Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hip Razical í Músiktilraunum 2007 á laugardag

Hip Razical - Jón Atli, Davíð, Snævar og Styrkár - Mynd: JÞB 2007Bílskúrsbandið okkar hér í Barmahlíð á Krók er nú að á sinni síðustu æfingu fyrir úrslit Músiktilrauna 2007 sem fram fara á laugar- dag í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Þeir Davíð, Snævar, Styrkár og Jón Atli hafa eytt stórum hluta vikunnar í undirbúning; tónlistarlegan sem andlegan. Lögin It stays the same, Untrue Stories og OD hljóma orðið þétt og fagmannlega útfærð. Seinna í dag fer þetta framtíðarinnar stórband Hip Razical suður á bóginn, því hljóðprufur og fundur eru snemma í fyrramálið. Foreldrar sem og aðrir aðdáendur eru spenntir og ætla að fjölmenna af Krók á þennan hápunkt tónlistarferils strákanna. Miðasala hefst kl. 16, miðaverð er kr. 1.000,- og fyrstu hljómsveitir stíga á svið kl. 17.
Áfram Hip Razical!!!


Vondur mælikvarði?

Hagvöxtur er ekki mælikvarði á lífsgæði. Man ekki hver benti mér á að ef ég geri "það" með konunni minni, þá hefur það engin áhrif á hagvöxt. Ef ég hinsvegar kaupi mér kynlífsþjónustu úti í bæ, þá eykur það hagvöxt! Þessi mælivkarði er því afar takmarkaður og segir í raun ekkert lífsgæði, siðferði, gildi, eða annað sem flest okkar telja mikils virði.

mbl.is 56% töldu áhrif umhverfisverndar á hagvöxt jákvæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sirkusatriði veldur valkvíða!

Á sjónvarpsstöðinni Sirkus er nú verið að reyna nýstárlega samsetningu myndar og hljóðs. Sem stendur er þátturinn My name is Earl á skjánum, en án rétta hljóðsins. Undir þættinum hljómar nefnilega þétt popp- og rokktónlist, auk þess sem þátturinn er með íslenskum texta, sem gerir þessa skrýtnu samsetningu enn ruglingslegri. Það er eiginlega útilokað að njóta þessarar stórundarlegu útsendingar, en ég get bara ekki gert upp við mig hvort ég á að loka augunum og hlusta á poppið, eða lækka í hljóðinu og horfa á þöglan Earl. Ég skynja valkvíða hellast yfir...!

Lyftistöng og aukin lífsgæði

Hofsós er einn þeirra staða sem orðið hefur illa úti og fólksflótti þaðan hefur verið talsverður. Þarna er engu að síður gott mannlíf og yndislegur bæjarbragur. Vesturfarasetrið dregur að sér ferðamenn, fræðimenn og jákvæða strauma, en það vantar samt talsvert upp á aðdráttarafl staðarins. Ný sundlaug á eftir að draga að barnafjölskyldur á sumrin, auk þess sem lífsgæði íbúanna munu aukast. Nágrannarnir Lilja og Steinunn eiga heiður skilið fyrir framtakið, svona þátttöku í samfélagslegri uppbyggingu vill maður gjarna sjá oftar.
mbl.is Færa íbúum Hofsóss og nágrennis sundlaug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt upplýsingastreymi

Í gær báru Rarikmenn í hús miða þar sem sagt var að rafmagnslaust yrði á Krók í dag milli kl. 9-17 vegna viðgerða í spennistöð. Í morgun vöknuðu íbúar upp við að rafmagn hafði farið af í nótt, en var komið á aftur. Vegna upplýsinga í tilkynningu gærdagsins var hér heima slökkt á öllum tölvum og öðru sem skemmst gæti þegar straumur færi af. Þegar rafmagn hafði enn ekki farið af kl. 9:30 hringdi ég í Rarik og fékk þá upplýst að þeir væru búnir að fresta því að taka rafmagn af í dag. Þeir sem ekki hringja í Rarik nú í morgunsárið bíða sjálfsagt enn eftir að straumur fari af á hverri stundu.
mbl.is Bilaður háspennustrengur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðaleyndarmál Norðurlands

Jón Þór á bretti í Tindastóli, 28.mars 2007 - Mynd: Valgeir Ægir IngólfssonÁ Norðurlandi eru mörg góð skíðasvæði, misvel þekkt eða vinsæl. Þar er líka boðið upp á þjónustu sem á ekki sinn líka á Íslandi, og ef hennar nyti ekki við þá hefðu margar barnafjölskyldur aldrei séð sér fært að endurnýja skíða- og brettabúnað barna sinna reglulega. Skíðasvæðið sem hér um ræðir er í Tindastóli í Skagafirði, aðeins 280 km frá Reykjavík (ca. 3 tímar í akstur). Þar er stórt og gott svæði með frábærum brekkum, fyrir bretta- skíða- og göngufólk. En það sem meira er, í Tindastóli fer óvenju vel um skíðafólk því þar eru nánast aldrei þrengsli í brekkum eða biðraðir við lyftu. Hægt er að gista og fá góða þjónustu víða í nágrenninu (Skagaströnd, Sauðárkrókur, Varmahlíð, Blönduós og í bændagistingu).

Hitt leyndarmálið, þjónustan sem að framan var getið, er með allan skíðaútbúnað, notaðan og nýjan. Þetta er að sjálfsögðu Skíðaþjónustan á Akureyri, þar sem Viddi og co.  sinna viðskiptavinum af fagmennsku og alúð. Þar er hægt að kaupa notaðan búnað, koma svo síðar þegar krakkarnir hafa stækkað, og greiða sanngjarna milligjöf fyrir skipti á stærri brettum, skíðum eða skóm. Skíðasvæðið í Tindastóli og Skíðaþjónustan á Akureyri eiga bestu þakkir skyldar fyrir að hafa fært mér og fjölskyldu minni ómælda ánægju síðustu ár.


Viljum við svona Ísland?

Presturinn má ekki tjá sig um að sóknarbörn hans óttist að tjá sig, um að þau telji hag sinn geta verið í hættu ef þau hafi skoðun á málinu. Vegna þessa hreiðrar um sig sundurlyndi og vanlíðan í þessari litlu sveit. Er það svona sem við viljum sjá Ísland skoðanafrelsis og kristilegs umburðalyndis árið 2007?

mbl.is Dró til baka athugasemd vegna tilmæla vígslubiskups
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartir skór með sorglega sögu

Þegar ég var krakki kom pabbi einu sinni heim með nýlega svarta skó af vertíð suður með sjó. Svartir skór á fótumSkipsfélagi hans hafði gefið honum þá, en sá hafði í túrnum gefið skipsfélögum sínum fleiri eigur og fatnað af sér. Hann gaf upp ýmsar ástæður: Eitt var of lítið, annað of stórt, og sumt fílaði hann ekki. Morguninn eftir að hásetinn hafði gefið flest allt sitt dót og fatnað til skipsfélaga sinna, var hann horfinn. Og sást aldrei meir. Pabbi kom heim með skóna sem honum höfðu verið gefnir og þeir stóðu í einhverja mánuði í forstofunni við hliðina á öðrum skóm. Við bræður horfðum óttablöndnum augum á skóna með þessa sorglegu sögu og sögðum vinum okkar alvarlegir í bragði frá því að þetta væru dauðsmannsskór. Öðru hvoru síðustu áratugi hef ég velt því fyrir mér hvað þessi örvæntingarfulli maður var að hugsa, hvort hann var svona nýtinn og vildi ekki láta eigur sínar fara til spillis, eða hvort hann óskaði þess að einhver uppgötvaði sorglegar fyrirætlanir hans og stoppaði hann af. Dauðsmannsskónum var svo hent án þess að nokkur notaði þá.

Páfi sjálfstæðismaður?

Voðaleg íhaldssemi er þetta í gamla manninum. Vill hann virkilega að stjórnir Evrópulanda íthlutist meira en orðið er um guðstrú íbúanna? Trúmál eru einkamál hvers og eins og eiga að standa eins fjarri stjórnvöldum og hægt er. Þetta eru gamaldags viðhorf, alveg eins og ofstopi kaþólskra gegn fóstureyðingum fátækra mannmargra fjölskyldna sem eiga erfitt með að sjá sér farborða. Hugmyndafræði páfa sómir sér vel í hópi þeirra sem kenna Evrópusambandinu um hið illa í okkar heimshluta.

mbl.is Páfi harðorður í garð ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru stjórnvöld að svíkja áform um háhraðavæðingu?

telepathy_180Í Fjarskiptaáætlun 2005-2010 segir orðrétt: "Allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu."  Í markmiðskafla (bls.24) stendur: "Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007." Ég heyrði í gær í svekktum sveitarstjóra tæplega 500 manna sveitarfélags sem sagði að ekkert benti til þess að við þetta yrði staðið. Hvað segja Sturla og félagar í stjórnarflokkunum, ætla þeir bara að bjóða kjósendum dreifðra byggða í vor upp á telepatískt netsamband við umheiminn?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband