Færsluflokkur: Lífstíll

Kínverskar biðraðir

Hugsanlega er biðraðamenning Kínverja eitt af því mest stuðandi fyrir aðkomumenn sem ekki til þekkja, en þar þykir eðlilegt að hrinda, ýta og troða sér fram fyrir næsta mann í röðinni. Útlendingum sem lenda í biðröð í Kína er ráðlagt að draga djúpt andann, standa fastir fyrir og láta óhræddir í ljós óánægju ef einhver riðst framfyrir, t.d. með því að endurheimta með afli sína stöðu í röðinni. Sérstaklega er varað við því að láta mikla snertingu og nálægð trufla sig. Í kínverskum biðröðum þarf að berjast í orðsins fyllstu merkingu fyrir sínum rétti og sinni stöðu, en mjög mikilvægt er að forðast í þessum atgangi öllum að taka stympingar heimamanna persónulega.


Súrefnisríkur öldugangur og Spánskaveikin

Hef verið að fara niður á Borgarsand við Sauðárkrók til að hlaupa þar og ganga mér til heilsubótar. Fjaran út á Söndum, eins og Króksarar kalla hana, er um 4 km löng, með opinn Skagafjörðinn á aðra hönd og uppgrædda sandhóla á hina. Maður er algjörlega í eigin heimi í þessari útivistarparadís, þar sem öldurnar framleiða ofurskammta af súrefni fyrir þanin lungun. Fyrir um 90 árum síðan var afa mínum heitnum, Jóni Eðvald Guðmundssyni, ráðlagt það af lækninum sínum að fara daglega niður í fjöru og draga þar andann djúpt um stund, til að ná sér eftir Spönskuveikina. Súrefnisríkt ölduloftið virkaði vel, afi var óvenju fljótur að ná sér og lenti því ekki í hópi þeirra tæplega fimm hundruð Íslendinga sem veikin drap. Á heimsvísu létust ekki minna en 25 milljónir manna úr þessari þeirra tíma fuglaflensu, sem rakti uppruna sinn til Bandaríkjanna en ekki Spánar.

Sannar sögur úr sveitinni

Kona ein kom slompuð heim um nótt og fór beint inn í myrkvað hjónaherbergið. Hún reif sig úr fötunum, skreiddist undir sæng og teygði sig yfir til eiginmannsins. Í svefnrofunum teygði hann sig á móti, en þrátt fyrir að vera nokkuð sljó skynjaði hún að hann var bæði stífari og ilmaði öðruvísi en vanalega. Það sem hún ekki vissi var að eiginmaðurinn hafði, eftir að hún fór út um kvöldið, ákveðið að skella sér líka út á lífið. Og þrátt fyrir að vera dauðsyfjaður sjálfur hafði afinn boðist til skjótast yfir og passa fyrir son sinn. Eins og gefur að skilja varð heilmikill vandræðagangur í hjónarúminu þegar hið rétta kom í ljós, og tengdadóttirin og tengdafaðirinn slitu sig óttaslegin úr faðmölögum hvort frá öðru.

Drepa skólarnir sköpunargáfuna?

Á flandri mínu hér á blogginu í dag ráfaði ég inn á síðuna hans Jóhanns Björnssonar, eins og ég hef stundum gert áður. Að þessu sinni voru það þó skrif Kristjáns Guðmundssonar í athugasemdadálknum sem vöktu athygli mína; eða öllu heldur slóð sem hann benti á þar. Rétt í þessu var ég að ljúka við að hlusta á sir Ken Robinson flytja einhvern fróðlegasta og skemmtilegasta fyrirlestur sem ég hef lengi hlýtt á. Ef þið hafið áhuga á því að heyra um hvert við erum að stefna með menntun barnanna okkar, þá endilega smellið hér.

Lýsi dregur úr líkum á elliglöpum og geðsjúkdómum

Hollusta lýsis hefur löngum verið þekkt á Íslandi og hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu ár staðfest þetta. Ný rannsókn sýnir minni líkur á elliglöpum neyti menn Omega-3 fitusýra sem eru í lýsi; aðrar rannsóknarniðurstöður benda til að lýsi geti ekki bara haft góð áhrif á hjarta- og gigtarsjúkdóma, heldur einnig geðsjúkdóma. Þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi og annarri dimmudepurð ættu því daglega að innbyrða matskeið af þorskalýsi.

Jeppi á fjalli, ég er hann!

Guðmundur Jónsson hjá jeppa á fjalliFórum feðgar á fjall á fjóhjóladrifna jepplingnum í morgun. Horfðum í björtu veðri yfir Skagafjörðinn víðan og nutum froststillunnar. Sáum hvorki né heyrðum í rjúpu í fjallakyrðinni, önduðum að okkur fersku loftinu og ræddum um útsýnið: Eyjarnar þrjár, vötnin, fjöllin í kring og álfabyggðir í Hegranesi. Sáum kollinn á Molduxa þar sem við stóðum hreyknir síðastliðið sumar, ásamt mömmum okkar, og skrifuðum nöfn okkar í gestabók. Allt lítur öðruvísi út þegar maður er hátt uppi.

Vetrarkyrrð í frábærri fjallgöngu

Útivistarhópurinn á GrímansfelliSíðasta sunnudagsferð Útivistar á árinu var farin í dag við magnaðar aðstæður, snævi þökktu landi, froststillu og sólskini. Farið var upp hjá Gljúfrasteini, meðfram Köldukvísl á svokallaðri skáldaleið og sem leið lá upp á Grímansfell, í um 480 metra hæð. Þar teiknaði sólin skugga í fjöll og dali svo langt sem augað eygði. Vetrarkyrrðin var þykk yfir snjóhvítu landinu og upplifunin alveg hreint mögnuð. Tólf manna hópur gekk undir fararstjórn Ragnars Jóhannessonar um 15 kílómetra leið, sem lauk rétt fyrir sólsetur í eldrauðum Þormóðsdalnum. Myndir eru hér. Dagurinn hjá okkur Svövu endaði svo í heita pottinum heima í Ásgarði, þar sem þreytan leið úr lúnum fótum og alsæla sveif á okkur undir stjörnubjörtum borgarhimni.

Gönguferðir og gönguhraði

Á mánudögum og fimmtudögum býður ferðafélagið Útivist upp á einnar klukkustundar göngutúra í Reykjavík, undir nafninu Útivistarræktin, og er gangan þátttakendum að kostnaðarlausu. Þarna gengur greiðum sporum sprækur hópur fólks og það rífur ágætlega í að ganga á slíkum hraða í heilan klukkutíma; tekur á, en er virkilega hressandi. Og talandi um gönguhraða, þá minnir mig að Lárus á Reykjalundi hafi sagt að göngurhraða skyldi ávallt miða við að ekki væri gengið hraðar en svo að maður gæti spjallað við göngufélagana, en heldur ekki svo hægt að maður gæti sungið!

Landbúnaðarsýning þróast í skagfirskri sveitasælu

Síðastliðin tvö ár hefur landbúnaðarsýning verið haldin í Reiðhöllinni við Sauðárkrók, en í fyrraFánaborg við innganginn - 2006 kynntu tæplega þrjátíu fyrirtæki vörur sínar og tæplega tvö þúsund manns heimsóttu svæðið. Í takti við þá framtíðarsýn að sýningin vaxi og dafni og teygi anga sína víðar um Skagafjörð í formi ýmissa tengdra viðburða, þá hefur hún nú hlotið nafnið:

SveitaSæla 2007

LANDBÚNAÐARSÝNING & BÆNDAHÁTÍÐ

í Skagafirði 17. – 19. ágúst

Auk tengingar við búsæld og sveitastemningu sækir nafngiftin innblástur í aðra og þekktari skagfirska "sælu", nefnilega Sæluvikuna, sem byrjað var að halda hátíðlega á Krók fyrir meira en hundrað árum síðan. Til viðbótar þessum skemmtilega fjölskylduviðburði verður Norðurlandsmót æskunnar í frjálsum íþróttum á Króknum þessa helgi, og Kántrýdagar á Skagaströnd, í aðeins hálftíma fjarlægð. Hér er því komin tilvalinn valkostur fyrir áhugafólk um íslenska landsbyggðarmenningu :)  ...sjá einnig dagatal með fleiri skemmtilegum viðburðum á Norðurlandi í sumar með því að smella HÉR


Leikvöllurinn Ísland

Gríðarleg aukning hefur orðið í innflutningi og notkun á torfæru- og fjórhjólum. Mestmegnis eru tækin hugsuð til að leika sér á, og leikvöllurinn eru óbyggð svæði Íslands. Eitt hjólfar í brekku snemma sumars verður að vatnsrás, sem árið eftir verður að læk. Í mínu nágrenni sé ég stórskemmdir á landi eftir hjólför frá í fyrra (allt upp í eins meters breiða skurði, 50-70cm á dýpt), en ég er viss um að hryllingurinn er bara rétt að byrja. Yfirvöld, bær og ríki, hafa brugðist nær algerlega í að úthluta þessum hópum leiksvæði sem sátt er um að megi skemma. Við höfum enn bara séð toppinn á þessum mannhverfa borgarísjaka!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband