Færsluflokkur: Matur og drykkur

Bjargsig í Drangey

Ásta á leið fram af bjargbrún, Viggó við stokkinn og Jón Þór að kvikmynda í baksýnDrangey var um aldir forðabúr Skagfirðinga, en þangað hefur ávallt verið hægt að sækja í fulla matarkistu af fugli og eggjum. Í gær fór vaskur hópur karla og kvenna út í eyju, bæði til að ná sér í svartfuglsegg í matinn, en einnig til að halda við aldagömlum venjum. Ásta Jóns Drangeyjarjarlsdóttir seig niður eins og síðustu ár og restin af mannskapnum raðaði sér á vaðinn. Sjálfur tók ég að mér þann starfa fyrir Viggó bróðir sigkonunnar að kvikmynda í bak og fyrir það sem fram fór. Svona ferðir eru alltaf ógleymanlegar, þar sem maður á einu og sama augnablikinu sameinast náttúrunni og stígur í fótspor forfeðranna.

Mesta bananalýðveldi í Evrópu?

Er að vinna texta í bækling fyrir erlenda ferðamenn. Rakst við gagnaöflun á þessar skondnu upplýsingar um okkur á hinni amerísku kynningarsíðu Ferðamálastofu:

"Iceland is probably the biggest banana growing country in Europe. The inexpensive geothermal energy provides the resources to grow all sorts of exotic crops in greenhouses"


Myndir frá sjávarútvegssýningunni í Brussel

Atomium - minnisvarði um heimssýninguna 1958Hátt í tvö þúsund fyrirtæki frá um áttatíu löndum kynntu að þessu sinni vörur sínar og þjónustu á sýningunni, sem um 23 þúsund gestir heimsóttu. Flestir þeirra eru á vegum inn- og útflutningsaðila sjávarafurða, eða dreifingar- og vinnslufyrirtækja. Þessi árlega sýning, sem nú var haldin í sextánda sinn, á vafalítið bara eftir að stækka á komandi árum, ekki hvað síst vegna vaxandi almennrar þekkingar á því hve heilsusamleg neysla fiskafurða er. Smellið hér til að sjá myndir frá sýningunni og Brusselferðinni.

Allt í blóma í Brussel

Aðalinngangur og sýningarhöll nr 5Hér er vorið komið, gróðurinn vaknaður til lífsins í sólskininu síðustu daga. Við höfum meðan á sjávarútvegssýninunni stendur eytt dögunum í miðborginni, borist með straumnum um búðarstræti og bragðað á belgískum vöfflum. Þetta eru kaloríubombur hinar mestu, bornar fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum, rjómaís og bræddu súkkulaði. Samviskubit yfir áti á einni slíkri er þó lítið, þar sem mikil orka fer í göngur og erfiðisvinnu hér. Alþjóðlegar veitinga- og verslunarkeðjur gera þessa borg mörgum öðrum líka, en úrval margrómaða belgíska súkkulaðisins og konfektsins setur þó sitt sérstaka yfirbragð á miðborgina. Gamlar hallir, hús og kirkjur tengja mann við söguna, en að öðru leyti eru straumarnir mjög alþjóðlegir. Eins og mín er von og vísa hef ég skotið nokkur hundruð ljósmyndum hér, bæði innan og utan sýningarsvæðis, sem koma sér vel þegar minnið fer að svíkja og myndrænna tenginga verður þörf til að rifja upp þessa tíu góðu apríldaga hér. Gleðilegt sumar!

Hrísgrjón í Kína

Hrísgrjón er sú fæða sem við tengjum einna sterkast við Kína. Þar eru víða markaðir með tugum ólíkra grjónategunda, bæði innlendra og frá nálægum Asíuríkjum. Eina tegund grjóna fundum við þó ekki á markaðnum. Eftir leit fannst hún að lokum í búð neðar í götunni sem verslar með vörur úr öðrum menningarheimi, sem menn tengja allajafna við skyndibita og ýmsa óhollustu. Þessi hrísgrjón voru frá Uncle Ben’s og kostuðu tífallt á við grjónakílóið á markaðnum. Án þess að geta alhæft um þetta virðist sem Kínverjar séu ekki mikið fyrir hýðishrísgrjón!

Brúsakallar á ferð

Farsíminn minn hringdi fyrir stundu. Í símanum var mannsrödd sem ég ekki kannaðist við. Sæll, segir maðurinn, ég er vinur hans Ragnars. Hvaða Ragnars? spyr ég. Ég er að tala um brúsa, segir hann þá dularfullur í rómnum, svona eins og útúr kú og korti. Ég veit ekkert um hvað þú ert að tala, segi ég... brúsa, hvað meinarðu? Nú, segir hann og lækkar röddina, ég er að tala um....ehe... landa, þú skilur. Ég veit ekki hvað þú ert að tala um og á því miður engan landa handa þér, hvorki á brúsa né í öðrum ílátum. Ég er þá að hringja í vitlaust númer, segir hann vandræðalegur. Fyrirgefðu ónæðið, þú og öll þín fjölskylda, elsku kallinn minn, fyrirgefðu mér þetta.


Kvef í kínverska kýrhausnum

Dagurinn hefur verið viðburðasnauður, enda lasleiki með nefrennsli og hálsbólgu farinn að gera vart við sig; kínverskur krankleiki búinn að brjótast í gegnum mínar íslensku varnir. Það var þó aðeinsSnússi á kínversku veitingahúsi rölt í bæinn í dag, verslað smáræði og skipt íslenska simkortinu í símanum út fyrir kínverskt kort; það munar margföldum stórupphæðum þegar við félagarnir erum að hringjast á hérna niðurfrá. Á meðan er ég sambandslaus við hinn íslenska veruleika... nema um msn, skype og tölvupósta. Í kaffispjalli komust við félagar að því að verðlagning hér er ekki í neinu samræmi við kostnað, heldur hvað menn telja sig komast upp með að rukka. Þannig getur kókglas kostað 200 kall á einum stað, meðan full máltíð fyrir tvo kostar aðeins 500 kall á öðrum stað. Og það er allt eins til í dæminu að einhver skemmtistaðurinn reyni að rukka mann um 500 kall fyrir rauðvínsglasið, sem er hærri upphæð en maður greiðir fyrir topp nuddþjónustu í tæpan einn og hálfan klukkutíma. Eitt er það þó sem böggar mig einna mest hérna niðurfrá, en það er að hér er öll vefumferð ritskoðuð. Þetta lýsir sér þannig að ef ég reyni að opna síðu sem yfirvöldum er ekki þóknanleg, t.d. Wikipediu, þá bara birtist ekki neitt... þeir klippa bara á mann! Já, það er margt skrýtið í kínverska kýrhausnum!

Ævintýri Snússa litla í Kína - 3. hluti

Indy, Angela, Snússi og égÍ dag fengum við félagarnir Snússi og ég, ásamt þeim þeim Binna og Indy, frábæra leiðsögn um borgina þvera og endilanga af heimakonunni yndislegu, Angelu Wang. Eftir hádegi var farið af stað í verslunarferð í þá hrikalegustu markaði sem maður hefur heimsótt; bæði var stærðin slík, auk þess sem vörur voru misjafnlega mikið falsaðar og ágengni sölumanna með ólíkindum. Að lokinni þessari mögnuðu upplifun fór Angela með okkur á ekta kínverskan háklassa veitingastað, þar sem hún pantaði sýnishorn af öllu því besta sem Kínverjar sjálfir borða alla jafna. Svo var meira verslað, en undir kvöldmat var farið á virðulegt nuddhús, á fjórum hæðum, með allri hugsanlegri þjónustu og þægindum, þar sem við fórum öll í fóta- og handsnyrtingu, eyrnahreinsun, andlitsmeðferð og enduðum á kínversku nuddi, auk þess sem við bæði snæddum ljúffenga ávexti og nutum aðstoðar fjölda þjónustufólks. Í lok dags var svo farið að dansa á Terrassen í Shekou, þar sem band frá Filippseyjum hélt uppi rokna rokkstuði inn í nóttina. Snússi var hæstánægður með daginn, þrátt fyrir að hafa misst af dansinum í lokin. Sjálfur er ég alsæll.

Eggjandi könnun

Lítil skoðanakönnun sem gerð var hér á síðunni um daginn sýndi fram á að egg má innbyrða á fleiri en einn veg, til að næra ólíkar þarfir mannskepnunnar. Talsvert var um að þátttakendur, sem geta að sjálfsögðu hafa verið bæði karlar sem konur, notuðu eggin til að koma í veg fyrir að verða húngraðir. Auðvitað eru egg ekki sama og egg, en þau eru samkvæmt könnuninnni vel nothæf til að örva bæði bragðkirtla og aðra innkyrtla.

Tyrkjaveisla í Ameríkunni

Einn góður vinur minn býr vestanhafs og hefur gert um einhverra ára skeið. Í msn-spjalli áðan sagði hann mér frá því að nú væri Þakkargjörðardagur, og að hann væri á leiðinni í Tyrkjaveislu. Ég fór eitthvað að spyrja út í það og fékk þá að vita að Tyrkinn yrði étinn; hann væri í ofninum og alveg að verða steiktur. Hvítir Bandaríkjamenn hafa nú oft komið illa fram við fólk með annan hörundslit, en þetta fannst mér fullmikið af því góða. Ég komst svo að hinu sanna í málinu þegar hann spurði: Hvað heitir það annars á íslensku, Turkey?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband