14.1.2007 | 12:37
Taka á Herbalife eiturefnin strax af markaði
Fjórir læknar hafa staðfest við Sjónvarpið að síðustu 7 ár hafi fólk verið lagt inn á sjúkrahús vegna Herbalife. Til viðbótar þessu liggja upplýsingar fyrir frá árinu 2001 um aukaverkanir af neyslu náttúruefna frá Herbalife, þetta staðfesta læknar á Íslandi í könnun nemenda við HÍ. Það er með ólíkindum ef þessar hættulegu aukaverkanir, þ.m.t. svæsin lifrarbólgutilfelli, hafa verið þekktar í 6-7 ár, að enn hafi ekkert verið gert í því að vara neytendur við eða koma þessum efnum af markaði.
Eitthvað virðist forgangsröð aðgerða hafa brenglast, en íslenskir læknar stefna á að kynna lifrarbólgutilfellin á evrópsku læknaþingi eftir nokkra mánuði, í stað þess að kynna það fyrir skjólstæðingum sínum hér á landi, og Lyfjastofnun er enn bara að spá í að vara við vörunum frá Herbalife. Hvers eiga lifrarbólgusjúkir neytendur þessara eiturefna að gjalda? Upplýsingarnar sem þegar liggja fyrir eru meira en nægar til að vara strax við neyslu ákveðinna Herbalife-vara, og svo á einfaldlega að banna þær á markaði þegar endanlegar niðurstöður um skaðsemi liggja fyrir.
Sannanlega hafa nú fundist 3 tegundir eitraðra jurta í vörum frá Herbalife, þannig að yfirlýsing framleiðanda um að vörur þeirra séu Öruggar og að Óhætt sé að neyta þeirra er bara lygi. Það eina rétta í stöðunni er að þar til gerð yfirvöld sendi strax frá sér tilkynningu til neytenda um að vörur frá Herbalife séu Óöruggar og að Hætta eigi neyslu þeirra strax.
Athugasemdir
Tek heilshugar undir með þér.
Hvað eru viðkomandi eftirlitsaðilar að vernda?
Þarna er maðkur í mysunni.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.1.2007 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.