Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Kuldaboli eða móðurlífsbólgur og djöfulskapur

Ýmislegt hefur verið notað á börn í gegnum tíðina til að fá þau til að klæða sig vel út í næðingskalda íslenska vetrarveðráttu. Í minni tíð sem barn var til eitthvað sem hét Kuldaboli og maður var látinn trúa því að hann myndi bíta mann og jafnvel éta ef maður ekki dúðaði sig nægilega í fatnað áður en haldið var út í frostbítandi morguninn. Þetta var löngu fyrir þá tísku að það væri kúl að klæðast kuldagöllum eða flott að ganga með húfu á höfði. Móðuramma mín hótaði líka Kuldabola á dætur sínar tvær, en með misjafnari árangri og þessvegna þurfti hún að bæta enn í og nota til viðbótar annan og öflugri djöful sem hrætt gæti sjálfstætt þenkjandi unglingsstúlkur sem hlógu framan í bola. Orðatiltæki sem hún notaði fyrir hálfri öld síðan er enn brúkað í minni stórfjölskyldu ef einhver klæðir sig ekki nægilega vel út í válynd vetrarveðrin, en þá á viðkomandi, hvort sem hann er karl eða kona, á mikilli hættu að fá "móðurlífsbólgur og djöfulskap," eins og amma orðaði það á sinni kjarnyrtu íslensku. Hún hvarf svo yfir móðuna miklu fyrir nokkrum árum án þess að við fengjum að vita með vissu hvað þessi "djöfulskapur" þýddi, en við hræðumst hann enn og klæðum okkur því alltaf vel þegar illa viðrar.


Ógæfan eltir hraunmolaþjóf

Hraunmolar - Mynd: Ferðamálastofa Kanadísk kona sem ferðaðist um Ísland síðastliðið sumar tók með sér minjagripi í formi tveggja hraunmola og hefur væntanlega verið nokkuð lukkuleg með feng sinn til að byrja með. En eftir að hún kom heim til Kanada byrjaði ógæfan að elta hana. Þegar hún frétti svo af því að á Hawaii séu ferðamenn varaðir við að taka minjagripi úr náttúrunni, með því veki þeir upp reiði guðanna og kalli yfir sig ógæfu, þá ákvað konan að reyna að bæta fyrir ráð sitt. Ferðamálastofa segir frá þessu á vef sínum í dag, en sú kanadíska sendi þeim hraunmolana í pósti rétt fyrir jól, með beiðni um að molunum yrði komið aftur út í íslenska náttúru. Starfsmenn Ferðamálastofu segjast að sjálfsögðu verða við þeirri bón, en kannski er líka ráð að koma þessum boðskap til allra þeirra sem eru uppvísir að virðingarlausri umgengni um okkar viðkvæmu náttúru?

Með hugann uppi í sér um hátíðarnar

Jólin eru tími þar sem maður er mikið með hugann við allt það góðgæti sem maður lætur upp í munn og ofan í maga. Svínahamborgarahryggur heima á aðfangadag og hangikjöt hjá mömmu á jóladag, eins gott að hafa smjatthugann allan við þetta fágæti sem maður fær bara á 365 daga fresti, eins og t.d. bláberjadesert með þeyttum rjóma að hætti ömmu…mmmmmmm!!! En allt byrjar þetta með möndlugraut í hádeginu á aðfangadag. Þar er nú eins gott að hugsa vel um það sem í munninn kemur, þvæla tungunni fram og aftur, tyggja varlega og kanna innihald hvers munnbita áður en hann er sendur í kokið. Annars getur maður lent í því að kyngja möndlunni og missa af gjöfinni, en auðvitað trúir manni enginn þegar slík slys gerast. Já það getur reynst alveg bráðnauðsynlegt að vera með hugann allan vel vakandi uppi í sér um svona hátíðar.

Misjafnar aðstæður fólks við jólaundirbúninginn

Í aðdraganda jólanna veitir maður sér oft eitt og annað sem ekki er nein sérstök þörf á; bætir kannski við einni Macintosh-dós í kerruna þótt þegar séu til nægar birgðir af sælgæti og öðru góðmeti heima. Þetta veitir einhverja stundaránægju sem maður kann ekki alveg skil á og sumt af þeim óþarfa sem maður lætur eftir sér hefur maður misst áhugann á áður en inn úr dyrunum er komið, klifjaður pokum og pinklum. Kannski maður ætti maður að nýta peningana sína öðruvísi? Sagan sem hæst ber á barnaland.is þessa dagana, um vandræði mömmunnar og sex ára sonar hennar á kassanum í Bónus, fær mann allavega til að staldra aðeins við og velta vöngum yfir þessu bruðli. Ég mæli með sögu hennar sem jólahugvekjunni í ár (slóðin er hér að neðan) og endilega hafið vasaklúta við hendina við lesturinn. Gleðileg jól!

http://www.barnaland.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=5454705&advtype=52&page=3


Full harkalegt eldvarnareftirlit í Grikklandi?

Nú fer í hönd friðartími og öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Jólaandi svífur yfir vötnum (sem nóg er af þessa dagana) og menn styrkja vináttu- og fjölskyldubönd með margvíslegum hætti. Þó eru ýmsir halda áfram erjum og láta sig engu skipta þó Sússi eigi afmæli, en einhvernveginn átti maður nú síst von á að munkar væru í þeim hópi. Hvað þá uppreisnarmunkar, sem ég vissi nú ekki að væru til, en þeir réðust nýverið með kúbeinum og slökkvitækjum á ortódoxmunka í Grikklandi. Blaðið skýrði frá þessu í gær og sagði að sjö hefðu slasast, þar af tveir alvarlega, í þessum átökum munkagengjanna. Uppreisnarmunkana vantaði samanstað yfir jólin (það var allt upppantað í fjárhúsinu) og réðust þeir á hina, sem dvelja í þúsund ára gömlu klaustri stutt frá Þessalóníku. Uppreisnarmunkar og munkagengi sem berjast með slökkvitækjum og kúbeinum er nú ekki alveg það sem maður sér fyrir sér þegar maður setur sig í friðsamar stellingar fyrir jólin. Var þetta ekki bara einhver misskilningur, kannski var um ræða úttekt á eldvarnarmálum klaustursins sem fór svona harkalega úr böndunum?

Við látum ekki blekkja okkur Einar

Í Blaðinu í gær segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra okkur frá góðum árangri íslenskrar útrásar á Bretlands- og Bandaríkjamarkaði. Hann nefnir sem dæmi Latabæjarlagið, sem náð hefur 4. sæti breska vinsældalistans, og góðan árangur BangGang í Bandaríkjunum, sem ráðherrann segist hafa heimildir um af heimasíðu hljómsveitarinnar. Af ástæðum, sem tiltölulega auðvelt er að geta sér til um, nefnir Einar hinsvegar ekki mýmörg dæmi sem eru til vitnis um þann skaða sem hann hefur valdið íslenskri útrás á fyrrnefndum mörkuðum með ákvörðun um að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni. Þar má nefna tjón sem sönghópurinn Nylon hefur þurft að þola á Bretlandsmarkaði, en ekki síður það mikla uppnám sem orðið er á stöðu íslenskra landbúnaðarvara hjá Whole Food Market í Bandaríkjunum, en þessi virta verslunarkeðja hefur ákveðið að hætta að markaðssetja vörur frá Íslandi.

Frásögn ráðherrans minnir á dávaldinn í Little Britain: "Look into my eyes, look into my eyes!" …þar sem hann reynir að láta fólk sjá eitthvað allt annað en raunveruleikann. Með sérvöldum dæmum sínum er Einar á mjög svo klaufalegan hátt að reyna að breiða yfir þá staðreynd að ákvörðun hans um hvalveiðar hefur valdið íslenskri útrás tjóni. Trúlega sjáum við þó enn bara toppinn á þeim ísjaka ef veiðar í atvinnuskyni verða áfram leyfðar. Í rannsóknaraðferðum í félagsvísindum myndi frásögn ráðherrans í Blaðinu í gær kallast hlutdrægni (e. Selective observation); þ.e.a.s. hann velur eingöngu að skoða og segja frá því sem hentar trú hans, málstað eða hagsmunum. Á slíku er nákvæmlega ekkert að byggja og í raun alveg ótrúlegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli reyna að blekkja okkur með svona málflutningi.


Fleiri spurningar en svör

Lektor við Háskólann í Reykjavík sagði í fréttum á ruv.is í gær að stækkun álvers við Straumsvík og virkjanaframkvæmdir sem henni tengjast gætu hamlað gegn samdrætti í efnahagslífinu á næstu árum. Það sem vantaði alveg í fréttina var hvort lektorinn hefði skoðað áhrif umræddra framkvæmda ein og sér, eða í samhengi við aðrar stóriðju- framkvæmdir sem einnig eru á döfinni. Þetta kom ekki fram í máli lektorsins og frétta- maður leitaði ekki svara við þessum nauðsynlegu spurningum. Einstök framkvæmd getur komið í veg fyrir samdrátt, en samanlögð áhrif fleiri framkvæmda geta valdið enn frekari þenslu, óhagstæðri gengisþróun og hækkandi verðbólgu. Frétt ruv.is skilur okkur því eftir með fleiri spurningar en svör, og það eru vondar fréttir sem slíkt gera.

Allir vilja skipið, en enginn ætlar að róa

Síðustu daga hafa borist fréttir af könnun um viðhorf almennings til stóriðjufram- kvæmda. Athygliverð viðbót við áður birtar fréttir kom fram á Ruv.is í dag. Þar segir að könnunin sýni meirihlutafylgi hjá íbúum Norðausturlands við byggingu álvers á Bakka við Húsavík, en hinsvegar hafi sárafáir aðspurðra hug á því að sækja um vinnu í væntanlegu álveri. Verður þetta þá ekki eins og að reyna að gera út áhafnarlausan togara?

Hafði einhver fyrir því að láta þig vita?

Manstu eftir að hafa fengið tilkynningu eða sendingu í pósti frá yfirvöldum um breytingar sem þau hafa staðið fyrir sem hafa haft áhrif þína hagsmuni? Stjórnvöld eru sínkt og heilagt að ráðskast með okkar mál, til þess eru þau jú kjörin, þau breyta og segjast vera að bæta, en hafa sjaldan fyrir því að kynna breytingar fyrir okkur með beinum hætti. Ef málið þykir nógu merkilegt fyrir fjöldann, er umdeilt á einhvern hátt, eða hægt að nota það í pólitískum tilgangi, þá sjá fjölmiðlar stundum um að upplýsa um þær breytingar sem orðið hafa á okkar málum. En þetta nær sjaldnast meiru en að skrapa yfirborðið og svo er maður háður því að hafa fylgst með fréttum þá daga til að hreinlega missa ekki bara af því sem snertir mann. Hér á landi þarf maður oft að grafa djúpt og hafa mjög mikið fyrir því komast að því hver eru réttindi manns.

Um tíma bjó ég erlendis og eignaðist þar tvö börn með minni konu. Stuttu eftir fæðingu fyrra barnsins fóru okkur að berast ýmsar upplýsingar í pósti, um okkar nýju stöðu sem foreldrar, skyldur okkar og réttindi sem þessu fylgdu. Við fengum sendingar með ýmsum góðum ráðum fyrir nýbakaða foreldra, en þetta er bara lítið dæmi af mörgum um hvernig stjórnvöld þar höfðu frumkvæði að því að upplýsa okkur ef tilefni gaf til. Í löndunum í kringum okkur virðast stjórnvöld vera að uppfylla allt annarskonar upplýsingaskyldu gagnvart borgurum sínum en hér þekkist. Þar eru líka starfandi öflug neytendaráðuneyti til að gæta hagsmuna frænda okkar og nágranna á mýmörgum sviðum sem snerta almannhag. Stjórnvöld á Íslandi eru sífellt að vinna í málum sem hafa bein áhrif á þína hagsmuni, en hvenær hafði einhver fyrir því að láta þig vita?


Burt með brjóstin

Nýverið fjárfestum við á heimilinu í forláta þrekhjóli með öllum mögulegum stillingum þannig að nú getum við svitnað við að hjóla upp og niður brekkur, allt innanhús. Sem er kannski eins gott, því ekki viðrar nú mikið til hjólaferða úti. Svo áskotnaðist okkur biluð 100kg Weider-þrekæfingastöð sem gert var við og hún sett í bílskúrinn. Eftir andlega byrjunarörðugleika fyrstu vikurnar er ég nú farinn að njóta þess að hjóla og pumpa nokkrum sinnum í viku og því stefnir allt í að innan skamms verði ég hættur að líta út eins og ég sé óléttur. Til viðbótar þessu má svo nefna að ef ástundun helst sem horfir á þessum nýju þrekvirkjum næstu mánuðina, má allt eins reikna með að brjóstum á heimilinu hafi  fækkað um tvö áður en vorar.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband