Færsluflokkur: Spaugilegt

Þriðji ísbjörninn dauður og grafinn?

Sú saga fer nú hljóðlega á milli manna, m.a. hjá blaðamönnum í gúrkutíðarham, að þriðji ísbjörninn hafi komið á land ekki alls fyrir löngu, en hafi verið skotinn allsnarlega og urðaður í kyrrþey með álíka hröðum handtökum. Sel það ekki dýrar en ég keypti það. Annars fannst mér gott hjá þjóðfræðingnum hjá Árnastofnun sem sagði, sem svar við þjóðtrúnni um að allt sé þegar þrennt er, að ef þriðji atburðurinn bættist nú við ísbirni og jarðskjálfta, og að í framhaldi af því yrði svartur maður forseti Bandaríkjanna, þá værum við komin með alveg nýja stærð í þessar þrennupælingar LoL

Hauslausir fuglar

Margur fuglinn þykir góður til matar. Nú styttist í að við félagar förum hina árlegu ferð í Drangey á Skagafirði til að háfa lunda, sem okkur þykir hið mesta lostæti. Annað fiðurfé þykir líka gómsætt; t.d. hænsnfuglar. Áður en menn leggja sér fuglakjöt til munns er betra að aflífa skepnurnar, en það er ekki alltaf fögur sjón. Algengt var hér áður að hænur í sveitinni væru hálshöggnar á bæjarhlaðinu, að heimilisfólki öllu ásjáandi. Ein góð vinkona mín upplifði slíka aftöku þegar hún var aðeins nokkurra ára gömul. Eftir að búið var að höggva höfuðið af hljóp hænan hauslaus um allt hlað og rakst auðvitað á það sem fyrir varð. Vinkona mín var fljót að átta sig á ástæðu þess að hænan hljóp svona blind fram og aftur, og til að hún sæi betur hvert hún var að fara tók hún afhöggvinn hausinn, lyfti honum upp og beindi honum í þær áttir sem hænan hljóp. "Svona, svona" sagði hún huggandi, "nú geturðu séð hvert þú ert að hlaupa!"

Ég er bæði mellari og lallari, en varla smallari

Staldraði stutta stund við í sportvörubúð og verslaði stuttbuxur, bol og sprettskó fyrir sumarið. Komst léttilega í "medium" hlaupabol, en þegar kom að því að velja dry-fit stuttbuxurnar hélt afgreiðsluguttinn "large" buxum á lofti. "Ég held þú þurfir þessa stærð" sagð'ann hugsi og bar okkur saman, mig og buxurnar. Rétti mér svo þessar "large" buxur og sagði ákveðinn: Já, ekki spurning, þú ert "lallari"! Þá veit ég það; maður er bæði mellari og lallari! Og þó að á síðustu misserum hafi horfið allnokkur fjöldi aukakílóa, þá held ég að maður verði nú aldrei "smallari"!

Bangsi vera góður...

Ísbjörninn og vinir hans á Þverárfjalli 3. júní 2008 - mynd: Skagafjordur.com...NEI BANGSI, skamm... við ólseigir Skagfirðingar... alveg óætir... HJÁLP, skjótið, skjótið!

(Mynd fengin að láni af skagafjordur.com


Kraftaverkaklippingar?

Kate Bush Vinkona mín fór í morgun á stofu að láta snurfusa á sér hárið; klippa og strípa. Þetta væri ekki í frásögur færandi, nema að í stólinn við hliðina á henni settist stelpa sem bar fram afar sérkennilega ósk. Sjálfsagt fá hárskerar ýmsar skrýtnar beiðnir, sem erfitt er að verða við. Allavega kom mjög skrýtinn svipur á þennan, þegar stelpan bað í fullri alvöru um klippingu eins og Kate Bush, þannig að hún virkaði bæði beinni í baki og undirhakan á henni sæist ekki!

Tékka betur á þessu næst...

Tékkar héldu að þeir væru að fara að leika landsleik við Lettland, spilaðu þjóðsöng þeirra, flögguðu fána og birtu myndir í dagskrá fyrir leikinn. Áttuðu sig svo á því þegar í óefni var komið að landsliðið sem þeir stóðu andspænis á vellinum væri frá Litháen, ekki Lettlandi. Litháarnir urðu auðvitað sármóðgaðir yfir þessari vanvirðu. Tékkar hafa nú beðist afsökunar og lofa að tékka betur á því næst hverja þeir eru að spila við. Til að vera alveg vissir finnst mér fullt tilefni til að þeir dobbeltékki á því!

Mesta bananalýðveldi í Evrópu?

Er að vinna texta í bækling fyrir erlenda ferðamenn. Rakst við gagnaöflun á þessar skondnu upplýsingar um okkur á hinni amerísku kynningarsíðu Ferðamálastofu:

"Iceland is probably the biggest banana growing country in Europe. The inexpensive geothermal energy provides the resources to grow all sorts of exotic crops in greenhouses"


Sækadelískar skammstafanir í símatilboðum

Eitt símafyrirtækjanna hringir nú út og bíður pakkatilboð með heimasíma, gsm og nettengingu. Kona fyrir vestan sagði vinkonu sinni frá því að þeir hefðu haft samband við sig og boðið sér að hringja frítt í alla heimasíma í eitt ár, gsm á góðum díl og ágætis pakka með LSD að auki!

Óvænt svör barnanna

Oft nota foreldrar ákveðna frasa á börn sín til að fá þau til að hegða sér "rétt". Stundum eru viðbrögð barnanna ófyrirséð og tilsvör þeirra úr óvæntri átt. Ein mamma sagði við dóttur sína: Borðaðu nú matinn þinn, svo þú verðir stór og sterk. Já, svaraði sú stutta: Eins og Vigga lesbía í vaxtaræktinni!

Guðdómleg golfsaga

Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði  af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband