (6 ára), og fékk að koma með til Kína sem sérlegur sendibangsi íslenskra kollega sinna – sjá mynd)

Bjartir tímar framundan

Það stefnir allt í að fyrri hluti desember verði frábær fyrir mig til að öðlast tækifæri sem ég hafði áður ekki komið auga á. Vinna sem felur í sér þjónustu við aðra getur byrjað núna og fært mér mikla gleði og lífsfyllingu. Hjálpin virðist ætíð vera á næsta leyti þegar ég þarfnast hennar. Vinnan og framinn blómstra og vinir mínir reynast sérlega hjálpsamir. Þegar kemur að viðskiptunum ganga þau bara vel. Um miðjan desember kíkir Júpíter svo aðeins á sólina mína og það hefur sérlega jákvæð áhrif á sjálfsöryggi mitt; ég svíf um með vor í hjarta. Þessi áhrif munu reyndar haldast út næsta ár og hjálpa mér til að gera árið 2008 mjög arðvænlegt. Tja, það væri nú ekki amalegt ef þessi stjörnuspá steingeitar fyrir desembermánuð í Moggablaði dagsins myndi rætast:)

Það sem vantar í umræðuna

Eitt sem ekki hefur farið hátt í þessari umræðu er að ef vínsala færist í matvöruverslanir, þá verður ríkið af tekjum af áfengissölu. Það er hinsvegar ríkið sem stendur straum af öllum kostnaði sem áfengisneysla hefur í för með sér; í heilbrigðiskerfinu, hjá löggæslunni, í forvörnum o.s.frv. Út frá þessum sjónarmiðum er eðlilegast að sem allra mest af tekjum af áfengissölu renni áfram í ríkissjóð.
mbl.is Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband