Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
21.9.2007 | 11:04
Einróma upplifun
Eftir alltof langt hlé tók sig upp gamalt bros nú í vikunni (gamla góða kórsmælið), þegar við turtildúfurnar fórum á okkar fyrstu æfingu hjá Sönghópnum Norðurljós. Það er gaman að syngja; meira gefandi að syngja saman, en skemmtilegast að syngja í stórum kór, þar sem raddir fjölda karla og kvenna harmónera svo úr verður ein samstíga hljómhviða. Við það gerist eitthvað magnað, maður verður hluti af heild, rödd sem stækkar og gefur tónverki líf. Í samsöng hverfa á braut ólíkar skoðanir eða ágreiningur manna, og um stund tala allir sama tungumál. Slíkar stundir eru eitt af því mest gefandi sem ég upplifi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 12:30
Gengið í gegnum Lambafellsgjá
Stutt frá Keili á Reykjanesi er skemmtilegt náttúrufyrirbæri sem heitir Lambafellsgjá, eða Lambafellsklof eins og Ómar á Ferli.is kallar það. Stuttur gangur er frá Eldborg að Lambafelli og troðningur leiðir mann alla leið að neðri enda gjárinnar, sem er bæði djúp, þröng og brött. Það er eins og að koma í annan heim að ganga þarna í gegnum dimma sprunguna og velta fyrir sér þeim kröftum sem þessa jarðmynd skópu. Svo er hægt að tengja gönguna við aðrar leiðir í nágrenninu, og það gerðum við skötuhjú á sunnudag þegar við vorum þarna á ferð með tíkina Týru. Ferðina skipulögðum við með aðstoð Útivistarbókarinnar hans Páls Ásgeirs (bls. 116) og myndakorti Loftmynda, Af stað á Reykjanesi, en því miður höfðum við ekki undir höndum frásögn Jónasar Guðm. um Lambafellsgjá í tímaritinu Útiveru. Það sem haustferðir hafa umfram sumarferðir er ótrúleg litadýrð náttúrunnar, sem magnar alla upplifun göngufólks.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 11:15
Heilagur hvíldardagur rofinn af hávaðasömu helgihaldi
Rétt hjá mínu nýja heimili glymja á hverjum sunnudagsmorgni kirkjuklukkur hinnar ríkisreknu trúarsamkundu svo undir tekur í hverfinu. Hvers vegna þarf kirkjan að auglýsa samkomur sínar á sunnudögum með þessum dómsdags hávaða? Fyrir utan að vera í hróplegu ósamræmi við þá hugarkyrrð sem kirkjan boðar veltir maður því fyrir sér hvort þetta virkar jákvætt í markaðssetningunni hjá þeim; hafa þeir gert könnun á því hvort fleiri mæta þegar bjöllunum er hringt? Er þetta ekki bara úrelt gamaldags aðferð við að láta illa upplýstan almúgann vita af messunni, arfur frá þeim tíma þegar fólk vissi ekki hvað tímanum leið og skortur á upplýsingum kallaði á þennan hávaða til að láta söfnuðinn vita af messuhaldinu? Í ört vaxandi borgarsamfélagi er allt til þess vinnandi að minnka hávaðamengunina og kirkjan ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og taka upp hljóðlátari aðferðir til að draga sína syndasauði á sunnudagssamkomurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.9.2007 | 16:25
Viðskiptavinir eiga að vera gestir okkar
Í fyrirlestri á Nordica föstudaginn 7. sept. sl. sagði Marit Thorkeson frá muninum á þjónustu og gestrisni og hver væri ávinningurinn af því að sinna viðskiptavinum sem gestum. Þjónustu er að hennar mati hægt að skilgreina og mæla, en þegar um gestrisni er að ræða verður hjartað að vera með í för: Ætli menn sér að ná samkeppnisforskoti verður að veita persónulega þjónustu, gefa af sér og láta gestinum finnast hann velkominn! Í mörgum geirum atvinnulífsins er talað um viðskiptavini, skjólstæðinga, sjúklinga, o.s.frv., en ef við ætlum að skara framúr í þjónustugæðum verðum við fyrst og fremst að líta á viðskiptavini okkar sem gesti, sem manneskjur sem við sinnum af alúð. Í þjónustustörfum eigum við að vera stolt af því sem við bjóðum, við eigum að sinna starfi okkar af ástríðu og á okkar persónulega hátt. Að mati Marit er ekki hægt að kenna þetta eða þjálfa nema að litlu leyti og því þarf hver og einn að hafa frelsi til að veita þjónustu á sinn hátt, vera hann sjálfur og fá að njóta sín, til þess að gæði og virði þess sem verið er að selja verði sem mest í augum viðskiptavina okkar. Fyrir þá sem lesa sænsku má finna marga markverða punkta um fyrirbærið "hostmanship" á síðu Marit og félaga, www.vardskapet.se.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 12:53
Furðuleg fartölvusala í BT
Var að leita mér að fartölvu um daginn og fór víða, meðal annars í BT. Þar var sölumaður nýbyrjaður í starfi og gat fáu svarað um það sem ég spurði. Hann og félagi hans áttu svo í talsverðum vandræðum að finna og prenta út gögn um tvær tölvur sem ég hafði sýnt áhuga á og vildi fá með mér upplýsingar um. Allt þetta tók tíma og mikið var um vandræðagang, hik og bið. Rétt áður en ég fór rak ég augun í að íslenskir stafir voru fáir á lyklaborðinu, og á kolvitlausum stöðum. Mér var sagt að límmiðar ættu eftir að koma þarna á, en að þeir væru því miður bara til í svörtu. Lyklaborðin á vélunum sem ég hafði áhuga á voru hinsvegar í gráum lit. Mér var farið að líða eins og ég væri staddur inni í tölvubúð fyrir um 15 árum síðan, þegar þjónustustig var víða annað og lakara og vandamál með íslensk lyklaborð algeng. Niðri í Tölvulista fann ég svo vél með Windows XP í stað Vista, sem ég er bæðevei skíthræddur við, og þar var þjónustan öll fyrsta flokks, eins og ég hafði reyndar áður kynnst. BT-menn verða að taka sér tak í sambandi við tölvusöluna, annars á þessi viðvaningsháttur þeirra eftir að enda sem kverkatak á eigin tölvudeild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.9.2007 | 12:27
Tíkurnar finna á mér veika blettinn...
Þær geta verið misjafnlega ágengar borgartíkurnar, en þessi gjörsamlega eltir mig á röndum. Hún leggst við fætur mér og grátbiður um meiri... boltaleik! Þó tíkin Týra hafi mest gaman af því að hlaupa um í náttúrunni, þá eru boltaleikir hennar líf og yndi innandyra. Og hún fær aldrei nóg. Þó ég hafi gaman að því að leika við hana, þá fæ ég stundum nóg. Hún reynir að vekja áhuga minn með því að leggja boltann við fætur mér allsstaðar þar sem ég nem staðar í húsinu. Þegar ég er ekki í leikstuði læt ég sem ég sjái ekki tíkarboltaviltuleikaaugnaráðið biðjandi. Nýjasta nýtt hjá henni til að vekja athygli á sér er að ganga um með boltann, kasta honum úr kjafti sér niður í gólfið, svo fast að hann skoppar, og þá grípur hún hann fumlaust aftur. Þetta endurtekur hún nokkrum sinnum í röð og hefur með þessu uppátæki sínu náð aðdáun minni og athygli sem fyrsti hundurinn sem ég hef fyrirhitt sem kann að dripla bolta fullkomlega. Já þær finna alltaf á endanum veika blettinn á mér tíkurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 19:31
Góður sunnudagur á Reykjanesinu
Fórum ásamt fríðu föruneyti frá Keflavík, undir dyggri leiðsögn Sigrúnar Jóns og Ómars Smára, gömlu þjóðleiðina að Hvalsnesi. Ferðin tók um fjóra tíma í blíðskaparveðri, komið var við í seljum, prílað yfir varnargirðingar og sagðar sögur á leiðinni. Merkilegt hvað allt lifnar við og upplifun verður önnur og meiri þegar saga og menning fylgir við hvert fótspor. Í lok dags náðum við aðeins í skottið á Ljósanæturviðburðum, skoðuðum Bátasafn, Rokksafn og nærðum okkur á þjóðlegum veitingum frá Thailandi. Reykjanesið er svo sannarlega á dagskránni næstu vikurnar því önnur ganga verður um aðra helgi, þá verður farið í seljaferð sem endar í fjárréttum við Grindavík og er tillökkun þegar kviknuð fyrir þeirri ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)