Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Sækadelískar skammstafanir í símatilboðum

Eitt símafyrirtækjanna hringir nú út og bíður pakkatilboð með heimasíma, gsm og nettengingu. Kona fyrir vestan sagði vinkonu sinni frá því að þeir hefðu haft samband við sig og boðið sér að hringja frítt í alla heimasíma í eitt ár, gsm á góðum díl og ágætis pakka með LSD að auki!

Ungur gítarsnillingur frá Suður-Kóreu

Sungha JungÓtrúlegur þessi ungi dreng-

ur, Sungha Jung, virkilega yndislegt að heyra hann spila.


Óvænt svör barnanna

Oft nota foreldrar ákveðna frasa á börn sín til að fá þau til að hegða sér "rétt". Stundum eru viðbrögð barnanna ófyrirséð og tilsvör þeirra úr óvæntri átt. Ein mamma sagði við dóttur sína: Borðaðu nú matinn þinn, svo þú verðir stór og sterk. Já, svaraði sú stutta: Eins og Vigga lesbía í vaxtaræktinni!

Myndir frá sjávarútvegssýningunni í Brussel

Atomium - minnisvarði um heimssýninguna 1958Hátt í tvö þúsund fyrirtæki frá um áttatíu löndum kynntu að þessu sinni vörur sínar og þjónustu á sýningunni, sem um 23 þúsund gestir heimsóttu. Flestir þeirra eru á vegum inn- og útflutningsaðila sjávarafurða, eða dreifingar- og vinnslufyrirtækja. Þessi árlega sýning, sem nú var haldin í sextánda sinn, á vafalítið bara eftir að stækka á komandi árum, ekki hvað síst vegna vaxandi almennrar þekkingar á því hve heilsusamleg neysla fiskafurða er. Smellið hér til að sjá myndir frá sýningunni og Brusselferðinni.

Ósigrandi þvermóðskuþjóð

Var á fyrirlestri Einars Más á Gljúfrasteini á sunnudag, þar sem hann fjallaði um Bjart í Sumarhúsum. Ein sagan sem hann sagði var úr þorskastríði Íslendinga og Englendinga. Breskur ráðherra vildi kynnast óvininum og bað ráðgjafa sinn að útvega bók sem væri lýsandi fyrir þessa litlu eyþjóð í norðrinu. Ráðgjafinn ráðfærði sig við bókfróða menn sem mæltu með því að ráðherrran læsi Sjálfstætt fólk. Að lestri loknum leit ráðherrann raunamæddur á ráðgjafa sinn og sagði: Þetta stríð vinnum við aldrei!

Allt í blóma í Brussel

Aðalinngangur og sýningarhöll nr 5Hér er vorið komið, gróðurinn vaknaður til lífsins í sólskininu síðustu daga. Við höfum meðan á sjávarútvegssýninunni stendur eytt dögunum í miðborginni, borist með straumnum um búðarstræti og bragðað á belgískum vöfflum. Þetta eru kaloríubombur hinar mestu, bornar fram með þeyttum rjóma, jarðaberjum, rjómaís og bræddu súkkulaði. Samviskubit yfir áti á einni slíkri er þó lítið, þar sem mikil orka fer í göngur og erfiðisvinnu hér. Alþjóðlegar veitinga- og verslunarkeðjur gera þessa borg mörgum öðrum líka, en úrval margrómaða belgíska súkkulaðisins og konfektsins setur þó sitt sérstaka yfirbragð á miðborgina. Gamlar hallir, hús og kirkjur tengja mann við söguna, en að öðru leyti eru straumarnir mjög alþjóðlegir. Eins og mín er von og vísa hef ég skotið nokkur hundruð ljósmyndum hér, bæði innan og utan sýningarsvæðis, sem koma sér vel þegar minnið fer að svíkja og myndrænna tenginga verður þörf til að rifja upp þessa tíu góðu apríldaga hér. Gleðilegt sumar!

Brusselsýningin að byrja

Erum búnir að vera hér í fimm heila daga við að setja upp bása fyrir Útflutningsráð og íslensk fyrirtæki á stóru sjávarútvegssýningunni í Brussel. Klikkuð vinna í 12-14 tíma á dag fyrir Sýningakerfi ehf, en gaman í góðum hópi. Höfum enn ekki séð mikið af borginni, þar sem við bæði vinnum og búum í úthverfi. Það stendur þó til bóta á morgun, þegar sýningin byrjar og við fáum frí... loksins... allt þar til niðurrif hefst á fimmtudag. Á sýningunni flæðir allt af mat og drykkjum og stemningin fín, á þessu risastóra svæði, sem tók í fyrrakvöld tæpan klukkutíma að labba kringum. Básaeyjurnar sem við sjáum um eru í höllum 4 og 6, með stærstu höllina, nr. 5, á milli. Um 400 metrar skilja svæðin að, sem þýðir að maður labbar tæplega 10 km á hverjum degi. Grófur óábyrgur eiginútreikninginur segir að sýningin spanni uþb 50 þús fermetra. En ánægjan sem felst í því að vinna við svona er a) skammtímaverkefni (10 dagar); b) góður hópur (sex manns); c) nýtt umhverfi (fyrsta sinn í Brussel)... og allt það góða sem fæst við tilbreytingu í lífinu. Ókosturinn er að vera fjarri þeim sem manni þykir vænst um. Lífið er uppfullt af kostum og göllum, þetta er bara spurning um að njóta þess besta sem aðstæður hverju sinni bjóða upp á.

Guðdómleg golfsaga

Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði  af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!

Dásamleg Dorrit

Dorrit í skagfirskri lopapeysu - mynd: Gunnar hirðljósmyndari embættisinsHaldin var mikil menningar- og tónlistarveisla í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í gærkvöldi, þar sem hæfileikafólk á öllum aldri sýndi listir sínar fyrir forseta Íslands og frú. Í lok dagskrár fengu forsetahjónin gjafir, þ.á.m. lopapeysur. Dorrit opnaði strax sína gjöf, reif sig úr rauða jakkanum og fór í peysuna. Þvínæst tók hún upp peysu eiginmanns síns og reyndi allt hvað hún gat til að fá hann úr jakkanum og í peysuna. Óli vildi ekki leika með og þá batt Dorrit bara peysuna hans um mitt sér, eins og maður gerir gjarna í útilegum. Þessi "tískusýning" hennar, eins og eiginmaðurinn kallaði það, féll í góðan jarðveg gesta, sem sýndu henni með lófataki að þeir kunnu vel að meta hennar alþýðlegu athafnir og frísklegu framgöngu.

Brettaferð og kennsla

Einn nemenda minna í brettakennslunniÍ gær var hér í Skagafirði blíða og heiðskýr himinn. Ég greip tækifærið og skellti mér á bretti á skíðasvæðið í Tindastóli. Til að byrja með var það svolítið skrýtið að koma úr víðáttum Austurríkis í sína gömlu brekku, en þarna er enn nægur snjór og verður það trúlega langt fram í maí. Færið var frábært og ég fór nokkur nokkur góð rennsli. Á staðnum voru grunnskólabörn í heimsókn, með rassinn út í loftið, óörugg og dettandi. Engin virtist sinna því að leiðbeina þeim. Flest voru á skíðum, en fjögur á bretti. Ég stóðst ekki mátið að breiða út brettaboðskapinn og bauðst til að kenna þeim undirstöðuatriði í snjóbrettakeyrslu. Þau þáðu það með þökkum og breiðu brosi, enda komin með auman bossa og uppgjafarsvip á andlit. Við tókum einn og hálfan klukkutíma í að æfa helstu trixin; standa með rétta þungadreifingu, beita köntunum rétt og taka beygjur. Ég var sæll með að geta miðlað minni þekkingu; þau enn sælli með að finna eftir smá stund að þetta virkaði: Þau höfðu stjórn á brettunum og byltunum hafði fækkað. Síðar um daginn þegar við kvöddumst voru þau alsæl og brostu breitt, en fyrir mig varð dagurinn líka meira gefandi en ég hafði reiknað með. Það er alltaf gott að geta gefið af sér.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband