Lífsins biðraðamenning

Það er óútreiknanlegt lífið, eða er það kannski dauðinn? Stundum er hægt að hafa einhvern smá kontról á lífinu, en líklegast sjaldnast á dauðanum. Kannski er hann ekkert óútreiknanlegur, kannski er hann eina vissan sem við höfum í þessari jarðvist. Ekki það að við förum endilega svo sem langt að lífi loknu, jarðvistin heldur kannski bara áfram, í annarri mynd: Við verðum ormum að bráð og förum aftur í fæðukeðjuna. Verst er að vita ekki hvenær...

Það er samt betra þegar hlutirnir gerast í réttri röð, að þeir sem elstir eru fari fyrst, svo aldraðir foreldrar, svo við og börnin síðust; allt koll af kolli... og þeir sem hafa sköllótta og mjög gráa kolla eiga að fá að fara fyrst. Ég hef komist að því að ég verð fljótt tiltölulega sáttur þegar þetta gerist svona í réttri röð.

Nú hafa horfið af sjónarsviðinu ömmur og afi á síðustu misserum og auðvitað var það sárt, en maður yljar sér við minningar og jafnar sig fljótt. Næst eiga svo að fara mömmur og pabbar, þótt vonandi séu nú einhverjir áratugir í það. Einhverjum áratugum á eftir þeim myndi ég svo vilja fara, saddur lífdaga og sáttur. Það er sorglegra en tárum taki þegar öfug röð er á þessu og þeir sem enn eru ungir eru hrifsaðir burt allt of snemma. Ég hef sem betur fer ekki þurft að upplifa þetta, en finn ákaflega til með fólki sem lendir í svona missi. Auðvitað ættum við öll að fá að fara í réttri röð, en það er bara engin hefð fyrir biðraðamenningu í þessu jarðlífi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband