Færsluflokkur: Menning og listir

Skagafjörður - Skemmtilegur í fríinu!

Um 30 þúsund manns heimsækja Glaumbæ árlegaNú er loks tilbúinn til prentunar, ferðabæklingurinn um Skagafjörð sem ég er búinn að vera að vinna við síðustu mánuði. Útkomuna á þessum veglega 24 blaðsíðna mynd- og litskrúðuga bæklingi er hægt að sjá á pdf-sniði með því að smella á viðhengið hér að neðan. Fjölmargir lögðu hönd á plóginn við hugmynda- og textavinnu, útfærslur og myndefni; lásu yfir og gerðu gagnlegar athugasemdir. Kærar þakkir fyrir gefandi samstarf til ykkar allra sem unnuð með mér að bæklingnum.

Í þjónustukortum fyrir Sauðárkrók (um 9 mb) og Skagafjörð (um 10 mb) má svo finna meira um ferðaþjónustufyrirtækin sem taka á móti ykkur þegar þið komið í Skagafjörðinn í sumar Happy


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bjargsig í Drangey

Ásta á leið fram af bjargbrún, Viggó við stokkinn og Jón Þór að kvikmynda í baksýnDrangey var um aldir forðabúr Skagfirðinga, en þangað hefur ávallt verið hægt að sækja í fulla matarkistu af fugli og eggjum. Í gær fór vaskur hópur karla og kvenna út í eyju, bæði til að ná sér í svartfuglsegg í matinn, en einnig til að halda við aldagömlum venjum. Ásta Jóns Drangeyjarjarlsdóttir seig niður eins og síðustu ár og restin af mannskapnum raðaði sér á vaðinn. Sjálfur tók ég að mér þann starfa fyrir Viggó bróðir sigkonunnar að kvikmynda í bak og fyrir það sem fram fór. Svona ferðir eru alltaf ógleymanlegar, þar sem maður á einu og sama augnablikinu sameinast náttúrunni og stígur í fótspor forfeðranna.

Bíó á Króknum eftir Skagfirðinga í Kvikmyndaskólanum

Sauðárkróksbíó sýnir um helgina tvær stuttmyndir; útskriftarverkefni tveggja Skagfirðinga sem voru að ljúka námi í Kvikmyndaskóla Íslands. Myndin Yfirborð eftir Stefán Friðrik Friðriksson hlaut um síðustu helgi aðalverðlaunin á útskriftarhátíð í Laugarásbíói, en einnig verður sýnd í Sauðárkróksbíói myndin Þjófur, þjófur, eftir Ragnar P. Pétursson. (Í framhjáhlaupi má geta þess að við Ragnar lékum saman á fjölum Þjóðleikhússins árið 1996, í Sumrinu fyrir stríð, eftir Jón Ormar Ormsson).

Vonandi verður svo samskonar stuttmyndaveisla á Króknum að ári, þegar Skagfirðingarnir Davíð Jónsson og Styrkár Snorrason mæta heim með sín útskriftarverkefni, en þeir voru fyrir skemmstu að ljúka sínu fyrra ári í Kvikmyndaskólanum.


Hvort eigum við þrjá eða fjóra þjóðgarða?

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar stendur:

Þjóðgarðar á Íslandi eru 3 talsins

Á Íslandi eru þrjú svæði friðlýst skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd sem þjóðgarðar en þau eru Skaftafell, Jökulsárgljúfur og Snæfellsjökull. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er friðlýstur með sér lögum.

Ekki ætla ég að reyna að útskýra fyrir fólki muninn á reglugerð um þjóðgarða annarsvegar, og sérlögum um þjóðgarða hinsvegar... né heldur hvernig þrír verður að fjórum á síðunni hjá UST. 


Ungur gítarsnillingur frá Suður-Kóreu

Sungha JungÓtrúlegur þessi ungi dreng-

ur, Sungha Jung, virkilega yndislegt að heyra hann spila.


Allt í blóma í Brussel

Aðalinngangur og sýningarhöll nr 5Hér er vorið komið, gróðurinn vaknaður til lífsins í sólskininu síðustu daga. Við höfum meðan á sjávarútvegssýninunni stendur eytt dögunum í miðborginni, borist með straumnum um búðarstræti og bragðað á belgískum vöfflum. Þetta eru kaloríubombur hinar mestu, bornar fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum, rjómaís og bræddu súkkulaði. Samviskubit yfir áti á einni slíkri er þó lítið, þar sem mikil orka fer í göngur og erfiðisvinnu hér. Alþjóðlegar veitinga- og verslunarkeðjur gera þessa borg mörgum öðrum líka, en úrval margrómaða belgíska súkkulaðisins og konfektsins setur þó sitt sérstaka yfirbragð á miðborgina. Gamlar hallir, hús og kirkjur tengja mann við söguna, en að öðru leyti eru straumarnir mjög alþjóðlegir. Eins og mín er von og vísa hef ég skotið nokkur hundruð ljósmyndum hér, bæði innan og utan sýningarsvæðis, sem koma sér vel þegar minnið fer að svíkja og myndrænna tenginga verður þörf til að rifja upp þessa tíu góðu apríldaga hér. Gleðilegt sumar!

Orðljótur, drykkfelldur ónytjungur

Read my lips No more BushLeikstjórinn Oliver Stone er nú að vinna að mynd um George W. Bush, en hann hefur áður gert myndir um Kennedy og Nixon. Stone segist ekki vera að gera áróðursmynd gegn Bush, hann sé bara að reyna að skilja hvernig þessi maður, sem var orðljótur drykkfelldur ónýtjungur, gat orðið forseti Bna og þarmeð valdamesti maður heims (ruv.is 9.4.2008). Myndtengingin við þetta blogg segir hug minn allan: Burt með Búskinn! ;)

Blindur blúsgítarleikari deyr

Einn magnaðasti blúsgítarleikari seinni tíma og einn af mínum uppáhalds, Kanadamaðurinn Jeff Healey, lést úr sjaldgæfum sjúkdómi (Retinoblastoma) fyrir örfáum dögum síðan. Sjúkdómurinn herjaði á augun á honum frá eins árs aldri; krabbamein sem dró hann til dauða aðeins 41. árs gamlan. Hann þróaði og gerði frægan mjög sérstakan spilastíl, þar sem hann sat á stól með gítarinn liggjandi flatan á lærunum. Hann skilur eftir sig jafnt kröftug blúsrokklög sem og fallegar blúsballöður, sumar svo  yfirþyrmandi tilfinningaríkar að þær hafa framkallað tár hjá fleirum en mér. Healey er farinn, en tónlistin lifir og á eftir að auðga líf mitt og fjölmargra annarra um ókomin ár.

Vannýtt blóðbað og voðaatburðir

Það rifjast enn og aftur upp fyrir mér í því verkefni sem ég vinn nú að, hve gríðarleg verðmæti og tækifæri Skagfirðingar eiga í Sturlungasögunni, en að sama skapi vannýtt. Hér er lítið um raunverulega “vöru” að bjóða ferðamönnum, þrátt fyrir að hér hafi farið fram bæði fjölmennustu og blóðugustu bardagar Íslandssögunnar, annarsvegar 3000 manna bardagi við Örlygsstaði, og svo lágu um hundrað manns í valnum í Haugsnesbardaga. Hér átti sér líka stað einn níðingslegasti atburður þessarar óaldar, þegar á þriðja tug manna voru brennd inni í Flugumýrarbrennu. Gissur jarl slapp eins og menn vita með því að sökkva sér í sýruker. Að lokum má svo nefna að eina sjóorustan sem háð hefur verið við Ísland (fyrir utan Þorskastríðshnoðið) hófst með siglingu skipa Kolbeins unga og hans hermanna frá Selvík á Skaga, en hann barðist við Þórð Kakala og menn hans úti fyrir Húnaflóa. Víða erlendis nýta menn mun ómerkilegri atburði til þess að búa til vinsæla áfangastaði fyrir ferðamennn, en þetta hefur okkur enn ekki tekist hér í Skagafirði.

Björk í Hong Kong í gær

Kínversk vinkona mín brá sér bæjarleið í gær frá Shenzhen, á Volta-tónleika Bjarkar Guðmundsdóttur í Hong Kong. Hún er alveg í skýjunum í dag, en dauðþreytt í fótum og kroppi eftir að hafa dansað allan tímann fyrir framan sviðið. Enn suðar fyrir eyrum eftir kraftmikla tónlistina, sem hún segir hafa verið töfrum líkasta, þannig að hún varð fyrir áhrifum sem kölluðu fram bæði tár og fullt af tilfinningum. Þeir sem dá tónlistargaldra Bjarkar vita að þetta hendir auðveldlega hrifnæmar manneskjur, enda engin venjuleg tjáning sem Björk getur framkallað með sínum töfrabarka. Það er þó að skilja á minni kínversku vinkonu að Björk sé orðin þekkt fyrir fleira en tónlistarflutning sinn og því hafi sumir orðið fyrir vonbrigðum með að hún skyldi aðeins nota einn búning; það hafi verið helsti galli tónleikanna að hún hafi verið í einu og sama dressinu allan tímann! Einhverjir vankantar voru líka á sándi og skipulagi tónleikanna, en það kom ekki í veg fyrir að vinkonan færi yfir sig hrifin og hamingjusöm með ferjunni heim í gærkvöldi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband