Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Get ég líka fengið greddunúmer?

Sá í sunnudagsmogganum uppboðsauglýsingu frá sýslumanninum á Selfossi, þar sem hann býður upp nokkur hross. Þrátt fyrir að telja mig til Skagfirðinga veit ég lítið sem ekkert um hesta, og er því örugglega að misskilja eitthvað þarna, en í einni línu auglýsingarinnar stendur: "Snafs, fífilbleikur hestur graður nr. 000001803644." Á góðri stundu get ég uppfyllt þrjú þessara fjögurra atriða, en hvar ætli ég geti orðið mér úti um svona svona greddunúmer?

Er öflun, notkun og skráning heimilda það mikilvægasta í BA-skrifum?

Útskriftarauglýsihg KB-bankaHvað er það sem skiptir mestu máli þegar skrifa á BS- eða BA-ritgerð? Spyr sá sem ekki veit, ég get sjálfsagt svarað því frekar síðar í vor, þegar skrif mín við Hólaskóla hafa verið dæmd. Ég þekki fólk sem hefur verið miður sín yfir lágum einkunnum fyrir svona ritgerðarskrif, þrátt fyrir að hafa verið að fjalla um spennandi og verðug viðfangsefni af fagmennsku, í bæði hagnýtri og vandaðri umfjöllun. Einn sjóaður fræðimaður á suðausturhorninu hefur sagt það sína skoðun að það sé aðallega þrennt sem talið er nemanda til tekna í BA-ritgerð: Að hann finni heimildir sem henta viðfangsefninu, geti nýtt þær heimildir í skrifum sínum, og geti svo vísað til þessara heimilda á FULLKOMINN hátt í heimildaskrá. Fróðlegt væri að fá að heyra af reynslu þeirra sem gengið hafa í gegnum þetta ferli allt.

Árshátíð Háskólans á Hólum

Myndasýningar hrossanema vöktu mikla hrifninguSíðastliðið laugardagskvöld hélt Hólaskóli árshátíð sem var afar vel heppnuð í alla staði. Af því tilefni hafa ljósmyndir af glaðværum gestum verið settar inn í myndasyrpu hér á síðunni, sem áhugasamir geta nálgast með því að smella hér.


Dónaskapur stjórnarflokkanna við Vestfirðinga

Úr Önundarfirði, Flateyri í baksýn - Mynd: JÞBSegir það ekki allt sem segja þarf um raunverulegan landsbyggðar- áhuga stjórnvalda að á borgarafundi um atvinnumál á Ísafirði í dag mætti ekki einn einasti þingmaður frá Framsókn eða Sjálstæðisflokki? Miðað við þann vanda sem Vestfirðir eru í hefðu þeir Einar Oddur, Einar Kristinn, Sturla og Magnús Stefánsson átt að vera þarna, eða finna samflokksmenn til mæta í sinn stað. Miðað við hvað þeir eru búnir að svíkja þetta svæði og svelta í áraraðir hefði verið full ástæða til að sýna fundinum mikinn áhuga, í stað þeirrar vanvirðu og dónaskaps að láta ekki sjá sig. Eru þeir ekki bara að biðja um frí í vor með þessari framkomu?

Endurtekið efni úr Fréttablaðinu?

Þetta er nánast alveg sama frétt og var í Fréttablaðinu í fyrrahaust, nánar tiltekið þann 21. október (sjá hér að neðan). Ég skrifaði skólagrein um þessi fyrirbæri í vetur, en sófasamfélögin eru 3 hið minnsta (á netinu): CouchSurfing.com, HospitalityClub.com og GlobalFreeloaders.org (ef ég man þetta allt rétt) og byggja á 50 ára gamalli hugmyndafræði Servas International. 

 

Fréttablaðið (2006) Fylgiblað: Allt – Ferðir o.fl., laugardaginn 21. október 2006: Allt, ferðir o.fl: Umfjöllun um sófasamfélög og viðtöl við meðlimi, bls. 6-7. Skoðað 21. október 2006, á vefslóðinni: http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/061021.pdf
mbl.is Fékk hugmynd að beddaleit á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handbolti í körfuboltasamfélagi

Á spjalli heimavefs Skagfirðinga, skagafjordur.com, er spurt hvort ekki eigi að fara að æfa handbolta á Sauðárkróki. Sum bæjarfélög hafa hefð fyrir handbolta, en á Króknum hefur verið leikinn körfubolti í meira en 40 ár, síðan 1964 þegar Helgi Rafn Traustason fyrrum kaupfélagsstjóri byrjaði að þjálfa hóp ungra drengja. Um þetta skrifaði ég samantekt í körfuboltablað fyrir nokkrum árum, sem ég er nú að reyna að grafaMeistaraflokkur karla hjá Tindastóli árið 1969 upp til að birta hér þessu til stuðnings. Undantekningalítið hefur Tindastóll átt síðustu tuttugu ár lið í úrvalsdeild karla meðal þeirra bestu á landinu og þetta hefur styrkt hefðina enn frekar.

Sem dæmi um þessa sterku hefð er til saga um landsliðsþjálfara í handbolta sem kom ásamt reyklausum vini sínum til Sauðárkróks fyrir nokkrum árum, í þeim tilgangi að skapa stemningu fyrir íþrótt sinni. Allir krakkarnir fengu handbolta í hönd og stilltu sér upp í röð til að skjóta á mark. Þetta gekk ágætlega þar til þjálfarinn brá sér aðeins frá, en þá voru allir umsvifalaust farnir að drita sínum handboltum löngum þriggjastigaskotum á körfurnar á hliðarveggjunum!  Svo eru líka takmörk fyrir því hvað eitt lítið landsbyggðaríþróttafélag hefur bolmagn í að halda úti þjálfun í mörgum greinum, en þær eru þegar nokkuð margar hjá Tindastóli á Sauðárkróki.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er bisness í snarreddingum og skítmixi?

Fyrir tæpri viku var þessi óviðjafnanlega smáauglýsing í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni:

Snarreddingar & Skítmix

"Minniháttar- bílviðgerðir, húsviðgerðir, trésmíði, málingarvinna.

Meiriháttar- matreiðsla, bagstur, hárgreiðsla, félagsskapur, flísalagnir, stíblulosun, hellulagnir. Sími xxx-xxxx."

Það er greinilega mikil fjölhæfni hjá þeim sem þarna bjóða fram þjónustu sína, en ég get ekki að því gert að samsetningin er áhugaverð, að maður tali nú ekki um fyrirsögina og hvort hún hafi almennt vakið traust lesenda! Það hefði líka verið fróðlegt fá nánari skýringar á þessu "skítmixi". Að lokum má svo velta því fyrir sér hvað sé innifalið í "meiriháttar-félagsskap"?


Hópnauðgun Dolce & Gabbana?

DolceogGabbanaSá mynd og umfjöllun hjá Hirti á Scobe-síðunni hans og verð að segja að myndmál þessarar auglýsingar er mun grófara en það sem lesa má útúr hinni tiltölulega saklausu forsíðu Smáralindarbæklingsins umrædda. Þarna les ég bæði kvenfyrirlitningu og ofbeldi; með dýpri rýni á það sem gefið er í skyn má líka auðveldlega sjá þarna vöðvasmurða Hollywood-útgáfu að undanfara hópnauðgunar! En þótt konan sé þarna undir verðum við líka að velta fyrir okkur því ömurlega hlutverki sem karlmennirnir á myndinni eru settir í og hvaða áhrif þau skilaboð hafa á kynjaumræðuna.

Gamalt löggukaffi gott á brúsa

Á Íslandi eru að mínu mati tveir "kaffiframleiðendur" sem standa upp úr í gæðum:
Te & Kaffi
og Kaffitár. Bæði fyrirtæki sérhæfa sig í því sem heitir "speciality coffee".

Te & Kaffi hef ég heimsótt í fabrikkuna írjúkandi suðurnesjakaffi Hafnarfirði og á þaðan minningar um góðar mótttökur og frábæra kaffiprófun. Oftast kaupi ég kaffi frá þeim til heimabrúks, gjarnan baunir sem ég mala sjálfur. Kaffið frá Kaffitár er líka mjög gott, en ég þekki það minna. Skemmtileg saga hefur verið sögð um tilurð einnar tegundar kaffis frá Kaffitár, en hún heitir Rjúkandi Suðurnesjakaffi. Sagan segir að það hafi verið búið til sérstaklega samkvæmt beiðni frá lögreglunni í Keflavík, sem óskaði eftir kaffi sem yrði ekki ódrekkandi þótt það stæði lengi á brúsa. Þetta getur verið gott að vita fyrir þá sem vilja gæðakaffi, en eru lengi að klára af brúsanum sínum.


Traustur vinur kvenna?

UpplyftingFélagsmálaráðherra er ráðherra jafnréttismála á Íslandi. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í janúar sl. skipaði ráðherrann nýja stjórn hjá Íbúðalánasjóði. Hún samanstendur af fjórum körlum og einni konu. Í dag, þegar jafnréttismálaráðherrann var á leið í ræðustól á Alþingi til að flytja ræðu í tilefni dagsins, þá fékk hann aðsvif. Trúlega er ekkert orsakasamhengi á milli þessara atburða, þó auðvitað gætu þessar staðreyndir og ræðan framundan hafa truflað hugar- eða líkamsstarfsemi ráðherrans með fyrrgreindum afleiðingum. Blessaður karlinn er nú á batavegi en ætti kannski að hugleiða í hvíld sinni hvort hann vill ekki gera meira af því að vera líka "traustur vinur" kvenna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband