Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Austurríki um næstu helgi

Spennan eykst hjá okkur unglingunum sem erum að fara þrjú saman næsta laugardag til Austurríkis í skíðaferð, en þar verðum við í heila átta daga á snjóbrettum upp um fjöll og fyrnindi. Svæðið er stærra en það sem við höfum prófað áður, og svo er hótelið líka flottara en þau sem við höfum oftast verið á. Búið er að finna tvo brettagarða í næstu dölum og þangað verður farið með Grafenberg-kláfnum, sem fer frá hóteldyrum og upp í tæplega 1.800 metra hæð; u.þ.b. þrjú þúsund metra vegalengd! Maður er ekki alveg að átta sig á þessu ennþá Grin

Tyggjóið í búðirnar, tóbakið í apótekin?

Lyfsalar vara við því að nikótínlyf verði seld í almennum verslunum; eru með hræðsluáróður um að neysla þeirra muni aukast og að skorti muni uppá faglega ráðgjöf. Flestir neytendur “nikótínlyfja” eru að nota tyggjó til að losna við sígaretturnar, og það þarf ekki mikla ráðgjöf í að velja stærð á pakkningu, með hvaða bragði tyggjóið er, eða hvort það er 2mg eða 4mg. Nikótínlyf eru á okurverði í apótekum og ég er að vona að þau lækki talsvert við að fara í matvörubúðir og bensínstöðvar. Má ekki bara bæta lyfsölum tekjumissinn með því að leyfa þeim að veita ráðgjöf við sölu á sígarettum, sem eru jú hundraðfalt hættulegra efni en umrædd hjálparlyf?

Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

Orðasambönd með margræðar merkingar

Það er oft mjög örvandi að leika sér með tungumálið okkar fallega. Menn geta farið mis stutt eða langt með merkingu orða og orðasambanda, allt eftir notkun og samhengi. Eins og í nýlegum auglýsingum Umferðastofu o.fl. um að deyja ekki úr þreytu. Ég hef stundum fengið börn til að spá í ýmis orð sem nota má í fleiri en einum tilgangi; orð sem fá nýja meiningu ef notuð í öðru samhengi. Það rifjast upp fyrir mér mörg undrandi og jafnvel skelfd barnaandlit í gegnum tíðina, þegar ég hef bent krökkum sem narta í afrakstur nefbors á að það geti verið lífshættulegt; fjöldi manns í fátækum löndum deyi daglega úr hor.

Ekki þorandi að segja hvað sem er

Fyrir margt löngu var ungur drengur í skóla á Krók að læra stafrófið. Hann var fljótur að tileinka sér allt sem hann lærði og kunni snemma veturs alla stafina, nema einn. Hann var alveg ófáanlegur til að segja ell. Svona gekk þetta fram á vor, hann þuldi umbeðinn alla bókstafina í réttri röð, en hoppaði alltaf yfir ell. Þegar á endanum dróst uppúr honum af hverju hann gerði þetta, þá var skýringin sú að þetta væri mjög varasamur stafur, gæti hreinlega verið lífshættulegur. Til vitnis þessu nefndi hann dæmi; amma hans hafði dáið úr elli.

Hrísgrjón í Kína

Hrísgrjón er sú fæða sem við tengjum einna sterkast við Kína. Þar eru víða markaðir með tugum ólíkra grjónategunda, bæði innlendra og frá nálægum Asíuríkjum. Eina tegund grjóna fundum við þó ekki á markaðnum. Eftir leit fannst hún að lokum í búð neðar í götunni sem verslar með vörur úr öðrum menningarheimi, sem menn tengja allajafna við skyndibita og ýmsa óhollustu. Þessi hrísgrjón voru frá Uncle Ben’s og kostuðu tífallt á við grjónakílóið á markaðnum. Án þess að geta alhæft um þetta virðist sem Kínverjar séu ekki mikið fyrir hýðishrísgrjón!

Brúsakallar á ferð

Farsíminn minn hringdi fyrir stundu. Í símanum var mannsrödd sem ég ekki kannaðist við. Sæll, segir maðurinn, ég er vinur hans Ragnars. Hvaða Ragnars? spyr ég. Ég er að tala um brúsa, segir hann þá dularfullur í rómnum, svona eins og útúr kú og korti. Ég veit ekkert um hvað þú ert að tala, segi ég... brúsa, hvað meinarðu? Nú, segir hann og lækkar röddina, ég er að tala um....ehe... landa, þú skilur. Ég veit ekki hvað þú ert að tala um og á því miður engan landa handa þér, hvorki á brúsa né í öðrum ílátum. Ég er þá að hringja í vitlaust númer, segir hann vandræðalegur. Fyrirgefðu ónæðið, þú og öll þín fjölskylda, elsku kallinn minn, fyrirgefðu mér þetta.


Nýjar myndasyrpur

Loksins er að færast líf aftur í innsetningu mynda hér á síðunni, í dag hafa dottið inn myndir af ættarmóti, brúðkaupi og svo nokkurra ára samsafn mynda úr Drangey, bæði frá ferðum þar sem lundi var háfaður og einnig úr leiðöngrum til að ná í egg. Hægt er að sjá myndirnar með því að smella hér til vinstri, á myndaalbúm.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband