Færsluflokkur: Lífstíll

Okurverð á eiturlyfjaprófum

Allveg er ég gáttaður á að forvarnarstarf á Íslandi skuli virkilega vera í þeim sporum að foreldrar sem eru að reyna að halda unglingunum sínum frá eiturlyfjum, og nota m.a. til þess prufur til að dífa í piss, skuli þurfa að punga út stórum upphæðum til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Og í ofanálag er það þannig að svona dóptest sem keypt eru dýrum dómum í apótekum landsins, eru ólík eftir því hvaða eiturlyf á að kanna. Þannig að til að prófa unglinginn sinn fyrir helstu lyfjum á markaðnum þarf jafnvel að kaupa tvö til þrjú ólík eiturlyfjapróf, sem hvert kostar kannski í kringum tvö þúsund krónur. Og unglinga sem eru í mestri hættu þarf kannski að prófa oft í mánuði. Svona prufur sem hafa fælingarmátt og fyrirbyggjandi áhrif, á ríkið að niðurgreiða og sýna að þar sé mönnum alvara með forvarnarstarfi gegn eiturlyfjanotkun unglinga, en því miður hefur skort mikið upp á að það sé reyndin í verki.

Austurríki um næstu helgi

Spennan eykst hjá okkur unglingunum sem erum að fara þrjú saman næsta laugardag til Austurríkis í skíðaferð, en þar verðum við í heila átta daga á snjóbrettum upp um fjöll og fyrnindi. Svæðið er stærra en það sem við höfum prófað áður, og svo er hótelið líka flottara en þau sem við höfum oftast verið á. Búið er að finna tvo brettagarða í næstu dölum og þangað verður farið með Grafenberg-kláfnum, sem fer frá hóteldyrum og upp í tæplega 1.800 metra hæð; u.þ.b. þrjú þúsund metra vegalengd! Maður er ekki alveg að átta sig á þessu ennþá Grin

Tyggjóið í búðirnar, tóbakið í apótekin?

Lyfsalar vara við því að nikótínlyf verði seld í almennum verslunum; eru með hræðsluáróður um að neysla þeirra muni aukast og að skorti muni uppá faglega ráðgjöf. Flestir neytendur “nikótínlyfja” eru að nota tyggjó til að losna við sígaretturnar, og það þarf ekki mikla ráðgjöf í að velja stærð á pakkningu, með hvaða bragði tyggjóið er, eða hvort það er 2mg eða 4mg. Nikótínlyf eru á okurverði í apótekum og ég er að vona að þau lækki talsvert við að fara í matvörubúðir og bensínstöðvar. Má ekki bara bæta lyfsölum tekjumissinn með því að leyfa þeim að veita ráðgjöf við sölu á sígarettum, sem eru jú hundraðfalt hættulegra efni en umrædd hjálparlyf?

Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

Hrísgrjón í Kína

Hrísgrjón er sú fæða sem við tengjum einna sterkast við Kína. Þar eru víða markaðir með tugum ólíkra grjónategunda, bæði innlendra og frá nálægum Asíuríkjum. Eina tegund grjóna fundum við þó ekki á markaðnum. Eftir leit fannst hún að lokum í búð neðar í götunni sem verslar með vörur úr öðrum menningarheimi, sem menn tengja allajafna við skyndibita og ýmsa óhollustu. Þessi hrísgrjón voru frá Uncle Ben’s og kostuðu tífallt á við grjónakílóið á markaðnum. Án þess að geta alhæft um þetta virðist sem Kínverjar séu ekki mikið fyrir hýðishrísgrjón!

Brúsakallar á ferð

Farsíminn minn hringdi fyrir stundu. Í símanum var mannsrödd sem ég ekki kannaðist við. Sæll, segir maðurinn, ég er vinur hans Ragnars. Hvaða Ragnars? spyr ég. Ég er að tala um brúsa, segir hann þá dularfullur í rómnum, svona eins og útúr kú og korti. Ég veit ekkert um hvað þú ert að tala, segi ég... brúsa, hvað meinarðu? Nú, segir hann og lækkar röddina, ég er að tala um....ehe... landa, þú skilur. Ég veit ekki hvað þú ert að tala um og á því miður engan landa handa þér, hvorki á brúsa né í öðrum ílátum. Ég er þá að hringja í vitlaust númer, segir hann vandræðalegur. Fyrirgefðu ónæðið, þú og öll þín fjölskylda, elsku kallinn minn, fyrirgefðu mér þetta.


Nýjar myndasyrpur

Loksins er að færast líf aftur í innsetningu mynda hér á síðunni, í dag hafa dottið inn myndir af ættarmóti, brúðkaupi og svo nokkurra ára samsafn mynda úr Drangey, bæði frá ferðum þar sem lundi var háfaður og einnig úr leiðöngrum til að ná í egg. Hægt er að sjá myndirnar með því að smella hér til vinstri, á myndaalbúm.

Að láta draumana rætast

Ég dáist að fólki eins og Huldu Björnsdóttur, sem sagt er frá í sunnnudagsblaði Moggans nú um helgina, sem seldi allt sitt á Íslandi og flutti til Fuzhou í Kína. Þar ætlar hún að starfa við að kenna ensku og dans, en á Íslandi hafði hún unnið á skrifstofu sama fyrirtækis í 24 ár. Hulda er hugrökk kona sem sýnir fram á að það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast, jafnvel ekki þegar komið er fram á sjötugsaldurinn!

Er að verða einn af þessum skrítnu

Fyrir margt löngu sá ég í útlöndum í fyrsta sinn fólk, oftast komið alllangt að austan, sem stóð í sérkennilegum stellingum í almenningsgörðum. Þessar manneskjur hreyfðu sig hægt og tignarlega og virtust sem þær væru af öðrum heimi en iðandi borgarsamfélagið allt í kring. Þó mér þætti þetta á einhvern hátt heillandi var ég viss um að þetta fólk væri skrítnara en við flest. En með tímanum breytist maður og fyrir nokkrum dögum rakst ég á ókeypis mini-námskeið í Tai Chi á netinu sem ég skráði mig á. Nú fæ ég reglulega sendar kennslustundir í tölvupósti frá kennaranum, Al Simon í Bandaríkjunum, og allt stefnir í að ég verði áður en langt um líður einn af þessum skrítnu sem hreyfa sig á dularfullan hátt í slómó út um allar koppagrundir.

Ævintýri Snússa litla í Kína - 5. hluti

Snússi hvílir lúna leggiÍ dag fluttum við Snússi okkur á milli hótela í Shenzhen; fórum nær aðalsvæðinu í Sekou-hverfinu, þar sem frændi og félagar búa; þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru fleiri og menningin líflegri. Við vorum lúnir eftir burð og göngur og hvíldum okkur sveittir í skugga undir tré á gangstéttinni; óbærilegur desemberhitinn hér í suður-Kína ætlar allt að kæfa ef maður hreyfir meira en einn lið og hálfan legg. Fæturnir voru bólgnir af göngu og því ekkert annað að gera en að fara í nudd. Snússi vildi ekki fótanudd og beið því slakur á meðan undir trénu góða. Á meðan lappirnar hvíldu lúnar í tréfötu með heitu vatni og söltum á nuddstaðnum, nuddaði kínverski strákurinn bak, herðar og háls svo gamlir hnútar losnuðu umvörpum, með tilheyrandi stunum. Svo hófst hann handa við fæturna; ilja- og svæðanudd, kálfa- og læranudd, með allrahanda olíum og náttúrefnum. Út kom minn maður endurnærður á bæði líkama og sál, og auðvitað var Snússi glaður að sjá afa sinn, enda hafði hann beðið í tæpan einn og hálfan tíma. Herlegheitin kostuðu alls RMD 48, eða um 430 krónur íslenskar, fyrir um áttatíu mínútna topp trít! Dagurinn endaði svo í ljúfum fíling á sveiflandi latin-tónleikum niðri í bæ, allt þar til nóttin dró okkur dimm inn í sig.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband