Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
31.1.2007 | 13:59
Ertu forvitinn bloggflakkari eða fjarskyldur ættingi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 19:37
Breskir ferðamenn tengjast hvölunum mest
Rakst á könnun frá 2002 um hvalveiðar, hvalaskoðun og ferðamennsku, sem RHA vann fyrir Ferðamálasetur, en hún var gerð meðal ferðamanna, Íslendinga og útlendinga, um borð í bátum hjá þremur hvalaskoðunarfyrirtækjum. Þar var að finna töflu (mynd 6, bls.13) um ástæður fyrir komu ferðamanna til landsins; hvort hvalaskoðun hefði þar haft áhrif. Greint var eftir þjóðerni og sjaldnast hafði hvalaskoðun haft teljandi áhrif (í minna en 20% tilvika). Nema hjá Bretum, þeir skáru sig nokkuð mikið úr hópnum. Um 300 engilsaxneskir svöruðu könnuninni og rúmlega helmingur þeirra (156) játti því að hvalaskoðun hefði haft áhrif á ákvörðun um að koma hingað til lands. Þessi niðurstaða hefur ekkert alhæfingargildi, en gefur vísbendingu um sérstöðu Breta í þessu máli.
Nú verður mér hugsað til þess að það eru einmitt Bretar sem hafa mótmælt hvað mest nýhöfnum hvalveiðum okkar í atvinnuskyni og því vil ég brýna fyrir tölfræði- spekúlöntum í ferðaþjónustu að halda vöku sinni og fylgjast vel með því hvort breytingar verða á komum Breta hingað næstu tvö sumur (þegar hvalaskoðun er í blóma), en gera verður ráð fyrir að áhrif ættu að hafa komið fram á þeim tíma, ef einhver eru. Bretar skipta okkur verulegu máli í ferðaþjónustu og því verður fróðlegt að sjá hvort þeir, sem virðast af framangreindu tengjast hvalamálum mest, dragi úr ferðalögum til Íslands ef við höldum veiðunum áfram.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2007 | 16:12
Af hverju erum við að selja okkur lægstbjóðanda?
Ég veit, ég þarf ekki að segja það; svo oft hefur það verið tíundað en ég bara verð, ég get ekki þagað: Þarf land eins og Ísland, sem hefur alla möguleika á að verða eitt dýrmætasta svæði heims, m.a. vegna ósnortinna náttúruvíðerna, að vera að falbjóða sig svona út á næsta götuhorni, eins og mella í övæntingarfullri þörf fyrir smápening fyrir dópi? Af hverju hafa íslensk yfirvöld ferðast um heiminn með þessa minnimáttarkennd, til þess að laða hingað fyrirtæki sem skila okkur alltof litlu miðað við þann skaða sem starfsemin veldur? Ég verð alltaf meira og meira undrandi á þessari atvinnustefnu yfirvalda eftir því sem ég skoða hana betur.
Gefum Gústa í Bakkavör orðið: "Jafnvel þó að Íslendingar kæmust í hóp stærstu álframleiðenda heims og myndu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis" (Ágúst Guðmundsson, 2006). Meðan stóriðjufíkn okkar Íslendinga er enn við lýði þá finnst mér einhvernveginn að þessi góða vísa verði ekki of oft kveðin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 14:54
Kremkex, kókópuffs og kjötfars!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2007 | 11:09
Sjarmatröll á sauðskinnskóm
Fór ásamt Valla bekkjarbróður í vettvangsferð í gær í Upplýsingamiðstöðina í Varmahlíð, þar sem Alþýðulist (félag skagfirsks handverksfólks) selur vörur sínar. Komst að því að Rósaleppar voru notaðir innan í skinnskó til að einangra fætur frá kaldri jörð og að Sjónabók er gömul bók sem sýnir munstur sem notuð voru á púða, veggteppi og ábreiður til forna. Þarna var mjög margt fróðlegt og fallegt að sjá og ekki var verra að hitta á formann félagsins til að fá frekari útskýringar og umræður um hlutina, en því miður virðist oft skorta nokkuð á að nytsamar og söluvænar upplýsingar fylgi með gripunum. Lopapeysur með skagfirskum sérkennum héngu þarna í röðum og auðvitað var ein tegundin með mynstri sem heitir Undir bláhimni; skárra væri það nú.
Meðan ég tók myndir og gramsaði í handverkinu jós Valli úr viskubrunnum sínum um söluvænleg vöru- og verlsunartrix og leiddi þær stelpur í allan sannleikann um hvað virkaði vel á útlendingana. Auðvitað gat þetta ekki farið öðruvísi en svo að hann heillaði þær alveg upp úr sauðskinnsskónum, sem leiddi til þess að áður en við kvöddum vorum við beðnir um að skilja eftir símarnúmerin okkar. Þetta var voða sætt, en ég verð nú samt held ég að kyngja þeirri bitru staðreynd að auðvitað var það bara númerið hjá sjarmatröllinu sem þær vildu komast yfir.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 16:57
Panikk út af Philishave?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 22:05
Háspennt hughrif á heimaleikjum
Það er ekkert skemmtilegra en þegar heimaliðið sigrar í framlengdum leik, þar sem allt hefur verið í járnum og spennustigið í húsinu hættulega rafmagnað. Ég veit að Íslendingar voru að vinna Frakka, það var lyginni líkast, en Sauðárkrókur er minn heimabær, Tindastóll mitt lið og úrvalsdeildarkörfubolti skemmtilegasta íþróttin. Í kvöld komu gestirnir úr Breiðholtinu, en ÍR-ingar berjast eins og við um sæti í 8-liða úrslitum. Það verður að segjast eins og er að það blés ekki byrlega fyrir heimaliðinu lengi vel leiks. En með seiglu tókst þeim jafna leikinn á lokasekúndum og knýja hann í framlengingu, þar sem þeir reyndust sterkara liðið og sigruðu verðskuldað, 103-97.
Eftir svona leiki kem ég heim skrælnaður í hálsi og rámur í rödd, hendurnar eru rauðsárar eftir allt klappið og ég er búinn að tapa svosem eins og líter af vökva (sem þýðir að ég verð að skipta um fatnað, yst sem innst). Þetta eru heljarinnar átök, líkamleg og andleg, fyrir mann eins og mig sem lifi mig inn í leikinn og reyni að hvetja mestallan tímann! En þetta er samt alveg fyrirhafnarinnar virði, skemmtunin sem fæst út úr þessu er svo gríðarlega gefandi. Því miður er eiginlega ekki hægt að koma stemningunni og hughrifunum í orð, menn verða eiginlega að hafa sjálfir verið í Krókódílasíkinu á Sauðárkróki á svona háspennuleikjum í körfubolta, á lokasekúndum innan um sjóðheita hávaðasama stuðningsmenn, til að skilja hvað ég er að tala um.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2007 | 11:07
Er það blásýran eða blýið sem blindar?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 16:34
Ein magnaðasta matarupplifun lífsins
Fórum hjónin um daginn í Sjávarkjallarann og upplifðum þar eina mestu ævintýraferð sem bragðlaukar okkar hafa lengi komist í. Okkur brá svolítið fyrst, þegar við vorum búin að renna yfir matseðilinn, og uppgötvuðum að við þurftum eiginlega túlk á sumt sem þar stóð: Fresh vibes, jam-jam, mizuna, wasabi, su misu, nori, yuzu, kiwano! What? Gáfumst bara upp og þáðum með bros á vör boð um að leyfa kokknum að koma okkur á óvart. Það gerði hann svo lengi verður eftir munað með fjölda smárétta; þrír forréttir og tveir aðalréttir (eiginlega 5, þar sem annar þeirra var fiskferna).
Þarna voru linkrabbar og lynghænur og fjöldinn allur af svo skemmtilegum samsetningum að nautn verður næstum of vægt orð til að lýsa upplifun okkar. Reyndum þó að stynja eins hljóðlega og við gátum, annarra gesta vegna. Enduðum veisluna svo á nokkrum mjög góðum eftirréttum, en kokkarnir hafa greinilega tekið sig á í þeim eftir að Jónas Kristjáns gagnrýndi veitingahúsið fyrir eftirréttina fyrir nokkrum misserum, því þeir voru puntkurinn yfir i-ið, rúsínan í pylsuendanum þið skiljið, það sem kórónaði frábært kræsingakvöld. Ekki var verra að renna desertunum niður með smá dreitli af sætvíni, sem gjarna hefði þó mátt kosta aðeins minna (2.000 kr þriðjungur úr glasi). En það var þess virði.
Það ýtti svo enn undir þessa sælustemningu okkar að staðurinn er skemmtilegur með gott andrúmsloft, þjónustu eins og best verður á kosið og svo eru diskar, föt og ílát sem réttirnir eru bornir fram í alveg stórkostleg snilld samsetning héðan og þaðan, sem gerir sig vel og styrkir heildarmyndina og magnaðar matarminningar. Mæli með Exotic-menu í Sjávarkjallaranum fyrir ævintýrasækna sælkera og nautnaseggi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2007 | 17:44
Menn uppnefndir vegna ferðalaga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)