Færsluflokkur: Lífstíll

Byggðastefna stjórnvalda: Óljós, Ómarkviss, Tilviljanakennd, Ógegnsæ!

Á spjallvef Skagfirðinga, skagafjordur.com, er verið að tala um kosningarnar framundan. Þar sýnist sitt hverjum um árangur stjórnarflokkanna í landsbyggðamálum. Einn spjallari, nafni minn Jón S., vitnar í bók Byggðarannsóknarstofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Fólk og fyrirtæki – um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni:

"Bls 221: "Íslensk byggðastefna er í veigamiklum atriðum ólík stefnu sem fylgt er í nágrannalöndunum... meginstefnumið hérlendis mun óljósari... skortir á að fjárveitingar til þessara mála séu jafnháar... tilhneiging til að dreifa litlu fjármagni á marga aðila og lítið samræmi milli einstakra úthlutana." Bls. 222: "Einn stærsti galli íslenskrar byggðastefnu er hve ógegnsæ hún er.... Fyrir vikið er hætt við að opinber byggðastefna verði ómarkviss og byggist fremur á tilviljanakenndum inngripum en skýrri stefnu." Þar hafiði það Framsóknar- og Sjálfstæðismenn!!! Var einhver að furða sig á hnignandi landsbyggð?"


Látnir feður á ferðalagi

Las í morgun í Mogganum um Keith Richards, sem blandaði ösku látins föður síns saman við kókaín og tók hann í nefið – fór á smá trip með gamla! Þá rifjaðist upp sagan sem Siggi Björns segir í laginu Final ride, en hún er um eldri feðga sem alltaf fóru á sunnudögum saman á mótorhjóli um sveitirnar í kringum heimabæ sinn, Fredriksund í Danmörku. Svo dó sá gamli. Þegar hann var búinn að liggja nokkra daga í líkhúsinu þá hvarf líkið. Þetta uppgötvaðist fljótt og var lögregla var kölluð til. Þegar svo lögreglumenn og starfsmenn líkhúss standa þar fyrir utan og ráða ráðum sínum, þá kemur mótorhjól akandi í hlað. Sonurinn ók, en aftan við hann á hjólinu sat látinn pabbinn bundinn, í mótorhjólagalla með hjálm á höfði. Þetta var þeirra síðasta ferð saman.

Skíðaleyndarmál Norðurlands

Jón Þór á bretti í Tindastóli, 28.mars 2007 - Mynd: Valgeir Ægir IngólfssonÁ Norðurlandi eru mörg góð skíðasvæði, misvel þekkt eða vinsæl. Þar er líka boðið upp á þjónustu sem á ekki sinn líka á Íslandi, og ef hennar nyti ekki við þá hefðu margar barnafjölskyldur aldrei séð sér fært að endurnýja skíða- og brettabúnað barna sinna reglulega. Skíðasvæðið sem hér um ræðir er í Tindastóli í Skagafirði, aðeins 280 km frá Reykjavík (ca. 3 tímar í akstur). Þar er stórt og gott svæði með frábærum brekkum, fyrir bretta- skíða- og göngufólk. En það sem meira er, í Tindastóli fer óvenju vel um skíðafólk því þar eru nánast aldrei þrengsli í brekkum eða biðraðir við lyftu. Hægt er að gista og fá góða þjónustu víða í nágrenninu (Skagaströnd, Sauðárkrókur, Varmahlíð, Blönduós og í bændagistingu).

Hitt leyndarmálið, þjónustan sem að framan var getið, er með allan skíðaútbúnað, notaðan og nýjan. Þetta er að sjálfsögðu Skíðaþjónustan á Akureyri, þar sem Viddi og co.  sinna viðskiptavinum af fagmennsku og alúð. Þar er hægt að kaupa notaðan búnað, koma svo síðar þegar krakkarnir hafa stækkað, og greiða sanngjarna milligjöf fyrir skipti á stærri brettum, skíðum eða skóm. Skíðasvæðið í Tindastóli og Skíðaþjónustan á Akureyri eiga bestu þakkir skyldar fyrir að hafa fært mér og fjölskyldu minni ómælda ánægju síðustu ár.


Eru stjórnvöld að svíkja áform um háhraðavæðingu?

telepathy_180Í Fjarskiptaáætlun 2005-2010 segir orðrétt: "Allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu."  Í markmiðskafla (bls.24) stendur: "Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007." Ég heyrði í gær í svekktum sveitarstjóra tæplega 500 manna sveitarfélags sem sagði að ekkert benti til þess að við þetta yrði staðið. Hvað segja Sturla og félagar í stjórnarflokkunum, ætla þeir bara að bjóða kjósendum dreifðra byggða í vor upp á telepatískt netsamband við umheiminn?

Aukin kynlífslöngun og stinnari brjóst

Enn og aftur koma upplýsingar sem sýna fram á ágæti súkkulaðis, nú í danskri rannsókn sem sýnir að við lifum lengur, langar meira að gera "það" og að konur fái stinnari brjóst. Að vísu á þetta bara við um dökkt súkkulaði og ekkert kemur fram um lágmarksmagn sem þarf að innbyrða til að njóta góðs af framantöldum atriðum. Öllum svona rannsóknum á að taka með miklum fyrirvara og nauðsynlegt að beita heilbrigðri skynsemi, því eins og flestir vita er súkkulaði líka fitandi og með fullt af sykri í. Hver vill vera æstur og uppfullur af kynlífslöngun en geta sig vart hrært vegna fitu og yfirþyngdar?

Sorgar- og gleðifréttir hjá Ríkisútvarpinu

Aflvana formúlubíll?Á ruv.is og textavarpinu er tvennt sem vekur athygli mína núna. Annarsvegar liggur skip í vanda fyrir akkerum undan Reykjanesi, vegna þess að það er aflvana. Engin hætta er á ferðum, en takið eftir lykilorðinu: Aflvana... ekki vélarvana! Að mínu hyggjuviti verða bílar og skip ekki vélarvana nema vélin sé með öllu úr þeim. Ef vél bilar og þrýtur afl, þá er farartækið aflvana. Þetta fannst mér gleðilegt. Hitt var sorglegt. Að á næsta ári fara vinir mínir til margra ára í Formúlu 1 yfir á sjónvarpsstöðina Sýn. Það þýðir að óbreyttu að ég hætti að horfa á hana, en ég hef ekki lagt það í vana minn að borga fyrir íþróttaefni í sjónvarpi og reikna ekki með að breyting verði þar á. Því horfi ég sorgaraugum til næsta keppnistímabils, þegar minn formúlumótor verður alvarlega aflvana!

Múlbundinn Björn Ingi

Það er ekki fyrr búið að setja löngu tímabær lög um fjáraflanir stjórnmálaflokka en menn eins og Björn Ingi fara að kvarta yfir því að nú vanti strangari reglur um fjármögnun frjálsra félagasamtaka. Stjórnmálaflokkar hafa áratugum saman fengið fé frá ýmsum fjársterkum hagsmunaaðilum, sem í mörgum tilfellum hafa haft verulegan hag af því að ákveðin "vinveitt" öfl hafi völd umfram önnur. Góð byrjun fyrir Björn og félaga, sem nú velta vöngum og reyna að gera tortryggilega fjármögnun Framtíðarlandsins, væri að máta þessa hugmyndafræði við ungmenna- og kvenfélögin heima í gömlu sveitinni. Hver fjármagnar þau og í hvaða "afbrigðilega" tilgangi? Björn Ingi toppar svo sjálfan sig í lok skrifa sinna, þar sem hann lýsir óréttlætinu með þessum orðum: "meðan… stjórnmálaflokkar eru múlbundnir í kerfi og geta sig hvergi hrært."  Finnum við ekki mikið til með Birni, svona hræðilega múlbundnum?

Vanræktir Vestfirðir

Mig langar að benda á áhugaverða umfjöllun Gríms Atlasonar, þar sem hann segir frá þróun mála vestra. Það er gott að þekkja allar hliðar umræðunnar og Grímur kemur þarna með nokkra athygliverða punkta sem hafa ekki farið hátt.


Alþjóðasamskipti og menningarmunur

Í heimi alþjóðavæðingar er margt að varast í samskiptum við þjóðir sem hafa ólíka siði og menningu. Japanska er t.a.m. annarskonar tungumál en við eigum að venjast, þar sem úir og grúir af sérstökum áherslum og tónbrigðum sem eru síbreytilegar eftir aðstæðum og því hver talar við hvern. Af tillitssemi við Gyðinga er víða ekki boðið upp á ostborgara á stöðum Burger King, því trú þeirra bannar blöndun kjöt- og mjólkurvara. Í Bretlandi er farið að kenna viðskiptaensku sem sumir myndu kalla hálfgert barnamál, en tilgangurinn er að væntanlegir viðskiptavinir finnist þeir frekar á jafningjagrundvelli á fundum. Evrópubúum og Ameríkönum þykir best að tala við fólk í u.þ.b. handleggs- fjarlægð, meðan Arabar vilja standa sem allra næst þeim sem þeir eiga samræður við. Þetta veldur oft skrautlegri sýningu í móttökuboðum, þar sem Arabarnir elta Vestrulandabúana sem ganga viðstöðulítið aftur á bak um allt herbergið.

Drengir, sjáiði ekki veisluna?

Árni Mathiesen fjármálaráðherraVar hún ekki einhvernvegin svona spurningin sem fjármálaráðherra bar fram í þinginu á síðasta degi? Árni skilur ekkert í þeim sem gagnrýna, það er yfirfullt veisluborð af kræsingum sem hann og stjórnarliðar hafa borið á borð fyrir þjóð sína. Það sem Árni skilur ekki er að það er allt of mikið af óhollustu á boðstólum, gums og jukk sem sumir verða alltof feitir af, fá hreinlega bara ístru, meðan öðrum verður bara óglatt við það eitt að horfa á gúmmelaðið. Einhæft úrvalið á veisluborðinu höfðar ekki til bragðkirtla allra. En ég held að gagnrýnin byggist ekki hvað síst á því að það var ekki öllum boðið! Það er ljótt að skilja útundan og slíkt á að gagnrýna!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband