Forystusauðir á fjallvegum

Kom með minni eðalspúsu norður yfir Holtavörðuheiði seint í gær við vægast sagt vondar aðstæður. Alveg blindbylur og fjúk svo ekki sá út úr augum. Bílarnir óku á norðurleið í langri halarófu sem hafði myndast þegar þjóðvegur 1 lokaðist í tæpa klukkustund niðri í Borgarfirði vegna umferðarslyss. Enn einu sinni stór og lítill bíll úr gagnstæðum áttum, nú flutningabíll og slyddujeppi, sem lá utan vegar illa farinn. Þá í flutningabílnum sakaði ekki en sá í jeppanum er alvarlega slasaður. Ömurlegt.

Á leið norður yfir Holtavörðuheiði mjakaðist röðin hægt, oftast á um 10 – 20 km hraða, stundum alveg stopp þegar bylurinn blindaði sýn. Fyrir framan okkur var bíll sem ók hægar en aðrir og varð hann því fljótlega fremsti bíll í seinni röð. Það var ekki öfundsvert hlutskipti að rýna í sortann og reyna að sikta út stikur eða kennileiti til að stýra eftir. Skyggni oft innan við 10 metrar. Þó aðstæður væru vondar var talsvert auðveldara að elta sterkrauð afturljós. Forystusauðurinn reyndi einu sinni að losna úr hlutverkinu, gaf stefnuljós og fór út í kant. Ekki treysti ég mér til þess að aka fremstur bíla og lagði því fyrir aftan hann. Fyrir aftan mig var jeppi með öflug framljós, en hann lagði líka út í kant og beið. Eftir nokkra bið hélt sá fremsti áfram í hlutverki forystusauðsins.

Á heiðinni voru bílar að keyra út af í blindunni og rútur voru stopp í vanda, en sem betur fer lokaði enginn þeirra veginum. Þeir eiga heiður skilinn sem fóru fremstir og leiddu sínar raðir klakklaust yfir, en fullt tilefni hefði þó verið til að útvarpa varnarorðum til vegfarenda um þessar varasömu aðstæður. Mér skilst að þau hafi farið í loftið um það leyti sem veðrinu slotaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband