Svartir skór með sorglega sögu

Þegar ég var krakki kom pabbi einu sinni heim með nýlega svarta skó af vertíð suður með sjó. Svartir skór á fótumSkipsfélagi hans hafði gefið honum þá, en sá hafði í túrnum gefið skipsfélögum sínum fleiri eigur og fatnað af sér. Hann gaf upp ýmsar ástæður: Eitt var of lítið, annað of stórt, og sumt fílaði hann ekki. Morguninn eftir að hásetinn hafði gefið flest allt sitt dót og fatnað til skipsfélaga sinna, var hann horfinn. Og sást aldrei meir. Pabbi kom heim með skóna sem honum höfðu verið gefnir og þeir stóðu í einhverja mánuði í forstofunni við hliðina á öðrum skóm. Við bræður horfðum óttablöndnum augum á skóna með þessa sorglegu sögu og sögðum vinum okkar alvarlegir í bragði frá því að þetta væru dauðsmannsskór. Öðru hvoru síðustu áratugi hef ég velt því fyrir mér hvað þessi örvæntingarfulli maður var að hugsa, hvort hann var svona nýtinn og vildi ekki láta eigur sínar fara til spillis, eða hvort hann óskaði þess að einhver uppgötvaði sorglegar fyrirætlanir hans og stoppaði hann af. Dauðsmannsskónum var svo hent án þess að nokkur notaði þá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Maður gleymir ekki létt því sem olli manni hugarangri sem barn, og þessi saga kemur alltaf öðru hvoru upp í hugann. Og alltaf finn ég til með þeim sem undirbjó brottför sína útbyrðis, en ekki síður skipsfélögum sem eftir sátu. Það virðist vera í eðlinu að ásaka sjálfan miskmikið, en auðvitað eiga menn sjaldnast möguleika á að skynja þá miklu vá sem fyrir dyrum er hjá manni í þessu hugarástandi. Ásetningurinn er oft mikill og áformin vandlega falin í dimmu hugarskoti, því miður.

Jón Þór Bjarnason, 30.3.2007 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband