Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Knappur og hnitmiðaður ritstíll

Ég fer stundum inn á vef Jónasar Kristjánssonar fyrrum ritstjóra (jonas.is) og les um það sem honum liggur mest á hjarta. Stundum er umfjöllunarefnið úr heimsmálunum, en einnig héðan úr okkar litlu veröld á landinu kalda. Hann gerir talsvert af því að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Ekki veitir af. Þó ég sé ekki alltaf sammála honum er kosturinn við hans skrif hans að þau eru stutt og hnitmiðuð og oftast sagt þannig frá að kjarni málsins kemst vel til skila í fáum orðum. Á nokkrum mínútum annan hvern dag getur maður fengið góðan skammt af beittri gagnrýni hjá Jónasi. Ég sem er þekktur fyrir frásögn í löngu máli og lausa fingur á lyklaborði gæti verið hollt að stúdera betur knappan og hnitmiðaðan ritstíl Jónasar.

Hestar og hundar í íslenskum mannanöfnum

Samkvæmt óstaðfestum heimildum hefur nú verið leyft að börn heiti Mosi og Korka, en þetta eru hvorutveggja gömul og góð íslensk hundsnöfn. Á vef Hagstofunnar má sjá hvaða nöfn eru algengust í dag og hvaða nöfn er verið að gefa nýjum Íslendingum (frá 2000-2004). Þó upplýsingarnar þarna gefi takmarkaða innsýn í heildarþróun og -breytingar á íslenskum mannsnöfnum, þá má bæði hafa gaman að og sjá þarna ákveðið samhengi. Þannig eru einnefnin Sigurður, Guðmundur, Jón og Gunnar á hröðu undanhaldi fyrir Kára, Degi, Bjarka, Alexander og félögum. Svipað er að gerast hjá stelpunum.

Eitt af þeim nýju nöfnum sem farið er að nota er merarnafnið Stjarna og það er ég viss um að Guðni Ágústsson væri ekkert á móti því að þær Huppa og Flekka fengju að fylgja með. Systir mín stakk upp á Sumarsól Hlýju og Frostillu Fönn og mér finnst það bara fín viðbót við skrautlega flóruna sem fyrir er. Nú er víst mannanafnanefnd að hætta og það er kannski eins gott þegar fólk er farið að þrýsta á að fá að nota dýranöfn á börnin sín… að maður tali nú ekki um það hvað sumar nafnasamsetningar líkjast orðið ískyggilega þýðingum úr ævintýrabókum æsku minnar um amríska indjána!


Lífsins biðraðamenning

Það er óútreiknanlegt lífið, eða er það kannski dauðinn? Stundum er hægt að hafa einhvern smá kontról á lífinu, en líklegast sjaldnast á dauðanum. Kannski er hann ekkert óútreiknanlegur, kannski er hann eina vissan sem við höfum í þessari jarðvist. Ekki það að við förum endilega svo sem langt að lífi loknu, jarðvistin heldur kannski bara áfram, í annarri mynd: Við verðum ormum að bráð og förum aftur í fæðukeðjuna. Verst er að vita ekki hvenær...

Það er samt betra þegar hlutirnir gerast í réttri röð, að þeir sem elstir eru fari fyrst, svo aldraðir foreldrar, svo við og börnin síðust; allt koll af kolli... og þeir sem hafa sköllótta og mjög gráa kolla eiga að fá að fara fyrst. Ég hef komist að því að ég verð fljótt tiltölulega sáttur þegar þetta gerist svona í réttri röð.

Nú hafa horfið af sjónarsviðinu ömmur og afi á síðustu misserum og auðvitað var það sárt, en maður yljar sér við minningar og jafnar sig fljótt. Næst eiga svo að fara mömmur og pabbar, þótt vonandi séu nú einhverjir áratugir í það. Einhverjum áratugum á eftir þeim myndi ég svo vilja fara, saddur lífdaga og sáttur. Það er sorglegra en tárum taki þegar öfug röð er á þessu og þeir sem enn eru ungir eru hrifsaðir burt allt of snemma. Ég hef sem betur fer ekki þurft að upplifa þetta, en finn ákaflega til með fólki sem lendir í svona missi. Auðvitað ættum við öll að fá að fara í réttri röð, en það er bara engin hefð fyrir biðraðamenningu í þessu jarðlífi.


Konan og titraragræjan

Konan á svona titrargræju sem hún notar á hverju kvöldi. Hún stingur henni upp í sig og skakar svo fram og aftur. Hún setur alltaf krem á hana fyrst. Svo djöflast hún svo mikið með þessa rafgræju að hún kúgast stundum á eftir. Svo hrækir hún. Ég kann betur við gömlu aðferðina og græjuna sem er ekki rafdrifin. Þó ég sé einhvernveginn svona útundan þegar ég er við hliðina á konunni og hún er að nota svona rafdrifinn tannbursta, þá finnst mér samt minn gamli með engu batterýi eða aukatitringi vera bestur.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband