Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Svangir ferðamenn

Á vef Ferðamálastofu, VisitIceland.com, er að finna í gagnagrunni ýmsar upplýsingar um ferðaþjónustu í landinu. Ferðaþjónusta er eins og menn vita margslungin grein; samsett úr mörgum öðrum. Það sem ferðamenn þurfa helst á ferðum sínum eru samgöngur, gisting, afþreying og veitingar. Þrír fyrstnefndu þættirnir eru til staðar í gagnagrunninum, en því miður er þar ekki stafkrók að finna um veitingastaði. Fyrirspurn til Ferðamálastofu um ástæður þessa hafa ekki leitt til árangurs, en þeir benda á vefsíðuna Veitingastadir.is. Tenging við þann vef er þó engin á VisitIceland.com. Á vefnum VisitReykjavik.is eru helstu lykilflokkar upplýsinga: Gisting, Matur & drykkur, Listir & menning, Ferðir & afþreying og Samgöngur. Þar á bæ eru menn greinilega að sinna upplýsingaþörf ferðamanna betur en yfirapparatið.

Hvenær segir maður heill og sæll og bless?

Það vefst fyrir mörgum hvenær þeir eiga að heilsa og kveðja. Ég var kominn yfir þrítugt þegar ég var upplýstur um það að sá sem kemur að, og sem sá sem fer (frá þeim sem fyrir er á staðnum), á að vera fyrri til að heilsa og kveðja. Yngra fólk telur gjarnan að þegar fullorðinn á í hlut, eigi sá eldri að heilsa og kveðja, eða vera fyrri til að bjóða góðan dag. Fólk á miðjum aldri kann þetta oft ekki heldur; gengur inn í herbergi og bíður eftir að því sé heilsað... eða finnst kannski bara óþarfi að viðhafa svona gamaldags kurteisi... og lætur það alveg ógert að heilsa. Það einfaldar hinsvegar margt í mannlegum samskiptum ef fólk kann þetta og notar rétt.

Vandræðaleg búðarferð

Í búðinni í gær tók ég eftir konu sem horfði einkennilega á mig. Hún gekk svo til mín röskum skrefum og sagði: Ég held að þú sért faðir eins barnsins míns! Mér brá all hressilega og reyndi að rifja upp hvenær og hvernig það gæti átt sér stað. Allt í einu mundi ég og sagði vandræðalega: Já, ert þú stelpan sem ég fór með heim eftir árshátíðina í hitteðfyrra og vildir gera það út um allt eldhús? Hún varð þá enn vandræðalegri en ég, eldroðnaði í framan og sagði: Nei, ég er kennari stráksins þíns!

Lýsi dregur úr líkum á elliglöpum og geðsjúkdómum

Hollusta lýsis hefur löngum verið þekkt á Íslandi og hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu ár staðfest þetta. Ný rannsókn sýnir minni líkur á elliglöpum neyti menn Omega-3 fitusýra sem eru í lýsi; aðrar rannsóknarniðurstöður benda til að lýsi geti ekki bara haft góð áhrif á hjarta- og gigtarsjúkdóma, heldur einnig geðsjúkdóma. Þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi og annarri dimmudepurð ættu því daglega að innbyrða matskeið af þorskalýsi.

Villur á Wikipedia staldra stutt við

Notkun alfræðisíðunnar Wikipedia er ört vaxandi. Í samanburði við alfræðiritið Britanica, sem hefur 80 þúsund umfjöllunarefni, þá inniheldur Wikipedia nú um 1 milljón atriða. Almennir notendur setja sjálfir inn efni á Wikipedia, en sérfræðingar skrásetja allt sem fer í Britanica. Þetta þýðir að oft slæðast villur inn á Wikipedia, en miðað við könnun IBM þurfum við ekki að óttast þær svo mjög. Vegna þess hve margir virkir notendur með vökul augu eru á Wikipedia, fá rangfærslur að meðaltali ekki að hanga þar inni nema í um fjórar mínútur.

Grínlæti

Næturvaktin fékk Edduverðlaun í kvöld. Þættirnir eru skemmtilegir með bæði látum og gríni. Leikstjórinn steig á stokk og sagði frá sjónvarpsstjórum á Stöð tvö sem hefðu í upphafi grínlætað verkefnið. Það hljómar miklu betur en að tala á íslensku og segja að þættinum hafi verið gefið grænt ljós; þetta eru hvort sem er svo mikil grínlæti.

Jeppi á fjalli, ég er hann!

Guðmundur Jónsson hjá jeppa á fjalliFórum feðgar á fjall á fjóhjóladrifna jepplingnum í morgun. Horfðum í björtu veðri yfir Skagafjörðinn víðan og nutum froststillunnar. Sáum hvorki né heyrðum í rjúpu í fjallakyrðinni, önduðum að okkur fersku loftinu og ræddum um útsýnið: Eyjarnar þrjár, vötnin, fjöllin í kring og álfabyggðir í Hegranesi. Sáum kollinn á Molduxa þar sem við stóðum hreyknir síðastliðið sumar, ásamt mömmum okkar, og skrifuðum nöfn okkar í gestabók. Allt lítur öðruvísi út þegar maður er hátt uppi.

Annarra manna líf

Á öld hraða og firringar á margur maðurinn í erfiðleikum með að lifa sínu eigin lífi. Þetta á sérstaklega við þegar vinnudegi og skyldustörfum lýkur. Sumum reynist auðveldara að lifa annarra manna lífi, í þægilegri fjarlægð, t.d. með passívu sjónvarpsglápi. Fyrr en varir er svo lífið búið, og maður deyr sem einhver allt annar en maður gat orðið.


Hundslappadrífa

Hitti Drífu vinkonu í snjókomunni í morgun og var hún girnileg að vanda. Hún hafði verið lasin og sagðist enn slöpp; eiginlega bara hundslöpp. Ég ákvað því að taka hana ekki á þessa hundslöpp að sinni, en fara þess í stað í orðaleiki við sjálfan mig.

Minjalosti

Í dag er boðið til málþings á Hólum, til heiðurs Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga, sem á 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Margir merkir fyrirlestrar verða fluttir um safnastarf, búsetu- og menningarminjar m.m., en heiti fyrirlesturs Hjörleifs Stefánssonar vekur sérstaka athygli; svona aðeins á skjön við almennar hugmyndir um minjamál. Fyrirlesturinn heitir: Heltekinn af minjalosta!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband