Færsluflokkur: Íþróttir

Hahaha...

... nýliðar Tindastóls? Veit ekki betur en Tindastóll hafi verið í efstu deild í körfubolta í yfir tuttugu ár, að árinu 2006 undanskildu. Þeir voru í úrvalsdeildinni í fyrra, og því ekki rétt að tala um nýliða.
mbl.is Öruggur sigur Tindastóls gegn FSu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snubbótt

Styttri íþróttafrétt hef ég aldrei lesið; synd og skömm, þar sem leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og spennu. Mistök á báða bóga, gloppóttur sóknarleikur og talsverður haustbragur á báðum liðum. Við Viggó Jónsson stóðum vaktina, görguðum okkur hása og klöppuðum okkur rauðhenta til stuðnings Tindastólsmönnum í Hólminum í gærkvöldi. Sigurinn gat auðveldalega fallið beggja vegna, en heppnin var með okkur í lokin.
mbl.is Tindastóll hafði Snæfell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli og strákarnir okkar á stífu ferðalagi

"Það voru bara tvær leiðir, önnur upp og hin niður. Við fórum upp en það hefst strax undirbúningur að næsta verkefni. Við „tjöldum“ kannski aðeins og njótum augnabliksins en svo pökkum við saman öllu draslinu og höldum áfram." sagði Ólafur Stefánsson handsnilli eftir sigurinn á Pólverjum í morgun.

Vond viðburðastjórnun á Landsmóti hestamanna

Hef það eftir fyrirtækjum sem voru með sýningarbása í reiðhöllinni á landsmótinu á Hellu að þar hafi verið vond viðburðastjórnun í gangi:

1. Umsamin staðsetning á básum í reiðhöll hafi skolast illilega til
2. Það sem fram fór í reiðhöllinni hafi verið illa kynnt fyrir mótsgestum
3. Inngangar í reiðhöll voru ekki alltaf þeir sömu, sem torveldaði aðgengi gesta
4. Tengilið milli sýningaraðila í reiðhöll og mótsstjórnar hafi sárlega vantað
5. Haldnir hafi verið fundir sem sýnendur voru ekki boðaðir á
6. Vegna slælegrar kynningar framan af móti hafi laugardagurinn verið eini dagurinn sem fólksstreymi hafi verið í höllina
7. O.fl. o.fl...

Einnig hefur heyrst frá mörgum knöpum/keppendum að aðstaða og skipulag hafi ekki alltaf verið upp á marga fiska. Miðað við allar þær lýsingar sem ég hef heyrt verður ekki mikið mál að toppa þetta Hellumót á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði árið 2010, þótt þar sé engin reiðhöllin! Það sem sunnlendingum er helst hrósað fyrir er að veitingasalan hafi gengið vel ;)


Ég er bæði mellari og lallari, en varla smallari

Staldraði stutta stund við í sportvörubúð og verslaði stuttbuxur, bol og sprettskó fyrir sumarið. Komst léttilega í "medium" hlaupabol, en þegar kom að því að velja dry-fit stuttbuxurnar hélt afgreiðsluguttinn "large" buxum á lofti. "Ég held þú þurfir þessa stærð" sagð'ann hugsi og bar okkur saman, mig og buxurnar. Rétti mér svo þessar "large" buxur og sagði ákveðinn: Já, ekki spurning, þú ert "lallari"! Þá veit ég það; maður er bæði mellari og lallari! Og þó að á síðustu misserum hafi horfið allnokkur fjöldi aukakílóa, þá held ég að maður verði nú aldrei "smallari"!

Tékka betur á þessu næst...

Tékkar héldu að þeir væru að fara að leika landsleik við Lettland, spilaðu þjóðsöng þeirra, flögguðu fána og birtu myndir í dagskrá fyrir leikinn. Áttuðu sig svo á því þegar í óefni var komið að landsliðið sem þeir stóðu andspænis á vellinum væri frá Litháen, ekki Lettlandi. Litháarnir urðu auðvitað sármóðgaðir yfir þessari vanvirðu. Tékkar hafa nú beðist afsökunar og lofa að tékka betur á því næst hverja þeir eru að spila við. Til að vera alveg vissir finnst mér fullt tilefni til að þeir dobbeltékki á því!

Óvænt svör barnanna

Oft nota foreldrar ákveðna frasa á börn sín til að fá þau til að hegða sér "rétt". Stundum eru viðbrögð barnanna ófyrirséð og tilsvör þeirra úr óvæntri átt. Ein mamma sagði við dóttur sína: Borðaðu nú matinn þinn, svo þú verðir stór og sterk. Já, svaraði sú stutta: Eins og Vigga lesbía í vaxtaræktinni!

Guðdómleg golfsaga

Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði  af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!

Brettaferð og kennsla

Einn nemenda minna í brettakennslunniÍ gær var hér í Skagafirði blíða og heiðskýr himinn. Ég greip tækifærið og skellti mér á bretti á skíðasvæðið í Tindastóli. Til að byrja með var það svolítið skrýtið að koma úr víðáttum Austurríkis í sína gömlu brekku, en þarna er enn nægur snjór og verður það trúlega langt fram í maí. Færið var frábært og ég fór nokkur nokkur góð rennsli. Á staðnum voru grunnskólabörn í heimsókn, með rassinn út í loftið, óörugg og dettandi. Engin virtist sinna því að leiðbeina þeim. Flest voru á skíðum, en fjögur á bretti. Ég stóðst ekki mátið að breiða út brettaboðskapinn og bauðst til að kenna þeim undirstöðuatriði í snjóbrettakeyrslu. Þau þáðu það með þökkum og breiðu brosi, enda komin með auman bossa og uppgjafarsvip á andlit. Við tókum einn og hálfan klukkutíma í að æfa helstu trixin; standa með rétta þungadreifingu, beita köntunum rétt og taka beygjur. Ég var sæll með að geta miðlað minni þekkingu; þau enn sælli með að finna eftir smá stund að þetta virkaði: Þau höfðu stjórn á brettunum og byltunum hafði fækkað. Síðar um daginn þegar við kvöddumst voru þau alsæl og brostu breitt, en fyrir mig varð dagurinn líka meira gefandi en ég hafði reiknað með. Það er alltaf gott að geta gefið af sér.

Bolti og bretti

Elsa í brettastökkiLoksins, loksins... komst maður á snjóbretti og á körfuboltaleik á Krók, hvorutveggja langþráð. Við fórum í skíðalyftuna í Tindastóli, ég og Elsa á bretti, en Gummi á skíðum, og áttum þar nokkur fin rennsli. Fengum okkur svo kakó, soðbrauð með hangiketi og kanilsnúða eftirá, svona rétt til að hita upp fyrir gríðargott lasanjað sem Svanhildur kokkaði fyrir skíðafólkið í kvöldmatinn. Eftir matinn fór svo þríeykið á heimaleik í körfunni, þar sem spennan var í algleymi þegar Tindastóll marði sigur á Stjörnunni, en þar tók sig upp gömul stemning svo að maður er enn aumur í lófum og rámur í röddu. Boltaleikur og brettaferð með börnunum er gefandi og bætir talsvert við mína annars ágætu lífsgleði.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband