Færsluflokkur: Menning og listir

Áningarstaðir og upplýsingaskilti fyrir ferðalanga

Hluti af verkefni sem ég stýri þessa dagana hefur kallað á upplýsingar til að setja inná kort fyrir ferðamenn í Skagafirði. Um er að ræða áningarstaði þar sem hægt er leggja bílnum, fræðast af upplýsingaskiltum eða tylla sér á bekk til að borða nestið sitt. Fornleifavernd, Þjóðminjasafnið og Vegagerðin eru helstu stofnanir sem framkvæmt hafa í þessa veru og eru víða fallegir áningarstaðir með áhugaverðum upplýsingum. Hinsvegar er alveg skelfilegur skortur á að upplýsingar um þessa staði séu aðgengilegar, t.d. á internetinu. Það skal tekið fram að starfsmenn umræddra stofnana hafa verið boðnir og búnir að svara spurningum og leiðbeina, en þetta á bara ekki að vera svona flókið. Að mínu mati er aðkallandi að bæta og auðvelda aðgang almennings að þessum upplýsingum á internetinu, því upplýsingar á þessum áningastöðum fræða og hvetja ferðamenn til að kanna betur landið sitt, kynnast nánar okkar fornu menningu og merkilegum sögustöðum.

Mósaikverk...

... sem fáir vita um, er staðsett í kirkjuturninum á Hólum í Hjaltadal. Ég bloggaði einmitt um það hér.
mbl.is Erró áritar bók og gefur grafíkverk á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúl tröllkerlingar í Keldudal

Fyrir miðjum Skagafirði liggur Hegranesið og klífur Héraðsvötn í tvennt. Þar eru klettaborgir miklar og þaðan sprottnar margar sagnir um álfa og huldufólk. Sunnarlega á nesinu er ferðaþjónustubýlið Keldudalur, þar sem m.a. hefur fundist merkilegur grafreitur úr heiðni. En þar eru líka álfar og huldufólk, og það sem meira er, líka tröllkerlingar. Sjáandi einn var fenginn til að ganga um jörðina og rissa upp og lýsa því sem fyrir augu bar. Ferðamenn sem gista í Keldudal geta fengið þessar teikningar plastaðar með í gönguferð um svæðið, en á einni þeirra má sjá heljarmikla tröllkerlingu, bera að ofan með flennistór brjóst. Þarna eru því álfar, huldufólk og tröllkerlingar... fyrir alla fjölskylduna!

Er að verða einn af þessum skrítnu

Fyrir margt löngu sá ég í útlöndum í fyrsta sinn fólk, oftast komið alllangt að austan, sem stóð í sérkennilegum stellingum í almenningsgörðum. Þessar manneskjur hreyfðu sig hægt og tignarlega og virtust sem þær væru af öðrum heimi en iðandi borgarsamfélagið allt í kring. Þó mér þætti þetta á einhvern hátt heillandi var ég viss um að þetta fólk væri skrítnara en við flest. En með tímanum breytist maður og fyrir nokkrum dögum rakst ég á ókeypis mini-námskeið í Tai Chi á netinu sem ég skráði mig á. Nú fæ ég reglulega sendar kennslustundir í tölvupósti frá kennaranum, Al Simon í Bandaríkjunum, og allt stefnir í að ég verði áður en langt um líður einn af þessum skrítnu sem hreyfa sig á dularfullan hátt í slómó út um allar koppagrundir.

Í þá daga mátti ekki gefa kynlíf í skyn

Skafti Ólafsson söngvari hefur í dag verið gestur Freys Eyjólfssonar í þættinum Geymt en ekki gleymt á Rás 2. Hann sagði m.a. frá því að lagið Allt á floti hafi eitt sinn verið bannað í Útvarpinu. Tímarnir hafa sannarlega breyst, því ástæðan var aðallega lokaerindi textans, þar sem segir:

Ég kem til þín í kvöld, við kossa blíða og ástareld

Bæði gleymum við stund og stað,

ég seg’ ei meir’ um það!

Þá verður allt á floti allsstaðar...


Minjalosti

Í dag er boðið til málþings á Hólum, til heiðurs Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga, sem á 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Margir merkir fyrirlestrar verða fluttir um safnastarf, búsetu- og menningarminjar m.m., en heiti fyrirlesturs Hjörleifs Stefánssonar vekur sérstaka athygli; svona aðeins á skjön við almennar hugmyndir um minjamál. Fyrirlesturinn heitir: Heltekinn af minjalosta!

Hveragerði að ég rakst á þig

Íslendingar eru ekki mikið fyrir að leiðrétta útlendinga þegar þeir segja eitthvað rangt í tilraunum sínum til að tjá sig á okkar ástkæra ylhýra. Algengt er að menn hlusti á mismælið eða vitleysuna, og hlæi svo að henni í góðra landa hópi eftirá. Einn ágætur kórstjórnandi frá Englandi sagði óáreittur sömu vitleysuna í heil tvö ár, alltaf þegar hann þurfti að afsaka sig (t.d. þegar hann rakst utan í einhvern í búðinni): "Hveragerði, þetta var alveg óvart..."  Hann ruglaði því saman við fyrirgefðu!

Landbúnaðarsýning þróast í skagfirskri sveitasælu

Síðastliðin tvö ár hefur landbúnaðarsýning verið haldin í Reiðhöllinni við Sauðárkrók, en í fyrraFánaborg við innganginn - 2006 kynntu tæplega þrjátíu fyrirtæki vörur sínar og tæplega tvö þúsund manns heimsóttu svæðið. Í takti við þá framtíðarsýn að sýningin vaxi og dafni og teygi anga sína víðar um Skagafjörð í formi ýmissa tengdra viðburða, þá hefur hún nú hlotið nafnið:

SveitaSæla 2007

LANDBÚNAÐARSÝNING & BÆNDAHÁTÍÐ

í Skagafirði 17. – 19. ágúst

Auk tengingar við búsæld og sveitastemningu sækir nafngiftin innblástur í aðra og þekktari skagfirska "sælu", nefnilega Sæluvikuna, sem byrjað var að halda hátíðlega á Krók fyrir meira en hundrað árum síðan. Til viðbótar þessum skemmtilega fjölskylduviðburði verður Norðurlandsmót æskunnar í frjálsum íþróttum á Króknum þessa helgi, og Kántrýdagar á Skagaströnd, í aðeins hálftíma fjarlægð. Hér er því komin tilvalinn valkostur fyrir áhugafólk um íslenska landsbyggðarmenningu :)  ...sjá einnig dagatal með fleiri skemmtilegum viðburðum á Norðurlandi í sumar með því að smella HÉR


Leikvöllurinn Ísland

Gríðarleg aukning hefur orðið í innflutningi og notkun á torfæru- og fjórhjólum. Mestmegnis eru tækin hugsuð til að leika sér á, og leikvöllurinn eru óbyggð svæði Íslands. Eitt hjólfar í brekku snemma sumars verður að vatnsrás, sem árið eftir verður að læk. Í mínu nágrenni sé ég stórskemmdir á landi eftir hjólför frá í fyrra (allt upp í eins meters breiða skurði, 50-70cm á dýpt), en ég er viss um að hryllingurinn er bara rétt að byrja. Yfirvöld, bær og ríki, hafa brugðist nær algerlega í að úthluta þessum hópum leiksvæði sem sátt er um að megi skemma. Við höfum enn bara séð toppinn á þessum mannhverfa borgarísjaka!

Den Islandske hest - Fagranes i Skagafjordur 1993

Kolbeinn Jónsson Eiríkssonar DrangeyjarjarlsDanska sjónvarpið endursýndi áðan heimildarmynd frá 1993 um hesta og menn á Fagranesi á Reykjaströnd. Stemningin í myndinni er fín, svona eins og hún gerist best í sveitasælunni, og svo er ekki síður gaman að sjá sveitunga sína á yngri árum, t.d. Kolbein unga, sem hefur leiðsagt ferðamönnum um Gretti sterka í Drangey mörg síðustu ár. Smellið HÉR og veljið: Se Programmet.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband