Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Umsögn Árna Matt um Hip Razical

Hip Razical fyrir tónleikana á fimmtudagÍ Morgunblaðinu í dag gagnrýnir Árni Matthíasson þær hljómsveitir sem komust áfram í úrslit Músiktilrauna af undankvöldi fjögur á fimmtudag, auk umfjöllunar um þær sveitir sem komust ekki áfram. Um Hip Razical frá Sauðárkróki, sem dómnefndin valdi áfram í úrslitakeppnina, segir Árni: "Hip Razical mættu til leiks eftir tveggja ára æfingar og sýndu gríðarlega framför. Það kom ekki á óvart að bassaleikur var fyrsta flokks, en gaman að sjá að öll sveitin hafði tekið stórstígum framförum, ekki síst í lagasmíðum. Músíkin var nokkuð hefðbundin – fyrra lagið emo, það síðara indískotið, en lögin grípandi góð og söngur mjög vel útfærður."

Prinsinn í sveitarfélaginu Túborg

Ég hef alltaf verið frekar veikur fyrir kvikindislegum húmor og þetta vídeó passar minni brengluðu kíminigáfu alveg ágætlega ;c)

Hip Razical áfram í úrslit Músiktilrauna 2007

Davíð Jónsson söngvari og lagasmiður Hip Razical í sæti söngvara Incubus, sem kvittaði fyrir sig á vegginn á Hamborgarabúllu TómasarEftir taugatrekkjandi hálftíma bið skokkaði Óli Palli á svið og tilkynnti úrslit kvöldsins: Dómnefndin valdi Hip Razical frá Sauðárkróki til að spila á úrslitakvöldi Músiktilrauna 2007! Að sjálfsögðu brast á með miklum fögnuði í herbúðum Hip Razical við þessar gleðifréttir, en auk hljómsveitarinnar voru mættir í Loftkastalann um tugur dyggra stuðningsmanna úr Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu. Tvær aðrar hljómsveitir komust áfram þetta kvöldið, Custom, með atkvæðum áheyrenda og stuðningshóps síns, og Shogun, einnig með dómnefndaratkvæði. Úrslit Músiktilrauna 2007 verða að viku liðinni, laugardaginn 31. mars, en þá má heyra í Hip Razical og hinum hljómsveitunum í beinni á Rás 2, auk þess sem Sjónvarpið tekur upp og sýnir síðar.

Sönnunargögnum eytt...

Ef Alcan er grunað um græsku í þessu máli á að skoða það strax, ekki tilkynna feimnislega með margra daga fyrirvara um heimsókn til að kanna forrit og gögn. Fyrir vikið hafa menn nú tíma til að vinna heilmikla yfirvinnu um helgina suðrí Straumsvík við hentugar lagfæringar. Með svona vinnubrögðum er afar ólíklegt að Persónuvernd finni nokkuð bitastætt eftir helgina, hafi Alcan haft eitthvað að fela í málinu!

mbl.is Persónuvernd skoðar Alcan-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Músiktilraunir reknar úr húsi!

Fjórða undankvöld Músiktilrauna stendur nú yfir, með rúmlega klukkustundar óvæntu hléi. Í Loftkastalanum, sem er einn af betri rokktónleikastöðum borgarinnar fyrir svona viðburði, er einnig í kvöld verið að taka upp spurningaþáttinn Gettu betur. Þegar þrjár af tíu hljómsveitum kvöldsins höfðu spilað sín lög, steig kynnirinn, Óli Palli á Rás 2, á stokk og tilkynnti miður sín að vegna of mikils fjölda í húsinu, yrði að rýma það í um klukkutíma. Allir út, sorry! Bannað er að hafa svona marga í húsinu og þetta uppgötvaðist ekki fyrr en á hólminn var komið. Nú eru hljómleikagestir Músiktilrauna í kaffi í Hinu húsinu og bíða þess að verði ekið með rútum aftur upp í Loftkastala, þegar Gettu betur verður lokið. Mesta furða hvað hópurinn tekur þessu með miklu jafnaðargeði, en auðvitað á eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur á stemninguna, Hip Razical og hinar hljómsveitirnar sem eftir eru.

Hip Razical í Loftkastalanum í kvöld

Hip Razical - mynd: JÞBFjórða undankvöld Músiktilrauna 2007 er í kvöld fimmtudag og þar mun hljómsveitin Hip Razical frá Sauðárkróki stíga á svið og flytja tvö frumsamin lög, It stays the same og Untrue stories eftir Davíð Jónsson gítarleikara og söngvara. Styrkár Snorrason mun lemja húðirnar, Jón Atli Magnússon leikur af alkunnri snilld á rafgítar og Snævar Örn Jónsson plokkar bassann. Fjölskyldan úr Barmahlíðinni fjölmennir að sjálfsögðu á staðinn og stendur við bakið á sinni bílskúrshljómsveit. Loftkastalinn opnar kl. 18, fyrsta hljómsveit af þeim tíu sem spila í kvöld keyrir í gang kl. 19 og miðaverð er 700 kr. Allir eru velkomnir, sérstaklega verður vel tekið á móti nágrönnum sem hafa þurft að þola hávaðann úr bískúrnum síðustu þrjú ár.

Er þetta vönduð fréttamennska?

Framtíð Evrópusambandsins er ekki björt, aðallega vegna vaxandi óhagstæðrar aldurssamsetningar. Sífellt fjölgar eftirlaunaþegum sem fara af vinnumarkaði, því stórir árgangar eftirstríðsáranna eru að ljúka starfsævi sinni á næstu árum. Þetta sagði Elín Hirst í sjónvarpsfréttum í kvöld og vitnaði í "sérfræðinga" máli sínu til stuðnings. Hún sagði líklegt að grípa yrði til sérstakra ráðstafana á evrópska vinnumarkaðnum vegna þessa vanda. Þessi sannindi eru nánast orðrétt þau sömu og Robert Kreitner segir frá í nokkurra mánaða gamalli bók sinni, nema hvað hann er ekki að tala um Evrópu, heldur Bandaríkin! Líklegast er þá framtíð þeirra ekki björt heldur, eða hvað? Vandamálið er semsagt ekki einangrað við Evrópulönd, en þessi framsetning í sjöfréttum Sjónvarpsins er ekki til að auka tiltrú manna á vandaða fréttamennsku þar á bæ, sérstaklega ekki þegar þetta fólk tekur að sér að fjalla um Evrópusambandið.


Aukin kynlífslöngun og stinnari brjóst

Enn og aftur koma upplýsingar sem sýna fram á ágæti súkkulaðis, nú í danskri rannsókn sem sýnir að við lifum lengur, langar meira að gera "það" og að konur fái stinnari brjóst. Að vísu á þetta bara við um dökkt súkkulaði og ekkert kemur fram um lágmarksmagn sem þarf að innbyrða til að njóta góðs af framantöldum atriðum. Öllum svona rannsóknum á að taka með miklum fyrirvara og nauðsynlegt að beita heilbrigðri skynsemi, því eins og flestir vita er súkkulaði líka fitandi og með fullt af sykri í. Hver vill vera æstur og uppfullur af kynlífslöngun en geta sig vart hrært vegna fitu og yfirþyngdar?

Hallelúja!

Auðvitað eru ekki til nægir peningar til að greiða til sérhæfra sjúkrastofnana í áfengismeðferðarmálum, þeir flæða óhindrað til trúfélaganna sem ætla að reka þessa synd úr mönnum með drottins orði! En svona í fullri alvöru, hvað eru 100 milljónir ef mönnum er einhver alvara með baráttunni gegn þessu þjóðarböli?
mbl.is 100 milljóna halli á SÁÁ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingamiðstöð Ómars og Margrétar

Ómar RagnarssonEf Margrét og Ómar hefðu fengið listabókstafinn Í til afnota í næstu alþingiskosningum, eins og þau sóttu um, hefðu þau átt vísan fjölda atkvæða frá eldri Ísfirðingum sem sakna sárlega gamla bílnúmersins síns, en Ísafjarðarsýsla hafði sem kunnugt er Í á bílnúmerum meðan það kerfi var og hét. Við skötuhjú áttum einu sinni Fiat Uno með númerinu Í-820, en það er nú önnur saga. Í staðinn fá þau Ómar og Margrét bókstafinn I, sem er ekki broddstafur, en það var ekki bílnúmer neinsstaðar. Það gæti hinsvegar í sinni smærri mynd, sem lítið "i", höfðað til villtra ferðamanna í leit að upplýsingamiðstöð. Ómar myndi að sjálfsögðu fara með þá hálendisrúnt og láta þá kjósa í leiðinni. Þetta er auðvitað hið allra vitlausasta grín og kvöldskrifagalsi hjá mér, því að sjálfsögðu mun stefnuskrá og framboð hæfileikafólks ráða mestu um fylgi við hið nýja Íslandsframboð. Gangi þeim allt í haginn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband