Færsluflokkur: Matur og drykkur

Röng skilaboð í refsingu?

Kartöflur eru minna borðaðar en áður fyrr og margir af yngri kynslóðinni kjósa pasta, hrísgrjón og aðra valkosti umfram gamla góða jarðeplið. Nú þegar jólin nálgast og yngstu börnin fara að fá í skóinn er hægt að leiða hugann að því hversu heppileg skilaboð það eru að refsa þeim fyrir óþekkt með því að setja kartöflu í skóinn.

Svangir ferðamenn

Á vef Ferðamálastofu, VisitIceland.com, er að finna í gagnagrunni ýmsar upplýsingar um ferðaþjónustu í landinu. Ferðaþjónusta er eins og menn vita margslungin grein; samsett úr mörgum öðrum. Það sem ferðamenn þurfa helst á ferðum sínum eru samgöngur, gisting, afþreying og veitingar. Þrír fyrstnefndu þættirnir eru til staðar í gagnagrunninum, en því miður er þar ekki stafkrók að finna um veitingastaði. Fyrirspurn til Ferðamálastofu um ástæður þessa hafa ekki leitt til árangurs, en þeir benda á vefsíðuna Veitingastadir.is. Tenging við þann vef er þó engin á VisitIceland.com. Á vefnum VisitReykjavik.is eru helstu lykilflokkar upplýsinga: Gisting, Matur & drykkur, Listir & menning, Ferðir & afþreying og Samgöngur. Þar á bæ eru menn greinilega að sinna upplýsingaþörf ferðamanna betur en yfirapparatið.

Lýsi dregur úr líkum á elliglöpum og geðsjúkdómum

Hollusta lýsis hefur löngum verið þekkt á Íslandi og hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu ár staðfest þetta. Ný rannsókn sýnir minni líkur á elliglöpum neyti menn Omega-3 fitusýra sem eru í lýsi; aðrar rannsóknarniðurstöður benda til að lýsi geti ekki bara haft góð áhrif á hjarta- og gigtarsjúkdóma, heldur einnig geðsjúkdóma. Þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi og annarri dimmudepurð ættu því daglega að innbyrða matskeið af þorskalýsi.

Ábyrgðarlaus pólitík í áfengismálum

Væntanlegt er frumvarp um að fara með vínið í matvörubúðirnar. Allir eru sammála um að auðveldara sé að nálgast vín í matvörubúðum en í Vínbúðunum. Það heitir að aðgengi aukist, sem leiðir til aukinnar neyslu. Sigurður Kári þingstrákur sagði í sjónvarpinu í kvöld að ef það yrði raunin, þá yrði að auka forvarnir. Þær kosta peninga, en í nýja frumvarpinu er talað um að lækka áfengisgjaldið sem rennur til ríkisins. Við þessar breytingar hefði ríkið minni tekjur af vínsölu en nú. Ef auka á fjármagn til forvarna á sama tíma og tekjur minnka af vínsölu, þarf þá ekki að skera niður eða að auka skatta?

Eina ástæðan fyrir því að lækka þurfi áfengisgjaldið ef vínið fer í búðirnar, er sú að engin verslun getur sætt sig við þá lágu álagningu sem Vínbúðin leggur á vörurnar í dag, en hún er aðeins á bilinu 6 - 11 % (fer eftir styrkleika).  Frumvarpsflytjendur vilja lækka áfengisgjaldið svo vinir þeirra í verslunarstétt verði ríkari.  Það sem þeir leggja til er að ríkið (les: við) verði fyrir bæði tekjuskerðingu og kostnaðarauka! En því miður er umræðan grunn og klisjukennd og lítill vilji til að horfa til reynslu annarra þjóða. Frumvarpið lyktar af óábyrgri frjálshyggjupólitík sem vinnur gegn almannahagsmunum.


Landbúnaðarsýning þróast í skagfirskri sveitasælu

Síðastliðin tvö ár hefur landbúnaðarsýning verið haldin í Reiðhöllinni við Sauðárkrók, en í fyrraFánaborg við innganginn - 2006 kynntu tæplega þrjátíu fyrirtæki vörur sínar og tæplega tvö þúsund manns heimsóttu svæðið. Í takti við þá framtíðarsýn að sýningin vaxi og dafni og teygi anga sína víðar um Skagafjörð í formi ýmissa tengdra viðburða, þá hefur hún nú hlotið nafnið:

SveitaSæla 2007

LANDBÚNAÐARSÝNING & BÆNDAHÁTÍÐ

í Skagafirði 17. – 19. ágúst

Auk tengingar við búsæld og sveitastemningu sækir nafngiftin innblástur í aðra og þekktari skagfirska "sælu", nefnilega Sæluvikuna, sem byrjað var að halda hátíðlega á Krók fyrir meira en hundrað árum síðan. Til viðbótar þessum skemmtilega fjölskylduviðburði verður Norðurlandsmót æskunnar í frjálsum íþróttum á Króknum þessa helgi, og Kántrýdagar á Skagaströnd, í aðeins hálftíma fjarlægð. Hér er því komin tilvalinn valkostur fyrir áhugafólk um íslenska landsbyggðarmenningu :)  ...sjá einnig dagatal með fleiri skemmtilegum viðburðum á Norðurlandi í sumar með því að smella HÉR


Aukin kynlífslöngun og stinnari brjóst

Enn og aftur koma upplýsingar sem sýna fram á ágæti súkkulaðis, nú í danskri rannsókn sem sýnir að við lifum lengur, langar meira að gera "það" og að konur fái stinnari brjóst. Að vísu á þetta bara við um dökkt súkkulaði og ekkert kemur fram um lágmarksmagn sem þarf að innbyrða til að njóta góðs af framantöldum atriðum. Öllum svona rannsóknum á að taka með miklum fyrirvara og nauðsynlegt að beita heilbrigðri skynsemi, því eins og flestir vita er súkkulaði líka fitandi og með fullt af sykri í. Hver vill vera æstur og uppfullur af kynlífslöngun en geta sig vart hrært vegna fitu og yfirþyngdar?

Drengir, sjáiði ekki veisluna?

Árni Mathiesen fjármálaráðherraVar hún ekki einhvernvegin svona spurningin sem fjármálaráðherra bar fram í þinginu á síðasta degi? Árni skilur ekkert í þeim sem gagnrýna, það er yfirfullt veisluborð af kræsingum sem hann og stjórnarliðar hafa borið á borð fyrir þjóð sína. Það sem Árni skilur ekki er að það er allt of mikið af óhollustu á boðstólum, gums og jukk sem sumir verða alltof feitir af, fá hreinlega bara ístru, meðan öðrum verður bara óglatt við það eitt að horfa á gúmmelaðið. Einhæft úrvalið á veisluborðinu höfðar ekki til bragðkirtla allra. En ég held að gagnrýnin byggist ekki hvað síst á því að það var ekki öllum boðið! Það er ljótt að skilja útundan og slíkt á að gagnrýna!

Gamalt löggukaffi gott á brúsa

Á Íslandi eru að mínu mati tveir "kaffiframleiðendur" sem standa upp úr í gæðum:
Te & Kaffi
og Kaffitár. Bæði fyrirtæki sérhæfa sig í því sem heitir "speciality coffee".

Te & Kaffi hef ég heimsótt í fabrikkuna írjúkandi suðurnesjakaffi Hafnarfirði og á þaðan minningar um góðar mótttökur og frábæra kaffiprófun. Oftast kaupi ég kaffi frá þeim til heimabrúks, gjarnan baunir sem ég mala sjálfur. Kaffið frá Kaffitár er líka mjög gott, en ég þekki það minna. Skemmtileg saga hefur verið sögð um tilurð einnar tegundar kaffis frá Kaffitár, en hún heitir Rjúkandi Suðurnesjakaffi. Sagan segir að það hafi verið búið til sérstaklega samkvæmt beiðni frá lögreglunni í Keflavík, sem óskaði eftir kaffi sem yrði ekki ódrekkandi þótt það stæði lengi á brúsa. Þetta getur verið gott að vita fyrir þá sem vilja gæðakaffi, en eru lengi að klára af brúsanum sínum.


Uppskriftin að Bananakökunni okkar Lisbeth

Fyrir 20 árum bjó ég í Noregi. Þar í landi tíðkast að gefa matar- og kökuuppskriftir, ekki selja þær eins og gert er hér á landi. Í auglýsingum á Discovery síðustu vikur sé ég að Norðmenn gera þetta enn. Þeir sem framleiða vörur nota þessa aðferð til að auka sölu og neyslu á sínum vörum og almenningur nýtur góðs af. Ég á enn margar þykkar möppur (u.þ.b. 1 hillumeter) af ókeypis uppskriftum frá Noregsárunum og man vel eftir sjokkinu sem ég fékk þegar ég flutti heim og var rukkaður fyrir ræfilslegan uppskriftabækling sem lá frammi á afgreiðslukassanum.

Þó að heimilishald byggi almennt á góðri samvinnu, þá skapast samt alltaf hefðir og sérhæfing. Einu sinni var ég miklu fremri minni eðlu spúsu í gerbrauðsbakstri, nú hefur hún algjörlega náð yfirhöndinni og er mér margfalt færari á þessu sviði. En ég á mína uppáhaldsköku sem enginn bakar betur en ég. Þetta er "Lisbeth’s gode bananakake", sem er til á lúnu appelsínugulu ljósriti sem Sonjas Mathus í Fredrikstad dreifði frítt til okkar viðskiptavinanna. Kakan hefur þann kost að vera einföld í framleiðslu og bragðast vel, en svo er líka sérlega heillandi að í hráefnisnotkun er miklum hagsýnisjónarmiðum fylgt: Til að kakan heppnist almennilega verður maður að nota þrjá ofþroskaða banana (sem annars væru á leið út í tunnu!). Fyrir hagsýna kökugerðarmenn fylgir hér íslensk útgáfa af Bananakökunni okkar Lisbeth.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hættuleg íblöndunarefni í matvælum

Nauðsynlegt er að minna reglulega á varnaðarorð um hættuleg aukaefni í mat. Því miður er enn mikið um það að við innbyrðum nokkuð magn slíkra efna daglega án þess að spá sérstaklega í það. Eitt af því allra varasamasta er bragðaukandi efni sem heitir E-621 eða MSG (natríumglútamat), en finnst bæði dulbúið og undir öðrum nöfnum, s.s. food enhancer, smagforstærker, glutamate o.fl.

Þetta efni hefur talsvert verið rannsakað og fyrir utan að geta haft skaðleg áhrif á taugafrumur og valdið verkjum í vöðvum, liðum, höfði og maga, benda nýlegar rannsóknir til þess að samband sé milli neyslu þessa efnis og Altzheimer, vefjagigtar, MS og MND. Svæsnust áhrif hefur efnið þó þegar það fer saman með öðrum efnum (t.d. E133) sem blandað er í matvæli, en þá magna þau hvort annað upp og hafa margföld skaðleg áhrif á taugafrumur (hægja á vexti og trufla boðskipti). Fyrir börnin okkar getur þetta valdið vanda sem þau munu glíma við allt sitt líf.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband